Laugardagur, 7. maí 2016
Mótmælandi staðfestir greiningu Brynjars
Brynjar Níelsson birti greiningu á óreiðufólkinu sem elur á óeiningu og ófriði í samfélaginu. Kunn klappstýra óreiðufólksins á blogginu, G. Pétur, staðfestir greiningu Brynjars.
G. Pétur spyr hvort íslensku þjóðinni sé viðbjargandi. Tilefnið er að laugardagsmótmælin á Austurvelli fóru út um þúfur vegna fámennis. Líkt og Brynjar rekur þvælir G. Pétur aðskiljanlegustu málum í einn graut, gerir ekki greinarmun á þingkosningum og forsetakjöri og lætur eins og þingkosningar strax sé lausnarorðið fyrir öll mannanna mein.
G. Pétur er dæmigerð útgáfa: blaðamaður á Þjóðviljanum, fréttamaður á RÚV og núna opinber starfsmaður. Honum finnst allt í lagi að vera á framfæri þjóðarinnar sem hann níðir skóinn af.
Lokaorðin hans í bloggpistlinum eru þessi: ,,Ef þjóðin vill þetta hinsvegar, hvað er þá til ráða? Flytja úr landi?"
Farið hefur fé betra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 7. maí 2016
CIA, tilvist ESB og strandið í Úkraínu
Bandaríska leyniþjónustan CIA fleytti Evrópusambandinu og forverum þess yfir hindranir fyrstu árin. Evrópuverkefnið var liður í kaldastríðinu sem Bandaríkin háðu við Sovétríkin eftir seinna stríð.
Eftir að tæknikratar í Brussel yfirtóku verkefnið blossaði upp gömul heimsvaldastefna Frakka og Þjóðverja sem sáu fyrir sér Stór-Evrópu er gæti skákað Bandaríkjunum og Sovétríkjunum/Rússlandi.
Evran var liður í mótun Stór-Evrópu sem einnig átti að fá herstyrk með Evrópuher. Evran virkar ekki og hernaðararmur ESB varð Nató, þar sem Bandaríkin ráða ferðinni. Almenningur í Evrópu reynist ekki ginnkeyptur fyrir hugmyndinni um Stór-Evrópu. Í Hollandi var innlimun Úkraínu inn í ESB hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rétt eins og Róm og Sovétríkin liðuðust í sundur þegar jaðarinn trosnaði verður banabiti Stór-Evrópu veikir innviðir sem standast ekki álagið af valdaskaki fjarri heimahögunum.
![]() |
Tilvist Evrópusambandsins í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. maí 2016
Forsetaembættið sem RÚV-raunveruleiki
RÚV tefldi fram frambjóðanda við forsetakosningarnar 2012. Sjónvarpskonan Þóra Arnórsdóttir var þjóðkunn vegna starfa sinna á RÚV. Aftur kemur RÚV-ari fram sem forsetaframbjóðandi 2016.
Guðni Th. Jóhannesson var álitsgjafi í beinni útsendingu af mótmælum sem RÚV undirbjó gegn enn öðrum RÚV-ara, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Sigmundur Davíð vann sér til óhelgi að tala ekki við RÚV þegar fjölmiðlakirkjan vildi; hann reifst við Gísla Martein í RÚV-þætti og sinnti lítt kröfum fjölmiðilsins um að vera hluti af raunveruleikasjónvarpi RÚV.
Guðni Th. var áfram álitsgjafi RÚV eftir að hann lagðist undir feldinn fræga og íhugaði forsetaframboð. Í næsta þætti raunveruleikasjónvarps RÚV verður álitsgjafinn Guðni Th. inntur eftir möguleikum forsetaframbjóðandans Guðna Th. Fylgist með.
![]() |
Forsetaembættið ekki raunveruleikaþáttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)