Miðvikudagur, 9. mars 2022
Stríð enda með friði
Úkraínustríðinu, líkt og öðrum stríðum, lýkur með friði. Í stríði breytast valdahlutföll. Öll stríð byrja á að andstæðar fylkingar trúa á sigur, annars væri ekki stríð. En helmingur stríðsaðilja metur stöðuna rangt og fer halloka. Friðarsamningar taka mið af nýjum staðreyndum.
Selenskí forseti Úkraínu er tilbúinn að gefa formlega eftir austasta hluta Úkraínu, Donbass, og Krímskaga sömuleiðis. Líklega er það ekki nóg. Rússar tóku þessi landssvæði þegar árið 2014. Krímskagi er háður vatnabúskap árinnar Dniepr. Rússar samþykkja tæplega að vera undir velvilja Úkraínumanna komnir að þessu leyti. Þeir þurfa landið norðan skagans. Þriðjungur til helmingur núverandi Úkraínu er undir. Allt landið ef Rússar ætla að gera Úkraínu hérað í móðurlandinu.
Stríðsmarkmið Rússa eru að gera Úkraínu að varanlega hlutlausu ríki hið minnsta. Það þýðir stjórnarskrárbreytingar og afvopnun. Í samkomulagi sem Úkraína skrifaði undir 2015, kennt við Minsk, var kveðið á um stjórnarskrárbreytingar er gerðu Úkraínu að sambandsríki með veikt miðstjórnarvald. Komi til friðarsamninga á næstu dögum verður krafa Rússa um að Minsk-samningurinn nái fram að ganga. Selenskí forseti er hetja Úkraínu í stríðinu. En óvíst er hvort hann hafi pólitískt afl til að knýja á samþykkt samninga er fela í sér stjórnarskrárbreytingar, afsal á úkraínsku landi og í kaupbæti afvopnun.
Stjórnin í Kænugarði var þegar á fimmta degi stríðsátaka tilbúin að hitta Rússa við samningaborðið. Rúmri viku seinna er vígstaða beggja verri en á ólíkan hátt. Stjórnin í Kænugarði hefur misst meira landssvæði, er umkringd, en Rússland tapað hermönnum og vígtólum. Rússar hafa yfirhöndina á vígvellinum en alþjóð stendur með Úkraínu. Vel að merkja mest í orði en síður á borði. Ekki fer það hátt en ríkjum Vestur-Evrópu finnst gott að fá til sín barnafólk af sömu menningu. Það vinnur gegn fólksfækkun heima fyrir án þess að valda árekstrum milli menningarhópa. Samt sem áður er gert ráð fyrir að þorri flóttamanna hverfi til síns heima þegar stríði lýkur.
Rússum eru gerðar refsingar. Þær eru vestrinu dýru verði keyptar. Þjóðverjar sjá fram á bíllausa sunnudaga líkt og í olíukreppunni á áttunda áratug síðustu aldar. Verðbólga var á uppleið fyrir innrás og mun aukast hratt, ekki síst vegna hækkunar á hrávöru. Allir verða fátækari.
Þegar annar hvor stríðsaðilinn lætur bilbug á sér finna mun vestrænn þrýstingur á þann aðila aukast að gefa nógu mikið eftir til að fá frið. Snar þáttur í stríði er viljaþrek sem mælt er í seiglu og fórnfýsi.
Friðarsamningarnir í Minsk fyrir sjö árum reyndust hálfkák. Fyrirséðir samningar, á næstu dögum eða vikum, verða gerðir á milli aðila þar sem annar er beygður en hinn brotinn. Í þeim felst annað tveggja pólitískt gjaldþrot Rússa eða hernaðarleg uppgjöf Úkraínu. Hvorugt er hálfkák. Að þessu gefnu eru sæmilegar líkur á friði. Vonandi fyrr en seinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)