Fimmtudagur, 25. apríl 2019
Pútín býr til réttindi, er fordæmdur - hvers vegna?
Rússland breiðir út faðminn og býður íbúum Austur-Úkraínu, sem flestir eru rússneskumælandi, að gerast rússneskir ríkisborgarar, standi vilji einstaklinganna til þess. ESB fordæmir rússneskan velvilja og kallar velgjörðina ,,árás á fullveldi Úkraínu".
Dokum við. Ef Ísland byði Færeyingum ríkisfang með hraði yrði það árás á frændur okkar? Trauðla.
Munurinn á okkur og Færeyingum annars vegar og hinsvegar Rússum og Úkraínumönnum er landamæri. Eyjar hafa skýr landmæri en þjóðríki á meginlandi ekki.
Ef nógu margir Úkraínumenn gerast rússneskir ríkisborgarar eignast Rússland landakröfurétt á Úkraínu. Alveg eins og Danir áttu landakröfurétt í Norður-Þýskalandi vegna þess að íbúar þar voru dönskumælandi. Landamærin voru flutt þegar Þjóðverjar stóðu veikir og aumir eftir fyrra stríð.
Úkraína er veikt og aumt. Evrópusambandið með stuðningi Obama-stjórnarinnar í Bandaríkjunum vildi véla landið inn í Nató og ESB í óþökk Rússa sem töldu öryggishagsmunum sínum ógnað. Afleiðingin varð borgarastríð sem ekki sér fyrir endann á.
Úkraínudeilan er gamaldags valdatogstreita á meginlandi Evrópu. Prísum okkur sæl að eiga ekki aðild að þeim vandræðum.
![]() |
ESB fordæmir vegabréfaákvörðun Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 25. apríl 2019
Guðlaugur grátbroslegur og rökþrota
Fyrst átti að innleiða 3. orkupakkann vegna þess að hann skipti engu máli, kæmi í rauninni Íslandi ekki við. Núna eru rökin þau að 3. orkupakkinn sé sjálf undirstaða EES-samningsins, Ísland verði Kúba norðursins ef við veitum pakkanum ekki viðtöku.
Síðasta röksemdin, í boði utanríkisráðherra, er að andstæðingar orkupakkans séu haldnir ,,erlendri einangrunarstefnu."
Humm, Gulli, þeir sem vilja að Íslendingar haldi forræðinu yfir raforkunni eru sem sagt í viðjum erlendra hagsmuna?
Er ekki kominn tími til að tengja við veruleikann, Gulli, og viðurkenna að 3. orkupakkinn er dautt hross sem ekki verður lamið til lífs?
![]() |
Varaði við erlendri einangrunarhyggju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 25. apríl 2019
Gréta og hvíta hugmyndafræðin
Sænska stúlkan Gréta Thunberg er eftirsóttur viðmælandi heimsleiðtoga. Gréta er heimsendaspámaður sem kennir að syndugur maðurinn sé albúin að útrýma jörðinni með dísil- og bensínvélum.
Gréta er aðeins 16 ára og ekki nokkur möguleiki að hún hafi stúderað lofslagsvísindi á eigin forsendum. Hún er einfaldlega of ung. Gréta fór sömu leið og margur aðgerðasinninn sem gleypir hrátt kenningar pólitískra háskólamanna um að til sé eitthvað sem heitir manngert veðurfar.
Ein ástæða vinsælda Grétu er ungur aldur stúlkunnar og sakleysisleg ásjóna sem skín hvít á milli hárfléttu á hvorum vanga.
Menning okkar er ginnkeypt fyrir trúarvingli sé því fléttað saman við sakleysi. Á þeim grunni eru reist stórveldi. Á nýöld lögðu Evrópumenn undir sig heimsálfur í nafni Hvíta-Krists.
Sakleysi og lífsspeki er máttugt stef. Við viljum trúa að til sé eitthvað sem heitir vegurinn, sannleikurinn og lífið. En að láta fífla okkur með dómsdagsrugli um manngert veðurfar er svo langsótt að það þarf sextán ára sænska stúlku til að auglýsa trúgirnina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)