Orkupakkinn er pólitík, en ekki flokkspólitík

Andstaðan við orkupakka 3 er almennari í þjóðfélaginu en á alþingi. Á talandi stundu eru sex þingflokkar fylgjandi orkupakkanum, ríkisstjórnarflokkarnir þrír auk Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata. Aðeins Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru á móti.

Úti í þjóðfélaginu eru þekktir framsóknarmenn á móti orkupakkanum: Frosti Sigurjónsson, Guðni Ágústsson; sjálfstæðismenn eins og Styrmir Gunnarsson og Davíð Oddsson; samfylkingarfólkið Jón Baldvin og Sighvatur Björgvinsson; vinstri grænir á borð við Ögmund Jónasson og Drífu Snædal.

Um 11 þúsund manns eru búin að skrifa undir áskorun fjöldahreyfingarinnar Orkan okkar um að alþingi hafni 3. orkupakkanum.

Yfirráð Íslendinga yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar er mörgum hjartans mál. Þegar flokkspólitíkin verður viðskila við stóran hluta þjóðarinnar er hætta á ferð, einkum fyrir flokka sem tala tungum tveim og sitt með hvorri. Munið Icesave-lögin og kosningarnar 2013.


Neyð, stríð og loftslag

Á vesturlöndum er samkeppni um að trúa bábiljunni að loftslag jarðar sé manngert. Virðulegar stofnanir eins og breska þjóðþingið lýsa yfir ,,neyðarástandi" vegna lofthita. Og hver er neyðin? Jú, að lofthiti jarðar hækki að meðaltali um 1,5 gráðu.

Lofthiti tekur breytingum án atbeina mannsins. Þekkt eru hlýskeið á sögulegum tíma, t.d. á miðöldum. Maðurinn kom hvergi nærri. 

Loftslagsvísindi eru ekki lengra á veg komin en svo að við fáum ekki marktækar veðurspár sem ná lengra fram í tímann en fáeina daga. En samt vaða uppi ,,snillingar" með veðurspár áratugi fram í tímann. 

Þeir sem trúa á manngert veðurfar setja fram æ róttækari skoðanir og líkja stöðu mála við stríðsástand.

Í nafni hjávísinda er gerð krafa um að maðurinn taki óupplýstar ákvarðanir í hugarástandi taugaveiklunar. Það veit ekki á gott.


mbl.is Trump vill tilvísanir um loftslagmál burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband