Mín samsæriskenning og þín

Við tvennar aðstæður verða samsæriskenningar vinsælar. Í fyrsta lagi þegar yfirvald þykist vita meira og betur en almenningur, án þess að hafa órækar sannanir. Í öðru lagi þegar ráðandi hugmyndafræði lætur undan síga en ný er enn í mótun.

Í kófinu skortir aðrar sannanir en að Kínaveiran er smitandi og getur drepið. Hvernig best er að stemma stigu við útbreiðslu er meira byggt á líkum og almennri skynsemi, sem raunar ekki ýkja almenn, þegar að er gáð, fremur en órækum sönnunum. Skiljanlega. Kínaveiran er ný af nálinni og þekking verður til jafnt og þétt, eftir því sem faraldrinum vindur fram.

Alþjóðahyggjan er sem hugmyndafræði að hrynja, nánast í þessum töluðu orðum. Alþjóðasamvinna var til skamms tíma kennisetning alls þorra stjórnmálamanna á vesturlöndum. Hugmyndafræðin varð til eftir seinna stríð, fékk fjörkipp eftir kalda stríðið en er núna í andarslitrunum. Með kjöri Trump og Brexit, hvorttveggja árið 2016, var fótunum kippt undan alþjóðahyggjunni en ekkert nýtt heildstætt er komið  í staðinn. Til marks um örvæntinguna er að elliært aflóga hross er gert að forseta Bandaríkjanna og það talið marka tímamót í endurreisn alþjóðahyggju. Neibb, sagan fer ekki í bakkgír.

Í andrúmslofti efa, tortryggni og óvissu grassera samsæriskenningar. En höfum í huga að einu sinni var samsæriskenningasmiður frá Nazaret sem fékk uppreist æru eftir sinni dag og lagði grunn að þúsund ára tímabili sögunnar sem kallast kristnar miðaldir.

Samsæriskenning í dag verður að viðteknum sannindum á morgun. Spurningin er aðeins hvaða kenning. Í millitíðinni er orðið frjálst. 


mbl.is Segir samsæriskenningar ekki mega grassera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt breytist með Brexit, Gulli utanríkis

Brexit felur ekkí í sér smávægilegar breytingar, eins og Gulli utanríkis og starfslið hans vill vera láta, heldur þýðir Brexit uppstokkun á samskiptum Íslands við Evrópuþjóðir. Hvorki meira né minna.

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu er endalok á samrunaþróun álfunnar. Bretland finnur sér nýja tilveru utan ESB sem verður meginlandsklúbbur, að vísu með eyríkið Írland innanborðs. Að öðru leyti er vestasti hluti Evrópu; Bretland, Færeyjar, Noregur, Ísland og Grænland, raunar landfræðilega Ameríka, utan ESB.

Af Evrópulöndum á Ísland mest viðskipti við Bretland. Að Norðurlöndum frátöldum og samskiptin um menntir og menningu meiri við Bretland en önnur Evrópuríki.

Bretar kom hingað á undan Þjóðverjum í lok miðalda, síðan er talað um ensku öldina í íslenskri sögu. Þá komu Bretar, góðu heilli, á undan Þjóðverjum yfir hafið í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Norðmenn og Danir voru ekki jafn lánsamir.

Ísland var á bresku áhrifasvæði frá Napóleonsstríðum að telja þangað til landið færðist undir bandarísk ítök með sérstökum samningi 1941. Á meðan Bretland var í ESB hafði sambandið aðdráttarafl, helst hjá þeim með hvolpavit á utanríkismálum. Án Bretlands í ESB er enginn möguleiki að Ísland gangi í meginlandsklúbbinn.

Bretland mun standa utan EES-samningsins, sem Íslendingar eiga illu heilli aðild að. Samningurinn var gerður fyrir aldamót og hugsaður fyrir þjóðir á leið inn í ESB.

Verkefni næstu ára er að losa Ísland undan EES-samningnum og tryggja hagsmuni okkar með tvíhliða samningum, einkum við Bandaríkin og Bretland, en einnig ESB.

Gulli utanríkis og starfslið hans er heldur værukært á vaktinni ef það heldur að Brexit sé smámál fyrir Íslendinga.


mbl.is Hvað breytist á Íslandi við Brexit?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður, náttúra og frásögn

Náttúran er án meðvitundar. Í náttúrunni eru staðreyndir. Maðurinn býr að meðvitund. Í meðvitundinni verða til sögur.

Til eiginleika mannsins að setja saman sögur má rekja öll heimsins trúarbrögð, vísindi og skáldskap. Undir þessa þrjá frásagnarhætti má fella allar tilraunir mannsins að skilja sjálfan sig og heiminn.

Iðulega ruglast maðurinn í ríminu og slær saman trú, vísindum og skáldskap. Útkoman verður ógeðugur hrærigrautur sem sumir vilja troða ofan í aðra með kennivaldi, pólitísku valdi og hreinu og kláru ofbeldi ef ekki vill betur.

Meðvitundin er viðsjál. Til hennar má rekja allt gott og illt.

Náttúran, frjáls í sínu meðvitundarleysi, er stikkfrí frá tilburðum mannsins að skilja heiminn. Eflaust nokkur léttir fyrir hana, blessaða móður náttúru, að vera ekki mennsk. 


Bloggfærslur 6. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband