Þriðjudagur, 8. mars 2022
Pútín og endurfæðing sögunnar
Bókin Endalok sögunnar eftir Francis Fukuyama kom út 1992, átta árum áður en Pútín kom til sögunnar sem leiðtogi Rússlands. Boðskapur Endaloka sögunnar er að sigur vesturlanda í kalda stríðinu marki upphaf að vestrænum heimi.
Fall Sovétríkjanna 1991 þýddi, samkvæmt kenningunni, að ekkert hugmyndakerfi stæðist vestrænum kapítalisma snúning. Kínverjar höfðu kannski aðra skoðun og sömuleiðis íslamski menningarheimurinn - en þau sjónarmið voru hjáróma.
Rússland er sögulega á mörkum hins vestræna heims. Á síðasta áratug liðinnar aldar, á meðan Yeltsín fór með forræði Rússlands, var landið gert kapítalískt. Ríkiseigur voru seldar, oft á slikk, og auðmannastétt landsins óx hratt. Almenningur sat eftir með sárt ennið. Rússneska ríkið gat ekki greitt lífeyri og lífskjör erfið. Kapítalisminn starfar þannig að fyrst verður auðurinn til í efri lögum þjóðfélagsins en seytlar niður með tíð og tíma. Þannig þróaðist kapítalismi í Vestur-Evrópu í iðnbyltingunni og í Bandaríkjunum á 19. öld.
Pútin, sem líklega er sænskur krati inn við beinið, tamdi auðræðið og kom skikki á ríkisbúskap landsins. Í það fóru fyrstu tíu ár valdatíma hans. Í leiðinni breytti hann stjórnkerfinu, lýðræði að nafninu til en embættismannaveldi í reynd. Í einu orði: stjórnfesta.
Pútín bauð Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu dús. Í frægri ræðu í Munchen 2007 bauð hann nýtt upphaf fjölpóla heims sem valkost við einpóla heim Bandaríkjanna/ESB og Nató. Stjórnmálaskýrendur leita í þessa ræðu til að útskýra Úkraínudeiluna.
Vesturlönd, sem enn voru ekki búin að tapa Íraksstríðinu, borgarastríðinu í Sýrlandi og Afganistan, voru of upptekin af endalokum sögunnar til að þekkjast boð Kremlarbónda 2007.
Næstu vatnaskil verða 2014 er Janúkóvíts forseta Úkraínu var steypt af stóli með vestrænum stuðningi. Forsetinn flúði á náðir Rússa sem tóku Krímskaga og Donbass-svæðið af Úkraínu.
Helsti páfi raunsæis í bandarískum utanríkismálum. John J. Mearsheimer sagði í september 2015 að vesturlönd leiddu Úkraínu til slátrunar með þeirri stefnu að fá landið inn í Nató og ESB. Með Úkraínu í Nató gætu Rússar lagt niður landvarnir; þeir væru Meley nútímans.
Þeir sem kunnu stafróf alþjóðastjórnmála vissu, eða máttu vita, að Nató-Úkraína þýddi endalok fullveldis Rússlands. Það þarf ekki annað en að líta á landakortið. Úkraína er skammbyssa beint að höfði Rússlands, höfuðborginni Moskvu.
Innrás Rússa í Georgíu 2008 og hertaka Krímskaga og Donbass 2014 var auðlæs skrift á veggnum: Úkraína færi aldrei í Nató.
Hugmyndafræði um endalok sögunnar blindaði mönnum sýn á vesturlöndum. Gamaldags rússnesk þjóðernishyggja ætti ekki roð við sigrandi vestrænum kapítalisma. Þessum sama og var svo auðseldur í Írak, Sýrlandi og Afganistan.
Í Úkraínustríðinu eru það ekki endalok sögunnar sem er á dagskrá heldur endurfæðing sögunnar. Heimsveldapólitíkin sem þar er boðið upp á er ættuð frá Rómverjum. Valkostur Úkraínu er að verða hlutlaust bandalagsríki Rússlands eða nýlenda.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)