Peningar, traust og gangverk samfélagsins

Peningar og traust hanga saman. Þeir sem tengdir eru aflandseyjupeningum eru allir með mannaforráð í stjórnmálum og atvinnulífi - lífeyrissjóðir þar meðtaldir. Þar með gera þeir allir tilkall til að almenningur treysti þeim. Í raun væri þeim ómögulegt að starfa án trausts.

Fólk man alltof vel að gangverk samfélagsins nærri stöðvaðist vegna þess að alþjóðlegt traust á íslenskum peningamönnum gufaði upp veturinn og sumarið 2008 sem leiddi beint til hrunsins þá um haustið. Peningar þjóna margvíslegu hlutverki og samfélagið er ekki starfhæft án þeirra. Vantraust kippir grundvellinum undan öllum þeim hlutverkum.

Skiljanlega er ekki enn gróið um heilt milli þjóðarinnar og þeirra sem sýsla með peninga í einhverjum mæli. Traustið tekur tíma að vinna tilbaka. Þótt peningareikningar gleymist ættu menn ekki að gleyma lexíunni um að peningar og traust hanga saman.


mbl.is Minnisleysi og misskilningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima er best og kapítalisminn

Í meginatriðum er kapítalisminn samþykktur á vesturlöndum sem skásta hagkerfið. Frjáls verslun er betri en höft og skömmtun; markaðsbúskapur betri en áætlunarbúskapur; mannréttindi eru betur tryggð með fjölræði markaðsviðskipa fremur en einveldi fárra.

Þrátt fyrir að vera alþjóðlegur er kapítalisminn útfærður á ólíkan hátt. Kapítalismi vex af miðöldum og fær á sig annað yfirbragð í kaþólskum ríkjum en þar sem andi mótmælenda svífur yfir vötnum. Í Bandaríkjunum blandaðist kapítalisminn einstaklingshyggju og landnemahugarfari.

Fríverslunarsamningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins er tilraun til að gera hugmyndafræði úr kapítalisma. Það virkar ekki. Kapítalismi er verkfæri, aðlagaður að staðbundnum aðstæðum, en selur ekki sem hugmyndafræði. Til þess er hann of takmarkaður. 


mbl.is Líkur á fríverslunarsamningi að fjara út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómversk herfræði vesturlanda í miðausturlöndum

Bandaríkin lærðu það í Írak 2003 til 2010 að þeir steypa ekki svo glatt harðstjóra af valdastóli og setja upp lýðræðisríki. Harðstjórar eins og Hussein í Írak, Gadaffi í Líbýu og Assad í Sýrlandi halda saman ríki sem án þeirra leysist upp í frumeiningar trúarhópa og ættbálka í sífelldu stríði.

250 bandarískir hermenn í Sýrlandi breyta engu um ástand mála. Með stuðningi Rússa mun Assad forseti og alavítar stjórna helftinni af Sýrlandi, norðurhluti landsins er undir stjórn Kúrda en aðskiljanlegir uppreisnarhópar og Ríki íslams bítast um rest.

Vesturlönd eru ráðþrota gagnvart miðausturlöndum. Óöldin þar býr til flóttamannastraum sem vesturlönd hvorki geta né vilja taka við. Guðfræðingurinn og þingmaður Jafnaðarmannaflokks Þýskalands, Richard Schröder, segir stjórnvöld verða að herða innflytjendastefnuna og vísa frá flóttamönnum, þýskt samfélag þoli ekki ásókina. Í Austurríki eru andstæðingar innflytjendastraums í stórsókn og Austur-Evrópa lokar landamærunum.

Samtímis er ríkjandi það sjónarmið á vesturlöndum að ekki sé hægt að loka augunum fyrir harmleik miðausturlanda. William Hague, fyrrum formaður Íhaldsflokksins í Bretlandi og utanríkisráðherra, varar við að ástandið í heimshlutanum muni ekki batna í áratugi.

Hague telur óhjákvæmilegt að vesturlönd grípi inn í rás atburða. Langtímamarkmið, segir hann, er að friða miðausturlönd með virkri hernaðaraðstoð og uppbyggingu innviða. Án þess að nota samlíkinguna boðar fyrrum utanríkisráðherra Bretlands rómverska herfræði.

Rómverjar friðuðu Norður-Evrópu við upphaf tímatals okkar með hersetu á lykilstöðum, t.d. við samgönguæðar og bandalagi við valda þjóðflokka. Pax Romana var útbreiðsla rómverskrar menningar í stríðshrjáðri Evrópu sem var sjálfri sér sundurþykk. Vestrænn friður í miðausturlöndum fæli í sér að vestræn menning ryddi sér rúms með valdi og í bandalagi við útvalda.

Eins og nærri má geta líður nokkur tími þangað til slíku framtaki verður hleypt af stokkunum. Og það verður aldrei gert opinberlega. Við erum of umburðarlynd og fjölmenningarlega sinnuð til þess. Verkefnið er engu að síður óumflýjanlegt. Valkosturinn við vestrænan frið í miðausturlöndum er múslímskur ófriður á vesturlöndum.


mbl.is Sendir 250 hermenn til Sýrlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband