Færsluflokkur: Dægurmál

Hæstiréttur hafnar Aðalsteini í byrlunarmálinu

Hæstiréttur hafnaði í gær beiðni blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar um áfrýjun til réttarins. Þrír hæstaréttardómarar taka ákvörðun um hvort dómur undirréttar fái endurmat í æðsta dómstól landsins. Sýknudómur landsréttar í máli tilfallandi, Páls Vilhjálmssonar, stendur.

Aðalsteinn stefndi tilfallandi fyrir ærumeiðingar. Tifallandi var sakfelldur í héraðsdómi en sýknaður í landsrétti. Öll ummælin, sem Aðalsteinn stefndi tilfallandi fyrir, voru um byrlunar- og símamálið en þar var Aðalsteinn sakborningur ásamt blaðamönnum af Stundinni og Kjarnanum, nú Heimildin, og RÚV.

Áður en Aðalsteinn stefndi tilfallandi höfðu blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson sameiginlega stefnt bloggara fyrir dóm. Landsréttur dæmdi tilfallandi í vil og hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni blaðamanna. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður varði tilfallandi í báðum dómsmálum.

Byrlunar- og símamálið hófst vorið 2021. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað. Á meðan skipstjórinn var á gjörgæslu í dái hálfan þriðja sólarhring var síma hans stolið og færður Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Fyrir byrlun hafði Þóra keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Eftir afritun á RÚV var síma skipstjórans skilað á sjúkrabeð hans á Landsspítalanum í Fossvogi, steinsnar frá Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV. Samsærið gekk út á að skipstjórinn væri grunlaus um að sími hans hefði verið afritaður.

Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra, er glímir við erfið andleg veikindi, hefur játað að byrla, stela og færa blaðamönnum síma eiginmannsins. Tvær samhljóða fréttir voru unnar á RÚV og sendar til birtingar á Stundina og Kjarnann þar sem vísað var í gögn úr símanum. Aðalsteinn leppaði fréttina á Stundinni en Þórður Snær og Arnar Þór voru skráðir ,,höfundar" fréttarinnar á Kjarnanum. Allir þrír fengu verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir ómakið. 

Lögreglurannsókn hófst sumarið 2021. Enginn fjölmiðill skrifaði um málið og aldrei voru blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans spurðir hvernig það atvikaðist að tveir ótengdir fjölmiðlar fengu sömu fréttina og birtu samtímis morguninn 21. maí. Aðalsteinn var fréttamaður á RÚV en hætti skyndilega þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans og hóf samdægurs störf hjá Stundinni. Þegar Aðalsteinn hætti á RÚV var búið að kaupa Samsung-símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans. Vistaskipti Aðalsteins voru hluti af samsærinu.

Tilfallandi hóf að skrifa um byrlunar- og símamálið haustið 2021. Um miðjan nóvember birtu Þórður Snær á Kjarnanum og Aðalsteinn á Stundinni samtímis greinar þar sem tilfallandi voru valin hin verstu orð, hann sagður ímyndunarveikur, að engin byrlun eða þjófnaður hefði átt sér stað með vitund og vitneskju blaðamanna RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn).

Fjórir blaðamenn fengu stöðu sakbornings í febrúar 2022: Aðalsteinn, Þórður Snær, Arnar Þór, og Þóra. Í fjölmiðlaumræðu fór mesta púðrið í vörn blaðamanna, að óeðlilegt og jafnvel ólöglegt, væri að þeir fengu stöðu sakborninga. Tilfallandi bloggari var einn um að rekja efnisatriði málsins og draga upp mynd af málsatvikum vorið 2021.

Til að þagga niður í tilfallandi stefndu blaðamennirnir bloggara í tveim sjálfstæðum dómsmálum. Þeir kröfðust ómerkingar ummæla, miskabóta upp á milljónir króna og að tilfallandi greiddi þeim lögfræðikostnað.

Með úrskurði hæstaréttar í gær eru blaðamenn komnir á endastöð í tilraun til að hefta málfrelsi bloggara sem neitaði að láta undan hótunum og hætta að segja fréttir af stærsta fjölmiðlahneyksli Íslandssögunnar. Hér að neðan eru ummælin sem bloggara var stefnt fyrir og hlekkir á viðeigandi slóðir. Lesendur átta sig á samhengi hlutanna þegar þeir skoða færslurnar. Landsréttur telur innistæðu fyrir öllum ummælunum, hæstiréttur segir að ekki séu efni til að endurskoða dóm landsréttar.

Blaðamenn verðlauna glæpi 2. apríl 2022:

„…og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“.

Aðalsteinn hætti ekki á RÚV 25. ágúst 2022:

„Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“.

Aðalsteinn gagnrýnir Stefán útvarpsstjóra 28. október 2022:

„Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“

„Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“.

„Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“.

5 blaðamenn ákærðir í febrúar 15. febrúar 2023:

„Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“.

„Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“.

Ný gögn í byrlunarmáli Páls skipstjóra 27. febrúar 2023:

„Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“.

„Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt.

„En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“.

Bí normalíserar glæpi, játar óheiðarleika 21. mars 2023:

„Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“

„Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“.

„Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“.

Þóra ráðleggur byrlara 22. mars 2023:

„Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“.

„Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“.

Bloggarar byrla ekki 14. apríl 2023:

„RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“

Af lögreglurannsókn byrlunar- og símamálsins er það að frétta að henni er ekki lokið. Rannsókninni var hætt tímabundið hvað blaðamenn varðar, með sérstakri yfirlýsingu lögreglunnar. Ný gögn og dómsúrskurðir, bæði hér heima og erlendis, gætu opnað málið að nýju. Páll skipstjóri Steingrímsson hefur stefnt RÚV í einkamáli og von er á frekari dómsmálum af hans hálfu. Stjórnskipunarnefnd alþingis er með til rannsóknar hlutdeild ríkisfjölmiðilsins RÚV í byrlun, þjófnaði og siðlausri blaðamennsku.

Byrlunar- og símamálið lifir svo lengi sem það er óupplýst.


Orð, tilvist og trans

Segist einhver válp en fær svarið að ekki sé til neitt sem heitir válp vaknar spurningin: er verið að neita tilvist mannsins sem segist válp?

Nei, tilvist mannsins er ekki til umræðu, hún er gefin. Álitamálið er hvort hægt sé að vera válp.

Válp getur til dæmis verið rauðhærður örvhentur karl sem er rétthent kona ljóshærð á fimmtudögum eftir hádegi. Tilfallandi gæti litað á sér hárið rautt, þjálfað sig að skrifa með vinstri hendi og sett á sig ljósa hárkollu á fimmtudögum og kallað sig Pálínu. Er þar með til eitthvað sem heitir válp? Jú, í ímyndun tilfallandi. Væri tilvist tilfallandi dregin í efa ef einhver fullyrti enn að válp væri skáldskapur? Trauðla. Tilfallandi er eftir sem áður maður þótt vafi leiki á válpinu.

Skiptum út orðinu válp og setjum í staðinn trans. Breytum líka dæminu. Nú segist tilfallandi fæddur í röngum líkama, fæddist sveinbarn en er innra með sér kona. Það tók 64 ár fyrir tilfallandi að fatta hlutskipti sitt. Yrði tilvist mín dregin í efa ef einhver segði nei, Palli minn, það er ekki hægt að fæðast í röngum líkama, einfaldlega ómöguleiki. Meðvitundin fæðist með líkamanum. En þú mátt alveg kalla þig Pálínu og þykjast kona, við búum í frjálsu landi.

Orð má búa til eftir hentugleikum; trans, válp, stálp, t-kynið, kvár, valpúrella, smiðglyðra, dálder, skvár, svodduloddur og svo framvegis. Menn geta sagst vera tiltekið orð og að einhverjir eiginleikar fylgi orðinu. Börn leika sér iðulega á þessum nótum, leyfa afli ímyndunar að leika lausum hala.

Í heimi fullorðinni er spurt um merkingu orða og hvað þau vísa til. Þótt orð geta verið margræð þarf merking að vera einhver. Jafnvel orð sem vísa beint í meðvitundina en ekki ytri veruleika þurfa innihald. Tökum orðið trúarvitund sem dæmi. Maður gæti sagt si svona: samkvæmt minni trúarvitund er rangt að segja ósatt. Áheyrandi myndi strax átta sig á tvennu. A) maðurinn segist trúaður og b) hann telur rangt að ljúga. Áheyrandinn gæti haft áhuga á frekari samræðum eða ekki, en merkingin er augljós.

Trans er orð með svo víða og mótsagnakennda merkingu að það er ónothæft nema sem merkimiði fyrir safnaðarvitund sérvitringa. Trans getur þýtt ég er karl en vil vera kona (og öfugt). Merkingin getur líka verið ég fæddist í röngum líkama. Einnig fellur undir transið ég er flæðikyn. Eða: ég er af seytjánda kyni. Líka: ég er karl en fæ örvun við að fara á kvennaklósett sem kona.

Í transinu er einn rauður þráður, afneitun á hversdagslegum veruleika venjulegs fólks. Kynin eru tvö og ekki er hægt að fæðast í röngum líkama. Í því ljósi er ósvífið, svo ekki sé meira sagt, af transliðinu að saka okkur hversdagsfólkið um að hafna trans-tilvist. Transarar afneita bláköldum og áþreifanlegum staðreyndum en kalla það árás á tilvist sína þegar sagt er upphátt að kynin séu tvö og ómöguleiki er að fæðast í röngu kyni.

Lævís tilraun transara er að leggja dæmið þannig upp að hafni maður transinu afneiti maður tilvist þeirra er kenna sig við trans. Tilvist manns er ekki undir því komin að fallist sé á sjálfsmyndina sem viðkomandi tileinkar sér. Tilvist er áþreifanleg og mælanleg en sjálfsmynd huglægt ástand.

Breski geðlæknirinn Az Hakeem hefur unnið með transfólki í áravís. Trans er hugarástand, ímyndun, segir hann. Nær allir karlar sem segjast konur eru á einhverfurófinu. Þeir bíta í sig ranghugmynd, að vera í fæddir í röngu kyni, og fá meðvirkni út í samfélaginu, m.a. frá systursamtökum Samtakanna 78. Afleiðingin er gelding heilbrigðs líkama karls sem trúir að hann sé kona. Trans er afsökun fyrir að að ráðast ekki að rótum vandans, sem er bágt andlegt ástand. (Hér stutt útgáfa).

Andlegt ástand manna er misjafnt. Menn eiga rétt á sinni útgáfu af lífinu og tilverunni, jafnvel þegar um er að ræða sannanlegar ranghugmyndir. Transsöfnuðurinn á sinn tilverurétt, líkt og önnur lífsskoðunarfélög. En ótækt er að söfnuðurinn vaði á skítugum skónum inn í leik- og grunnskóla og kenni börnum hinseginfræði sérvitringa.

Kynjaveröld fullorðinna á ekki að bera á  borð fyrir börn. Foreldrar á Akureyri hafa bundist samtökum um að afþakka trans, klám og sérvisku í leik- og grunnskólum. Aðrir foreldrahópar ættu að taka Norðlendingana sér til fyrirmyndar og segja nei, takk, við viljum ekki trans í skólana.

 

 

 


Dagur mótmælir sjálfum sér og vill fórna Íslandi

Þingmannanefnd um öryggis- og varnarmál Íslands skilaði af sér skýrslu í byrjun viku. Einn nefndarmanna er Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingar og fyrrum borgarstjóri. Í skýrslunni segir afdráttarlaust:

Bandaríkin eru eina ríkið sem hefur burði til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi með fullnægjandi hætti.

Í Morgunblaðinu í dag mótmælir Dagur sjálfum sér sem nefndarmanni í þingmannanefndinni. Hann skrifar á leiðaraopnu að varnarviðbúnaður Íslands sé best tryggður með aðild að Evrópusambandinu:

Evrópusambandið hefur einnig vaxandi hlutverki að gegna á sviði varnar- og öryggismála. Það er mikilvægt að Ísland tengist ESB eins nánum böndum og kostur er í þágu öryggis og varna Íslands og sameiginlegra varnarhagsmuna.

Dagur grefur undan varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Hann talar um að Ísland verði að ,,bregðast við breyttum viðhorfum í Bandaríkjunum." Þingmaðurinn útskýrir ekki hver þessi breyttu viðhorf séu. Skýringin kippir fótundum undan þeirri óskhyggju Dags að ESB-Evrópa sé eitthvað annað og meira en meginlandsklúbbur gamalla nýlenduvelda er lifa á fornri frægð.  

Dagur beinlínis falsar landfræðilegar og pólitískar staðreyndir þegar hann talar um ,,sameiginlega varnarhagsmuni" Íslands og ESB-Evrópu á Norður-Atlantshafi. Engin smáþjóðanna á norðurslóðum, þ.e. Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur, er ESB-ríki. Hitt er vitað að ESB-Evrópa vill gjarnan klófesta smáþjóðirnar og gera að sínum peðum í valdaskaki við Bandaríkin.

Bandaríkin líta ekki lengur á Vestur-Evrópu sem útvörð andspænis ógn frá austri líkt og í kalda stríðinu. Sovétríkin féllu fyrir 35 árum, einhver þyrfti að segja Degi þær fréttir. Er Trump bauð Pútín til leiðtogafundar í Alaska í sumar var það yfirlýsing um að Bandaríkin líta á Rússland, arftaka Sovétríkjanna, sem jafningja í margpóla alþjóðapólitík. 

Varnarlína Bandaríkjanna í austri í nýrri heimsskipan er GIUK-hliðið. Það er hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Í skýrslu þingmannanefndarinnar er birt mynd af landfræðilegri legu GIUK-hliðsins. Dagur veit um stöðu mála en er of mikill ESB-sinni til að draga rökrétta ályktun.

Dagur fjallaði um valdatilkall Bandaríkjanna til Grænlands í Morgunblaðspistli þann 28. ágúst síðast liðinn. Þar kemur fyrir skrítin hugsun:

Evrópa stendur með Dönum og Grænlendingum í málinu. Íslendingar ættu auðveldlega að geta sett sig í spor Grænlendinga og Dana.

Fáránlegt er að segja Dani og Grænlendinga í sömu sporum. Grænland er nýlenda en Danmörk er nýlenduveldið. Hvort eiga Íslendingar að setja sig í spor Dana eða Grænlendinga? Það er spurningin. Pólitískur geðklofi er að fara í spor beggja þjóðanna.

Grautarhugsun Dags er dæmigert ESB-heilkenni íslenskra vinstrimanna. Þeir skilja ekki að ESB-Evrópa er núll og nix á Norður-Atlantshafi. Íslenskum hagsmunum í bráð og lengd er fórnað með fyrirhugaðri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í fyrsta lagi yrði innanlandsófriður, milli ESB-sinna annars vegar og hins vegar fullveldissinna og Bandaríkjavina. Í öðru lagi yrði Ísland bitbein erlendra ríkja, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Sagna kennir okkur að smáþjóð sem kemur sér í slíka stöðu er ekki viðbjargandi.    


Bakslag í loftslagsvá og transi, fjölmiðlar til bjargar

Samtökin 78 tala síðustu misserin um bakslag gagnvart boðskapnum um 700 kyn, eða þar um bil, og trúarkenningunni um sálnaflakk þar sem sumar sálir rati í ranga líkama. Nú kveinkar lofslagskirkjan sér undan bakslagi, segir að æ færri trúi á yfirvofandi heimsendi. Gréta Túnberg söðlaði um, gerðist Hamas-trúboði. Litla stúlkan með loftslagsflétturnar býr ekki lengur til fyrirsagnir. Hvað er til ráða? 

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir bakslagið áþreifanlegt:

Við finnum töluvert fyrir því að það er bakslag og minni umræða um náttúruvernd og loftslagsmál heldur en hefur verið. Fólk talar um að það geti verið einhver þreyta.

Bakslag i transi og loftslagsvá á sama tíma er ekki tilviljun. Sömu pólitísku öfl bera fram kynjaveröldina og ímyndaðar veðurhamfarir. Björg Eva er sjálf talandi dæmi. Hún var fréttamaður á RÚV, síðar framkvæmdastjóri Vinstri grænna og núna í Landvernd. Bakslagið er til marks um að veruleikinn sækir heim bábiljufræði er lifir á lyginni, ekki síst þeirri sem fjölmiðlar útbreiða.

Björg Eva telur helst til bjargar að fjölmiðlar ráði innvígða úr loftslagskirkjunni sem fréttamenn. Fjölmiðlar stunda málflutning, aktívisma, ekki upplýsingamiðlun. Björg Eva ætti að þekkja það, fyrrum RÚV-arinn og síðar áróðursmaður Vinstri grænna. Sorglegt ástand íslenskra fjölmiðla er staðfest með orðum fyrrum fréttamanns.

Transið og loftslagsvá er hugmyndafræði með trúarlegu ívafi. Transið trúir á sálnaflakk, að nýburi fái ekki alltaf réttri sál úthlutað við fæðingu. Þá telur transið að á bakvið líffræðilegu kynin tvö séu frummyndir margra annarra kynja sem aðeins séu aðgengileg þeim innvígðu. Allt er þetta í heimi andans, ósýnilegt venjulegu fólk. Hinsegin vísar í trúarheim með sérstökum hugtökum s.s. kynvitund og kynama. Sértrúarsöfnuðurinn er í andstöðu við heilbrigða skynsemi almennings sem efast um að sérviskan eigi erindi í leik- og grunnskóla.

Loftslagsvá, líkt og trans, var búin til í Bandaríkjunum. Fyrirbærin eru álíka gömul, komast í umferð á síðasta áratug liðinnar aldar. Loftslagvá kennir að brennsla mannsins á jarðefnaeldneyti, einkum bensín og dísil, valdi hækkun á koltvísýringi, CO2, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund. Mælikvarðinn er ppm. CO2 í andrúmslofti jarðar er um 400 ppm. Sveltimörk plantna, svo dæmi sé tekið, eru um 150 ppm. Kjörvöxtur plantna er við 1200-1500 ppm. Til að fá góða uppskeru er koltvísýringi dælt inn í gróðurhús. Koltvísýringur er náttúruleg lofttegund lífsnauðsynleg jarðlífinu. Um 97 prósent af koltvísýringi jarðar er náttúrulegur. Aðeins 3 prósent er manngerður. En við eigum að trúa því, sem sagt, að þessi þrjú prósent valdi hlýnun jarðar - en ekki 97 prósentin sem eru náttúrulegur koltvísýringur.

Guðni heitir maður Elísson, bókmenntafræðingur og kennir við Háskóla Íslands. Hann er einn af þeim sem ruddu veginn fyrir loftslagskirkjuna á Íslandi með blaðagreinum um yfirvofandi heimsslit af völdum mannsins. Í gær tók Guðni, fyrir hönd dóttur sinnar, við styrk frá Reykjavíkurborg. Í rökstuðningi fyrir námsstyrknum sést vel hvernig yfirvaldið, borgin, fléttar saman listsköpun og stefnumótun. Gefum Reykjavíkurborg orðið:

Steinunn [Kristín Guðnadóttir] hyggst rannsaka í meistaraverkefni sínu hvernig íslensk nútímalist vinnur með hugmyndir um loftslagsmál og hvernig slík verk varpa ljósi á skynjun samfélagsins á loftslagsvánni. Megináhersla verður lögð á sjónræna list sem tekst á við loftslagsvá og umhverfismál, það er myndlist, vídeóverk, ljósmyndun, gjörningalist og sviðslist. Verkefnið tengist einnig Reykjavíkurborg sem loftslags- og menningarborg, þar sem list og stefnumótun í loftslagsmálum mætast og móta hvort annað

Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á því hvaða viðhorf til loftslagsbreytinga birtast í íslenskri list og hvernig þau geta haft áhrif á stefnumótun og hvatningu til loftslagsaðgerða. (feitletr. pv)

Þarna má lesa svart á hvítu að loftslagsstefna Reykjavíkurborgar er ekki byggð á vísindalegum gögnum heldur samspili listamanna og embættismanna sem hafa það meginverkefni að ljúga að almenningi að fjölskyldubílinn valdi ragnarökum. Fjölmiðlar lepja upp lygina og sé hún endurtekin nógu oft verða úr viðtekin sannindi.

Suma er alltaf hægt að plata. Stundum má blekkja alla. En ekki er mögulegt að leika á alla allan tímann. Stundaglasið er tæmt loftslagskirkjunni og transinu. Það er bakslagið.

 

 


mbl.is Skora á fjölmiðla að ráða umhverfisfréttamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin eru vörn Íslands gegn ESB

Ísland er á áhrifasvæði Bandaríkjanna og getur ekki orðið aðildarríki Evrópusambandsins um fyrirsjáanlega framtíð. Á meðan viðsjár eru á meginlandi Evrópu er Íslendingum farsælast að treysta á varnarsamninginn við Bandaríkin og tefla ekki í tvísýnu sambandinu við Bandaríkin.

Ofanritað er tilfallandi samantekt á nýrri skýrslu samráðshóps þingmanna um stefnu í öryggis- og varnarmálum. Stjórnarráðsstíll skýrslunnar felur meginboðskapinn. Evrópusambandið er peð í varnar- og öryggismálum. Fyrir ESB-sinna, bæði á Íslandi og í Brussel, er skýrslan reiðarslag.

Evrópusambandið hratt úr vör í sumar herferð til að gera Ísland, Grænland og Noreg að ESB-ríkjum á sem skemmstum tíma. Tilfallandi fjallaði um leiftursókn ESB, sjá hér og hér.

Skýrslan er feimin við að greina pólitískan veruleika á norðurslóðum en segir þó þetta á bls. 20:

Bandaríkin eru eina ríkið sem hefur burði til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi með fullnægjandi hætti.

Varnar- og öryggismál þjóðríkja eru í fyrsta sæti, langt á undan viðskipta- og menningarmálum og öðrum milliríkjasamskiptum. Ríki er býr við óvissu um tilvist sína, sakir ógnunar annars ríkis, lætur annað en öryggis- og varnarmál mæta afgangi.

Í skýrslunni er látið eins og Nató sé öflugt hernaðarbandalag. En það er öðru nær. Nató er í tilvistarvanda. Stærsta og öflugasta Nató-ríkið, Bandaríkin, ásælist yfirráð yfir Grænlandi sem annað Nató-ríki, smáríkið Danmörk, hefur forræði yfir. Ekkert er fjallað um það í skýrslunni. Menn nefna ekki snöru í hengds manns húsi.

Þorgerður Katrín utanríkis gengur manna fremst hér á landi að útmála Pútin og Rússland sem helsta ógnvald heimsbyggðarinnar. Orðræðan er innflutt frá Brussel en hefur gagnólíka merkingu hér á landi. Rússagrýlan á meginlandi Evrópu þjónar þeim tilgangi að þétta raðirnar hjá gömlu stórveldunum, Frakklandi og Þýskalandi og fylgiríkjum, sem þrisvar síðustu tvær aldir gerðu innrás í Rússland. Á Fróni afhjúpar Rússagrýlan fáviskuna að leita eftir ESB-aðild. Hagmunir Íslands eru að standa utan Evrópusambandsins.

Bandaríkin þvo hendur sínar af Úkraínustríðinu. ESB-Evrópa er ein um að ráða fram úr misheppnuðum vestrænum austurvíkingi með Úkraínu sem lepp. Mörg ár, ef ekki áratugi, tekur að ráða fram úr óreiðunni í Austur-Evrópu og finna nýtt valdajafnvægi milli Rússlands og ESB-Evrópu.

Utanríkisráðherra er ESB-sinni en virðist, já virðist, eitthvað vera að ná áttum. Í mars sendi hún Bandaríkjunum pillu í viðtali á RÚV vegna áhuga Trump forseta á Grænlandi. Í viðtalinu nefnir hún einnig hernaðarsamstarf við ESB. Ekkert slíkt er í skýrslunni. Í heimsókn Þorgerðar Katrínar til Grænlands fyrir tveim dögum er hún orðvarari, minnist ekki á stöðutöku Bandaríkjanna gagnvart Grænlandi.

Í þingmannaskýrslunni er heldur ekkert fjallað um togstreitu milli Bandaríkjanna og Danmerkur, sem er ESB-ríki, vegna Grænlands. Veruleikinn síast inn þótt hægt fari. Ísland hefur engin áhrif á afdrif Grænlands sem er orðið bitbein stórvelda, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu.

Lexían sem Ísland þarf að tileinka sér hratt, ef ekki á illa að fara, er að verða ekki uppboðsríki á stórveldamarkaði. Úkraínumenn falbuðu sig stórveldum og guldu fyrir með blóði, eyðileggingu og ónýtu ríki. Grænlendingar búa eyju sem er hernaðarlegt nærsvæði Bandaríkjanna líkt og Kúba sem falbauð sig Sovétríkjunum sálugu með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Ísland er eilítið fjær stórveldinu í vestri en Grænland, samt á óformlega viðurkenndu áhrifasvæði Bandaríkjanna. Harðar valdapólitískar staðreyndir sem auðvelt er að gleyma á friðartímum en verða grimmar og ósveigjanlegar er ófriðaröldur rísa og umbrot verða í alþjóðapólitík.

Þorgerður Katrín utanríkis og ríkisstjórnin í heild ætti að horfast í augu við veruleika alþjóðastjórnmála og leggja á hilluna allar hugmyndir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Úkraína og Kúba eru víti til að varast, ekki fordæmi til að fylgja.

 

 


mbl.is Ísland er og verður herlaust ríki: Rússar gefa í
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alma ráðherra ræðir geðhjálp fyrir trans

Þeir sem telja sig í röngum líkama þurfa víðtæka geðhjálp, skrifar Alma Möller læknir og heilbrigðisráðherra. Þegar um börn er að ræða er nálgunin eftirfarandi:

Þjónustan snýst um að veita börnunum öruggt skjól til þess að kynnast kynvitund sinni. Áhersla er á að efla geðheilsu hópsins og styrkja sjálfsmyndina auk þess sem sálfélagslegri meðferð er sinnt.

Venjulegt fólk gengur að meðvitund sinni vísri og þarf hvorki sérrými né aðstoð geðlæknis. Það er ekki til neitt sem heitir ,,frumuvitund" þótt líkaminn sé gerður úr frumum. Hugtakið ,,kynvitund" er úr transfræðum og er merkingarlaust, alveg eins og ,,frumuvitund."

En meðvitund hafa allir. Þeir sem glíma við ranghugmyndir á alvarlegu stigi þurfa geðhjálp, líkt og Alma útskýrir. Markmiðið, segir ráðherra, er að ,,styrkja sjálfsmyndina."

Milljón króna spurningin er þessi: hvaða sjálfsmynd er styrkt?

Er það ranghugmyndin að hægt sé að fæðast í röngum líkama?

Er það ranghugmyndin að til séu fleiri en tvö kyn?

Eða er sjúklingum kennt að sé líkaminn í lagi þá er eitthvað í ólagi með meðvitundina sem hafnar líkama sínum?

Hugtakið ,,sjálfsmynd" er miðlægt. Allir hafa sjálfsmynd en enginn getur útskýrt sína sjálfsmynd til hlítar. Einfaldlega vegna þess að myndin af sjálfinu er aldrei fastmótuð í eitt skipti fyrir öll. Sjálfsmynd breytist og þróast með þroska. Enginn hefur sömu sjálfsmynd fimm ára, tvítugur og sextugur.

Líkami og hugsun er ekki sami hluturinn (hjákátlegt að þurfa taka þetta fram). Líkami er efnislegur en hugsun óefnisleg. Maður getur hugsað sig þetta og hitt, t.d. að vera flinkari í fótbolta en Ronaldo og Messi til samans, en veit innra með sér að það er þvættingur. Dagdraumar eru hluti af sjálfinu. Allur þorri manna kann skilin á milli dagdrauma og reyndar. 

Ef sjálfsmynd er verulega á skjön við líkama meðvitundarinnar þarf einstaklingurinn geðhjálp. Ekki skurðaðgerð til að fjarlæga heilbrigða líkamshluta sem ranghugmynd meðvitundarinnar hafnar. Meðferðin á að beinast að meðvitundinni ekki heilbrigðum líkama. 

Alma ráðherra og fyrrum landlæknir gefur frá sér læknisfræði og dómgreind þegar hún skrifar að sumir

upplifa misræmi milli kynvitundar og þess kyns sem þeim var úthlutað við fæðingu.

Úthlutun á kyni fer ekki fram við fæðingu. Ekki frekar en að lífi sé úthlutað við fæðingu. Barn einfaldlega fæðist og er af öðru hvoru kyninu, meybarn eða sveinbarn. Ekkert barn fæðist af seytjánda kyni eða fertugasta. Í algjörum undantekningatilfellum er nýburi með óræð kyneinkenni. Alveg eins og fáeinir nýburar eru með hryggskekkju eða önnur líffræðileg frávik. En við tölum ekki um hryggskekkjukynið.

Óviðkunnanlegt, svo ekki sé meira sagt, er þegar yfirvald eins og ráðherra talar um ,,úthlutun" kyns við fæðingu. Sjúkrahús eru ríkisrekin hér á landi og flestar fæðingar eru á sjúkrastofnunum. Alma lætur að því liggja að ríkið ,,úthluti" kyni þegar nýburi kemur í heiminn. Nei, Alma, ríkið úthlutar kennitölum en ekki kyni. Náttúran þarf ekki aðstoð íslenska ríkisins. Heilbrigðisráðherra mun skilja enska tungu, ólíkt sumum meðráðherrum. Líffræðingurinn Richard Dawkins útskýrir á hversdagsensku muninn á karlkyni og kvenkyni í náttúrunni, sem virðist fyrrum landlækni ráðgáta.

Í lok greinar sinnar á Vísi viðurkennir Alma að hún er sem stjórnmálamaður fangi transhugmyndafræðinnar. Hún skrifar:

Kæra trans fólk. Standið keik. Við í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stöndum með ykkur.

Þarna talar pólitíkus en hvorki læknir né einstaklingur með dómgreindina óskerta. Alma segir í upphafi greinarinnar að transfólk þurfi víðtæka geðhjálp vegna ranghugmynda um lífsins grunnsannindi. Í lok greinar er transið orðið heilbrigðið uppmálað og eftirsóknarvert eftir því. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef trans er heilbrigt ástand þarf enga geðhjálp. En Alma ráðherra segir að transið þurfi geðheilbrigðisteymi til að halda utan um ástand sitt. Transfólk getur ekki staðið ,,keikt" á eigin fótum. Transið þarf víðtæka heilbrigðisþjónustu enda í lífsnauð sökum ranghugmynda.

Kyndugt er að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, heilbrigðisráðherra í ofanálag, lýsi opinberalega yfir að stefnan sé að fjölga þeim landsmönnum sem þurfa á langvinnri geðlæknaþjónustu að halda. Alma og ríkisstjórnin senda Samtökin 78 í leik- og grunnskóla landsins til að segja saklausum börnum að þau séu í röngum líkama. Afleiðingin er að sum börn útskrifist úr skóla inn á transdeild Landsspítalans. Er til ljótari uppeldisfræði? 

 

 


Drápið á Kirk og höfuð Þorgerðar Katrínar á stjaka

Eftir launmorðið á Charlie Kirk urðu engar óeirðir í bandarískum eða evrópskum stórborgum. Keppnislið í íþróttum krjúpa ekki á kné til að votta Kirk virðingu sína. Fyrir fimm árum var George Floyd drepinn i handtöku lögreglunnar í Minneapolis. Bylgja óeirða og ofbeldis reis í kjölfarið. Um víðan heim varð drápið á Floyd tilefni til óláta og andstyggðar.

Morðið á Kirk var pólitískt. Drápið á Floyd hafði ekkert með stjórnmál að gera. En það var gert pólitískt af vinstriöflum. 

Ólæti og andstyggð er sérgrein vinstrimanna. Á Austurvelli voru fyrir viku mótmæli til stuðnings Hamas-hryðjuverkasamtökunum er stjórna Gasa og frömdu fjöldamorð í Ísrael 7. október fyrir tveim árum. Í mótmælunum var á stjaka myndgert blóðugt höfuð Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra. Myndlíkingin er beint upp úr handbók Hamas sem eiga góða fólkið á Íslandi að bestu vinum.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og flokksbróðir Þorgerðar Katrínar spyr i pistli hvers vegna þögn ríki um myrka myndverkið af höfði Þorgerðar Katrínar á stjaka. ,,Og Ríkisútvarpið spyr ekki," segir klumsa Þorsteinn.

RÚV er í þögulli afneitun vegna þess að Efstaleiti er í liði góða fólksins, rétt eins og Þorsteinn sjálfur og flokkurinn hans og Þorgerðar Katrínar, Viðreisn.

Góða fólkið, yfirleitt allt vinstrimenn, trúir að það hafi heilagan rétt til vandlætingar. Það hefur trúarlega sannfærinu um siðferðilega yfirburði. Þótt vandlætingin nái stigi viðbjóðs, morðið á Kirk og myndgert höfuð Þorgerðar Katrínar á stjaka, æmtir hvorki né skræmtir góða vinstrifólkið. Sumir, jafnvel, ganga svo langt að bera blak af óhæfunni, þótt flestir fela sig í þögninni.

Innan raða góða fólksins eru tveir hópar. Minnihlutinn, tilfallandi vill trúa lítill minnihluti, er ofstækisfólk sem á bágt andlega og sumt alvarlega veikt á geði. Stór meirihluti góða fólksins er safn af hugleysingjum með þörf fyrir vandlætingarfróun. Meirihlutinn lætur geðtæpa ofstækið, bæði innlent og aðkomið, ráða ferðinni.

Lítið dæmi um hugleysi góða fólksins er Egill Helgason. Eins og nærri má geta varð Snorra Mássyni þingmanni Miðflokksins hverft við morðinu á Charlie Kirk. Nýverið varð Snorri fyrir aðsúgi góða fólksins þegar hann sagði kynin aðeins tvö og ekki væri hægt að fæðast í röngum líkama. Snorri skrifaði færslu, sagði morðið á Kirk ,,svartan dag fyrir málfrelsi á vesturlöndum." Egill Helgason, RÚV-ari í áratugi, getur ekki á sér setið og fyllist vandlætingu gagnvart Snorra:

Játa að ég skil ekki þessa færslu hjá íslenskum alþingismanni. Við búum á Íslandi þar sem stjórnmál eru allt öðruvísi en í Bandaríkjunum. Við leyfum heldur ekki almenningi að ganga um með byssur. MAGA er okkur framandi hugmyndafræði. Hverju eigum við þá að verjast?

Egill transar sig yfir í valkvæða heimsku þegar hann þykist ekkert skilja samhengið. Öll transhugmyndafræðin á Íslandi er innflutt, mest frá Bandaríkjunum. Tilburðir hinsegin góða fólksins, með aðstoð íslensku lögreglunnar, að hefta málfrelsið hér á landi á sér fyrirmynd í Bretlandi. Stundum þykist Egill heimsborgari, vill Ísland í ESB, en á öðrum tíma sýgur hann þumalinn í hugmyndafræðilegri fósturstellingu og veit bara alls ekkert hvað gerist utan móðurkviðar.

Egill, líkt og RÚV, þegir um blóðugt höfuð Þorgerðar Katrínar á stjaka. Egill styggir ekki geðtæpa ofstækisliðið. Huglausi velmegunarvinstrimaðurinn velur sér viðfangsefni og vanskilning í samræmi við hjarðeðlið. Ofstækisliðið myrðir og setur konuhöfuð á stjaka. Egill vandlætari strýkur þeim geðtæpu meðhárs og er sakleysið uppmálað. 


mbl.is Maðurinn sem vildi samræður drepinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimska og hatur vinstrimanna

Útgefandi þýska fjölmiðilsins Die Welt Ulf Poschardt, skrifar dánarfregn Charlie Kirk. Hann segir óvíst hver framdi morðið en vekur athygli á hverjir það eru sem ýmist fagna ódæðinu eða hafa það í flimtingum. Poschardt ritar

Sömu menningarkimar vinstrimanna í Bandaríkjunum og Þýskalandi láta sér vel líka morðið og hæðast að Charlie Kirk. Andspænis algjöru hruni vinstristjórnmála og andspænis æ minni borgaralegri þolinmæði gagnvart fáránlegum vinstrihugmyndum sjá vinstrimenn þann gamalkunna kost einan í töpuðu menningarstríði að lofsyngja ofbeldið.

Heimskir vinstrimenn tóku upp á arma sína hinseginfræði sem kenna að hægt sé að fæðast í röngum líkama og hafna að kynin séu tvö. Móðursýkin sem brýst út þegar veruleikafirringunni er andmælt er ekki bundin við bandaríska vinstrimenn. Tilfallandi fjallaði um eitt hysteríukastið í byrjun árs:

Í tilefni af forsetatilskipun Trump senda heildarsamtök launþega á Íslandi, Kennarasamband Íslands meðtalið, frá sér yfirlýsingu, að áeggjan Samtakanna 78. Fyrsta málsgreinin:

Heildarsamtök launafólks taka undir kröfu Samtakanna 78 um að íslensk stjórnvöld fordæmi tilskipun Bandaríkjaforseta um tvö kyn.

Djúpheimskan í yfirlýsingunni afhjúpast með einni spurningu. Ef kynin eru fleiri en tvö, hvað eru þau þá mörg? Hvorki Kennarasambandið né forysta annarra launþegasamtaka og heldur ekki Samtökin 78 geta svarað barnslega einfaldri spurningu. Hvað eru kynin mörg? En samt eru mannréttindi í húfi þegar forseti Bandaríkjanna staðfestir óyggjandi sannindi. Ranghugmyndir, ekki frekar en hugmyndir almennt, eiga mannréttindi. Maðurinn á mannréttindi og hann er aðeins til í tveim kynjum.

Í sama bloggi er rifjað upp að heimska er iðulega undanfari haturs:

Dietrich Bonhoeffer, andæfði helstjórn nasista í Þýskalandi fyrir miðja síðustu öld og galt með lífi sínu. Bonhoeffer sagði heimsku verri en illsku. Heilbrigður einstaklingur þekkir illskuna fyrir það sem hún er. Heimskan er lævísari. Hún sýnist þrungin viti fái hún nægilega marga ábekinga. Fólk hefur samúð með smælingjum á klafa ranghugmynda. Aumingjagæsku er umbreytt í fylgisspekt við vitfirringuna. Samlandi Bonhoeffer og samtíðarmaður, Göbbels, kenndi að endurtekin fáviska verður sannleikur, séu nógu margir um endurtekninguna. Eðjótin fengu byr í seglin á lýðnetinu. Ranghugmyndir urðu viðtekin sannindi í stafrænni síbylju.

Þeir sem fagna morðinu á Charlie Kirk staðfesta samhengið milli fávisku og haturs. Vinstrimenn, sem eitthvað hafa á milli eyrnanna, ættu að ígrunda málefnastöðuna. Fábjánum í Framsókn er ekki viðbjargandi. 

 

 


mbl.is „Svartur dagur fyrir málfrelsi á Vesturlöndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðræða og byssukúlur

Víetnamstríðið og launmorð Kennedy-bræðra og Martin Luther King skilgreindu sjöunda áratug síðustu aldar. Bandaríkin voru siðferðilega og menningarlega klofin í herðar niður, nægir þar að nefna mannréttindabaráttu þeldökkra. Í Vestur-Evrópu verða til alræmdir hryðjuverkahópar, Baader-Meinhof í Þýskalandi og Rauðu herdeildirnar á Ítalíu.

Óreiðan kennd við hippakynslóðina tók sinn toll en þjóðríki riðuðu ekki til falls. Meginástæðan var að vesturlönd höfðu víti til að varast, kommúnistaríkin í austri. Við upphaf þess tíunda virtist hrun kommúnismans boða fagra nýja veröld, lausa undan stríðsógnum og þjóðfélagsupplausn.

Í dag geisar mesta stríð í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, á blóðvöllum Úkraínu. Viðsjár eru meiri í miðausturlöndum en í langan tíma. Óformleg borgarastyrjöld er í ríkjum Vestur-Evrópu þar sem takast á innfæddir og aðfluttir frá löndum spámannsins. Í Bandaríkjunum ríkir menningarstríð milli arftaka hippakynslóðarinnar, sem vita ekki hvað kyn er og halda loftslagið manngert, og raunsæismanna er kunna sæmileg skil á gangverki mannlífs og samfélags.

Raunsæismaðurinn Charlie Kirk var skotinn til bana í gær þar sem hann talaði í háskólabæ. Opnir fundir í bandarískum háskólum um málefni líðandi stundar eru rík menningarhefð þar vestra. Fyrirlesarar tefla fram sínum sjónarmiðum og fá spurningar og andsvör. Þekktir frummælendur, líkt og Kirk, sópa til sín áheyrendum, bæði stuðningsmönnum og andmælendum. Í gær voru mótrökin byssukúla launmorðingja.

Laundráp Kennedy-bræðra og King settu mark sitt á þróun bandarískra stjórnmála. Charlie Kirk var ekki á stalli með þeim bræðrum og mannréttindafrömuði þeldökkra. En hann var áberandi talsmaður raunsæismanna í bandarískum stjórnmálum. Hvort sem ódæðismaður kemst undir manna hendur eða ekki verður litið á launmorðið sem verk óreiðuafla.

Óreiðuöflin krefja aðra um umburðalyndi fyrir ólíkum skoðunum og lífsviðhorfum. Hvað grynnst er þó á virðingu fyrir skoðunum annarra en einmitt hjá þeim sem telja sig hafa höndlað sannleikann. Charlie Kirk gerði ekki annað af sér en setja fram skoðanir og sjónarmið í opinberri umræðu. Menn velja hvort þeir hlýði á eða afþakki pent. Þannig eiga hlutirnir að ganga fyrir sig í siðaðra manna samfélagi.

Menning okkar virðist í hamskiptum. Vinstrið, sem í kalda stríðinu talaði oftar fyrir friði en ofbeldi, er herskátt og heimtar blóð, bæði á heimavígstöðvum og fjarlægri heljarslóð. Þegar fækkar í röðum friðflytjenda fjarlægjast málefnin orðræðuna en nálgast með opinn faðminn ofbeldið. Nú er ekkert járntjald sem aðgreinir lífvænlega samfélagshætti frá þeim sem bera feigðina í sér. Innanmeinin i vestrinu eru komin á hættulegt stig.

Orð lifa af byssukúlur. Samfélag ofbeldis liðast í sundur.

 

 

 


mbl.is Charlie Kirk látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn gegn málfrelsi, Halla daðrar við ofstæki

Í vor tók stjórnarmeirihlutinn málfrelsið af alþingismönnum, beitti ákvæði í þingskaparlögum sem ekki hefur virkjað í meira en hálfa öld. Í vor var bloggara stefnt fyrir dóm af lögreglunni í Reykjavík fyrir hugsanaglæp, að gagnrýna transhugmyndafræðina. Í sumar var málfrelsið tekið af gyðingi sem fékk boð um að flytja fyrirlestur um gervigreind í Háskóla Íslands en var hrópaður niður.

Málfrelsið er ekki lengur sjálfsagt. Jafnvel blaðamenn, sem ættu að hafa það i hávegum, stefna bloggara fyrir dóm fyrir frásögn sem blaðamenn vildu ekki að yrði sögð.

Tilvikin, sem rakin eru hér að ofan, er öll með þeim einkennum að það eru vinstrimenn sem taka, eða reyna að taka, málfrelsið af þeim sem eru á öndverðum meiði.

Sögulega, frá 19du öld og fram á 21stu, voru vinstrimenn hvað ákafastir í vörn og sókn fyrir málfrelsið. Svo lítið dæmi nýlegt sé tekið voru það vinstrimenn á alþingi sem beittu sér fyrir afnámi lagaákvæðis er bannaði guðlast.

Núna eru það vinstrimenn sem krefjast að tilteknar skoðanir séu bannaðar. Samtökin 78, dæmigert lífsskoðunarfélag vinstrimanna, eru í samstarfi við lögreglu um að finna sem flest dæmi um ,,hugsanlega" hugsanaglæpi. Samtökin búa til tölfræði með kærum til lögreglu. Samstarfið er gagngert hugsað til að réttlæta strangari löggjöf um hvað má segja og hvað ekki um tiltekinn málaflokk, transhugmyndafræðina.

Hvers vegna eru vinstrimenn í fararbroddi fyrir takmörkun á málfrelsi?

Nærtæk skýring er að vinstrimenn skynja síðustu ár að dæmigerð málefni vinstrimanna standa höllum fæti í umræðunni. Svarið er kæfa umræðuna, banna óæskilegar skoðanir.

Málfrelsi og hugsanafrelsi eru tvær hliðar á sömu myntinni. Ef samfélag bannar sjónarmið og skoðanir er einstaklingum gert ómögulegt að láta í ljós hugsanir sínar með tjáningu. Frjálsum borgunum er gert að loka inn í skáp meðvitundarinnar hugsanir sínar.

Ekki er hægt að tala um lýðræðisríki þegar borgarar sæta verulegum hömlum að tjá hug sinn.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands er á hálum ís þegar hún gefur til kynna að málfrelsi og lýðræði séu andstæður, með orðunum að finna þurfi leið til ,,að tryggja í senn málfrelsi og framgang lýðræðisins." Forseta til afsökunar er hann að ræða málfrelsið í samhengi við málþóf á alþingi. Málþóf er teygjanlegra og loðnara hugtak en málfrelsi. Ítarleg útskýring eins er annars málþóf.

Óhugsandi er að lýðræði ,,fái framgang" þegar borgararnir búa við skert málfrelsi. Önnur stjórnmálaöfl en þau sem kennd eru við lýðræði þrífast ekki án ritskoðunar. Lýðræði lifir af málþóf, fasismi leyfir ekki málfrelsi.

Málfrelsi er vörn gegn hugmyndum sem standast ekki skoðun. Firrur þrífast best i þögninni.

Atlaga vinstrimanna að málfrelsinu, á þingi og í samfélaginu, er skýrt merki um að það fjarar undan vinstripólitík. Sögulega eru takmarkanir á málfrelsi settar af þeim sem fara með formleg völd en skortir traust og tiltrú almennings. Valdhafar sem stjórna með ugg og ótta eru á flótta. 


mbl.is Orð forsetanna við þingsetningu vekja undrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband