Fimmtudagur, 2. ágúst 2018
Mannréttindatrú og sæmd
Kaþólska kirkjan leggst gegn dauðarefsingu enda hún árás á friðhelgi og sæmd hvers manns.
Dauðarefsingum er sjaldnast beitt nema gegn morðingjum, þ.e. þeim sem hafa tekið annars manns líf og sæmd þar með.
Trú á mannréttindi vex jafnt og þétt á vesturlöndum frá frönsku byltingunni í réttu hlutfalli við minna gengi trúarbragða. Með afstöðu sinni fetar kaþólska kirkjan slóð veraldlegrar mannhelgi.
Sæmd er aftur eldra hugtak en kristni. Rauði þráðurinn í Ilíad, söguljóði Hómers frá 8. öld fyrir Krist, er glötuð sæmd Akkillesar. Íslendingasögur, sem gerast á mörkum heiðni og kristni, eru stappfullar af sæmd manna. Manndráp voru stunduð hægri vinstri af sómakærum mönnum er áttu auðvelt með réttlætinguna. Sæmd þeirra var í húfi.
Dauðarefsing er aðeins á valdi ríkisvaldsins, samkvæmt viðtekinni skoðun. Sæmd, aftur á móti, er hvorki ríkisins að gefa eða taka. Afstaða kaþólsku kirkjunnar opnar dyrnar fyrir þeirri hugsun að aðrir en ríkisvaldið bjargi sæmdinni þegar að henni er hoggið. Við búum á síðkristnum tíma, rétt eins og Íslendingasögur mótuðust í síðheiðni.
![]() |
Segir dauðarefsingu aldrei réttlætanlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 2. ágúst 2018
Trumpfólk og frjálslyndi
Einu sinni voru frjálslyndir vinstrimenn í Bandaríkjunum fullir efasemda um kommúnistaandúð hægrimanna. Þeir frjálslyndu töldu leyniþjónustuna CIA verkfæri til að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum leiðtogum og stunda siðlausar tilraunir á fólki.
Sjálfsímynd frjálslyndra vinstrimanna fyrir hálfri öld eða svo var að taka heiminn mátulega hátíðlega og tortryggja það sem þeir tóku alvarlega.
Í tímaritinu Harpe's er grein eftir Walter Kirn, sem var á heimavelli í frjálslyndi áttunda áratugar síðustu aldar. Hann dregur upp þá mynd að þeir frjálslyndu séu komnir sömu skotgrafir og hægrimenn fyrir hálfri öld. Frjálslyndir samtímans sjá Rússasamsæri í hverju horni og upphefja CIA sem máttarstólpa samfélagsins - vegna þess að Trump er hliðhollur Rússum og CIA keppist við að grafa undan Trump.
Fyrirsögn greinar Kirn er ,,ófrjálslyndi". Hann finnur í stuðningsmönnum Trump sama viðhorf og var ríkjandi með frjálslyndum fyrir hálfri öld, uppreisn gegn yfirvaldi. Þeir sem kenna sig við frjálslyndi í dag eru aftur á móti hreintrúarfólk, ávallt tilbúið með reiðilestur yfir þeim sem hugsa öðruvísi en ráðandi kennisetningar leyfa.
Bandaríkjamenn reyna að skilja bakland Trump og breytingar á pólitískri menningu þjóðarinnar. Grein Kirn er framlag í þá umræðu. Annað athyglisvert framlag má lesa í vinstriútgáfunni Nation. Þar segir að pólitískur hugmyndafræðingur Trump-bylgjunnar sé Hunter S. Thompson, sá er skrifaði um Vítisengla á hippatímabilinu.
Það er margt í mörgu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)