Innrás Nató og Rússa í Úkraínu

Forseti Úkraínu segir í skilaboðum til Bandaríkjaforseta ekkert sé til sem heitir óveruleg innrás. En það er rangt. Fyrir átta árum var barist í austurhluta Úkraínu, Donbass.

Austurhlutinn er að mestu byggður Rússum sem tóku fagnandi ,,sjálfboðaliðum" er börðust við stjórnarhermenn studda af Nató og Evrópusambandinu. Í framhaldi var gert samkomulag, kennt við Minsk, um að hluta landið í sjálfsstjórnarhéruð. Stjórnin í Kiev braut samkomulagið. Úkraína í heild er betri verslunarvara en í bútum.

Evrópusambandið og Nató vilja Úkraínu til sín en Rússum er það þvert um geð. Skiljanlega þar sem Nató er stefnt gegn Rússlandi. Ef svo væri ekki yrði Rússum boðin aðild að félagsskapnum.

Nató er kaldastríðsgóss, hernaðarsamtök án tilgangs eftir að Sovétríkin gufuðu upp fyrir 30 árum. Til að halda lífi í samtökunum er herjað hér og þar s.s. Írak, Afganistan og kynt undir ófriði í Úkraínu.

Það má hafa samúð með Úkraínumönnum. Landsstjórnin er í lamasessi. Ýmist sitja við kjötkatlana Rússavinir eða Natódindlar. Vesturlönd draga upp þá mynd af Úkraínu að þar sé hnípin þjóð í vanda er óskar sér einskins annars en lifa í friði. Myndin kemur illa heim og saman við áráttu valdhafa að fénýta sér landfræðilega legu ríkisins. 

Ýmsar pælingar eru uppi um framhaldið. Fyrirfram er vitað að Nató og Bandaríkin verja ekki landamæri Úkraínu með hervaldi. Rússar taka þann hluta landsins sem þeir telja sig þurfa vegna öryggishagsmuna. Eða það verður samið um að Úkraína verði ekki Nató-ríki, hvort heldur í bráð eða lengd.

Vonandi nást samningar. 


mbl.is Innrás Rússa vofir yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband