Úkraína er þurfalingur - Rússa eða vesturlanda

Án aðstoðar frá vesturlöndum hefði Úkraína aldrei verið í standi til að berjast við Rússland. Með vestrænni aðstoð gátu Selenskí forseti og stjórnin í Kænugarði haldið aftur af rússneska innrásarliðinu um sinn. En tæplega mikið lengur.

Á austurvígstöðvunum hafa Rússar brotist í gegnum varnarlínu Úkraínumanna. Rússar tóku bæinn Popasna fyrir nokkrum dögum. Þaðan sækja þeir í vestur, austur og norður. Sóknin í norður gæti umkringt stóran hluta Úkraínuhers. 

Rússar eru sigurvissir þessa dagana. Selenskí biður um viðræður, sem er veikleikamerki. Til skamms tíma bönnuðu vestrænir bakhjarlar stjórnarinnar í Kænugarði viðræður við Rússa. Þrjár ástæður gætu leitt til breyttra viðhorfa á vesturlöndum.

Í fyrsta lagi er sókn Rússa jöfn og stöðug þótt ekki sé hún hröð. Meiri líkur en minni eru að Úkraínuher tapi á austurvígstöðvum. Ef tapið verður stórt gætu flóðgáttir opnast. Ef Úkraínuher tekst sæmilega til með skipulegt undanhald Donbass-hernum bjargað en héröðin sjálf yrðu rússnesk.

Í öðru lagi bíta viðskiptaþvinganir ekki á Rússa sem skyldi. Þeir selja eftir sem áður gas og olíu austur og vestur, rúblan er stöðug og fá merki um að yfirvofandi sé efnahagsleg upplausn.

Í þriðja lagi er fyrirsjáanlegur skortur á korni á heimsmarkaði. Úkraína er brauðkarfa Evrópu en fátt kemur þaðan af hrávöru í stríðsástandi. Afleiðingar eru dýrtíð í Evrópu og möguleg hungursneyð í Afríku. 

Ef vesturlönd telja úkraínskan ósigur fyrirsjáanlegan gætu þau leyft friðarviðræður. En þá færu í hönd óvissutímar í innanlandspólitík Úkraínu. Stjórn Selenskí gæti riðað til falls ef hún viðurkennir yfirráð Rússa yfir Donbass í austri og Kherson-héraðinu norðan Krímskaga. Það yrðu lágmarkskröfur Rússa.

Efnahagur Úkraínu er illa farinn. Niðurlægjandi friðarsamningar ofan á harða efnahagskreppu er uppskrift að langvinnum óstöðugleika ef ekki samfélagslegri upplausn.

Veðmálið um að þrátefli á vígvelli gæti leitt til samninga í anda jafnræðis er tapað. Báðir aðilar hafa fórnað of miklu til að sættast á jafntefli. Úrslit þarf að knýja fram þar sem annar stendur uppi sem sigurvegari.

Í stuttu máli: vesturlönd yrðu að fjármagna væntanlega friðarsamninga til að halda Selenskí-stjórninni við völd. Það myndi kosta óheyrilegar fjárhæðir og e.t.v. loforð um að taka afganginn af Úkraínu inn í Evrópusambandi - sem mörgum í Vestur-Evrópu er þvert um geð. Það yrði stór biti að kyngja fyrir ESB að taka inn ríki með lamað stjórnkerfi er telst varla þykjustulýðræði hvað þá meira.

Ef vesturlönd heykjast á verkefninu yrðu Rússar meira en tilbúnir að sjá um útfærslu friðarsamninga. Úkraína væri þar með hjálenda Rússlands.

Fyrirséð er að Úkraína verði þurfalingur á annarra framfæri til lengri tíma. Tap í stríði, kennir sagan, skilur eftir ónýtt stjórnkerfi stríðsaðila sem veðjaði á sigur. Engar líkur eru á óbreyttu ástandi í Kænugarði eftir frið við Rússa.  


mbl.is Selenskí segir stríðið ekki enda nema með viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband