Laugardagur, 29. ágúst 2020
Baráttan um venjulegt líf á tímum farsóttar
Ungmenni í framhaldsskólum landsins búa við skerta kennslu og takmarkanir á félagslegu samneyti. Íþrótta- og menningarlíf landsmanna nær ekki hálfum afköstum. Eldri borgarar landsins njóta ekki heimsókna ástvina nema i takmörkuðu mæli. Ferðaþjónustan er nær lömuð.
Í byrjun ágúst leit út fyrir að skólar myndu ekki opna í haust vegna farsóttar. Lokað yrði á allar heimsóknir á hjúkrunarheimili, feður yrðu ekki viðstaddir fæðingu barna sinna og ekkert yrði um neinar samkomur að ræða í landinu.
Stjórnvöld gripu til ráðstafana sem miðuðu að skertu venjulegu lífi fyrir flesta. Atvinnugreinin sem varð fyrir mestum búsifjum vegna hertra sóttvarna er ferðaþjónustan. Einfaldlega vegna þess að smit breiðist út með ferðamönnum.
Jón Ívar Einarsson prófessor við læknadeild Harvard teflir fram trúverðugum og sannfærandi tölum um að kórónuveiran sé mögulega ofmetinn skaðvaldur. En hann viðurkennir jafnframt að um farsótt sé að ræða sem beri að taka alvarlega.
Tillaga Jóns Ívars er í raun ekki ýkja róttæk. Hún er að breyta sóttkví í heimkomusmitgát.
Skynsamlegra hefði verið að lágmarka skaðann á báða bóga með því að setja alla í tvöfalda skimun en jafnframt að halda áfram með heimkomusmitgát á milli sýna.
Málamiðlun liggur í loftinu. Að því gefnu að um miðjan september, eftir tvær vikur, sé búið að koma böndum á nýgengi smita væri hægt að gefa út að frá 1. október kæmi heimkomusmitgát í stað sóttkvíar auk atriða eins hækkun skimunargjalda, sem Jón Ívar nefnir.
Heimkomusmitgát fæli einnig í sér að sá sem kæmi til landsins frá útlöndum færi ekki inn á fjölmennari vinnustaði, t.d. skóla eða nýtti sér þjónustu er krefðist nálægðar s.s. líkamsræktarstöðva, sundstaða og álíka.
Gangi slík málamiðlun fram gæti ferðaþjónustan séð fram á skertan starfsgrundvöll, rétt eins og landsmenn búa við skert hversdagslíf.
![]() |
Telur stjórnvöld hafa gengið of hart fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)