Kvótastrákar og afdrif húsmæðraskóla

Kvóti fyrir stráka í framhaldsskóla til að ekki verði úr kvennaskóli. Örþrifaráð sem bjargar ekki framhaldsskólanum frá afdrifum húsmæðraskóla. Skólafólk veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Í dag er settur kynjakvóti en í gær var ákveðið að skólar hættu að kyngreina nemendur. Dálítið mótsagnakennt.

Framhaldsskóli fyrir alla varð ráðandi stefna á síðasta þriðjungi síðustu aldar. En æ fleiri drengir afþakka skólavist eða eiga ekki kost á henni sökum ónógs undirbúnings úr grunnskóla, þar sem 85% kennara eru konur. Óbein skilaboð til drengja eru frá leikskólaaldri að skóli sé fremur fyrir stelpur en stráka.

Þetta er ekki séríslensk þróun. Heil kynslóð bandarískra karlmanna nennir ekki framhaldsskóla, segir Wall Street Journal.

Enginn kann skýringu á umbreytingunni, þótt tilgátur séu á lofti. Samhengi launa og menntunar er ekki eins og fyrrum. Framhaldsskólinn er undirbúningur fyrir háskólanám. Lítt spennandi er að mennta sig í láglaunastörf eða á atvinnuleysisskrá.

Gjaldfall menntunar á vinnumarkaði eru samfélagsleg skilaboð um að skólaganga borgar sig ekki.

Framhaldsskólinn varð til fyrir daga tölvubyltingarinnar. Aðgengi að upplýsingum er ótakmarkað. Hægt er að mennta sig án atbeina skóla. Ekki það að miklar líkur séu á að fjöldinn leggi í þá vegferð.

Í framhaldsskóla læra ungmenni af báðum kynjum félagslega færni sem nýtist þeim í lífi og starfi. Í einkynja skóla verður félagsleg mennt einsleitari og efnisrýrari.

Húsmæðraskólar runnu sitt skeið um það bil sem framhaldsskólar urðu fyrir alla. Framtíð framhaldsskóla liggur í sérhæfingu. Þeir verða ekki lengur safnhús ungmenna í bæjum eða borgarhlutum. Strákarnir hafa þegar tékkað út. Strákakvóti breytir engu í kynlausum skóla.

 


mbl.is Aðrir skólar skoða ekki kynjakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband