Föstudagur, 1. apríl 2022
Sigrar Pútín evru og dollar?
ESB-ríkin fá ekki gas frá Rússlandi nema borga í rússneskum gjaldmiðli, rúblum. Það þykir stórfrétt á vesturlöndum að dollar og evru er úthýst. Yfirvofandi er að Rússar loki fyrir gasið og valdi efnahagskreppu.
Að hluta eru þetta sjónhverfingar. Vestrænir óvinveittir kaupendur á rússneskri orku opna bankareikninga í rússneskum bönkum og fá rúblur í stað evru eða dollara og nota þær rúblur til að borga fyrir gasið. Gengið er skráð hjá rússneska seðlabankanum.
En það er meira sem hangir á spýtunni. Vestrænar refsiaðgerðir áttu að gera rúbluna að ruslgjaldmiðli. En þegar eftirsótt vara s.s. gas, korn og málmar er verðlögð í rúblum en ekki dollurum/evrum styrkir það rúbluna.
Kínverjar hafa lengi verið áhugasamir að skáka dollara sem eina alþjóðlega gjaldmiðlinum. Þeir gætu stokkið á rúbluvagninn. Indverjar gerðu nýlega stóran orkukaupasamning við Rússa - án dollara.
Fyrir viku vöruðu stórvesírar á Wall Street við að vestræn alþjóðahyggja væri að syngja sitt síðasta. Alþjóðahyggjan er merkt dollara í bak og fyrir. Þýska efnahagsvélin höktir og skröltir í versta ástandi sem hún hefur verið í um áratugi. Undirliggjandi verðbólga, m.a. ættuð frá farsótt, gerir illt verra.
Úkraínudeilan keyrir heimshagkerfið að bjargbrúninni.
![]() |
Verði að greiða fyrir eldsneyti í rúblum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)