Sunnudagur, 29. maí 2022
Hugmyndafræðin og Úkraína
Hvað græða vesturlönd ef svo ólíklega færi að Úkraína sigraði Rússland? Minna en ekki neitt. Pútin yrði velt úr sessi, óreiðuástand tæki við þar sem óljóst væri hver stjórnaði ríki með gnótt kjarnorkuvopna. Ástand í ætt við villta vestrið í kjarnorkuríki er martröð. Tap Rússa þýddi að ófriðarlíkur í heiminum ykjust stórlega.
Engin von er að rússneskur ósigur fæddi af sér lýðræði og stöðugleika þar eystra. Þannig gerast ekki kaupin á eyrinni.
Ef Úkraína tapar, sem er líklegri útkoma, yrði það niðurlægjandi fyrir vesturlönd. Líkt og tapið í Afganistan. Sumir segja að Pólland og Eystrasaltslönd yrðu næst á matseðli Pútin. En húsbóndinn í Kreml hefur ekki sýnt minnstu viðleitni að leggja undir sig Eystrasaltslönd. Þetta eru lítil ríki sem ógna ekki Rússlandi.
Úkraína ógnaði aftur Rússlandi með hugmyndum um að ganga í Nató. Allt frá Búkarest-fundi Nató árið 2008 svífur yfir vötnum innganga Úkraínu í Nató. Í 14 ár, eða fram að innrás Rússa 24. febrúar sl., var hægt að bera klæði á vopnin með yfirlýsingu um að Úkraína yrði ævarandi hlutlaust ríki utan hernaðarbandalaga.
Yfirstandandi stríðshörmungar í Úkraínu eru, í ljósi aðdraganda þeirra, ekki fagur vitnisburður um hæfni vestræna alþjóðakerfisins að leysa ágreining friðsamlega.
Hvers vegna þróuðust mál sem raun varð á?
Vestræn heimsskipan, sem grunnur var lagður að eftir seinna stríð og varð einráð við sigurinn í kalda stríðinu, með falli Sovétríkjanna 1991, virtist um aldamótin ætla að leggja undir sig heiminn.
Nató bólgnaði út í Austur-Evrópu, fékk til sín gömul bandalagsríki Sovétríkjanna. Samhliða stækkaði Evrópusambandið í austur. Í miðausturlöndum (Írak, Líbýa, Sýrland) og Afganistan var reynd vestræn umbreyting á múslímskum ríkjum. Umbreytingin mistókst vegna andstöðu heimamanna sem gripu til vopna.
Úkraína var vestrænt verkefni á landamærum Rússlands. Valdhafar í Moskvu máttu vita að þegar ekki þýddi lengur að ræða málin yrðu vopnin látin tala. Eins og í miðausturlöndum og Afganistan. Spurningin var aðeins hvor aðilinn yrði fyrri til. Svarið kom 24. febrúar. ,,Sannleikurinn í stríði birtist á vígvellinum," segir í þýskri umræðu. En það átti aldrei að koma til þessa stríðs.
Sigrandi hugmyndafræði, sú vestræna, þekkti ekki sín takmörk. Kennisetningin, um að vesturlönd byggju að alheimsuppskrift fyrir samfélagsskipan, stóðst ekki próf veruleikans. Það lá fyrir löngu áður en kom til stríðsátaka í Garðaríki.
Sigur vestrænnar hugmyndafræði í Úkraínu-Rússlandi fæli í sér óreiðuástandi í næst stærsta kjarnorkuríki veraldar. Vestrænt tap þar eystra er til muna betri kostur fyrir heimsfriðinn en sigur.
Hvað næst fyrir Úkraínu? Fyrrum forseti landsins stingur upp á að Pólland og Úkraína sameinist. Stríð búa til ný ríki með tortímingu á þeim sem fyrir eru.
Hvað næst fyrir vestræna hugmyndafræði? Tja, hugmyndafræði á síðasta söludegi fer á útsölu. Áhugaverðasta spurningin er: hvað kemur næst? Tilfallandi gisk er að það verði ekki aukið frjálslyndi. Tilboði um vopnum klætt vestrænt frjálslyndi var hafnað í Bagdad, Kabúl og Moskvu.
![]() |
Vill eyða pening í örugga skóla frekar en í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |