Laugardagur, 10. janúar 2015
ASÍ ekki lengur launalögga
ASÍ er ekki lengur launalögga landsins og ætlar ekki að vera með samráð við gerð kjarasamninga, samkvæmt frétt RÚV.
ASí varð siðferðilega gjaldþrota sem launalögga þegar verkalýðshreyfingin gat ekki nýtt sér eignarhaldið á stærstu fyrirtækjum landsins, í gegnum lífeyrissjóði, til að kortleggja launaskrið forstjóranna.
Ef ASÍ getur ekki einu sinni haldið til haga launaþróun forstjóra og millistjórnenda fyrirtækja í eigu verkalýðshreyfingarinnar er vitanlega tómt mál að tala um áhrifavald ASÍ yfir öðrum launþegum.
Niðurstaða ASÍ um að ekki verði samflot í kjarasamningum felur í sér viðurkenningu á staðreynd sem blasir við öllum nema skrifstofuliði ASÍ: atvinnulífið á Íslandi er ekki sovétvætt, rekið fyrir einn reikning. Fyrirtæki og starfsgreinar standa misjafnlega. Í samningasamfloti næst aldrei meiri árangur en afkoma veikustu fyrirtækjanna leyfir.
Við núverandi kringumstæður þegar nánast ekkert atvinnuleysi er, þökk sé krónunni og ríkisstjórninni, eru launþegar í sterkri stöðu gagnvart atvinnurekendum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 10. janúar 2015
Trú, vald og tilgangur lífsins
,,Sameinuð án ofbeldis gegn trúarstríði á þýskri grundu," segir borði PEGIDA-hreyfingarinnar í Þýskalandi sem mótmælir múslimavæðingu vesturlanda. Trúarstríð er Þjóðverjum viðkvæmt.
Langvinnasta stríð árnýaldar var þrjátíu ára stríðið 1618 til 1648 sem að mestu var háð á þýskri grundu og skildi landið eftir í rjúkandi rúst. Þegar friður var loks saminn í Vestfalíu urðu málsaðilar, sem voru flest ríki á meginlandi Evrópu, að rifja upp hvers vegna stríðið hófst, eins og C.V. Wedgwood rekur í sígildri bók.
Á yfirborðinu var 30 ára stríðið á milli kaþólikka og mótmælenda, sem sagt trúarbragðastríð. En trúin var mest yfirskin fyrir valdabaráttu konunga og fursta í einn stað og bænda og borgara í annan stað.
Trú er einnig yfirskin fyrir þá baráttu sem stendur yfir í Evrópu nú á dögum milli ólíkra menningarhópa, þeirra evrópsku veraldlegu og hinn múslímsku trúuðu.
Þeir evrópsku veraldlegu eru til muna fjölmennari en þeir eru líka fjölskrúðugari hópur en hinir múslímsku trúuðu, sem eru færri og fátækari en einsleitnari.
Einsleitni múslíma kemur fram í hve miklum mæli þeir líta á trú sína sem leiðsögn í daglegu lífi. Pew Resaarch dregur fram á yfirvegaðan hátt hve trúin er miðlæg í múslímskum samfélögum.
Vestræn samfélög eru veraldleg og aðskilja trú, sem er einkamál hvers og eins, og stjórnsýslu sem er opinber og trúlaus.
Þjóðríki, þar sem múslímar eru í meirihluta, skrifa ekki upp á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna heldur hafa með sér sérstaka mannréttindaskrá, Kairó-yfirlýsinguna, sem byggir á trúarriti múslíma, Kóraninum.
Kairó-yfirlýsingin viðurkennir ekki jafnrétti kynjanna, konan er sett skör lægra en karlinn.
Þótt allur meginþorri múslíma sé friðsamur og lætur sér vel líka veraldlegt forræði opinberra mála á vesturlöndum þá stingur sú skipan mála í stúf við grunnstef múslímskrar trúar, um miðlægni trúarinnar í daglegu lífi.
Evrópumönnum er nú orðið framandi að trúin geymir ekki aðeins leiðsögn um hversdaglega háttsemi heldur skilgreinir hún tilgang lífsins. Þar er staðfest hyldýpi milli vestrænna gilda og múslímskra.
Múslímsk samfélög á vesturlöndum hljóta alltaf að vera uppspretta manna sem beita fyrir sig trúarsannfæringu til að leiðrétta hlut sinn í samfélaginu með ofbeldi og jafnvel finna sér lífstilgang í leiðinni. Öfgamennirnir eru fáir en söfnuðurinn á bakvið þá er fjölmennur.
![]() |
Al-Qaeda hótar fleiri árásum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. janúar 2015
Vinstrimenn í vanda með skjól guðs og homma
Viðbrögð íslenskra vinstrimanna við Parísaródæðum eru undarleg. Egill Helgason gaf þeirri skoðun vængi að dauður lagabókstafur á Íslandi um guðlast væri á einhvern hátt skyldur fjöldamorðum í París.
Samkvæmt Agli sýndi Ísland samstöðu með þeim myrtu af við felldum dauða bókstafinn úr gildi.
RÚV, sem er næmt á vinstristrauma þjóðfélagsins, flytur fréttir í kvöld sem setja vinstrimenn í klemmu. Það kemur á daginn, segir RÚV, að lög á Íslandi verja ekki aðeins guð við lasti, háði og spotti heldur líka homma.
Næstu daga munu vinstrimenn á Íslandi reyna að greiða úr þeim vanda sem blasir við þegar guð og hommar njóta hvorir tveggja skjóls í lögum lýðveldisins. Verði gefið út sérstakt skotleyfi á guð, í nafni samstöðu við tjáningarfrelsið, verða vinstrimenn berir að hræsni. Og taki vinstrimenn vörnina sem hommar njóta í lögum verður spurt hvort vinstrimenn séu haldnir hómófóbíu.
Sér grefur sér gröf þótt grafi.
![]() |
Lög gegn guðlasti hættuleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. janúar 2015
Þorvaldur, lýðræðið og mistök Jóhönnustjórnarinnar
Til að bylta stjórnskipun lýðveldisins og koma á róttækum breytingum á íslensku samfélagi átti ríkisstjórn vinstrimanna, Jóhönnustjórnin, að reka embættismenn og setja inn nýtt fólk í stjórnkerfið.
Á þessa leið gagnrýnir Þorvaldur Gylfason prófessor Jóhönnustjórnina 2009-2013 og segir:
Hér er kominn hluti skýringarinnar á því, hvers vegna gamlir hrundólgar og vinir þeirra gera sig æ breiðari á Íslandi sex árum eftir hrun bæði í stjórnmálum og viðskiptum og þykjast geta haft þjóðina undir í hverju málinu á eftir öðru og trampað á lýðræðinu.
Afstaða þjóðarinnar til Jóhönnustjórnarinnar kom fram í kosningunum 2013, þegar Samfylkingin fékk 12,9 prósent fylgi og Vg tveim prósentum minna, 10,9%.
Ef Jóhönnustjórnin hefði farið að ráðum Þorvaldar, skipað sitt fólk í helstu embættin, bæði í innanríkisráðuneytinu, í lögreglunni og í dómstólum og á öðrum valdsviðum þá hefðu kosningarnar vorið 2013 eflaust farið á annan veg - ef þær hefðu á annað borð verið haldnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 9. janúar 2015
Heimskan sigrar á Íslandi
Hvergi nema á Íslandi er umræðan um ódæði múslímskra öfgamanna í París tengt úreltum lögum um guðlast, líkt og Egill Helgason gerir.
Ódæðið í París var fjöldamorð í nafni trúar, lög um guðlast á Íslandi gera engum mein.
Ódæðið í París dregur þá staðreynd fram að milljónir múslíma vilja að trúarsetningar þeirra, t.d. um að bannað sé að hafa spámanninn að háði og spotti, njóti forgangs umfram vestræn mannréttindi eins og tjáningarfrelsið.
Á Íslandi er engin þjóðfélagshreyfing fyrir því að lögum um guðlast sé beitt gegn þeim sem gagnrýna eða deila á guð - þann kristna eða aðra guði.
Lögin um guðlast eru svo gott sem dauður bókstafur. Og nokkur munur er á dauðum bókstaf og dauðu fólki.
![]() |
Heimskan mun ekki hafa sigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 8. janúar 2015
Peningar úr þyrlu til bjargar evru?
Evru-svæðið er frosið í verðhjöðnun og stórfelldu atvinnuleysi. Eina leiðin til að gangsetja efnahagskerf evru-ríkjanna 19 er að dreifa peningunum til almennings, ef ekki úr þyrlu af himnum ofan þá með því að senda hverjum og einum íbúa svæðisins ávísun upp á 500 til 3000 evrur (um 77 þús til 460 þús.ísl. krónur).
Nei, ekki er ekki vísindaskáldsaga heldur endursögn úr frétt Der Spiegel þar sem fjallað er um ógöngur evru-svæðisins. Peningagjafir til almennings eiga að koma efnahagskerfinu í gang þegar fullreynt er að bankakerfi evru-svæðisins er láni peninga, jafnvel þótt þeir fáist á núllvöxtum frá seðlabank evrunnar í Frankfurt.
Hugmyndin um peninga úr þyrlu er ættuð frá bandaríska frjálshyggjumanninum Milton Friedman. Þegar tæknikratar í Brussel og Frankfurt daðra við hagpólitík Friedman er öllum ljóst að evru-samstarfið er komið að fótum fram.
![]() |
43,9% ítalskra ungmenna án vinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 8. janúar 2015
Barnakennarinn og sögukennarinn
Ragnar Þór Pétursson flæmdist úr starfi sem barnakennari. Að hans eigin sögn var ástæðan sú að hann hafði rangar skoðanir á þjóðfélagsmálum og birti þær opinberlega.
Það fer ekki vel á því að maður með ferilsskrá Ragnars Þórs vegi að starfsheiðri annarra kennara vegna þess að þeir hafa í frammi skoðanir sem Ragnari Þór þóknast ekki.
Í einkaveröld Ragnars Þórs er það kannski svo að burtflæmdur barnakennari sé þess umkominn að dæma aðra kennara óverðuga. Einkaveröld Ragnars Þórs er vitanlega hans einkamál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 8. janúar 2015
Kjarasamningar lækna og jólabónus Samherja
Læknar eru opinberir starfsmenn í kerfi sem ekki stendur til að breyta, t.d. með einkavæðingu. Í krafti verkfalla og umræðu í samfélaginu náðu læknar fram kjarabótum umfram aðra launþega.
Kjarasamningar lækna geta ekki orðið fyrirmynd annarra einfaldlega vegna þess að fæstir aðrir eru í sömu stöðu og læknar.
Ekki frekar en að jólabónus starfsfólks Samherja geti orðið fyrirmynd annarra.
![]() |
Geti ekki orðið fyrirmynd annarra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. janúar 2015
Jón Gnarr er Ástþór án tómatsósu
Jón Gnarr forsetaframbjóðandi á það sameiginlegt með öðum valinkunnum forsetaframbjóðanda, Ástþóri Magnússyni, að sjá viðskipti í friðarhjali.
Ástþór stofnaði Frið 2000-samtökin á síðustu öld þar sem pólitík og krónum og aurum var hrært í pott í von um gróða. Á nýrri öld boðaði Ástþór herta baráttu gegn hryðjuverkum, vitanlega þó með friði.
Jón Gnarr getur þó tæplega lengi verið Ástþór án tómatsósu. Við bíðum spennt.
![]() |
Það er bissness í friði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. janúar 2015
Múslímar afhjúpa mótsögn okkar
Veraldlegt samfélag, þ.e. samfélag þar sem trúin er einkamál hvers og eins, líkt og tíðkast á vesturlöndum, fær ekki staðist án tjáningarfrelsis.
Án tjáningarfrelsis væru önnur mannréttindi einskins virði. Eina leiðin til að komast að niðurstöðu um mannréttindi í veraldlegu samfélagi er með opinberri umræðu.
Tjáningarfrelsi felur í sér að einstaklingurinn ber ábyrgð á orðum sínum fyrir veraldlegum lögum og dómstólum. Háð og ádeila eru ómissandi þáttur í orðræðunni sem er undirstaða veraldlega samfélagsins.
Múslímar skilja ekki háð og ádeilu enda vestrænt lýðræði framandi þorra þeirra.
Að ímynda sér, eins og fjölmenningarsinnar gera margir, að múslímasamfélag fái þrifist í vestrænu samfélagi er beinlínis rökleg mótsögn.
Blóðbaðið í París skerpir á þeirri bláköldu staðreynd múslímatrú, eins og hún er skilin og iðkuð af ótölulegum fjölda, er ósamrýmanleg veraldlegu samfélagi.
Það sem verra er: veraldlegt samfélag getur ekki bannað tiltekna trú. Slíkt bann er í algerri mótsögn við þau gildi sem veraldlegt samfélag stendur fyrir.
Afturhvarf frá veraldlegu samfélagi, t.d. í átt að kristinni bókstafstrú, er ekki raunhæfur valkostur. Trúarsannfæring sprettur ekki upp úr valdatafli veraldarhyggju og öfgatrúar.
Bjargir veraldlega samfélagins eru fáar. Nema, vel að merkja, þegar veraldlega samfélagið er rekið innan þjóðríkis, líkt og á Íslandi, þar sem fullvalda samfélag tekur ákvörðun um hvort og á hvaða forsendum skuli breyta samsetningu þegnanna.
![]() |
Ritstjóri og þrír teiknarar létust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)