Miðvikudagur, 10. apríl 2019
Brexit-ástand á Íslandi; fullveldið framselt síðan betlað tilbaka
Bretar berjast við Evrópusambandið um að fá fullveldi sitt tilbaka. Þriðji orkupakkinn gefur ESB fullveldi Íslands í raforkumálum, sem við eigum síðan að betla tilbaka. Það sem meira er; stjórnarmeirihlutinn viðurkennir að hann stundi þessa aðferðafræði.
Í greinargerð með 3.orkupakkanum segir:
Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.
Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.
Í fyrri efnisgreininni segir að ríkisstjórnin biðji alþingi að samþykkja 3. orkupakkann, þótt hann hafi enga þýðingu fyrir Ísland. Í seinni efnisgreininni segir að ef og þegar sæstrengur kemst á dagskrá verði kannað hvort 3. orkupakkinn ,,samræmist íslenskri stjórnarskrá."
Alþingi á sem sagt að samþykkja orkupakka sem ekki skiptir máli en gæti engu að síður brotið gegn stjórnarskránni. Það á bara að athuga það síðar.
Síðar meir er orðið of seint að bæta skaðann, segir Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður:
Vissulega erum við þá hugsanlega að gefa frá okkur þann möguleika að óska eftir undanþágum á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég held að það liggi í sjálfu sér í hlutarins eðli að ef vilji stæði til þess á síðari tímapunkti þá eru þeir möguleikar afskaplega takmarkaðir þegar búið er að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og staðfesta þessa ákvörðun.
Er ekki heppilegra að hafna 3. orkupakkanum og gefa okkur tíma til að sjá hverju fram vindur? Við getum kallað þetta frestun á afgreiðslu, líkt og ESB-umsókn Samfylkingar var sett ofan í skúffu áramótin 2012/2013.
Enginn með óbrjálaða dómgreind leiðir Íslendinga inn í Brexit-ástand.
![]() |
Felur í sér lagalega óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 10. apríl 2019
Töpuð umræða, tapaður málstaður en samt haldið áfram
Þriðji orkupakkinn fær aðeins stuðning frá yfirlýstum ESB-sinnum annars vegar og hins vegar frá djúpríkinu og innvígðu valdafólki í stjórnarflokkunum. Allir aðrir sem taka afstöðu eru á móti innleiðingu orkustefnu ESB.
Bakland Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er í opinberri uppreisn gegn forystu flokkanna og þekktir félagar í Vinstri-grænum eru á móti.
Samt þjösnast ríkisstjórnin áfram með þriðja orkupakkann á alþingi.
Vegferð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er stórskrítin. Pólitískur stórskaði er fyrirsjáanlegur og almannahagur er fyrir borð borinn.
Allur ávinningur stjórnarmeirihlutans er í útlöndum og fáeinna auðmanna sem hugsa sér að fénýta almannagæði. Hvað er eiginlega á seyði í stjórnarráðinu?
![]() |
Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)