Vestræn vangá

Hvorki Bandaríkin né Evrópusambandið ætla að verja landamæri Úkraínu, komi til innrásar Rússa. Þýskaland er lykilríki í evrópskri afstöðu. Á þýsku er orð sem lýsir skilningi á stöðu Rússlands andspænis útþenslu Nató eftir lok kalda stríðsins fyrir 30 árum.

,,Russlandverstehen" er orðið, stundum er notað ,,Putin-verstehen". Bæði vísa orðin til Þjóðverja í valdastöðum sem telja Rússa hafa lögmæta ástæðu til að óttast útþenslu Nató síðustu áratugi. Borgarstjórinn í Kænugarði segir Rússlandsskilning svik við Úkraínu. Hver lítur sínum augum á silfrið. 

Eftir að forseti Úkraínu, hliðhollur Rússum, Viktor Janúkóvíts, var hrakinn frá völdum 2014 stóð til að gera landið að Nató-ríki. Þar með væru nær öll landamæraríki Rússlands í vestri í hernaðarbandalagi gegn Rússum. Margur leiðtoginn í þeirri stöðu myndi örvænta um hag sinn og þjóðarinnar af minna tilefni.

Útþensla Nató í Austur-Evrópu hélst í hendur við tilraunir vesturveldanna, með Nató sem verkfæri, að umbreyta miðausturlöndum, þ.e. Írak, Sýrlandi og Líbýu, í ríki með vestrænar leppstjórnir. Hugmyndafræðileg forskrift var bók Francis Fukuyama, Endalok sögunnar. Kenningin var að eftir kalda stríðið yrði heimsbyggðin öll mótuð að vestrænum hætti. Kenningin reyndist röng, sást síðast í sumar í Afganistan þegar bandaríska stórveldið yfirgaf fjallalandið með rófuna á milli lappann eftir 20 ára stríð.

Vestræn vangá, svo notað sé diplómatískt orðalag er hæfir ástandinu, er að halda að vestræn stjórnmálamenning sé útflutningsvara sem biðröð er eftir í þjóðríkjum er ekki njóta hennar. Svo er ekki, eins og dæmin sanna. Hin hliðin á myntinni er sú að ekki er pólitískur vilji á vesturlöndum til að heyja stríð á hugmyndafræðilegum forsendum um vestræna yfirburði. Trump fékk kjör til forseta út á þessa innsýn í amerísku þjóðarsálina. Biden gaf Afganistan upp á bátinn af sömu ástæðu.

Úkraína þarf að finna leið til að lifa með landafræðinni. Líkt og Finnland gerði eftir vetrarstríðið fyrir 80 árum. Önnur lexía er frá Kastró er lærði sambúð við Bandaríkin eftir Kúbudeiluna fyrir 60 árum. Öryggishagsmunir eru stórveldum mikilvægir.

Vestræn vangá síðustu tveggja áratuga er smátt og smátt að fjara út. Raunsæi er betri leiðavísir í alþjóðamálum en hugmyndafræði um vestræna yfirburði.

 


mbl.is Bandaríkjamenn kalla sitt fólk heim frá Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband