Föstudagur, 11. maí 2018
Persónuhatur í verkó - rök bíta ekki
Vinstrimönnum hættir til, í meira mæli en hægrimönnum, að persónugera pólitísk átök. Löng hefð er fyrir persónuóvildinni. Karl Marx, sem varð 200 ára um daginn, hataðist við nær alla - nema þá sem gáfum honum pening til að skrimta og skrifa um draumaríkið.
Verkalýðshreyfingin er til vinstri í sögunni. Þegar velferðaríkið náði þroska, eftir seinna stríð, urðu mjúkir kratar, stundum kallaðir tæknikratar, ráðandi í hreyfingunni. Tæknikratar, eins og hægrimenn, sjá meginlínur í þróuninni. Ef kaupmáttur vex, atvinnuleysi er lítið og hagvöxtur lofandi eru allir sáttir.
Nema, auðvitað, róttæklingarnir sem sjá auðvaldið í hverju horni, hvort heldur í Hörpu eða húsakynnum ASÍ.
Rök bíta ekki á róttæklinga. Þeir búa í öðrum hagtöluheimi en fólk flest. Þegar rökin þrýtur er farið í manninn.
![]() |
Vill vantraust á Gylfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. maí 2018
Rússland fær Úkraínu, Ísrael Sýrland
Áður en Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels fyrirskipaði árás á Írani í Sýrlandi skaust hann til Moskvu að hitta Pútín. Netanyahu skreytti sig með Georgsslaufunni við heimsóknina, segir í Spiegel, en Rússum er slaufan kær. Hún er tákn um sigur Rússa yfir Þjóðverjum í seinna stríði.
Georgsslaufan er líka tákn rússneskra uppreisnarmanna í Úkraínu, sem njóta stuðnings Moskvu til að koma í veg fyrir að Úkraína verði Nató-ríki. Netanyahu er læs á pólitík. Þótt Ísrael eigi engan hlut í Úkraínudeilunni á ísraelski forsætisráðherrann það sem Pútín skiptir máli, sem er aðgangur að Trump Bandaríkjaforseta.
Uppsögn Trump á samkomulagi um kjarnorkuafvopnun Íran gerbreytir pólitískri stöðu mála í miðausturlöndum. Í augum Bandaríkjanna er Íran orðið Norður-Kórea miðausturlanda. Bandaríkin einsetja sér að knésetja Íran, líkt og Norður-Kóreu.
Íran ætlaði sér stóra hluti í heimshlutanum með stuðningi við Assad Sýrlandsforseta. Sýrland er stökkpallur inn í Ísrael og lykilatriði fyrir gyðingaríkið að Íran fái ekki aðstöðu í Sýrlandi. Linnulausar hótanir klerkanna um gereyðingu Ísraels eru skýr vitnisburður um ætlan þeirra.
Rússar eru bakhjarlar bæði Assad og klerkastjórnarinnar í Teheran. Ástæðan fyrir því að Rússar beittu sér í þágu Assad heitir Úkraína. Ef Bandaríkin fallast á tilslökun gagnvart Rússum í Úkraínu er möguleiki að Pútín gefi eftir í Sýrlandi. Á þetta veðjar Benjamin Netanyahu.
Úkraína og Sýrland eru bæði ónýt ríki vegna innanlandsófriðar. Þau verða skiptimynt í stórveldaslag. Norður-Sýrland verður áhrifasvæði Tyrkja, sem er Nató-ríki en í bandalagi við Rússa. Suður-Sýrland verður afvopnað í þágu Ísraels. Hvort pláss verður fyrir Assad er undir hælinn lagt.
Úkraínu verður skipt upp í sjálfsstjórnarhéruð samkvæmt Minsk-samkomulaginu er felur í sér að Austur-Úkraína verður rússneskt áhrifasvæði en vesturhlutinn hallar sér að Evrópusambandinu.
Í dramatík alþjóðastjórnmála þarf einhvern óþokka. Obama Bandaríkjaforseti gerði Pútín að illmenninu. Trump færir hlutverkið, fyrst yfir á Norður-Kóreu en núna á klerkana í Íran. Þeir eru meira en viljugir að taka að sér hlutverkið, sýndu það með því að kveikja í bandaríska fánanum í þinghúsinu í Teheran.
Tákn eru öflug vopn í stjórnmálum, hvort heldur Georgsslaufan í Moskvu eða brenndur Bandaríkjafáni í Íran.
![]() |
Íranir fóru yfir strikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)