Mánudagur, 29. nóvember 2021
Háskólar í kreppu
Snjallt hjá nýrri ríkisstjórn að flytja háskóla í ráðuneyti nýsköpunar og iðnaðar. Vestrænir háskólar eru í kreppu, einkum hug- og félagsvísindadeildir. Þrjú dæmi.
Prófessor í Hollandi segir háskóla í höndum aðgerðasinna sem trúa að hugmyndafræði trompi hlutlægan veruleika. Háskólakennarar lifi í stöðugum ótta að segja eitthvað sem stuðar þá ofurnæmu, ,,woke-liðið." Svo eru það vitanlega ruslvísindin um manngert loftslags.
Fyrrum prófessor í Cambridge í Englandi segir háskólafólk ekki lengur kunna jafn sjálfsagða hluti og að kynin séu tvö en ekki þrjú, fimm eða seytján. Háskólar hugsa ekki lengur um sannindi heldur upplifun. Þegar sannleikurinn skiptir ekki lengur máli er tilgangslaust að fara í háskóla, - nema til að fá kjánahroll.
Breskur blaðamaður segir aðgerðasinna og ofurnæma eyðileggja háskóla. Þörf sé á nýjum.
Íslenskir háskólar eru ekki enn gengnir fyrir björg líkt og margir vestrænir. En þróunin stefnir í þá átt.
Með því að setja íslenska háskóla í samhengi við iðnað og nýsköpun fæst kannski jarðtenging við veruleikann áður en það er um seinan.
![]() |
Áslaug: Draumaráðuneyti fyrir flesta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. nóvember 2021
Fjárfesta í fólki, en skattlegga fyrst
Fyrirtæki fjárfesta í fólki til að auka samkeppnishæfni á markaði. Stjórnvöld sem boða fjárfestingar í fólki ættu að hugsa til þess að áður en til þeirrar fjárfestingar kemur þarf að innheimta skatt - af sama fólkinu.
Ríkisstjórn sem kynnt er til sögunnar í upphafi aðventu fyrirgefst að tala eins og jólasveinninn komi snemma til byggða. Ríkisjólasveinninn gefur gjafir sem viðtakendur borga fullu verði, auk umsýslukostnaðar.
Stjórnvaldi er hvorki ætlað að gera fólk hamingjusamt né efnað. Meginhlutverk stjórnvalda er að setja samfélaginu leikreglur, sjá um að innviðir séu traustir og að stöðugleiki ríki. Fólk sér sjálft um hamingju sína og fjármál. Engin dæmi í sögunni eru um að stjórnvöld geri þegnana efnaða. En mörg dæmi um að ríkisvaldið skapi fátækt og eymd.
![]() |
Ríkisstjórnin ætlar að fjárfesta í fólki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)