Föstudagur, 24. desember 2021
Trú
Við trúum á heilbrigðisvísindin í farsótt. Nema þegar við viljum undanþágur. Trú á manngert veður er útbreidd og að koltvísýringur spilli náttúrulegu loftslagi. Loftslagstrú er þó sett ofan í skúffu þegar fólki langar að ferðast og tekin upp til dygðaskrauts þegar heim er komið.
Maðurinn var ekki hreinni og skírlífari þegar hann trúði á óræðan guð. Veraldleg hentisemi réð ekki síður ferðinni fyrrum en nú um stundir.
Helsti munurinn á óræðum guði og vísindatrú nútímans er að í fyrra tilvikinu er upphaf og eilífð en tilgangslaus endurtekning í seinna fallinu.
Maðurinn sem tegund er ekki nema um 200 þúsund ára. Jörðin er 4,5 milljarða ára. Við höfum fyrir satt að maðurinn hafi orðið til með líffræðilegri þróun. Sem væntanlega stendur enn yfir.
Samkvæmt viðurkenndum vísindum er maðurinn tilviljun. Ef ein stökkbreyting í fyrndinni hefði orðið á annan veg hefðum ,,við" orðið slöngur eða fiðurfé. Svo er hitt sjónarhornið, líka viðurkennt og kallað nauðhyggja, að allt sem er gæti ekki verið öðruvísi. Fyrst líf á annað borð kviknaði á móður jörð hlaut það að leiða til mannskepnunnar.
Hvorugt sjónarhornið, að lífið sé annað tveggja tilviljun eða lögmál, kemur heim og saman við daglega reynslu okkar, síst nauðhyggja. Við höfum frjálsan vilja. Ég gæti sleppt að skrifa þetta blogg, fengið mér tár og hugsað um fótbolta. Tilviljunin heggur þó nærri. Fyrir 65 milljónum ára spókuðu sig risaeðlur á henni jörð. Hvergi var maðurinn. Fyrir tilviljun eyddu hamfarir stórum eðlunum og bjuggu í haginn fyrir smærri lífverur, fíngerðari og hugvitssamari; okkur.
Tilviljun er tilgangslaus. Það er sjálf skilgreiningin á tilviljun. En ef það er eitthvað sem einkennir manninn er það leit að tilgangi. Við finnum aldrei tilganginn, með ákveðnum greini, en leitum hans sí og æ, kynslóð fram af kynslóð. Sú leit getur ekki verið sprottin af þróun. Líffræðileg þróun býr ekki til eðlishvötina ,,tilgangslaus leit að tilgangi". Líffræðin gerir okkur hæf að komast af. Aðlögunarhæfni í síbreytilegri náttúru bjó til tegundina. Það er beinlínis andstætt afkomuöryggi að velta vöngum yfir tilgangi. Éta, lifa og fjölga sér er viðurkenndur darwinismi. Önnur spendýr spá ekki í tilgang lífsins.
Aðeins guð gefur tilgang. Á óræða vísu.
Gleðileg jól
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)