Miðvikudagur, 27. nóvember 2024
Segir Þórður Snær af sér þingmennsku, nái hann kjöri?
Þórður Snær Júlíusson, sem skipar 3. sætið á lista Samfylkingar í Reykjavík norður, gerði sjálfum sér og meðframbjóðendum sínum þann greiða að tilkynna að hann tæki ekki sæti á alþingi jafnvel þótt hann nái kjöri. Hneykslunarmál Þórðar Snæs komu upp eftir að hann framboðslistar voru staðfestir af kjörstjórn og ekki hægt að taka hann af framboðslista.
Í yfirlýsingu sem Þórður Snær sendi frá sér kemur ekki skýrt fram hvort hann ætli að segja af sér þingmennsku nái hann kjöri eða bíða um stund með að taka sæti á alþingi. Orðrétt segir Þórður Snær í yfirlýsingunni frá 16. nóvember:
Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt.
Orðalagið ,,ekki taka þingsæti" þýðir ekki það sama og að segja af sér þingmennsku. Fái Samfylkingin fylgi fyrir þrem þingmönnum í Reykjavík norður er Þórður Snær orðinn þingmaður. Hann yrði þingmaður þangað til hann segði af sér þingmennsku.
Þórður Snær hefur ekki gefið það út að hann ætli að segja af sér þingmennsku, nái hann kjöri, aðeins að hann taki ekki þingsæti. Verulegur munur er þar á. Þórður Snær fær sjálfkrafa kjörbréf sem þingmaður, hljóti hann kosningu.
Samflokksmaður Þórðar Snæs, Víðir Reynisson, segir að það sé ,,undir Þórði komið hvort að hann snúi aftur í stjórnmál seinna."
Seinna getur þýtt nokkrar vikur eða mánuðir. Þá gæti Þórður Snær mætt galvaskur á alþingi og tekið sæti sem þingmaður, fái Samfylking þrjá menn kjörna í Reykjavík norður eða að þriðja sætið verði jöfnunarsæti. Á meðan heldur varaþingmaður sæti Þórðar Snæs volgu.
Hvorki Þórður Snær né Samfylkingin eiga að komast upp með tvímælin. Fyrir kjördag þarf að liggja skýrt fyrir hvort Þórður Snær segi af sér þingmennsku fari svo að hann nái kjöri. Loðin yfirlýsing Þórðar Snæs gefur til kynna að brögð séu í tafli.
![]() |
Könnun: Fleiri ánægðir með ákvörðun Þórðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 26. nóvember 2024
Hægri eða vinstri, fullveldi eða ESB
Línur skýrast fyrir þingkosningarnar eftir fjóra daga. Margir flokkar eru í boði en valkostir aðeins tveir. Vinstristjórn eða hægristjórn.
Vinstriflokkarnir, Samfylking og Viðreisn í fararbroddi, boða ríkisstjórn með ESB-aðild Íslands á dagskrá.
Tilfallandi hefur áður útskýrt hvers vegna ESB-aðild er glapræði:
Síðast þegar reynt var að véla Ísland inn í ESB, í tíð vinstristjórnar Jóhönnu Sig. 2009-2013, logaði samfélagið í ófriði. Tvennt kom til, afleiðingar hrunsins annars vegar og hins vegar ESB-umsóknin sem vinstristjórnin sendi til Brussel sumarið 2009.
Langsótt var að Ísland yrði ESB-ríki fyrir fimmtán árum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja Evrópu. Ísland er eyríki á miðju Atlantshafi. Eftir að Bretland gekk úr ESB, með Brexit 2016, varð enn fjarlægara að Ísland ætti erindi í félagsskapinn. [...]
Hagsmunum Íslands er best borgið fjarri þeirri orrahríð sem fyrirsjáanleg er næstu ár og áratugi í Evrópu. Ekki eigum við aðild að átökunum og engir lífsnauðsynlegir hagsmunir Íslands eru þar í húfi.
Þeir sem greiða vinstriflokkunum atkvæði sitt á laugardag skrifa upp á nöturlega framtíðarsýn fullveldisframsals inn í ESB-óreiðu.
Best er að kjósa til hægri.
![]() |
Vill Pírata í stjórn með Viðreisn og Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 25. nóvember 2024
Aftrans og afeitrun
Þeir sem skipta um kyn fara úr sínu náttúrulega ástandi í ónáttúrulegt. Sveinbarn fæðist með XY-litninga og meybarn með XX-litninga. Manneskja sem breytir um kyn er áfram með litningana sem hún fæddist með. Ásýndin verður önnur enda gengur umbreytingin út það að líkjast kyninu sem viðkomandi er ekki. Eftirlíking stendur aldrei framar frumútgáfunni.
Viðtengd frétt er um mann sem aftransaði sig, þ.e. hann var fæddur sem drengur, gerðist kona um tíma en er orðinn karl á ný. Fréttin sat í efsta sæti mest lesið-lista Mbl.is í gær. Það gefur til kynna að eftirspurn sé eftir sannfréttum um hætturnar af trans.
Aftrans, á ensku detrans, er ferli þeirra sem kynbreyta sér en sjá sig um hönd. Margvíslegar hörmungar, líkamlegar og andlegar, fylgja ónáttúrulegu ástandi. Kynbreyting felur í sér lyfjameðferð og skurðaðgerðir í fleirtölu.
Aftrans byrjar með afeitrun hugans, hætta að trúa ómöguleika. Enginn fæðist í röngu kyni. Meðvitundin fæðist með líkamanum og getur ekki án hans verið. Að því marki sem meðvitundin er ekki hlutlæg og líkamleg er hún huglæg. Hugsunin er óefnisleg og þar af leiðandi kynlaus. Líkami er áþreifanlegur, hægt er að mæla hann og sundurgreina niður í einstakar frumur. Annað gildir um hugsun. Hún er óáþreifanleg og verður ekki smættuð niður í frumeindir sínar. Meðvitund í röngum líkama er í senn líffræðilegur og röklegur ómöguleiki.
Meðvitundin getur tileinkað sér ranghugmyndir, hætt að greina á milli ímyndunar og veruleika. Forn-Grikkir áttu til orð um það ástand, oneirataxia. Langt leiddir í ranghugmyndum geta talið sér trú um að vera í líkama af röngu kyni. Þeir geta líka sannfærst að vera af rangri tegund, uppi á röngum tíma eða ættaðir utan úr geimnum. Ímynduninni eru engin takmörk sett. Líkaminn er aftur hlutlægur veruleiki með takmörkunum; fæðist, eldist og deyr.
Í umboði íslenskra stjórnmálaflokka og fræðsluyfirvalda er Samtökunum 78 hleypt inn í leik- og grunnsókna með þann boðskap að sumir séu fæddir í röngu kyni. Boðskapurinn gerir engum gagn en veldur óbætanlegum skaða þeim sem taka ímyndun fram yfir veruleika, breyta náttúrulegu ástandi sínu í ónáttúrulegt.
![]() |
Skiptir aftur um kyn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 24. nóvember 2024
Lögregluvald, óæskilegar skoðanir og frjáls umræða
Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrá til að tryggja að opinbert vald skipti sér ekki af umræðu borgaranna. ,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar," er fyrsta setningin í 73.gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um tjáningarfrelsið. Síðasta efnisgreinin bannar afskipti löggjafans af frjálsri umræðu með eftirfarandi orðum:
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Þrátt fyrir að stjórnarskráin leggi bann við að skorður séu settar á frjáls skoðanaskipti eru í gildi lög sem veita ríkisvaldinu heimild að grípa með harðri hendi inn í umræðuna og hóta borgurum allt að tveggja ára fangelsisvist hafi þeir í frammi skoðanir sem ákæruvaldið telur ekki við hæfi. Hér er átt við gr. 233 a almennra hegningarlaga. Kjarninn:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu [...] skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður var fyrir sjö árum ákærður fyrir brot á lagagreininni. Pétur var sýknaður og sagði að dómurinn væri gott varnarskjal fyrir tjáningarfrelsið. Betur að svo hefði verið. Dómurinn varð þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, tilefni að loka þeirri glufu sem var í hegningarlögum og nýtt var af hálfu ákæruvaldsins til að ákæra Pétur. Sigríður, sem nú er frambjóðandi Miðflokksins, kynnti á alþingi árið 2017 frumvarp til að koma í veg fyrir misnotkun ákæruvaldsins á gr. 233 a hegningarlaga. Í umræðu á alþingi sagði Sigríður:
Með 233. gr. a almennra hegningarlaga er gengið langt í takmörkun tjáningarfrelsisins og raunar mun lengra en nauðsyn krefur til verndar þeim hópum sem ákvæðið fjallar um fyrir því sem nefnt hefur verið hatursorðræða. Verður ekki fram hjá því litið í því sambandi að um refsiákvæði er að ræða sem getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Það er þess vegna sem ég legg til þá breytingu að sú háttsemi sem 233. gr. a lýsir verði einungis refsiverð að hún sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.
Breytingatillaga dómsmálaráðherra var aðeins ein setning: ,,Við 233. gr. a laganna bætist: enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun." Frumvarp Sigríðar sofnaði í nefnd, varð ekki að lögum. Tillagan þótti kannski of sjálfsögð. Það þyrfti ekki að tryggja betur frjálsa tjáningu. Því miður er svo ekki.
Ákæruvaldið nýtir sér möguleikann að stefna borgurum fyrir dóm fyrir óæskilegar skoðanir. Tilfallandi var ákærður fyrir fjórum vikum fyrir brot á grein 233 a hegningarlaga. Tilefnið er andmæli við trans-áróðri Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum. Pétur á Sögu var ákærður fyrir sama andófið fyrir sjö árum.
Ef frumvarp Sigríðar þáverandi dómsmálaráðherra hefði orðið að lögum væri annarri Sigríði, Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, ekki stætt á að ákæra tilfallandi fyrir ranga skoðun. Nú skal þess freistað, árið 2024, að fangelsa mann í allt að tvö ár fyrir að segja álit sitt í opinberri umræðu.
Stundum virkar Ísland eins og Kjánaland í höndum aktívista.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 23. nóvember 2024
Þjóðin hefur viku til að verða edrú
Sunnudag eftir viku vaknar þjóðin með timburmenn og sér fram á kjörtímabil óreiðu og sundrungar - gangi skoðanakannanir eftir um úrslit þingkosninganna á laugardaginn kemur.
Kannanir segja að enginn kjölfestuflokkur fái umboð kjósenda. Veik þriggja flokka stjórn er í kortunum, mögulega enn veikari fjögurra flokka stjórn.
Enn er vika til kosninga. Almenningur getur látið renna af sér og gengið á kjörstað með annað hugarfar en að þingkosningar séu happadrætti.
Ein ábending til kjósenda. Stjórnmálaflokkar sem lofa mest svíkja stærst eftir kosningar. Ráðstafið atkvæði ykkar til þess framboðs sem minnstu lofar. Ísland er ágætt eins og það er. Kjósum ekki verra Ísland.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 22. nóvember 2024
Viðreisn kyndir undir innanlandsófriði
Atkvæði greitt Viðreisn er stuðningur við að Ísland gangi í Evrópusambandið, ESB. Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar mun setja ESB-aðild á dagskrá stjórnarmyndunarviðræðna eftir kosningar. Deilur smáþjóðar um utanríkismál eru svæsnar og langvinnar. Nægir þar að vísa í ófriðinn á Sturlungaöld og árin eftir seinna stríð er lá við borgarastríði um bandaríska hersetu og Nató-aðild.
Til skamms tíma var Viðreisn með um tíu prósent fylgi. Flokkurinn er sá eini á alþingi með yfirlýsta stefnu að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið. Enginn hefur áhyggjur af smáflokki með sérvisku. Grunnt er á sömu stefnu hjá Samfylkingunni, þótt flokkurinn segi í orði kveðnu að ESB-aðild sé ekki á dagskrá - í bili.
Í skoðanakönnunum mælast Viðreisn og Samfylking með um 20 prósent fylgi, hvor flokkur. Flokkabandalag með um 40 prósent fylgi getur haft afgerandi áhrif á þróun íslenskra stjórnmála næstu misseri og ár.
Síðast þegar reynt var að véla Ísland inn í ESB, í tíð vinstristjórnar Jóhönnu Sig. 2009-2013, logaði samfélagið í ófriði. Tvennt kom til, afleiðingar hrunsins annars vegar og hins vegar ESB-umsóknin sem vinstristjórnin sendi til Brussel sumarið 2009.
Langsótt var að Ísland yrði ESB-ríki fyrir fimmtán árum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja Evrópu. Ísland er eyríki á miðju Atlantshafi. Eftir að Bretland gekk úr ESB, með Brexit 2016, varð enn fjarlægara að Ísland ætti erindi í félagsskapinn.
Evrópusambandið er á samdráttarskeiði, ólíkt því sem var um aldamótin. Aðild Íslands komst á dagskrá þegar ESB-sniðmátið virtist ætla að sigra álfuna. Stefnt var á Stór-Evrópu, með eina stjórnarskrá, ein lög, einn gjaldmiðil og sameiginlega pólitíska framtíð. Svo er ekki lengur, fjarri því.
Úkraínustríðið, sem hófst um miðjan síðasta áratug, en varð fullveðja með innrás Rússa fyrir bráðum þrem árum, markar vatnaskil í Evrópu. Rússland verður stærsta verkefni ESB næstu ára og áratuga - óháð úrslitum Úkraínustríðsins. Ef Rússland skyldi tapa, sem er afar ólíklegt, myndi ESB glíma við vanda sem fylgir að næsti nágranni er kjarnorkuvopnaveldi í upplausn. Sigri Rússland, sem er sennilegt, er komið á þröskuld ESB stórríki, hernaðarlega og efnahagslega máttugt og með ólíka pólitíska dagskrá.
Hagsmunum Íslands er best borgið fjarri þeirri orrahríð sem fyrirsjáanleg er næstu ár og áratugi í Evrópu. Ekki eigum við aðild að átökunum og engir lífsnauðsynlegir hagsmunir Íslands eru þar í húfi.
Bandaríkin munu ekki styðja Evrópusambandið í austurvíkingi. Bandaríkin, einkum og sérstaklega undir Trump, líta ekki svo á að lífsnauðsynlegir bandarískir hagsmunir séu undir í Úkraínustríðinu. Trump-stjórnin mun leggja kapp friðarsamninga og stríðslok. Gangi það eftir skapast nýjar aðstæður í samskiptum ESB og Rússland. Verulega langur tími mun líða, mældur í áratugum, áður en nýtt jafnvægi næst á milli ESB og Rússlands. Bandaríkin líta á það sem evrópskt vandamál.
Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Vegna legu landsins á miðju Atlantshafi líta stjórnvöld í Washington á Ísland sem útvörð í austurátt. Er Evrópa verður látin finna leið til að lifa með sterku Rússlandi eykst mikilvægi Íslands í augum Bandaríkjamanna. Þetta er ekki nýleg þróun. Fyrir sex árum gerði Stephen M. Walt, í bókinni The Hell of Good Intentions (2018), skilmerkilega grein fyrir að Bandaríkin eru hvorki siðferðislega né hernaðarlega megnug að leggja línurnar í alþjóðastjórnmálum líkt og þau voru áratugina eftir seinna stríð.
Bandaríkin verða æ fráhverfari fyrri stefnu að starfa sem alþjóðlegt lögregluvald. Þau líta aftur á Ísland sem nærsvæði sitt og láta sér annt um að hér á landi séu stjórnvöld er fylgja stefnu og anda varnarsamningsins frá 1951. Ísland sem ESB-ríki yrði sjálfkrafa hluti af eljaraglettum Evrópusambandsins og Rússlands næstu áratuga. Ísland sem ESB-aðild er komið á tvöfalt áhrifasvæði. Í einn stað Bandaríkjanna en Evrópusambandsins í annan stað.
Smáríki sem verður bitbein stórveldahagsmuna fær undantekningalaust slæma útreið. Óeining innanlands er fylgifiskur. Hér á landi yrðu einhverjir hallir undir forsjá ESB á meðan aðrir kysu að Ísland yrði á bandarísku áhrifasvæði. Stórveldin, hvort í sínu lagi, kæmu sér upp innlendum leppum. Saga smáríkja sem stórveldi þjarka um er víti til varnaðar. Gefum ekki færi á okkur.
Að svo mikið sem íhuga ESB-aðild er andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd. Fullkomlega ábyrgðalaust er að styðja ævintýramennsku Viðreisnar í utanríkismálum. Í þingkosningunum eftir átta daga er Viðreisn slæmur kostur. Mjög slæmur.
![]() |
Aðildarviðræður við ESB kannski skilyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 21. nóvember 2024
Namibía: hvenær koma Íslendingarnir aftur?
Namibískir sjómenn sem störfuðu á skipum Samherja bjuggu við betri kjör og höfðu hærri hásetahlut en þeir hafa í dag. ,,Hvenær koma Íslendingarnir aftur?" er spurt í Namibíu, samkvæmt gögnum sem tilfallandi fékk í hendur. Veruleg launalækkun, um 60 prósent, er hlutskipti sjómanna eftir að Samherji hætti útgerð.
Samherji var með rekstur í Namibíu 2012 til 2019. Eftir að Jóhannes uppljóstrari Stefánsson skildi eftir sig sviðna jörð árið 2016 var farið í að finna kaupendur. Útgerðinni var endanlega hætt í árslok 2019.
Síðasta skipið sem Samherji gerði út var Heinaste. Skipið var um tíma kyrrsett vegna þríhliða deilu Samherja, viðskiptafélaga og namibíska ríkisins. Í byrjun árs 2020 var kyrrsetningu aflétt. Skipið var selt og fékk nafnið Tutungeni og siglir undir namibískum fána.
Tilfallandi fékk heimildir um breytt kjör áhafnar Heinaste eftir að skipið skipti um eigendur og nafn. Í tíð Samherjaútgerðarinnar hafði áhöfnin aðgang að internetinu út á sjó. Það var slökkt á þeirri þjónustu eftir að nýir eigendur tóku við skipinu. Þegar Íslendingar voru með forræðið borðuðu hásetar og yfirmenn saman. Nú er komin stéttskipting þar sem menn eru flokkaðir í æðri og óæðri í matsal. Meira máli skiptir þó hásetahluturinn sem er kaup sjómanna.
Í Samherjaútgerðinni var hásetahluturinn reiknaður um borð. Í dag sér skrifstofa í landi um útreikninginn. Ólíkar reikniaðferðir gefa ólíka niðurstöðu, og munar þar verulegu. Uppgjöri á einum túr Tutungeni var borið saman hvað sjómenn hefðu fengið greitt samkvæmt uppgjöri Samherja. Í Tutungeni-útgerðinni var hásetahluturinn 7 000 namibískir dalir, eða 55 þús. íslenskrar krónur. Uppgjör samkvæmt Samherja/Heinaste-útgerðinni hefði gert hásetahlut upp á 17 000 namibíska dali eða 135 þús. íslenskar krónur. Hásetahluturinn lækkar um 60 prósent.
Samherji fór eftir bókinni í útgerðinni þar syðra. Þegar kurlin voru öll komin til grafar skilaði Samherji til namibísks samfélags yfir 20 milljörðum íslenskra króna. Útgerðin í Namibíu var Samherja ekki gullnáma, líkt og RSK-miðlar halda fram. Félagið tapaði einum milljarði króna á starfseminni.
Íslendingar eru ekki líklegir til að hefja útgerð í Namibíu í bráð, þótt það yrði eflaust til hagsbóta fyrir Afríkumenn. Hér á Íslandi háttar málum þannig að ríkisfjölmiðillinn, RÚV, rekur í samstarfi við jaðarmiðla mannorðsmorðvél sem hrekkur í gang af engu tilefni. RÚV nýtti sér, og nýtir sér enn, að Íslendingar þekkja lítið sem ekkert til namibískra málefna. Mannorðsmorðvélin matreiðir þvætting ofan á bull og kallar fréttir. Undirferli og lævísi er beitt til að fólk trúi upplognum ásökunum.
Svo dæmi sé tekið af nýjustu afurð RÚV skrifar Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttamaður og sakborningur eftirfarandi:
Skýrslan var unnin fyrir spillingarlögregluna í Namibíu sem rannsakaði málið. Hún er tæplega 500 blaðsíðna löng og sýnir í smáatriðum flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna sem eru sakborningar í málinu.
Takið eftir að Ingi Freyr notar ekki orðið mútur. Hann ætlar lesendum að draga ályktun um mútur af orðunum ,,flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna". Peningaflæðið sé þekkt ,,í smáatriðum". Lævíst orðalag sem ætlað er að skapa hugrenningartengsl við ólögmæta starfsemi. Fréttamaðurinn gefur sterklega til kynna, en segir ekki berum orðum, að lögreglan hafi sannanir fyrir mútum. Í viðskiptum skipta peningar um hendur oft og iðulega og þykir ekki tiltökumál. Annars væru menn á steinaldarstigi, stunduðu vöruskipti.
Skýrslan, sem Ingi Freyr vísar til, er samin af Deloitte endurskoðendum og er frá árinu 2020 þótt ekki komi það fram í fréttinni. Látið er í það skína að um nýlega skýrslu sé að ræða, en svo er ekki. Búið væri að ákæra Samherja fyrir mútugjafir, bæði á Íslandi og í Namibíu, ef legið hefði fyrir í fjögur ár að mútur hefðu verið greiddar. Skýrslan frá Deloitte segir ekkert um ólögmætt flæði peninga frá Samherja til namibískra áhrifamanna. Í réttarhöldunum, sem standa yfir þar syðra er enginn tengdur Samherja ákærður. Hér heima stendur enn yfir rannsókn héraðssaksóknara sem síðustu tvö ár er sögð á lokametrunum. En það er ekkert sem varðar ,,flæði peninga" sem út af stendur.
Hvorki lögregluyfirvöld í Namibíu né á Íslandi sjá neitt athugavert við greiðslur sem Samherji innti af hendi. Ingi Freyr talar digurbarkalega um 500 blaðsíðna skýrslu Deloitte. Skýrslan geymir engar upplýsingar um lögbrot Samherja. Við getum slegið því föstu af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er Samherji ekki á ákærubekk þar syðra. Í öðru lagi hefur Skatturinn á Íslandi yfirfarið allt bókhald Samherja frá þessum árum. Ekki fannst arða af mútufé. En samt mallar mannorðsmorðvélin áfram, gerir því skóna að fjögurra ára skýrsla sýni ólögmæta viðskiptahætti, mútugjafir. Þvættingur matreiddur ofan á eldra bull og selt sem fréttir.
Namibískir sjómenn sem urðu fyrir 60 prósent launaskerðingu við brotthvarf Samherja ættu að senda reikninginn á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
RÚV: sakborningur segir fréttir um sjálfan sig og bróður sinn
RSK-miðlar, þ.e. RÚV, Stundin og Kjarninn, sem heita nú Heimildin, eiga aðild að tveim óuppgerðum sakamálum. RSK-miðlar eru upphafsaðilar beggja mála. Í öðru málinu, kennt við Namibíu, eru blaðamenn ásakendur. Í hinu tilvikinu, byrlunar- og símamálinu, eru blaðamenn sakborningar. Fréttamaður RÚV, Ingi Freyr Vilhjálmsson, er ásakandi í öðru málinu en sakborningur í hinu. Ríkisfjölmiðillinn lætur gott heita að sakborningur segi fréttir af sjálfum sér og bróður sínum.
RÚV hélt í gær upp á fimm ára afmæli Namibíumálsins með því að láta einn sakborninginn í byrlunar- og símamálinu, Inga Frey Vilhjálmsson, fjalla um Namibíumálið. Á Efstaleiti teljast það fagleg vinnubrögð fréttamaður segir fréttir af sakamáli sem nátengt er réttarstöðu hans sem sakbornings.
Bróðir Inga Freys, Finnur Þór Vilhjálmsson, er fyrrum saksóknari í Namibíumálinu. Hann varð dómari í héraðsdómi og gerði alla dómara þar vanhæfa til að úrskurða í kærumáli Örnu McClure, sem er sakborningur í Namibíumálinu. Í þeim úrskurði sagði að Finnur Þór sé
vanhæfur til að fara með rannsókn málsins vegna tengsla sóknaraðila [héraðssaksóknari/Finnur Þór] við rannsókn á máli lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem bróðir hans [byrlunar- og símamálið/Ingi Freyr] hefur réttarstöðu sakbornings og varnaraðili [Arna McClure] hefur stöðu brotaþola
Eins og nærri má geta segir Ingi Freyr fréttamaður RÚV ekkert frá fyrri aðkomu sinni að málinu, né heldur af þætti bróður hans. Ingi Freyr er bullandi vanhæfur til að fjalla Namibíumálið, jafnvel enn frekar en Finnur Þór bróðir hans sem gerði þó heilan dómstól vanhæfan. Tilfallandi skrifaði um samkrull bræðranna á þriggja ára afmæli Namibíumálsins og sagði: ,,Bræðurnir eiga þá sameiginlegu hagsmuni að finna sekt hjá Samherja."
Namibíumálið verður, í höndum Inga Freys og RÚV í gær, að gaslýsingu á málavöxtum. Aðalpunkturinn í fréttaskýringunni er að Samherji skuldi þeim lífsviðurværi sem unnu hjá útgerðinni. Samherji hætti mest allri starfsemi í Namibíu 2016, og endanlega 2019, eftir að stöðvarstjórinn þar, maður að nafni Jóhannes Stefánsson, keyrði starfsemina í þrot. Jóhannes gat ekki stjórnað eigin lífi, er áfengissjúklingur, fíkill og illskeyttur.
Þremur árum eftir að Jóhannes sigldi Namibíuútgerðinni í strand kynntu RSK-miðlar hann sem uppljóstrara. Jóhannes hafði í frammi stórar ásakanir um mútugjafir í Namibíu árabilið 2012-2016. Engin gögn fylgdu sem studdu gífuryrðin, aðeins framburður fíkniefnaneytanda. Upphaflegar ásakanir birtust í Kveíksþætti á RÚV í nóvember 2019. Erlendir fjölmiðlar, t.d. Aftenposten Innsikt, vekja athygli á að Jóhannes sé einn til frásagnar um mútugjafir. RSK-miðlar höfðu hönd í bagga að norska útgáfan birti ásakanir Jóhannesar. Aftenposten Innsikt baðst afsökunar að hafa gert það og sagði m.a.:
Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum. [...]
Afenposten Innsikt hefur enga stoð fyrir þeirri fullyrðingu að Jóhannes Stefánsson hafi komið fram fyrir hönd Samherja í mútum til manna í Namibíu né að samningur um eitthvað slíkt hafi verið gerður á milli Samherja og namibískra aðila. Um er að ræða ásakanir Jóhannesar Stefánssonar...
Erlendir blaðamenn taka ekki góða og gilda frásögn ógæfumanns eins og Jóhannesar. RSK-miðlar hafa á hinn bóginn í fimm ár haldið á lofti ásökunum uppljóstrarans. Ingi Freyr, blaðamaður Stundarinnar, síðar Heimildarinnar, á að baki marga tugi frétta um að Jóhannes sé trúverðug heimild og taka beri orðum hans sem heilögum sannleika. Erlendir blaðamenn, sem hafa kynnt sér málið, eru ekki sama sinnis. Ingi Freyr og félagar á RSK-miðlum stunda ásakanablaðamennsku sem skeytir engu um trúverðugleika heimilda eða sannindi máls. Magn og tíðni ásakana er keppikeflið, ekki hlutlægar upplýsingar.
Ingi Freyr kallar gaslýsta RÚV-afurð sína í gær fréttaskýringu. Afurðin er fyrst og síðast fréttahryðjuverk gegn sannleikanum. Í lok hryðjuverksins segist Ingi Freyr hafa haft samband við Samherja sem ,,vildi ekki tjá sig." Tilfallandi skal éta hatt sinn upp á það að þarna ljúgi fréttasakborningurinn eins og hann er langur til. Annað tveggja hefur Ingi Freyr ekki haft samband við Samherja eða fengið það svar, hafi hann beðið um álit að norðan, að heiðarlegt fólk hafi annað við tíma sinn að gera en að ræða við vanhæfan raðlygara á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. nóvember 2024
Þórður Snær og afleiðingar afneitunar
Árið 2007 tókst Þórði Snæ að svindla sig frá afleiðingum eigin gjörða. Hann skrifaði undir dulnefni ljótt um Rannveigu Rist forstjóra. Þegar það var borið upp á hann neitaði Þórður Snær að vera höfundur skrifanna.
Árið 2021 átti Þórður Snær beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og afritun. Þórður Snær neitaði, höfðaði mál gegn tilfallandi fyrir að fjalla um málið en tapaði. Afneitun Þórðar Snæs á veruleikanum 2021 gekk lengra. Hann beinlínis fullyrti að skipstjóranum hefði ekki verið byrlað. Líkt og 2007 komst Þórður Snær upp með svindlið.
Árið 2024 ætlar Þórður Snær að svindla enn á ný, víkjast undan að axla ábyrgð á eigin orðum. Fyrstu viðbrögð hans eftir Spursmálsþáttinn með Stefáni Einari, þar sem vísað var í kvenfyrirlitningartexta Þórðar Snæs, voru þau að afsaka sig með þeim orðum að svona hafi ,,menningin" verið fyrir nokkrum árum. Nú sé hann annar og betri maður.
En, nei, Þórður Snær er sami maðurinn og hann alltaf hefur verið. Hann er staðinn að svindli 2007, 2021 og 2024. Á þessu árabil gat Þórður Snær sér orð fyrir blaðamennsku sem gekk út á að ásaka og ofsækja. Á hæpnum forsendum, stundum alls engum, hafði þessi tegund blaðamennsku tekið menn niður. Iðulega höfðu blaðamenn samstarf sín á milli að velja sér skotmörk. Illræmdasta bandalagið var RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn.
Ástæðan fyrir því að svindlið tókst ekki núna er að Þórður Snær fór fram á að heill stjórnmálaflokkur ábyrgðist orð hans. Ritstjórinn fyrrverandi stóð í þeirri trú að, líkt og RSK-bandalagið, myndi Samfylkingin slá skjaldborg um óhæfuna sem hann varð uppvís að. Í 4 daga tókst Þórði Snæ að halda stuðningi Samfylkingar. Á þeim tíma kynntu flokksmenn sér sögu Þórðar Snæs og lásu fréttir um fyrri skrif þingmannsefnisins. Þeim ofbauð.
Þórður Snær útskýrði aðferðafræðina sem hann stundaði í leiðara Kjarnans árið 2017:
Tæknin sem beitt er kallast á ensku gaslighting, eða gaslýsing, og er þekkt pólitískt bragð. Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Leiðarinn var skrifaður til að halda á lofti þeirri kenningu þáverandi ritstjóra Kjarnans að Sjálfstæðisflokkurinn væri hlynntur barnaníði. RSK-bandalaginu var í mun að selja almenningi kenninguna. Í ljósi eldri bloggskrifa Þórðar Snæs er hann þarna að varpa eigin hvatalífi yfir á aðra. Fyrirbærið, að skrifa á aðra eigin kenndir, er þekkt í sálfræði.
Í viðtengdri frétt fjallar almannatengill um fall Þórðar Snæs. Valgeir Magnússon gerir því skóna að hefði þingmannsefnið sjálft lagt ,,beinagrindurnar" á borðið væri honum fyrirgefningin vís. Valgeir gleymir tvennu. Í fyrsta lagi að beinagrindur Þórðar Snæs hefðu fyllt líkhúsið. Í öðru lagi að Þórði Snæ er tamara að ásaka og ofsækja en að játa. Til að komast hjá játningu segir Þórður Snær ósatt, það er einfaldlega hans háttur. Gerði það 2007 og aftur 2021. Þegar hann reyndi ósannindi í síðustu viku voru ekki nógu margir til að trúa. Of margir vissu hvaða mann Þórður Snær hafði að geyma.
![]() |
Af hverju endaði Þórður Snær með því að slaufa sjálfum sér? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 18. nóvember 2024
Trump, trans og Ísland
Sigur Trump í forsetakosningunum var ekki sértækur heldur altækur. Hann fékk ekki aðeins afgerandi meirihluta kjörmanna heldur hreinan meirihluta atkvæða bandarísku þjóðarinnar. Trump var sakaður um að vera rasisti en fékk stuðning minnihlutahópa sem þekkja á eigin skinni kynþáttafordóma, s.s. blökkumenn og innflytjendur frá Rómönsku-Ameríku.
Forsetakosningarnar vestra snerust að hluta um hefðbundna pólitík eins og stöðu efnahagsmála. Annað deiluefni var opin landamæri. Þriðja stórmálið var vitundarpólitík eða vók. Í nafni mannréttinda er krafist að sjálfsvitund einstaklinga sé tekin umfram hversdagsleg sannindi. Karl sem segist kona fær aðgang að kvennarýmum, t.d. búningsklefum kvenna, kvennasalernum og kvennaíþróttum. Eina sem karlinn þarf að segja er að honum liði eins og konu, sjálfsvitundin trompar handfastan og áþreifanlegan veruleika.
Hugsanafrelsi eru mannréttindi og náskyld tjáningarfrelsinu. Vitundarpólitík vinstrimanna tekur þessi sjálfsögðu mannréttindi og gerir úr þeim lögbundna skyldu að einn skal trúa ranghugmynd annars. Út á það gengur vitundarvókið. Mannréttindi eru ekki að bábilja eins skuli sannfæring annars. Réttur eins til að skilgreina sjálfan sig nær aðeins til sjálfsins, ekki til annarra sem kunna að greina á milli ímyndunar og veruleika. Sigur Trump liggur ekki síst í andstöðu hans við vók.
Enginn karl getur orðið kona. Karlar eru með XY-litninga en konur XX-litninga. Karlar geta þóst vera konur og öfugt, kona sagt sig karl. En að þykjast og vera er tvennt ólíkt. Sjálfsblekking og reynd er sitthvað. Vitundarpólitík vinstrimanna sópaði þessum sannindum til hliðar, sagði þau ómarktæk andspænis rétti hvers og eins til að skilgreina sjálfan sig. Skilgreiningarrétturinn fær meira vægi en heilbrigð dómgreind.
Ef veruleikinn er gerður ómarktækur opnast hlið fáránleikans upp á gátt. Fertugur maður getur sagst þriggja ára stúlkubarn, skráð sig í leikskóla og krafist viðeigandi þjónustu. Fimmtugur maður gæti sagt að sér liði eins og sjötugum og krafist greiðslu úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum til samræmis við upplifun sína. Áfram mætti tefla fram dæmum um afleiðingarnar ef hversdagslegum sannindum, um kyn og aldur, er varpað fyrir róða. Í stuttu máli verður samfélagið óstarfhæft.
Vitundarpólitík vinstrimanna er menningarsjúkdómur samfélags allsnægtanna í einn stað. Í annan stað er stökkbreyting í miðlun upplýsinga ástæða brenglunarinnar. Velferð á færibandi skapar svigrúm fyrir ranghugmyndir. Sannanlega rangar hugmyndir fá sjálfstætt líf í heimi samfélagsmiðla í krafti margfeldisáhrifa sem gera engan greinarmun á sannindum og ósannindum. Lífsbarátta, mæld í brauðstriti, setur takmörk á fáránleikann sem hægt er að bjóða fólki upp á. Engin tilviljun er að vitundarpólitík vinstrimanna, sem ættuð er að stórum hluta frá háskólaborgunum í Bandaríkjunum, á síður upp á pallborðið í Austur-Evrópu en vesturhluta álfunnar. Í Austur-Evrópu muna menn enn efnahagslega örbirgð og pólitískan rétttrúnað sósíalismans. Vestrænar vitundarfirrur fá ekki framgang meðal þjóða sem kunnugar eru brauðstriti og gjalda varhug veraldlegu trúboði eftir slæma reynslu.
Trump er með tilbúna áætlun gegn kynbreytingu á börnum sem heggur að rótum vitundarpólitík vinstrimanna síðustu tveggja áratuga. Verði áætluninni hrint í framkvæmd er börnun forðað frá því að vera leiksoppar fullorðinna með ranghugmyndir. Hægrimenní Bandaríkjunum eru ekki einir um að afþakka transmenninguna. Nýr leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi er sömu skoðunar, eins og sagði í nýlegu bloggi:
Barn getur ekki verið trans, sagði Badenoch í kappræðum vegna leiðtogakjörs Íhaldsflokksins, samkvæmt Telegraph. Hún var áður jafnréttisráðherra og vann að endurskoðun löggjafar til að tryggja rétt kvenna til kynaðgreindra rýma. Í ráðherrastarfi sagðist Badenoch hafa séð sterkar sannanir fyrir því að ungmennum sem eru samkynhneigð eða glíma við geðraskanir sé talin trú um að þau séu trans.
Skýtur skökku við að íslenskir stjórnmálamenn, sem gorta sig af að vera í hinum eina sanna hægriflokki, skuli gera sér far um að misþyrma móðurmálinu með transtungutaki.
Trump-áhrifin á íslensk stjórnmál verða að litlu leyti efnahagslegs eðlis. Menningaráhrifin verða þeim mun meiri. Veitir ekki af. Hér á landi er lífskoðunarfélögum eins og Samtökunum 78 hleypt inn í leik- og grunnskóla til að kenna þá firru að sumir fæðist i röngum líkama. Vitundarpólitík vinstrimanna hér á landi er komin á það stig að þeir sem andmæla skaðlegri starfsemi Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum fá á sig opinbera ákæru. Mál er að linni og heilbrigð skynsemi verði tekin fram yfir bábiljur sem valda skaða á líkama og sál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)