Sunnudagur, 15. ágúst 2021
Hitler, talibanar og alþjóðahyggjan
Enginn, nema kannski skrítnir fuglar eins og Winston Churchill, vöruðu við uppgangi Hitlers í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Churchill var afgreiddur sem sérvitur fyllibytta.
Aftur eru þeir margir sem vara síðustu daga við yfirtöku talibana á Afganistan. Breski þingmaðurinn Tom Tugenhat segir vesturlönd kjósa að tapa Afganistan. Nær væri að segja sigur talibana sögulega nauðsyn að gefinni atburðarás sem hófst með viðbrögðum vesturlanda eftir árásina á tvíburaturnana í New York 11. september 2001.
Vesturlönd, með Bandaríkin og Nató í fararbroddi, hugðust breyta lykilríkjum, Afganistan og Írak, í vestrænar vasaútgáfur. Hugmyndafræðin var úr bókinni Endalok sögunnar eftir Francis Fukuyama.
En alveg eins og ráðandi vesturlönd, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, misreiknuðu Þjóðverja eftir fyrra stríð urðu Bandaríkin og Nató fyrir vonbrigðum með viðbrögð múslímaríkja við kostaboði um vestræna menningu. Hitler sótti viðnámsþrótt til arísku hugmyndarinnar um hreinan kynstofn germana. Talibanar leita í texta miðaldaspámannsins eftir valkosti við borgaralega menningu vestræna.
Nasismi bauð og talibanar bjóða valkost við vestræna menningu. Og fá nokkurt fylgi á meðan afleiðingarnar af tilboðunum eru ekki komnar fram.
Neðanmálsgrein við þessa sögu er að Hitler og talibanar eru á einu máli um uppsprettu illskunnar. Gyðingar eru enda vagga vestrænnar menningar.
Talandi um guðs útvalda þjóð. Jerúsalem Post greinir frá kapphlaupi þjóðríkja að koma sér fyrir í Afganistan: Tyrkland, Íran, Rússland og Kína. Ekki beinlínis bestu vinir vesturlanda.
Alþjóðahyggja, sú vestræna hugmynd að borgaralegt lýðræði sé útflutningsvara, fær útreið í Afganistan. Rétt eins og hún fékk útreið í Úkraínu, Írak, Líbýu og Sýrlandi.
Spámaðurinn sem fyrstur kom auga á þolmörk vestrænnar útþenslu á 21. öld heitir Donald Trump. Ekki er hann fyllibytta eins og Churchill, en óhætt að segja hann sérvitring. Það er títt um spámenn.
Ráðandi pólitísk öfl á vesturlöndum fengu flog þegar Trump hlaut forsetakjör 2016. Frjálslyndir og vinstrimenn linntu ekki látunum fyrr en Slappi-Jói Biden komst í kjallara Hvíta hússins. Slöpp hugmyndafræði fær liðleskjur fyrir leiðtoga.
![]() |
Yfirvöld í Kabúl gefast upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)