Færsluflokkur: Dægurmál

Ríkisfé spillir flokkum og fjölmiðlum

Biðröðin inn á aðalfund Vorstjörnunnar, eignarhaldfélags Sósíalistaflokksins, stafar af áskrift flokksins að ríkisfé. Árlega fær Sósíalistaflokkurinn 22 milljónir króna þótt kjósendur hafi ekki séð ástæðu til að styðja frambjóðendur flokksins til þingmennsku. Píratar, með engan þingmann, fá árlega 17 milljónir króna af ríkisfé, skv. lista ráðuneytis.

Hatrömm innanflokksátök Sósíalistaflokksins snúast um árlegt framlag ríkisins upp á 22 milljónir króna næstu fjögur árin. Ríkisfé heldur flokknum gangandi þótt kjósendur segi nei, takk. Andstæðar fylkingar takast á um opinbert fé, ekki hug og hjörtu kjósenda.

Ekki aðeins í pólitík spillir gjafafé fyrir starfsemi sem í orðin kveðnu er haldið uppi í þágu almannaheilla en er í reynd kverúlantaiðja fárra. Ríkisfé heldur fjölmiðlum gangandi sem annars færu á hausinn. Mannlíf og Heimildin, tvær útgáfur á sömu kennitölu, fá ekki lesendur en eru áskrifendur að ríkisfé, tugum milljóna króna á ári hverju.

Lýðræði notað sem réttlæting fyrir fjáraustur í flokka sem kjósendur vilja ekki og fjölmiðla sem lesendur hafna. 

Lýðræði er léleg afsökun fyrir misnotkun á almannafé. Öllum er frjálst að stofna stjórnmálasamtök og sama gildir um að hrinda úr vör fjölmiðli. Þegar menn gera eitthvað fyrir eigin reikning er lögð í framtakið meiri alúð og einbeitni en þegar annarra manna fé er í húfi.

Það er enginn skortur á stjórnmálasamtökum í landinu og samfélagsmiðlar gera jaðarfjölmiðla óþarfa.  

Samtals fer árlega um einn milljarður króna til stjórnmálaflokka og fjölmiðla af almannafé. Er þá ótalin ríkishítin RÚV sem ein og sér fær sex milljarða króna. Bruðl með skattfé almennings í flokka og fjölmiðla skilar ekki betra samfélagi. Þvert á móti stuðlar ríkisfé að óöld og óreiðu - líkt og sést á Sósíalistaflokki Íslands.    

 


mbl.is Slitu fundi þegar spurt var um fjárstyrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV meiðir fólk og gortar sig af

Dómsmálaráðuneytið hratt úr vör rannsókn á afdrifum gagna úr hrunmálum. Gögnin eru 12 ára og eldri. Ríkissaksóknari stendur einnig fyrir rannsókn á sömu gögnum. Ástæðan fyrir báðum rannsóknunum er að gögnin geyma persónuupplýsingar fjölda fólks. Á sínum tíma voru hljóðrituð einkasamtöl sem í dag, meira en 12 árum síðar, eiga ekkert erindi á opinberan vettvang.

En hvað gerir RÚV? Jú, ríkisfjölmiðillinn birtir annað slagið brot úr gögnunum. Til hvers? Ekki til að upplýsa eitt eða neitt. Atburðirnir eru tólf ára og eldri. Öll hrunmálin eru til lykta leidd í réttarkerfinu. Eina sem RÚV gerir er að meiða æru og orðspor þeirra sem voru til rannsóknar, stundum aðeins með stöðu vitnis. Ríkisstofnunin RÚV gerir sér að leik að draga fólk í svaðið. Stjórnvöld eru klumsa og láta eins og það komi þeim ekki við að stofnun á fjárlögum hagi sér með þessum hætti.

Tveir aðilar í réttarvörslunni, dómsmálaráðuneytið og ríkissaksóknari, leitast við að upplýsa afdrif viðkvæmra gagna sem ættuð eru frá embætti sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara. Á meðan rannsókn vindur fram hreykir ríkisfjölmiðillinn RÚV sér af gögnunum og birtir annað veifið gamlar slitrur um einkamál fólks. Ekkert réttlætir einleik RÚV með illa fengin gögn. 

Aðrir fjölmiðlar birta ekki and-fréttirnar úr Efstaleiti í flutningi Helga Seljan sem fengið hefur gáfumannagleraugu úr leikmunadeildinni. Fjölmiðlar sjá enga frétt í gagnauppflettingum gáfulega Helga. Og skyldu fjölmiðlar, fyrir þrábeiðni Helga, gefa sagnfræði hans gaum vaknar strax spurningin: Er ekki nærtækara að spyrja Helga um fundinn sem hann sat með byrlara Páls skipstjóra Steingrímssonar þann 5. maí 2021? Byrlunar- og símamálið er óupplýst sakamál, aðeins fjögurra ára gamalt.

Stjórnarráðið birti fyrir þremur dögum svar héraðssaksóknara við spurningum dómsmálaráðuneytisins um hrungögnin. Frétt RÚV um svarið gengur út á að ríkisfjölmiðillinn hafi skapað slíkan usla í stjórnkerfinu að opinberir aðilar skrifist á um hvað snúi upp og hvað niður. Á RÚV vita menn hver lak og hvenær. En RÚV upplýsir ekki sakamál, kýs heldur að eiga aðild að afbrotum og hylma yfir, líkt og staðfest er í byrlunar- og símamálinu.

Sérgreinin á Efstaleiti er að skapa ótta og andstyggð, ráða síðan frásögninni sem úrskurðar um sekt og sýknu. 

 


Tveir strengir umræðunnar og ríkisstjórnin

Þegar þrátefli er á alþingi eins og nú er þróun mála utan þings sem einkum ræður hvenær úr greiðist og á hvaða forsendum. Þingræðið felur í sér að minnihlutinn á hverjum tíma er í færum að hindra framgang mála meirihlutans með umræðu. 

Umræðan á alþingi ræður ekki úrslitum heldur þjóðarsamtalið. Þingmenn minnihlutans standa ekki í stappi við ríkisstjórnarflokkana nema þeir hafi sannfæringu að málflutningurinn fái hljómgrunn meðal þess hluta almennings er lætur sig stjórnmál varða.

Auðvelt er að telja hausa á alþingi, hverjir tala, hve oft og hve lengi, en erfiðara að meta hlutlægt umræðuna út í samfélaginu. Í prinsippinu er hægt að telja pistla í fjölmiðlum, færslur og tjákn á samfélagsmiðlum en það er snúið og segir ekki nema hluta sögunnar. Stór hluti skoðanaskipta fer fram munnlega, á vinnustöðum, heitum pottum, fjölskylduboðum og við eldhúsborðið heima. Skoðanakannanir upplýsa að marki hvert straumurinn liggur en hafa sína annmarka í aðferðafræði og þýði.

Nær öll þjóðfélagsumræða er tveggja strengja. Stærri og sverari strengurinn er efnislegt innihald málefnisins. Grennri strengurinn er tilfinningahitinn sem málefnið vekur. Í umræðunni er spilað á báða strengina til að finna trúverðugan tón. Árangur málsaðila, þeirra sem eru meðfylgjandi annars vegar og hins vegar mótfallnir, ræðst af hversu vel tekst að láta strengina mynda samhljóm. Ef mál, lagasetning, er með sterkt innihald og strýkur almenningi meðhárs fær það meðbyr í samfélaginu sem siglir málinu í höfn á alþingi. Að sama skapi á þingmál erfitt uppdráttar sé innihaldið veikt og vekur fremur andstyggð en samhug. 

Tvö mál ber hæst á seinni hluta vorþings, bókun 35 og veiðigjaldið. Í bókun 35 spilaði tilfinningastrengurinn með andstæðingum málsins. Málið er skýrt, snýst um hvort ESB-lög njóti forgangs á íslensk lög. Í húfi er fullveldið og forræði þjóðarinnar í eigin málum. 

Veiðigjaldamálið er á yfirborðinu einfalt, tvöföldun á skatti, en deilurnar snúast um afleiðingarnar. Ríkisstjórnin segir þær litar sem engar en minnihlutinn að útgerð, vinnsla og atvinnulíf á landsbyggðinni verði fyrir verulegu höggi. Málefnalega tapaði ríkisstjórnin. Umræðan sýndi fram á handvömm og mistök í undirbúningi málsins. Inga Sæland innsiglaði tap ríkisstjórnarinnar með sannanlega röngum fullyrðingum að útsvar sveitarfélaga á landsbyggðinni myndi hækka með tvöföldun veiðigjalda. Útsvarið mun lækka.

Ríkisstjórnin spilaði á þær tilfinningar um væri að tefla örfá stórfyrirtæki, í eigu 4-5 fjölskyldna, er borguðu ekki sinn skerf til samneyslunnar. Fólk almennt keypti ekki þau tilfinningarök. Fremur var tekið undir þær andstæðu hughrifin, að hér væri kaffihúsaelítan í 101 Reykjavík að sækja sér pening af landsbyggðinni í gæluverkefni.

Ríkisstjórnin missti sig í bræði þegar illa gekk að selja almenningi tvöföldun veiðigjalda. Hanna Katrín atvinnuráðherra andskotaðist út í þingræðið og Kristrún forsætis sakaði minnihlutann um falsfréttir. Vanstilling stjórnmálamanna kallar oftar á fyrirlitningu en samúð. Þorgerður Katrín utanríkis, nýheilluð af Trump, lét sjá sig í þingsal og bar klæði á vopnin. Klæðið er hvít dula.

Þingræðið virkar þannig að meirihluti sem tapar þjóðarsamtalinu lýtur í gras á alþingi.  Eins og staðan er núna er það minnihlutans að innbyrða vísan sigur í tveim stórum málum, bókun 35 og veiðigjaldamálinu. Tilfallandi ætlar að bíða með hamingjuóskir þangað til formleg niðurstaða liggur fyrir. 

 

 


mbl.is Enn situr þing en „allir af vilja gerðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynvitund er trúarhugtak

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðar að fræðsla um kynvitund sé ígildi trúarinnrætingar. Foreldrar eiga rétt á að halda börnum sínum frá innrætingunni. Hæstaréttardómurinn rekur enn einn naglann í líkkistu transfræða.

Kynvitund kallast á ensku gender identity. Hugtakið kom inn í hegningarlög hér á landi fyrir áratug, grein 233 a., er bannar hæðni, róg, smánun og ógnun vegna kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar. Tvö fyrstu kyn-orðin er hægt að skilja hversdagslegum veraldlegum skilningi. Kyneinkenni eru til dæmis æxlunarfæri karls og konu. Kynhneigð þekkist helst í þrem útgáfum; gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð. Þriðja kyn-orðið, kynvitund, er aftur trúarhugtak sem ekki styðst við efnisveruleikann.

Skilgreining Samtakanna 78 á kynvitund staðfestir að hér er um að ræða trúarhugtak:

Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.

Lykilorðin eru vilji og upplifun. Vilji vísar til valkosta, maður velur eitt umfram annað. Upplifun er huglægt ástand. Í annarri setningu efnisgreinarinnar er beinlínis tekið fram að kynvitund sé alls óskyld hlutveruleikanum. Þriðja setningin reynir með lævísum hætti að aðgreina vitund og upplifun. En það er sami hluturinn að upplifa eitthvað og vera meðvitaður um eitthvað. Öll upplifun fer fram í meðvitundinni. Merking þriðju setningarinnar er í raun þessi: Allir hafa meðvitund því allir upplifa sig á einhvern hátt. Þetta eru sjálfsögð sannindi sem hafa ekkert með kyn að gera. Maðurinn hefur meðvitund. Punktur.

Kynvitund á sammerkt með trúarvitund að vísa í yfirnáttúrlegan heim, sem skilningarvitin ná ekki til. Sjálfsagt er að fullorðnir reki lífsskoðunarfélög um sín áhugamál. Öllu verra er þegar saklaus börn eru tilraunadýr sértrúarsafnaða.  

Samtökin 78 sjá að verulegu leyti um trúarbragðafræðslu í leik- og grunnskólum. Kennd er sérviskutrú um að börn geti fæðst í röngum líkama. En það er ómöguleiki, líkami og meðvitund fæðast sem ein heild. Trúarhugtakið kynvitund er notað til að blekkja börn og fullorðna að játast transtrú sem boðar kynjahopp í nafni upplifunar.

Er ekki mál að linni?

 


mbl.is Þurfa ekki að sitja kennslustundir um kynvitund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsréttur, byrlunin og blaðamenn

Páll mátti vera í ,,góðri trú um að nægjanlegt tilefni hefði verið til ummælanna" segir i dómi landsréttar í gær þar sem tilfallandi var sýknaður í máli sem Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður höfðaði til ómerkingar ummæla í tilfallandi athugasemdum.

Öll ummælin sneru að aðild Aðalsteins að byrlunarmálinu, þar sem Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað og síma hans stolið. Síminn var ólöglega afritaður á RÚV og þar unnin frétt sem send var á tvo óskylda fjölmiðla, Stundina og Kjarnann. Aðalsteinn er skráður höfundur fréttarinnar á Stundinni en Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson eru ,,höfundar" sömu fréttar í Kjarnanum. Fréttin - í tveim útgáfum - er um meinta skæruliðadeild Samherja og tilraunir til að sverta orðspor blaðamanna. 

Landsréttur fór yfir málið í heild sinni og segir að tilfallandi hafa haft nægar ástæður til að segja eftirfarandi um Aðalstein:

Blaðamenn verðlauna glæpi 2. apríl 2022:

„…og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“.

Aðalsteinn hætti ekki á RÚV 25. ágúst 2022:

„Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“.

Aðalsteinn gagnrýnir Stefán útvarpsstjóra 28. október 2022:

„Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“

„Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“.

„Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“.

5 blaðamenn ákærðir í febrúar 15. febrúar 2023:

„Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“.

„Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“.

Ný gögn í byrlunarmáli Páls skipstjóra 27. febrúar 2023:

„Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“.

„Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt.

„En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“.

Bí normalíserar glæpi, játar óheiðarleika 21. mars 2023:

„Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“

„Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“.

„Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“.

Þóra ráðleggur byrlara 22. mars 2023:

„Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“.

„Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“.

Bloggarar byrla ekki 14. apríl 2023:

„RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“

Aðalsteinn krafðist að ofangreind ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Þrír dómarar landsréttar höfnuðu málflutningi lögmanns blaðamannsins og töldu ekki efni til að ómerkja ummælin - það væri innistæða fyrir þeim.

Hvað ætla blaðamenn að gera nú? Hvað gerir Blaðamannafélag Íslands? Aðalsteinn er starfandi blaðamaður á Heimildinni, fyrrum varaformaður BÍ og fékk blaðamannaverðlaun fyrir frétt sem hann skrifaði ekki. Landsréttur staðfestir að með gildum rökum má lýsa blaðamennsku Aðalsteins eins og gert er hér að ofan í skáletruðum texta. Er ekki rétt að blaðamenn knýi á um að Aðalsteinn og aðrir sem komu að byrlunarmálinu geri hreint fyrir sínum dyrum? Ætlar stéttin að sitja uppi með þá skömm að tilfallandi bloggari var einn um að afhjúpa lögbrot og siðleysi blaðamanna með RÚV sem aðgerðamiðstöð? Gengur íslensk blaðamennska út á að hylma yfir siðleysi og lögbrot? Átta blaðamenn sig ekki á að í húfi er trúverðugleiki stéttarinnar? Það getur ekki verið hlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi að sópa undir teppið aðild blaðamanna að alvarlegum lögbrotum og siðlausum vinnubrögðum.

Yfir til ykkar, blaðamenn.


mbl.is Segir dóminn veita tjáningarfrelsinu vörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, valkyrjur og ættbálkar Palestínuaraba á Íslandi

Utanríkismál eru ofurviðkvæm vinstrimönnum. Afstaðan til Trump Bandaríkjaforseta er sérlega tilfinningaþrungin íslenska vinstraliðinu. Tveir af oddvitum ríkisstjórnarinnar, Kristrún forsætis og Þorgerður Katrín utanríkis, fóru á Nató-fund að hylla Trump. Til að róa mannskapinn hentu þær í grein, og fengu Ingu Sæland til að ábekja. Greinin segir að við verðum áfram í Nató og varnarsamningurinn við Bandaríkin sé í fullu gildi. Stórfréttir eða þannig.

Viðkvæmni vinstrimanna í utanríkismálum á sér tvær meginskýringar. Sú fyrri er að sögulega hafa þeir alltaf verið á röngunni, studdu kommúnisma langt fram yfir síðasta söludag. Seinni skýringin er blæti vinstrimanna að bjarga heiminum. Heimsbjargaráráttu fylgir óþol gagnvart málamiðlunum sem eru ær og kýr alþjóðastjórnmála.

Í viðtengdri frétt segir að Þorgerður Katrín hafi heillast af Trump og viðbrögðum Svandísar formanns Vinstri grænna. Eitruð athugasemd:

Það er niður­lægj­andi. Ekki bara fyr­ir kon­ur. Ekki bara fyr­ir lýðræðissinna. Held­ur fyr­ir okk­ur öll – sem vilj­um að Ísland standi með mann­rétt­ind­um, friði og frelsi.

RÚV er vel meðvitað um jarðsprengjusvæðið og leggur sig i líma að spilla ekki fyrir samstöðu vinstrimanna. Kristrún ræddi veður og varnarmál við Trump, segir Efstaleiti. Ekki veður í samhengi við loftslagsmál. Nei, guð hjálpi okkur, heldur veðrið á Íslandi.

Vísir sýnir ekki sömu nærgætnina og RÚV, gefur til kynna Trump-glott þegar Kristrún ræddi Úkraínu og Gasa.

Ekkert sem Ísland segir og gerir í alþjóðadeilum í Úkraínu, Gasa eða öðrum átakasvæðum breytir einu eða neinu um gang mála á erlendum vígaslóðum. En fyrir heimsbjargaráráttu íslenskra vinstrimanna skilur að feigan og ófeigan hvort atlot og orðaval séu í takt við rétttrúnaðinn. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir botnar gagnrýni á ráðherrasystur: ,,Trump brosti til Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerði fannst karlinn heillandi."

Til að milda bakslagið tilkynnir Þorgerður Katrín ættbálkasameiningu Palestínuaraba á Íslandi og flytur inn 16 einstaklinga til að komast á velferðarbeit á kostnað skattgreiðenda.

Tilfallandi fjallaði um ættainnflutning Palestínuaraba fyrir ári:

Palestínuarabi á Íslandi átti íslenska eiginkonu. Þau eru skilin. Palestínuarabinn er með umsókn hjá Útlendingastofnun um fjölskyldusameiningu. Hann á móður á lífi í Gasa og 12 systkini, segi og skrifa tólf, og vill þau öll til Íslands.

Ekki liggur fyrir hve mörg systkina Palestínuarabans eiga maka og börn. Ef þau eiga öll maka er fjöldinn kominn upp í 24 einstaklinga. Palestínuarabar í Gasa eru eitt frjósamasta samfélag í heimi, samkvæmt alþjóðlegri tölfræði.

Hver kona í Gasa á að jafnaði 3,5 börn. Ef við notum þá tölu á systkini Palestínuarabans hér á landi, og gefum okkur að þau séu öll með fjölskyldu, fáum við 42 börn.

Reikningsdæmið lítur þá svona út. Einn Palestínumaður kemur til Íslands vill í nafni fjölskyldusameiningar fá 67 skyldmenni hingað til lands.

Dæmið hér að ofan er ekki einstakt. Tilfallandi hefur áður fjallað um Palestínuaraba á Íslandi sem vildi fá hingað 21 ættmenni.

Trúlega flytur Þorgerður Katrín inn flugvélafarma af ættbálkum Palestínuaraba til að kaupa sér velvild vinstrimanna, sem eru jú áhugasamir um að skipta um þjóð í landinu. Óreiða, upplausn og átök í útlöndum verða íslenskur veruleiki. Vinstriflokkarnir kalla þetta ,,leiðréttingu" og kenna við réttlæti.    


mbl.is Sagði Trump heillandi: Svandís er ósammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrlunin og hnignun RÚV

RÚV er ekki sama stofnunin og hún var fyrir fáum árum. Eitt mál öðrum fremur dregur úr tiltrú á ríkisfjölmiðilinn, byrlunar og símamálið. RÚV hefur ekki gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu og þverskallast við að gera hreint fyrir sínum dyrum. Páll skipstjóri stefnir RÚV fyrir dómstól til að fá hlutlægt mat á þann miska sem hann varð fyrir af hálfu starfsmanna ríkisfjölmiðilsins.

Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað að kvöldi 3. maí 2021 á heimili sínu á Akureyri. Um nóttina var kominn á dauðvagninn svokallaðan á sjúkrahúsi Akureyrar. Ítrekaðar lífgunartilraunir þurfti til að halda skipstjóranaum á lífi. Daginn eftir var flogið með Pál til Reykjavíkur þar sem hann var meðvitundarlaus til 6. maí.

Þáverandi eiginkona Páls flaug með honum suður. Síðar viðurkenndi hún að hafa byrlað eiginmanni sínum. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi. Daginn sem þau komu til Reykjavíkur, 4. maí, fór eiginkona skipstjórans með síma hans á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Á Efstaleiti beið sími sömu tegundar og skipstjórans. Sími RÚV, af Samsung-gerð, var keyptur í apríl og skráð á hann númer keimlíkt og skipstjórans. Á Efstaleiti var sími skipstjórans klónaður, afritaður, á nýjan síma RÚV. Allt var afritað sem hægt var að afrita, ekki voru valdar úr síma skipstjórans efnisatriði sem mögulega ættu erindi til almennings.

Þóra Arnórsdóttir þá ritstjóri Kveiks á RÚV veitti síma skipstjórans viðtöku og hafði með sér undirmann, Arnar Þórisson. Samkomulag varð á milli eiginkonu skipstjórans og Þóru að síminn yrði í sólarhring á RÚV.

Á þessum tíma, vorið 2021, var umsátursástand á Kveik og fréttastofu RÚV. Helgi Seljan var í lok mars úrskurðaður alvarlega brotlegur gegn siðareglum RÚV vegna herferðar hans í Namibíumálinu gegn Samherja. Páll skipstjóri starfaði hjá Samherja á þessum tíma og hafði skrifað pistla í fjölmiðla til varnar vinnuveitanda sínu. Þóra, ritstjóri Kveiks, komst í samband við eiginkonu skipstjórans á útmánuðum. Þegar Þóru bauðst stolinn einkasími með gögnum er gætu komið að notum í stríði RÚV gegn norðlensku útgerðinni sló hún til. Ekki aftraði það Þóru að í hlut átti andlega veikur einstaklingur sem framdi alvarlegt brot til að komast yfir símann.

Þegar eiginkonan kom daginn eftir, eða 5. maí 2021, til að fá afhentan síma eiginmannsins var skotið á fundi með henni og lykilmönnum RÚV í aðgerðinni. Fundinn sátu af hálfu RÚV Þóra Arnórsdóttir, Arnar Þórisson pródúsent, Helgi Seljan fréttamaður og Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri.

Fundurinn 5. maí sýnir yfirvegun og skipulag í aðgerðinni. Starfsmenn RÚV vita að handan götunnar, á Borgarspítalanum, liggur skipstjórinn meðvitundarlaus og getur sér enga björg veitt.  Í samráði við eiginkonuna er ákveðið að símtæki skipstjórans skuli skilað á sjúkrabeð hans til að hann væri grunlaus um þjófnað og afritun. Hugsunin að baki var að ef síma skipstjórans hefði verið fargað gæti hann dregið þá ályktun að um þjófnað væri að ræða. 

Fundurinn 5. maí var ekki upphafskaflinn í aðgerðinni gegn skipstjóranum. Eins og áður segir vissi Þóra í apríl að einkasími skipstjórans var af Samsung-gerð og keypti slíkan síma til að afritun gengi greiðlega fyrir sig. Föstudaginn 30. apríl, þrem dögum fyrir byrlun, hætti undirmaður Þóru á Kveik, Aðalsteinn Kjartansson, og hóf samdægurs störf á Stundinni, sem Ingibjörg systir hann ritstýrði. Almennt hætta fréttamenn ekki á RÚV nema fyrir feita bita. Aðalsteinn fór ekki í vist hjá systur sinni til annars en að taka við frétt sem yrði unnin á RÚV en birt í Stundinni og Kjarnanum.

Skipulagið gerði ráð fyrir að RÚV væri aðgerðarmiðstöðin, veitti stolnum síma viðtöku, afritaði og ynni efni úr símanum. Aldrei stóð til að RÚV frumbirti stafkrók úr síma skipstjórans. Stundin og Kjarninn sáu um birtingu, allt eftir fyrirfram ákveðinni ráðagerð.

Eftir tíu daga sjúkrahúsvist er skipstjórinn útskrifaður. Hann er heima hjá sér 20. maí 2021 og fær tvö símtöl með 11 mínútna millibili. Klukkan 14:56 hringir Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans. Rúmlega tíu mínútum síðar, 15:07, hringir Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni. Blaðamennirnir tveir, hvor á sínum fjölmiðlinum, tilkynna Páli að þeir hafi efni undir höndum er varði hann og Samherja og hvort hann vilji bregðast við. Skipstjórinn svara fáu. Daginn eftir, snemma um morgun, birta Stundin og Kjarninn efnislega sömu fréttina, um meinta skæruliðadeild Samherja er hafi það hlutverk helst að sverta orðspor blaðamanna. Í kjölfarið fara fréttamenn RÚV á stúfana, reka hljóðnemann uppi í þingmenn, ráðherra og álitsgjafa til að fá fordæmingu á Samherja. 

RÚV-aðgerðin gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni vorið 2021 er skefjalaus misnotkun á fjölmiðlavaldi. Lögreglurannsókn staðfesti að lögbrot voru framin. En þar sem sönnunargögnum var eytt tókst ekki sanna hvaða blaðamaður framdi tiltekin afbrot. Rannsókn á hlut blaðamanna var hætt síðast liðið haust en heldur áfram gagnvart eiginkonunni sem játaði byrlun og stuld.

Lögreglurannsóknin sýndi fram á margvísleg samskipti blaðamanna, einkum Þóru, við veiku konuna. Þau gögn verða lögð fram, útskýrð og rædd, í málaferlum skipstjórans gegn RÚV.


mbl.is Páll stefnir RÚV út af byrlunarmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Katrín þolir ekki þingræðið, Kristrún falsfréttar

Atvinnuráðherra, Hanna Katrín, segir alþingi í gíslingu. Það er rangt. Alþingi starfar sem aldrei fyrr, fundar jafnvel á sunnudögum. Fásinna er að halda fram að þjóðarsamkundan sé í gíslingu þegar hún starfar nánast nótt sem nýtan dag. Hanna Katrín blekkir vísvitandi, líkt og hún er kunn fyrir, kallar skattahækkun ,,leiðréttingu." Kristrún forsætis kemur í kjölfar Atvinnu-Hönnu og sakar þingmenn stjórnarandstöðunnar um falsfréttir.

Hanna Katrín er of huglaus í einn stað og í annan stað of dramblát til að kalla hlutina réttum nöfnum. Alþingi er með ríkisstjórnina í gíslingu. Það sem meira er: framkvæmdavaldið er alltaf í gíslingu þingsins. Gíslatakan, ef menn vilja nota það orð, hófst fyrir meira en hundrað árum. Þegar Ísland fékk innlent stjórnarráð, heimastjórn árið 1904, komst á sú skipan sem Hanna Katrín kallar gíslatöku en heitir í raun þingræði. Það felur í sér yfirvald löggjafans yfir framkvæmdavaldinu.

Kristrún forsætisráðherra hefur ekki meira álit á þjóðþinginu en svo að hún sakar þingmenn um að falsa fréttir af stærsta máli ríkisstjórnarinnar, tvöföldun á veiðigjöldum. Ummælin lét Kristrún falla í viðtali á RÚV. Í málefnum falsfrétta kann ríkisfjölmiðillinn ýmislegt fyrir sér en kýs að fylgja ekki eftir orðum forsætisráðherra. Vísir aftur tekur málið upp og segir frá viðbrögðum stjórnarandstöðunnar.

Alþingi starfar samkvæmt þingsköpum sem mæla fyrir málsmeðferð þingmála. Það er ekki ráðherra að ákveða þingsköpin heldur þingheims. Framkvæmdavald sem ætlar sér að brjóta á bak aftur þingræðið er komið á hálan ís, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Pólitískur veruleiki Kristrúnar, Hönnu Katrínar og stjórnarmeirihlutans er sá að veiðigjaldamálið er ótækt. Þingmálið er tilræði við grunnatvinnuveg þjóðarinnar. Umræða, innan þings og utan, hefur leitt í ljós stórkostlega vankanta á frumvarpi Hönnu Katrínar og félaga. Ekki síst er að þakka málafylgju þingmanna stjórnarandstöðunnar að farið hefur verið í saumana á yfirvofandi stórslysi framkvæmdavaldsins.

Stjórnarmeirihlutinn á aðeins tvo kosti. Í fyrsta lagi að afturkalla meingallað frumvarp og vinna upp á nýtt. Í öðru lagi að rjúfa þing og boða til kosninga. Kristrún og Hanna Katrín ættu að fara ítarlega yfir málin sín á milli og ræða hvor kosturinn sé vænlegri fyrir land og þjóð. Ef þær stöllur bera á annað borð hagsmuni landsmanna fyrir brjósti - sem er álitamál.


mbl.is Fundarstjórn forseta fór í veiðigjöldin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarárás Trump, Machiavelli í Tehran

Bandaríkin sprengdu í loft upp kjarnorkuáætlun Írans og vilja semja frið við klerkaveldið, segir varaforsetinn í orðastað Trump forseta. Mótsögn, ekki satt? Nei, ekki samkvæmt ítalska stjórnvitringnum Machiavelli sem fyrir hálfu árþúsundi reit Furstann, handbók valdamannsins að lifa af í hörðum heimi.

Eftir árás Bandaríkjanna í fyrrinótt virðist klerkavaldinu í Tehran sá vandi mestur á höndum að ógnin gagnvart nágrannaríkjum er dauð og ómerk. Ráðamenn í Ankara, Riyad og Jerúsalem anda léttar. Tyrkir, Sádar og Ísraelsmenn eru samt sem áður ekki í neinu færum að fara með landhernaði gegn Íran. Engin hætta er á að Trump sendi landher til Íran að leggja undir sig landið. Hann hefur ekki pólitískt umboð að fórna bandarísku blóði til að skipta um valdhafa í framandi landi.

SaddamHussein sálugi forseti Írak reyndi þá tiltekt gegn Íran 1980-1988 en varð ekki kápan úr klæðinu. Hussein taldi Íran veikt 1980, rétt eftir klerkabyltinguna, og neytti færis. Persar fylktu sér aftur um talsmenn spámannsins og sigruðu granna sína. Álitsgjafar, margir hverjir, telja stöðu klerkaveldisins sýnu veikari nú en á árdögum byltingarinnar. Það er hvergi nærri víst. Leikjaröðin í valdataflinu verður að vera sú að fyrst gerir almenningur atlögu að yfirvaldinu.

,,...það mun aldrei skorta erlenda íhlutun ef fólkið gerir uppreisn," skrifar Machiavelli í tuttugasta kafla. Lykilatriði klerkanna er að komast hjá uppreisn innanlands næstu daga, vikur og mánuði. Innanlandsófriður er forsenda erlendrar íhlutunar. Klerkunum er töm sú speki Machiavelli að stjórna með ótta, það er ,,miklu tryggara að búa við ótta þess [fólksins] en ást". Versta staða valdhafa sé að fá yfir sig fyrirlitningu fjöldans. 

Ísraelar hafa í fimm daga herjað á hernaðarlega innviði Íran og í fyrrinótt sprengdu Bandaríkin kjarnorkuverkefnið. Klerkarnir búa enn að byltingarsveitum sínum, eftir því sem best er vitað. Þær sjá um að halda uppi aga innanlands, aflífa mann og annan fyrir óverulegar eða engar sakir til að halda fjöldanum í skefjum. Haldi klerkarnir trúnaði byltingarsveitanna fara þeir áfram með völdin í landinu. Andóf í alræðisríki á alltaf erfitt uppdráttar. Staðkunnugur veðjar ekki á að persneskur almenningur varpi af sér okinu í bráð. Líklegra sé að byltingarsveitirnar taki völdin af klerkastéttinni en að upp úr þjóðardjúpinu rísi bylting fólksins.

Klerkarnir tala digurt, hóta ógnarhefndum á Bandaríkin og Ísrael. Það er hluti af íslamskri orðræðu að hafa í frammi stórkarlalegar yfirlýsingar, kvenleg nærgætni er framandi hugsun. Freistist þeir að hrinda í framkvæmd svigurmælum gegn Bandaríkjunum er hætt við annarri heimsókn bandarískra flugvéla með stórar sprengjur á prívatheimilisfang valdhafa. Að líkindum munu klerkarnir gera Bandaríkjunum táknræna skráveifu fremur en alvarlega. Áhersla múslímska miðstjórnarvaldsins verður að kæfa í fæðingu uppreisnartilburði landsmanna, fari svo að almenning þrjóti þolinmæðina og sigrist á óttanum. Sem komið er sjást fá teikn um andóf.

Kunni klerkarnir sinn Machiavelli munu þeir þekkjast friðarboðskap Trump, eftir hæfilegan umþóttunartíma með tilheyrandi ókvæðisorðum. Átjándi kafli Furstans er leiðarvísir. Þar er kennt að gefa loforð til að svíkja þau. Ekki heiðarlegra manna háttur, segir Machiavelli, heldur dýrsleg sjálfsbjörg. Valdhafinn verður ,,bæði að kunna það sem er mannsins og dýrsins."

Krjúpi klerkarnir fyrir Trump og lofi öllu fögru til að halda lífi og völdum er ekki vita nema að friðarárásin skili Bandaríkjaforseta sæmdinni er fylgir friðarverðlaunum Nóbels. Engu skiptir þótt loforðin verði öll svikin á næstu misserum og árum. Eitt lítilræði í viðbót, t.d. að gera Gasa að baðströnd með spilavítum, myndi gulltryggja nóbelinn. Vald og hégómi er sígilt bandalag. 


mbl.is „Við erum ekki í stríði við Íran“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri Satan sækir Íran heim

Stjórnvöld í Íran hafa í hálfan fimmta áratug talað um Bandaríkin sem stóra Satan og Ísrael sem litla Satan. Í nótt heimsótti Stóri Satan Íran; sá litli hafði í nokkra daga undirbúið kraftbirtingu höfðingjans úr neðra. Kjarnorkuáætlun Íran virðist heyrir sögunni til.

Æðstu stjórnvöld í landinu eru klerkar sem telja sig hafa umboð frá allah að tilkynna hverjir skulu lifa og hverjir deyja um víða veröld. Klerkarnir gáfu út líflátsdóm, fatwa, yfir breska rithöfundinum Salman Rushdie. Sakarefnið var að rithöfundurinn móðgaði spámanninn.

Valdhafar sem tala í umboði almættisins skeyta engu um veraldlegar málamiðlanir. Enn síður láta þeir alþjóðlega samninga aftra sér að ná markmiðum sínum. Klerkarnir hafa vopnað og fjármagnað hryðjuverkasamtök nær og fjær í heimshlutanum.

Íran er í harðri samkeppni við Sádí-Arabíu og Tyrkland um forystu fyrir múslímum fyrir botni Miðjarðarhafs. Eignist Íran kjarnorkuvopn er spurning um líf og dauða fyrir Sáda og Tyrki að eignast þau líka. Kjarnorkuvopn í höndum klerkanna í Tehran var ekki leiðin að friði og framförum í miðausturlöndum - burtséð frá hvað afstöðu menn hafa til stóra og litla Satan.

Fullkomin óvissa er um hvað tekur við í Íran og miðausturlöndum eftir árás Bandaríkjanna í nótt á helgasta vé klerkanna, kjarnorkuáætlunina sem var grafin djúpt í jörðu. Klerkastjórnin gæti fallið og upplausn, til lengri eða skemmri tíma, verði hlutskipti Írana.

Eitt sjónarmið í umræðunni síðustu daga var að ræki Bandaríkin smiðshöggið á verk sem Ísraelar hófu, og klerkastjórnin falli í kjölfarið, beri Bandaríkin ábyrgð á upplausninni sem á eftir kemur. Trump Bandaríkjaforseti fékk kjör út á að hætta tilgangslausum stríðum í útlöndum. Trump væri þvert um geð að sitja uppi með 90 milljón manna þjóð á pólitískum vergangi.

Næturárásin á kjarnorkuiðnaðinn í Íran tekur daga, ef ekki vikur og mánuði, að raungerast í pólitískum veruleika miðausturlanda og alþjóðastjórnmála. Kannski verður niðurstaðan nýtt jafnvægi, ögn friðsamlegri en síðustu misseri. Kannski er næturárásin upphafið að grimmari óöld en nokkurn óraði. Þegar Satan fer á stjá er aldrei að vita hvað gerist næst.  


mbl.is Bandaríkin sprengja í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband