Sunnudagur, 15. júlí 2018
Nató er ekki meðalhóf, því miður
Björn Bjarnason segir Nató stunda meðalhóf. Betur að svo væri. Nató hefði átt að leggja niður þegar Sovétríkin og Varsjárbandalagið gáfu upp öndina fyrir bráðum 30 árum.
Nató var stofnað til að verja Vestur-Evrópu fyrir kommúnisma í kalda stríðinu. Engin hætta er lengur af kommúnisma. Skýrleiksmenn eins og George Kennan og Walter Lippmann sáu fyrir að Nató ætti að hætta starfsemi þegar hættan af kommúnisma liði hjá, er rifjað upp í tímaritinu Nation.
Hernaðarbandalag án tilgangs leitar að óvini, býr hann til ef því er að skipta. Nató bjó til Rússland sem andstæðing með því að hlaða niður herstöðvum á öllum vesturlandamærum Rússlands. Það er ekki meðalhóf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 15. júlí 2018
Moggi eignast Fréttablaðið - eða öfugt?
Á meðan dagblöð voru voldugar stofnanir, á síðustu öld, þekktist það að dreifingarfyrirtæki blaðanna eignuðust útgáfurnar. Þetta gerðist t.d. í Bandaríkjunum. Dagblað án dreifingar var einskins virði. Á Íslandi var prentun dagblaða dýrasti hluti útgáfunnar. Litlu vinstridagblöðin stofnuðu til sameiginlegrar prentsmiðju, Blaðprent, til að halda lífi.
En feigum var ekki forðað. Þjóðviljinn, Alþýðublaðið og Tíminn gáfu upp öndina á síðasta áratug liðinnar aldar. Fréttablaðið var arftaki Dags-Tímans, sem var síðasta tilraun vinstriútgáfu hér á landi.
Eftir að Jón Ásgeir í Baugi, með Gunnar Smára sósíalistaforingja sem handlangara, endurreisti gjaldþrota Fréttablaðið um aldamótin varð útgáfan jöfnum höndum málgagn auðmannastéttar og Samfylkingar. Tvíhöfða þursinn varð öflugur málsvari einokunar á fjölmiðlamarkaði þegar frumvarp Davíðs Oddssonar þáverandi forsætisráðherra reyndi að koma lögum á uppgang auðmanna kortéri fyrir hrun.
En núna, sem sagt, sameinast dreifingarfyrirtæki Morgunblaðsins og Fréttablaðsins til ,,að innlendir aðilar, stórir og smáir hafi aðgang að öflugri dreifingarþjónustu sem veitir einokunarþjónustu ríkisins samkeppni og aðhald." Eiginkona Jóns Ásgeirs stýrir afganginum af fyrrum einokunarveldi fjölmiðlasamsteypunnar kenndri við 365-miðla og blæs í herlúðra gegn einokun ríkisins á dreifingu prentmáls. Einokun er fyrir auðmenn, segir eiginkonan, en ríkiseinokun vont mál.
Sameining dreifingar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins vekur ekki úlfúð eða deilur líkt og fyrrum þegar dagblöð voru nátengd pólitík. Á tímum netmiðlunar er prentmál neðanmálsgrein í umræðunni. Morgunblaðið heldur velli vegna Davíðs Oddssonar ritstjóra. Án hans væri það ekki borgaralegt blað heldur létt samsuða sem krakkarnir á ritstjórninni skynja að beri hæst í netumræðunni.
Fréttablaðið er auglýsingaútgáfa sem enginn kaupir. Eftir að Samfylkingin hætti að vera áhugaverð pólitík hallaði ritstjórnin sér að Viðreisn. Ásamt því, auðvitað, að vera auðmannamálgagn.
Skiptir máli að Morgunblaðið eignast Fréttablaðið - eða öfugt? Eiginlega ekki.
![]() |
Árvakur og 365 miðlar kaupa Póstmiðstöðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)