Kata Jakobs í bandarísk stjórnmál

Forsætisráðherra Íslands skellir sér í bandarísk stjórnmál með twitter-færslu á ensku. Tilefnið er væntanlegur úrskurður hæstaréttar í Washington um fóstureyðingar. Málið er enn í drögum, engin niðurstaða komin. En Katrín er komin á kaf í umræðuna. Í Bandaríkjunum.

Séð frá Íslandi er málefnið bandarískt innanríkismál. Engar líkur eru að réttur kvenna til fóstureyðinga í Bandaríkjunum skipti máli hérlendis. Ekki frekar en að bandarísk afstaða til kristni skipti máli á Fróni. Pólitískar hefðir eru ólíkar. Við sækjum fremur fyrirmyndir til Norðurlanda og Bretlandseyja en vestur um haf.

Ef bandarískur stjórnmálamaður skipti sér af íslenskum sérmálum þætti okkur það óviðeigandi og myndum biðjast undan slettirekunni.

Hvað rekur forsætisráðherra að taka afstöðu til bandarískra innanríkismála? Eru íslensk stjórnmál orðin svo ómerkileg að óþarfi sé að eyða orðum að þeim?

Ef rök Katrínar eru þau að henni renni til rifja möguleg skerðing á réttindum kvenna þar vestra hlýtur sú spurning að vakna hvers konur í múslímaríkjum eigi að gjalda. Mannréttindi múslímskra kvenna eru hartnær engin í samanburði við stöðu kynsystra þeirra á vesturlöndum.

Ekki fer vel á því að forsætisráðherra Íslands hagi sér eins og bandarískur aðgerðasinni. Nema að Katrín sé á frumlegan hátt að tilkynna brotthvarf úr íslenskum stjórnmálum, - og með augastað á frama innan þeirra bandarísku.


Bloggfærslur 4. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband