Laugardagur, 4. júlí 2015
Lánsveð eyðilögð - unga fólkið tapar
Lánsveð, þar sem foreldrar lánuðu veð í sínum eignum til barnanna, voru eyðilögð með því að foreldrar sem áttu óskilvís börn lögðust upp á ríkisvaldið og heimtuðu að almannafé yrði notað til að skera foreldrana úr snörunni.
Afleiðingin er sú að lánsveð eru bönnuð og þar með takmarkast möguleikar ungs fólks á lánum til að fjármagna íbúðarkaup.
Og blessuð börnin sitja áfram heima á hótel mömmu og djúpvasa pabba.
![]() |
Tæplega 40% búa enn heima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 4. júlí 2015
ESB sem hryðjuverkasamtök - stúdentapólitík Grikkja
Varoufakis fjármálaráðherra Grikkja segir Evrópusambandið starfa eins og hryðjuverkasamtök sem breiði út ótta til að fá hótunum sínum framgengt. Tsipras forsætisráðherra talar í sömu átt, að láta ekki kúga sig til hlýðni.
Þeir félagar biðja Grikki um að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun. Nei, segja Varoufakis og Tsipras, mun fela í sér að Grikkir fái betri samninga við lánadrottna sína í ESB.
Harla ólíklegt er að félögunum verði að ósk sinni. Fyrir það fyrsta verður mjótt á milli nei- og já-fylkinga, sem þýðir að þjóðarumboðið verður veikt, þótt nei-ið yrði ofan á. Í öðru lagi eru engar líkur á að ESB veiti Grikkjum betri kjör en stóðu til boða fyrir þjóðaratkvæði. Ef ESB léti slíkt eftir Grikkjum væri það ávísun á auknar kröfur annarra ríkja í efnahagsvanda.
Der Spiegel reynir að greina þann efnahagspólitíska ágreining sem er á milli Grikkja annars vegar og hins vegar ESB og Þjóðverja. Spiegel kemst ekki lengra en að segja Þjóðverja hlynnta efnahagsrökum hagsýnu húsmóðurinnar, Merkel, að eyða ekki um efni fram. Grikkir séu á bandi hagfræðingsins Keyns sem kenndi um miðja síðustu öld að leiðin út úr kreppu væri að auka ríkisútgjöld til að snúa hjólum atvinnulífsins í gang.
Vandinn er sá að Grikkir geta ekki aukið ríkisútgjöld nema með lánum frá ESB. Og skuldir Grikkja eru núna um 175% af þjóðarframleiðslu sem þýðir að þeir munu aldrei borgar skuldirnar - og enn síður ný lán.
Til að Grikkland vinni sig úr vandanum verður að gera róttækar breytingar á efnahags- og félagskerfi landsins. Slíkar breytingar verða ekki gerðar nema með ríkisstjórn sem sannfærð er um nauðsyn þeirra. Kenneth Rogoff, fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, ráðleggur Grikkjum að þiggja fremur aðstoð á grunni mannúðar fremur en á forsendum efnahagsstefnu sem þeir þegar eru búnir að hafna.
Jeremy Warner á Telegraph er ekki eins diplómatískur og Rogoff. Eini möguleiki Grikkja er að fara úr evrunni, segir hann. Þar með gæti landið orðið samkeppnishæft á ný, þ.e. með nýjum gjaldmiðli. Warner segir Grikki geta gleymt því að stúdentapólitík Varoufakis og Tsipras skili nokkru öðru en eymd og volæði - enda henti hún ekki raunheimi.
Þegar kurlin koma öll til grafar verður ljóst að evran hentar ekki efnahagslegum raunheimi. Og það þurfti stúdentapólitík Grikkja til að sýna fram á það.
![]() |
Sakar lánardrottna um hryðjuverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. júlí 2015
Stofnfélagi Samfykingar varar við samfófasisma
Samfófasisma má skilgreina svona:
Því miður gerist það þó enn að hugsanalöggur, sem þjást af æðrimáttarkennd, grípa til frumstæðra valdbeitinga og níðast á athöfnum þeirra, sem hafa ekki »rétta« skoðun. Þær telja sig óskeikular. Það fylgir æðrimáttarkenndinni.
Stofnfélagi í Samfylkingunni, Birgir Dýrfjörð, er höfundur textans hér að ofan. Tilvitnunin er tekin úr grein í Morgunblaðinu í dag þar sem Birgir átelur vinstrimenn fyrir fasískar aðferðir við að leysa upp fundi þar sem höfð eru frammi sjónarmið sem hugsanalöggum er ekki að skapi.
Birgir nefnir nokkur dæmi um samfófasisma, án þess að nota það orð, t.d. árásir á biskup Íslands vegna þess að hann ávarpaði kristna samkomu sem ekki var hlynnt samkynhneigð og upphlaupið 17. júni sl. á Austurvelli þegar hróp voru gerð að minningu Jóns Sigurðssonar.
Samfófasismi er ein af ljótari staðreyndum íslenskra stjórnmála.
Föstudagur, 3. júlí 2015
Þjóðaratkvæði eyðileggur þjóð og skemmir lýðræði
Grikkir fá eftirfarandi niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag:
í fyrsta lagi verður þjóðin klofin í herðar niður, já- og nei-sinna.
í öðru lagi verður Grikkland útmálað sem ruslríki án starfhæfrar ríkisstjórnar.
Alþjóðasamfélagið horfir skelfingu á lýðræðinu misþyrmt af vanhæfri ríkisstjórn þjóðar sem svindlaði sig inn í gjaldmiðlasamstarf og situr uppi með tvo ömurlega kosti, að lifa við evru-kreppu næstu áratugina eða leggja út á ókunn djúpmið með nýjum gjaldmiðli.
Grikkir kusu sér nýja ríkisstjórn í janúar til að ljúka samningum við lánadrottna sína í ESB-ríkjunum. Ríkisstjórn Alexi Tsipras var kosin í þetta eina verkefni. Hún klúðraði því stórkostlega og reynir að fela handvömmina með þjóðaratkvæðagreiðslu sem gerir illt verra.
Grikkir eiga enga vini lengur í alþjóðasamfélaginu, þótt víða sé samúð með grískum almenningi. Í vestrænum ríkjum verður hugsað með hryllingi til gríska samfélagsruglsins þar sem ríkisstjórn skipuð öfgamönnum til hægri og vinstri stráir salti í sviðna jörð.
Þegar frá líður mun þessi sorglega atburðarás stórskemma lýðræðishugsjónina. Grikkir eru vestrænir meginhöfundar að lýðræði. Að einmitt þeir höggvi að rótum lýðræðisskipulagsins sýnir kaldhæðni sögunnar.
![]() |
Nei mun ekki styrkja stöðu Grikkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 2. júlí 2015
Afþökkum grískt ábyrgðaleysi í íslenska stjórnarskrá
Á sunnudag kjósa Grikkir í þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð sína í Evrópusambandinu. Atkvæðagreiðslan er lýðræðið uppmálað - en engu að síður tómt rugl - þar sem þjóðin veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Gríska þjóðaratkvæðið er flótti stjórnmálamanna frá ábyrgð.
Ef við tækjum upp gríska aðferð til að útkljá mál væru stjórnmálamenn stikkfrí að gera hvaða vitleysu sem er í skjóli þjóðaratkvæðis. Umdeild mál væru ýmist á leið í þjóðaratkvæði eða nýkomin þaðan og á meðan ríkti stjórnleysi, líkt og í Grikklandi þessa dagana. Ábyrgðarlausir stjórnmálamenn er ekki það sem Ísland þarf á að halda.
Stjórnarskrá okkar er að stofni til frá 1874 og byggir á meginsjónarmiðum frönsku byltingarinnar um opinber völd, pólitíska ábyrgð og rétt einstaklingsins. Stjórnarskráin var endurskoðuð á síðasta áratug síðustu aldar.
Við eigum ekki að endurskoða stjórnarskrána. Hrunið sýndi okkur að íslenka stjórnskipunin virkar, jafnvel þegar stóráföll dynja yfir.
![]() |
Þátttaka skipti máli í þjóðaratkvæðagreiðslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 2. júlí 2015
Árni Páll kveður stjórnmálin
Árni Páll Árnason er of ungur til að vera fyrrverandi formaður í nýjum flokki vinstrimanna sem verður settur saman úr rústum Samfylkingar og Vg undir formennsku Katrínar Jakobsdóttur. Með haustinu rennur upp fyrir Árna Páli að hans kraftar nýtast ekki lengur.
Í Samfylkingunni er stöðug umræða um að losna við Árna Pál. Fréttablaðið dró tjöldin frá með frétt í gær og DV fylgir í kjölfarið. Skoðanakönnun sem sýnir fylgi Samfylkingar 11,4% undirstrikar að Árni Páll er svo víðs fjarri að ná vopnum sínum að fáum dettur í hug að formaðurinn sé á vetur setjandi.
Samfylkingin endurnýjaðist ekki við síðustu kosningar og enginn innanbúðar er líklegur að taka við keflinu. Málefnastaða Samfylkingar er líka með þeim hætti að flokkurinn er ónýtt vörumerki á pólitískum markaði.
Frá því fyrir hrun er Samfylkingin búin að boða ESB-aðild sem lausn á öllum vanda Íslands. Evrópusambandið er fast í kviksyndi atvinnuleysis og samdráttar og glímir við uppdráttarsýki sem kennd er við Grexit og Brexit. Engin stjórnmálahreyfing með fullu viti gerir ESB-aðild að baráttumáli. Samfylkingin getur ekki slitið sig frá ESB-málinu enda flokkurinn ekki búinn að tala um annað í þrjú kjörtímabil.
Næsti vetur er liðssafnaður fyrir kosningaveturinn 2016/2017. Þeir vinstrimenn sem enn kunna pólitík vita að síðasti sjens til að stilla upp sigurliði er á komandi vetri. Árni Páll Árnason verður tæplega í liðinu og alls ekki fyrirliði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 1. júlí 2015
Tíu aðgerðasinnar á Austurvelli - hvar er RÚV?
Tíu mótmælendur á Austurvelli og RÚV lætur ekki svo lítið að minnast á mótmælin. RÚV sem betlar til sín skylduframlög frá almenningi undir þeim formerkjum að stofnunin sinnir öryggishlutverki bregst almannahagsmunum illilega nú sem gjarnan áður.
Þegar aðeins tíu aðgerðasinnar mæta á mótmæli á Austurvelli, sem fjölmiðlar boða, þá er Ísland orðið öruggt fyrir atvinnumótmælendum. Upplausnaröflin láta undan síga, það er orðið friðsælla hér á landi.
RÚV lítur bersýnilega svo á að stofnunin eigi ekki að færa fréttir af öryggi landsmanna heldur aðeins auka á upplausn, ofstæki og hávaða með þar til gerðum fréttum þegar aðgerðasinnar véla nógu marga til mótmæla.
RÚV vinnur skipulega gegn allsherjarreglu í samfélaginu. Algerlega er út í hött að almannafé skuli fjármagna slíka starfsemi.
![]() |
Mótmælendur og túristar á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 1. júlí 2015
Rússar vefengja landamærin við ESB
Í Úkraínudeilunni standa Bandaríkin og Evrópusambandið saman að því verkefni að færa Úkraínu undir forræði ESB og Nato. Rússar telja það beina ögrun við sín öryggishagsmuni. Eystrasaltslöndin standa vel til höggs fyrir rússneskum hersveitum og það ætlar Pútín að nýta sér.
Með endurskoðun á lögmæti þess að Sovétríkin viðurkenndu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháen, fyrir 25 árum, opnar Pútín á þann möguleika að afturkalla viðurkenninguna. Þar með yrði þjóðréttarlegur vafi, a.m.k. hvað Rússland áhrærir, á stöðu Eystrasaltslandanna, sem öll tilheyra Evrópusambandinu.
Rússar ætla ekki að tapa friðnum í Austur-Evrópu og leyfa Bandaríkjunum, ESB og Nato að þrengja meira að sér.
Lái þeim hver sem vill.
![]() |
Endurskoða viðurkenningu sjálfstæðis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 1. júlí 2015
Tsipras dinglar í snöru Merkel
Angela Merkel kanslari Þýskalands ætlar ekki að semja við Tsipras forsætisráðherra Grikklands fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag. Merkel ætlar ekki einu sinni að opna samningaviðræður við vinstri róttæklingana í Aþenu fyrir sunnudag. Skilaboðin frá Merkel eru þau að Evrópa þarf ekki á Grikklandi að halda.
Tsipras er búinn að spila út tveim síðustu trompumnum á þrem dögum. Hann boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag og í gær borgaði hann ekki af láni til AGS. Tsipras og fjármálaráðherra hans, Varoufakis, töldu að evran myndi hrynja ef Grikkland neitaði að borga.
Evran og hlutabréfamarkaðir í Evrópu eru yfirvegaðir þrátt fyrir grísku ókyrrðina. Þar með er ekki hægt að nota þá ógn lengur að stórfellt efnahagshrun leiði af grísku þjóðargjaldþroti.
Merkel og aðrir leiðtogar ESB-ríkja munu ekki flýta sér að bjarga Grikkjum frá sjálfum sér. Það breytir engu fyrir efnahagsástand Evrópu þótt Grikkir taki upp viðskiptahætti steinaldar og stundi vöruskiptaverslun vegna þess þeir eiga ekki evrur.
Tsipras varð forsætisráðherra í janúar, en það er ekki líklegt að hann endist út fyrstu vikuna í júlí.
![]() |
Nýtt sáttaboð Grikklands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. júlí 2015
Tsipras gefst upp - eða segist gera það
Erlendir fjölmiðlar segja bréf forsætisráðherra Grikkja, Tsipras, til Euro-hópsins sem hefur öll ráð Grikkja í hendi sér, fela í sér uppgjöf gagnvart skilmálum lánadrottna.
Bankar í Grikklandi eru lokaðir og landið er gjaldþrota með því að greiða ekki afborgun til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þá er björgunaráætlun nr. 2 runnin út.
Tsipras biður um þriðju björgunaráætlun fyrir Grikki og lofar að efna skilmálana í þetta sinn. Sumir fjölmiðlar, t.d. Die Welt, spyrja hvers virði loforð Grikkja eru og þá sérstaklega Tsipras.
Án nýs björgunarpakka munu grískir bankar ekki opna í næstu viku, nema þá með drökmu sem lögeyri í landi Sókratesar.
![]() |
Grikkland greiddi ekki AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)