Elon Musk sammála íslenskum kjósendum

Í nýafstaðinni kosningabaráttu hér á landi komust loftslagsmál ekki á dagskrá. Frambjóðendur ræddu ekki loftslagsmál. Könnun Félagsvísindastofnunar um málaflokka sem kjósendur höfðu áhuga á sýndi loftslagsmál utan dagskrár. Til skamms tíma var auðmaðurinn Elon Musk, eigandi rafbílafabrikkunnar Tesla, sannfærður um loftslagsvá af mannavöldum. Ekki lengur.

Washington Post segir að fyrrum hafi loftslagsvá verið hluti af stöðluðu kynningarefni í verksmiðjum Tesla. Árið 2016 hvatti Musk til uppreisnar gegn olíuiðnaðinum og hafði loftslagsspámanninn Al Gore í hávegum. Ekki lengur.

Musk er einarður stuðningsmaður nýkjörins forseta, Donald Trump. Í tísti í ágúst síðast liðinn á X beindi Musk orðum sínum til Trump og sagði óþarfa að leysa loftslagsvandann. 

Almenningur á Íslandi veit sínu viti og sér í gegnum blekkingu hamfarasinna. Menn eins og Musk, sem gerðu út á hræðsluáróðurinn, með rafbílaframleiðslu, eru farnir að sjá að sér. Veruleiki loftslagsbreytinga er sá að náttúran ræður ferðinni ekki maðurinn.

Skynsemin skilar sér heim eftir eyðimerkurgöngu síðustu tveggja áratuga. 


Pútín, tvær frásagnir og Trump

Tvær meginfrásagnir eru af Úkraínustríðinu. Í einn stað að Úkraína sé stökkpallur Pútíns og Rússa inn í önnur Evrópuríki þar sem stefnt sé að endurreisn rússneskra keisaradæmisins ef ekki sjálfra Sovétríkjanna. Í annan stað að Rússar séu að verja öryggishagsmuni ríkisins með því að koma í veg fyrir að Úkraína verði Nató-ríki.

Fyrri frásögnin er ráðandi á vesturlöndunum og að mestu leyti röng. Seinni frásögnin fer nærri lagi, þótt ekki megi gera lítið úr áhuga Rússa að tryggja hagsmuni sína í nærsveitum Úkraínu að stríði loknu, - meira um það á eftir. Fáar vísbendingar eru um löngun Rússa að leggja undir sig nærliggjandi ríki, t.d. Eystrasaltsríkin. Úkraínudeilan hófst eftir Búkarestfund Nató 2008 er Úkraínu og Georgíu var boðin Nató-aðild. Pútín og Rússar sættu sig ekki við að slíka ógn við öryggishagsmuni sína.

Nú kynnu einhverjir að segja að þótt Rússar hafi ekki sýnt löngun að leggja undir sig nágrannaríki gæti það breyst eftir árangursríkt Úkraínustríð. Möguleikinn er fyrir hendi en hann er langsóttur. Úkraínustríðið sýnir að Rússar eiga fullt í fangi með meðalstórt Evrópuríki. Í byrjun ágúst í ár gerðu Úkraínumenn innrás í Kúrsk-hérað og tóku töluvert land. Úkraínumenn sitja enn í Kúrsk og hafa hugsað sér að nota landvinninga sína þar í væntanlegum friðarsamningum. Þeir norður-kóresku hermenn, sem fjallað er um í viðtengdri frétt, berjast í Kúrsk-héraði, rússnesku landi, og eru ekki í ,,árásarliði Rússa" inn í Úkraínu, þótt fyrirsögn mbl.is gefi það til kynna.

Ef Rússland væri það heimsveldi sem af er látið myndu þeir ekki sætta sig við hertöku eigin lands í fimm mánuði. Ekki þyrftu þeir að leita á náðir Norður-Kóreu til að frelsa rússneskt land úr klóm óvinarins - væri Rússland heimsveldi, sem það er ekki. Ráði Rússar ekki við úkraínska herinn án utanaðkomandi aðstoðar dettur engum í hug að Rússar geti barist við samanlagða heri Nató.

Útreið bandamanns Rússa í Sýrlandi, Assad forseta, gefur ekki til kynna máttugt heimsveldi. Rússland er veldi í sama skilningi og Frakkland og Þýskaland, en kemst ekki með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana. Nema á einu sviði, og það skiptir máli. Rússar eiga kjarnorkuvopn, sem kannski ekki eru á pari við þau bandarísku, en nógu öflug til að skjóta mönnum skelk í bringu.

Úkraínustríðinu lýkur með friðarsamningum en ekki uppgjöf Úkraínu. Rússar eru ekki með herstyrk til að leggja landið allt undir sig, hafi þeir áhuga, sem er óvíst.  Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur sagst ætla að binda endi á stríðið. Bandaríkin fjármagna og hervæða Úkraínu að stærstum hluta. Án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínu allar bjargir bannaðar. Spurningin er hvernig verði staðið að stríðslokum eftir að Trump sest í Hvíta húsið.

Ein tillaga, sem er til umræðu, er að frysta stríðið, binda endi á átök þar sem víglínan liggur núna. Í framhaldi yrði boðað til friðarráðstefnu. Fjölþjóðaher, í umboði Sameinuðu þjóðanna, myndi gæta þess að hvorugur aðili neytti færis að bæta hag sinn á meðan vopnahlé og friðarsamningar stæðu yfir.

Austurríski ofursteinn Markús Reisner kemur reglulega fram í þýskumælandi fjölmiðlum sem álitsgjafi um Úkraínustríðið og er að auki að finna á Youtube. Í samtali við Die Welt ræddi Reisner hugmyndina að frysta víglínuna. Hann segir að víglínan sé um 1200 km löng og gott betur. Til að gæta friðar þyrfti líklega 100-150 þúsund manna herlið. Enginn slíkur fjölþjóðaher er til reiðu. Marga mánuði tæki að skipuleggja úrræðið. Af þeirri ástæðu einni er ólíklegt að úr verði.

Ýmsar aðrar hugmyndir eru ræddar, t.d. að Trump hóti Rússum að stórefla stuðning við Úkraínu, fallist Pútín ekki á friðarviðræður. Rússum hefur áður verið hótað með litlum árangri.

Á meðan engin raunhæf tillaga er um að binda endi á átök heldur stríðið áfram. Fyrir utan árangur Úkraínu í Kúrsk eru Rússar með yfirhöndina og vinna jafnt og þétt úkraínskt land þótt ekki fari þeir hratt yfir.

Raunhæf tillaga um stríðslok í Úkraínu verður að fela í sér endurkomu Rússlands í samfélag meginlandsríkja Evrópu og þar með vesturlanda. Á meðan vestrið er ekki tilbúið að éta ofan í sig ráðandi frásögn um heimsvaldastefnu Pútíns eru litlar líkur á raunhæfri friðartillögu. Orðspor of margra valdamanna í vestrinu er í húfi. Ekki þó Trump, sem gæti riðið baggamuninn.


mbl.is Norðurkóreskir hermenn í árásarliði Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Katrín og orðin sem skipta máli

Í viðtengdri frétt um stjórnarmyndun segir Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar: 

En ég þekki það líka af fyrri reynslu að það tek­ur tíma að skrifa stjórn­arsátt­mála og orð skipta máli.

Þorgerður Katrín býr að mestri reynslu kvennanna þriggja sem leggja drög að stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins.

Samflokksmaður Þorgerðar Katrínar er Hanna Katrín Friðriksson. Hún er margreynd, þingmaður frá 2016, og formaður þingflokks Viðreisnar. Morgunblaðsgrein Hönnu Katrínar í gær er athyglisverð í ljósi viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Greinin birtist við hlið leiðara Morgunblaðsins. Plássið er frátekið fyrir þingmenn sem skrifa 400 - 500 orða pistil samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi. Í gær var komið að Hönnu Katrínu og hún varð að skila pistli þótt eflaust væri kappnóg að gera í stjórnarmyndun. 

Hanna Katrín ákvað að skrifa undir fyrirsögninni ,,Ísland og umheimurinn". Er þingmaður Viðreisnar birtir texta undir slíkri fyrirsögn gera lesendur ráð fyrir romsu um hve brýnt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. En Hanna Katrín kom á óvart. Hún beitir sig hörðu að aðskilja persónuleg sjónarmið frá pólitískum viðhorfum.

Í fyrstu efnisgrein áréttar hún varnarsamstarfið við Bandaríkin. Upphafssetning annarrar efnisgreinar er: ,,Und­an­far­in 80 ár hef­ur Ísland verið frjálst og full­valda ríki." Viðreisnarfólki er almennt ekki tamt að tala þannig um lýðveldið. Til að enginn fari í grafgötur um virðingu formanns þingflokks Viðreisnar fyrir sjálfræði þjóðarinnar hefst þriðja efnisgrein pistilsins í Morgunblaðinu í gær á þessum orðum: ,,Við höf­um sem frjálst og full­valda ríki..." Í lokasetningu efnisgreinarinnar kveður við annan og persónulegri tón:

Af sömu ástæðu er ég þeirr­ar skoðunar að við ætt­um að vera hluti af Evr­ópu­sam­band­inu og standa þar jafn­fæt­is þeim sjálf­stæðu og full­valda Evr­ópuþjóðum sem sjá hags­mun­um sín­um best borgið þar.

Fyrsta persóna eintala Hönnu Katrínar vill í Evrópusambandið - en hvað með fleirtöluna, ,,við í Viðreisn"? Ekkert að frétta þar, þingflokksformaðurinn er á kafi í stjórnarmyndunarviðræðum og tiplar á tánum.

Afgangurinn af pistlinum, tæpur helmingur, fjallar um mik­il­vægi nor­ræns sam­starfs.

Með sjónarmið Þorgerðar Katrínar í huga, að orð skipta máli, má álykta að Hanna Katrín leggi sig í líma að haga orðum sínum þannig að þau verði ekki túlkuð á þann veg að Viðreisn ætli að setja ESB-aðild á dagskrá í stjórnarmyndunarviðræðum.

Guð láti gott á vita. Ef úr verður, og flokkarnir þrír sammælast um meirihlutastjórn, væri hryggilegt að að horfa upp á nýja ríkisstjórn skjóta sig í fótinn í upphafi vegferðar með ESB-daðri.

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er ekki óskastjórn tilfallandi, fjarri því. Á hinn bóginn er æskilegt, raunar brýnt, að stjórnin leggi á djúpmiðin með rá og reiða er gefi sæmilegar vonir um gifturíkan leiðangur. Konurnar þrjár sem fara með forræði mála eru ábyggilega allar af vilja gerðar að gagnast vel landi og þjóð. Ef af verður leiðangri mun tilfallandi óska þeim velfarnaðar. Að því gefnu að ESB-sérviskan verði áfram geymd ofan í skúffu. Þar á hún heima. 

 


mbl.is Vonast eftir stjórn fyrir áramót „ef ekki fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og óþol sérviskunnar

Umburðalyndi í stjórnmálum og mannlífinu almennt felur í sér að meginstraumurinn, almenningur, lætur sér vel líka að sumir stundi sérvisku af einu eða öðru tæi. Kynlegir kvistir eru krydd í mannlífið annars vegar og hins vegar minna þeir á hvað sameinar hinn breiða fjölda.

Katrín Jakobsdóttir fyrrum formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra segir ástæðu ófara flokksins í nýafstöðum þingkosningum vera lítið ,,umb­urðarlyndi gagn­vart mála­miðlun­um."

Katrín notar aðra merkingu hugtaksins umburðalyndi en útskýrt er hér að ofan. Hún á við umburðalyndi sérviskunnar. Katrín var formaður sérviskuflokks, sem fyrir sögulega tilviljun fékk meginstraumshlutverk, að leiða ríkisstjórn í tæp tvö kjörtímabil. Tvíþættur vandi flokksins fólst í að Katrín gekk fyrirvaralítið frá borði en meira þótt hitt að vinstri grænir þekktu ekki sinn vitjunartíma. Eftir kosningarnar 2021 átti flokkurinn að yfirgefa stjórnarráðið og þjóna sinni lund í stjórnarandstöðu.

Eðli sérviskunnar er öfgar. Umburðalyndi og öfgar eru andstæður, samkvæmt skilgreiningu. Mótsögn er að tala um umburðalyndar öfgar.

Sérviska sem Vinstri grænir tóku upp á sína arma eru til dæmis trans og loftslagsvá. Í báðum tilfellum er um að ræða öfgafólk sem krefst hlýðni við málstaðinn. Transliðið krefst breytinga á tungumálinu til að það falli að sérútgáfu fárra um lífið og tilveruna. Transið byggir á þeirri fávisku að kyn sé ekki líffræðileg staðreynd heldur geðþótti; karl fyrir hádegi verði kerling síðdegis með hugdettunni einni saman. Kennisetning í transinu er að sumir fæðist í röngum líkama. Það er ómöguleiki. 

Loftslagssérvískan kennir að andrúmsloftið sé ofmettað koltvísýringi. Afleiðingin sé fyrirsjáanleg tortíming jarðarinnar í helvítishita. Tilfellið er að koltvísýringur mælist 400 ppm en hefur í jarðsögunni farið yfir 2000 ppm. Koltvísýringur, C02, er lífnauðsynlegur plönturíkinu. Án C02 svelta plöntur og deyja, jörðin verður óbyggileg. Sveltimörkin liggja við 150 ppm. Við erum nær skorti á koltvísýringi en ofgnótt. Loftslagskirkjan er á öndverðum meiði og rígheldur í sérvisku heimsendaspámanna. Valkvæð heimska íklædd trúarsannfæringu.

Vinstri grænir eru stofnaðir til að vera sérviskuflokkur, tískusósíalískur valkostur við borgaralegan kratisma. Pólitískar aðstæður, stjórnarkreppa, leiddu flokkinn í forystu ríkisstjórnar árið 2017, með Katrínu í öndvegi. Flokkurinn stóð, eftir fyrsta kjörtímabilið, frammi fyrir tveim kostum. Að gera sig að meginstraumsflokki, tálga sérviskuna, eða hverfa úr ríkisstjórn. Flokkurinn gerði hvorugt, hélt í sérviskuna og sat í ríkisstjórn. Sérstöku aðstæðurnar, sem voru fyrir hendi 2017, voru tímabundnar. Með sérvisku gátu Vinstri grænir lifað góðu lífi á þingi en utan ríkisstjórnar. Katrín kann málamiðlanir og gat, á meðan hún sat í forsæti, breitt yfir ágreining, bæði innan flokks og milli samstarfsflokka. Er Katrín hvarf af vettvangi og Svanhof kom í stað brast stíflan.

Á meðan Katrínar naut hafði sérviskan vingjarnlegt yfirbragð. Sérviska er aftur þess eðlis að hún er með óþol gagnvart heilbrigðri skynsemi. Sérviskan kann sér ekki hóf, verður öfgafyllri er frá líður, vill meira, sést ekki fyrir. Litlar þakkir fékk Katrín frá trans- og loftslagsliði fyrir að greiða götu þess langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Þvert á móti, öfgaliðið valdefldist og heimtaði meira. Transarar kröfðust að málfrelsi yrði takmarkað. Gagnrýni á trans yrði skilgreind sem hatursorðræða. 

Bakslagið kom í nýliðnum þingkosningum. Tveir sérviskuflokkar, Píratar og Vinstri grænir, þurrkuðust út af þingi. Sá þriðji, Sósíalistaflokkurinn, fékk ekki framgang.

Meðalhófið er farsælast. Óþol sérviskunnar leiðir til hörmunga, einatt mestar fyrir handhafana sjálfa.     

 


mbl.is Katrín: „Ég upplifði bara raunverulega sorg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Binni plokkar fjaðrirnar af Viðreisn

Viðreisn er eini flokkurinn á alþingi sem boðar ESB-aðild og upptöku evru. Helstu rök Viðreisnar eru að með ESB-aðild og evru lækki vexti á Íslandi, verði evrópskir. Viðreisn reynir nú að mynda ríkisstjórn með Flokki fólksins og Samfylkingu og heldur eflaust fram ágæti roðans í austri.

Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, yfirleitt kallaður Binni, gerir okkur þann greiða að taka saman rauntölur um vexti á Íslandi annars vegar og hins vegar í Evrópusambandinu. Niðurstaðan:

  • Í fyrsta lagi verða vextir Vinnslustöðvarinnar á yfirstandandi ári af erlendum lánum (aðallega evrum) ríflega 8%.
  • Í öðru lagi verða vextir erlendra lána (aðallega dollara) í fiskvinnslu í Eyjum sem ég þekki til um 11%.
  • Í þriðja lagi verða vextir dótturfélags Vinnslustöðvarinnar í Portúgal af lánum þess í ár um 6%, en lánin eru öll í evrum.
  • Í fjórða lagi eru óverðtryggðir vextir nákomins ættingja míns liðlega 8% af húsnæðisláni í íslenskum krónum.

Binni notar rauntölur, vaxtatölur sem fyrirtæki og einstaklingar standa frammi fyrir. Ekki verður með nokkru móti sagt að vextir á evrusvæðinu séu eða gætu orðið ástæða fyrir Íslendinga að svo mikið sem íhuga ESB-aðild.

Þegar við bætist að Íslendingar myndu lítil sem engin áhrif hafa í Evrópusambandinu, eins og Hjörtur J. Guðmundsson stjórnmálafræðingur er óþreytandi að benda okkur á, blasir við fásinna þeirra sem vilja framselja fullveldi og sjálfsstjórn til Brussel.

ESB-aðild er bæði í bráð og lengd óhagstæð Íslendingum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja og tekur fyrst og síðast mið af hagsmunum stórþjóða, s.s. Þýskalands og Frakklands. Eyríki á miðju Atlantshafi er betur sett utan ESB.

Viðreisn þarf að átta sig á að þótt sérviska sé leyfileg í pólitík, líkt og í samfélaginu almennt, er óráð að beita yfirgangi til að þvinga sérviskuna ofan í kok annarra. Það hefnir sín.

 


Inga vill eyða, Kristrún sýna aðhald, Tobba Kata þegir

Í fyrradag sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins að daginn eftir yrði rætt um skiptingu ráðuneyta í væntanlegri ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkingu, sem yrði líklega mynduð fyrir jól. Aftur sagði Kristrún formaður Samfylkingar í gær að ekki væri byrjað að ræða ráðherradóm og nefndi áramótin sem fæðingardag nýrrar stjórnar.

Smávegis misræmi er á milli formannanna um dagskrá viðræðna og hvenær þeim ljúki. Þriðji formaðurinn sem á aðild, Þorgerður Katrín í Viðreisn, segir ekkert síðustu tvo daga. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Í viðtalinu við Ingu, sem vitað er í hér að ofan, veltir hún fyrir sér jólagjöfum sem hún geti fært ,,fólkinu sínu", eins og henni er tamt að tala. Til dæmis að gera tekjur undir 450 þús. skattfrjálsar. Inga segist trúa á mátt kærleikans, sem er falleg hugsun, en borgar ekki skuldir, hvorki ríkissjóðs né annarra. Kristrún, í viðtengdri frétt, segist hafa áhyggjur af ríkisfjármálum. Hagfræðingurinn ögn raunsærri en kærleikskonan.

Ef gefið er, sem þó er alls ekki víst, að formennirnir haldi þingflokkum sínum upplýstum um framgang viðræðna eru 30 manns með eyrun nærri vettvangi. Þingmönnum, bæði gömlum og nýjum, finnst gaman að kjafta, - annars væru þeir ekki stjórnmálamenn. En samt fréttist ekkert hvað konurnar þrjár ræða. Meira hvað ekki er rætt; ekki Evrópumál, ekki skipting ráðuneyta, ekki útlendingamál.

Tilfallandi hefur sterkan grun um að fiskur liggi undir steini. Verið er að kaupa tíma með viðræðuleikriti án innihalds. Eftir sniðugheit um valkyrjurnar þrjár í svefngalsa kosninganætur sest inn alvara hversdagsins. Samfylkingarmenn hafa vara á popúlískum eyðsluflokki, sem gæti fyrirvaralaust slitið stjórnarsamstarfi í kærleiksríku tilfinningaflóði. Kristrún veit að tapi hún tiltrú í ríkisfjármálum er endursköpun flokksins síðustu ára farin í hundana. Þorgerður Katrín kynntist völtu veraldargengi meirihluta er Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina 2017, eftir átta mánaða samstarf. Sporin hræða.

Ekki brutust út fagnaðarlæti er tilkynnt var um viðræður stallsystranna. Engin mótmæli þó enda ósiður að andæfa niðurstöðum lýðræðislegra kosninga. Þá daga sem stjórnarmyndun hefur staðið yfir er ekki merkjanleg eftirspurn eftir valkyrjustjórn. Allt síast þetta inn vitund þeirra sem um véla. Komi til stjórnarsáttmála verða engin hátíðarhöld en hugað verður að vetrarforðanum. Þeir einir fyllast bjartsýni sem eru á framfæri annarra.

Frestun Kristrúnar í gær á myndun ríkisstjórnar til áramóta gefur ráðrúm til að skoða aðra möguleika en samstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar. Þær athuganir fara ekki fram í kastljósi fjölmiðla en gætu verið efnisríkari en viðræðuleikritið.

 

 


mbl.is Stefnt að stjórn fyrir áramót: Ráðuneytum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur Svandísar: hinsegin í kjöti og fiski

Áður en Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna kvaddi matvælaráðuneytið gerði hún samning við Samtökin 78 um að kanna stöðu hinsegin fólks í frystihúsum og kjötvinnslum.

Jú, þið lásuð rétt. Ráðuneyti Svandísar safnar upplýsingum um hvernig háttar til með öðruvísifólk í sjávarútvegi og landbúnaði. Samkvæmt Samtökunum 78 eru hinsegin t.d. hommar, lesbíur, trans og BDSM-kynlífsiðkendur.

Maskína könnunarfyrirtækið sendir út spurningarlista til þeirra sem starfað hafa í sjávarútvegi og landbúnaði síðast liðin tvö ár. Grennslast er fyrir um stöðu hinsegin manna og hvaða viðhorf er að finna gagnvart sérviskunni. Fiskað er eftir fordómum. Ein fyrsta efnisspurningin er þessi:

Myndir þú segja að það gerist oft, stundum, sjaldan eða aldrei að starfsfólk eða stjórnendur innan greinarinnar segi óviðeigandi sögur, brandara eða yfirlýsingar sem lýsa fordómum í garð hinsegin fólks?

Spurningin er tilboð til svarenda um að baktala starfsgreinina. Til að hnykkja á skilaboðunum er næsta spurning á eftir:

Hversu mikil eða lítil þörf finnst þér á að fjallað sé meira um hinsegin málefni innan greinarinnar og skýrari stefna mörkuð í málefnum hinsegin fólks til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólk?

Hvers vegna þarf skýrari stefnu í hinsegin málefnum? Er ekki grunnhugmyndin að öllum sé frjálst að vera hvernig sem þeir vilja? Venjulegir, hinsegin, öðruvísi, frábrugðnir, sérsinna, einfarar, félagsverur - eða afþakka alla flokkun; bara vera.

Nei, samkvæmt Svandísi og Samtökunum 78 má aðeins vera annað af tvennu. Það kemur fram í spurningunni um kynvitund. Aðeins tveir möguleikar eru gefnir:

a) Sís (kynvitund í samræmi við það kyn sem þér var úthlutað við fæðingu).

b) Trans (kynvitund ekki í samræmi við það kyn sem þér var úthlutað við fæðingu)

Fyrir utan fáviskuna ,,úthlutun á kyni" (kyn er skráð við fæðingu og byggir ekki á ágiskun heldur staðreynd) vita allir og amma þeirra að hægt er að vera margt annað en sís og trans. Til dæmis: bís, lís, hýs, pans, hons, dons, mons og margt, margt fleira. Maður einfaldlega velur sér orð, býr það til ef ekki vill betur, og segist vera orðið. Öllum er frjálst að skilgreina sjálfan sig. Hvorki þarf að spyrja marxista í matvælaráðuneytinu né Samtökin 78 með hvaða orði maður vilji auðkenna sjálfan sig og kynvitundina. Flestir, raunar, láta nafn og kennitölu nægja. Fáeinir sérvitringar nota skrítin óskiljanleg orð um sjálfa sig. Það er þeirra.

Sjávarútvegur og landbúnaður eru dæmigerðar atvinnugreinar landsbyggðarinnar. Þegar Svandís og Samtökin 78 fóru af stað með könnunina var hugmyndin að slá tvær flugur í einu höggi. Í fyrsta lagi að kynda undir viðhorfinu að á landsbyggðinni eru heldur meiri fyrirvarar við sérviskunni en í Reykjavík 101 og nærsveitum. Í meðferð Svandísar og Samtakanna 78 átti teikna upp landsbyggðina sem heimkynni afdalamanna. Vinstrimenn í fjölmiðlum myndu kalla þetta landsbyggðarrasisma, væru þeir samkvæmir sjálfum sér.

Í öðru lagi var hugmyndin að gera helstu atvinnugreinar landsbyggðarinnar tortryggilegar. Svandís hefur áður leikið þann leik, gagnvart sjávarútvegi almennt og hvalveiðum sérstaklega. Hér kemur spurning sem gefur nafnlausum tækifæri að hafa í frammi alvarlegar ásakanir án rökstuðnings:

Hefur þú orðið var/vör/vart við mismunun, áreiti, fordóma eða ofbeldi í garð hinsegin fólks í greininni á síðustu 2 árum? 

Takið eftir lævísu orðalagi. Lagt er upp með að sjávarútvegur og/eða landbúnaður, ,,greinin", sé ábyrg fyrir áreiti, fordómum og ofbeldi. Aðeins fólk með ljótt hugarfar býður upp á nafnlausar og órökstuddar ásakanir í garð heilla starfsgreina.

Þeir sem þekkja til vinnumarkaðar vita að atvinnurekendur skipta sér ekki af kynlífi starfsfólks, svo lengi sem það er stundað utan vinnutíma. Ekki heldur velta atvinnuveitendur fyrir sér fantasíum fólks um að það sé af þriðja kyni eða fertugasta og sjöunda. Heilaleikfimi er einkamál þess sem iðkar.

Ekki ein einasta spurning í könnuninni spyr hvernig svarendur líta á sjálfa sig sem starfsmenn. Aukaatriði er hvaða augum svarendur líta á starfið. Aftur eru þeir í könnuninni sem merkja sig hinsegin þráspurðir hvort þeir geti ekki vælt yfir einhverju. Þeir fá þrjár spurningar í röð til að kvarta:

Hefur þú einhvern tímann ákveðið að vera ekki opin(n/ð) með hinseginleika þinn í starfi þínu í greininni af ótta við að verða mismunað eða verða fyrir fordómum eða öráreiti?

Heldur þú að það hafi haft áhrif á framgöngu þína innan greinarinnar að þú sért hinsegin?

Hvernig metur þú almennt reynslu þína af því að starfa í greininni sem hinsegin einstaklingur?

Fyrirtæki vilja ráða fólk sem kann til verka og stendur sig í vinnunni. Svandísi og Samtökunum 78 finnst það engu máli skipta. Aðalatriðið er að finna hinsegin fórnarlömb á landsbyggðinni til að dygðaflagga í Reykjavík.

Svandís er hvorki í stjórnarráðinu né á alþingi, þökk sé niðurstöðum nýafstaðinna kosninga. Það kemur í hlut arftaka hennar að útskýra fordómafulla könnun um hinsegin í kjöti og fiski. 


Ábyrgð Þorgerðar Katrínar er mest

Konurnar þrjár, ríkisstjórnarsmiðir, eru ólíkar líkt og flokkar þeirra. Þær hafa sett sér markmið, að finna samnefnara að meirihluta á alþingi. Verkefnið er krefjandi en verðugt. Verstu mistökin yrðu hálfkák. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Að setja saman ríkisstjórn er ekki bæði og - heldur annað hvort eða. Ný ríkisstjórn er loforð til þjóðarinnar frá meirihluti alþingis um landsstjórn næstu fjögur ár. Ef út af bregður, stjórnin fellur, eru afleiðingarnar vanalega afdrifaríkar fyrir almannahag og pólitískan stöðugleika. Fallnir stjórnarflokkar ríða vanalega ekki feitum hesti frá næstu kosningum.

Af kvennaþríeykinu ber Þorgerður Katrín mesta ábyrgð. Hún á að vita hvað þarf til að meirihluta sé á vetur setjandi. Þorgerður Katrín er sögð hafa lagt grunninn, ef ekki myndað, ríkisstjórn Geirs H. Haarde vorið 2007, hrunstjórnina. Kristrún var enn í menntaskóla og Inga Sæland hafði nýlokið við gutl í stjórnmálafræðinámi vestur á melum.

Þær Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún þáverandi formaður Samfylkingar munu hafa verið, og eru e.t.v. enn, góðar vinkonur. Sagan segir að þær tvær hafi samið um ríkisstjórn og tilkynnt Geir H. Haarde. Hvort sagan sé sönn eða ekki skiptir ekki höfuðmáli. Heldur hitt að Þorgerður Katrín á að hafa reynslu og kunnáttu til að meta hvort innistæða sé fyrir stjórnarmeirihluta. Hér er ekki átt við þingmannafjölda heldur ómælanlega þætti sem þurfa að vera fyrir hendi í ríkisstjórnarsamstarfi.

Kristrún og Inga eru blautar á bakvið eyrun er kemur að ríkisstjórnum. Þorgerður Katrín er aftur hokin reynslu. Það stendur mest upp á hana að hleypa ríkisstjórnarfleyinu, sem nú er í smiðum, ekki af stokkunum fyrr en gengið er úr skugga um að fleyið komist úr slipp í höfn.

Aðstæður eru hagfelldar að mynda ríkisstjórn. Eina skýra niðurstaða nýafstaðinna þingkosninga er að jaðaröflum til vinstri var úthýst af kjósendum. Ef það er eitthvað eitt sem kjósendur sögðu var það þetta: við viljum ekki róttækni.

Aðstæður í þjóðarbúskapnum kalla ekki á brýnar aðgerðir. Eini aðsteðjandi vandinn er opin landamæri sem þarf að koma skikki á og ætti ekki að vera vandamál, með vinstri græna og pírata utan þings.

Þótt þjóðarskútan sigli lygnan sjó nú um stundir geta aðstæður breyst hratt. Áhöfnin þarf að vera samhent, trú þeirri stefnu sem tekin er í stjórnarsáttmála en jafnframt samvinnufús skipist veður í lofti.

Yfirleitt eru það ekki stórmálin sem fella ríkisstjórnir heldur tilfinningaþrungin smámál. Þorgerður Katrín var ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er tók við í byrjun árs 2017. Björt framtíð átti aðild að stjórninni. Á kvöldfundi um miðjan september það ár var stjórninni slitið eftir þriðju pípu. Ástæðan var svo ómerkileg að ekki tekur að nefna hana.

Ábyggilega eru þær stöllur Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga allsgáðar nótt sem nýtan dag og engin hætta á neyslu efna er slæva dómgreind. En þær eru með breyskt þinglið sem þarf að hafa taumhald á. Ekki þarf annað en fallandi gengi í skoðanakönnun til að hugsjúkir þingmenn, kannski í sárum vegna synjunar á ráðherradómi, spili einleik og grafi undan meirihlutanum með vanhugsuðum yfirlýsingum.

Að þessu sögðu eru konurnar þrjár formenn flokka sinna og hafa skýrt umboð til að mynda meirihlutastjórn. Gangi þrem hagsýnum í eldhúsi Ingu sem best að ríma flokkshagsmuni við almannahag. 

 

 

 


mbl.is Fundi lokið: „Þrjár hagsýnar í eldhúsinu hjá Ingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rætur vælumenningar

Stefán Pálsson sagnfræðingur skrifar færslu á Facebook um fermingargjöf, eða ekki-fermingargjöf, sem hann fékk laust fyrir 1990. Færsluna má lesa sem augnabliksmynd af menningarástandi undir lok síðustu aldar. Gefum Stefáni orðið:

Á sínum tíma sleppti ég því að ferma mig. Það var verulega óvenjulegt fyrir krakka fæddan árið 1975. Reyndar vorum við fimm í bekknum mínum í Hagaskóla sem svona var ástatt um og við göntuðumst með að líklega hlyti þetta að vera heiðnasti bekkur á Íslandi. Þarna voru þrír strákar sem áttu foreldra sem höfðu verið í námi á Norðurlöndum og fannst ferming vera asnalegt fyrirbæri, ein bekkjarsystir sem var skráð í eitthvað furðufyrirbæri sem enginn hafði heyrt um og hét „borgaraleg ferming“ og svo ég sem var trúlaus...

Ekki-fermingargjöfin kemur við sögu síðar í færslu Stefáns. Gamall fjölskylduvinur, ,,kommúnisti og bókmenntamaður" frétti af staðföstu trúleysi Stefáns og hreifst af:

Gamli maðurinn varð ákaflega glaður þegar hann frétti að ég ætlaði ekki að láta ferma mig og um páskaleytið kom hann með bókastafla til mín í ekki-fermingargjöf.

Frásögn Stefáns má setja í samhengi við tvöfalda trúarþurrð undir lok síðustu aldar. Tvenn gildiskerfi, kristni og kommúnismi/sósíalismi, höfðu um hríð, í hundrað ár eða svo, att kappi. Annað hrundi með Berlínarmúrnum en hitt hélt áfram hægfara hnignun.  Gildiskerfi eru siðferðilegur og a.m.k. að hluta þekkingarlegur grunnur þeirra sem taka kerfin góð og gild.

Kristni er jafngömul tímatali okkar og ráðandi menningarstef í ýmsum tilbrigðum. Frá lokum miðalda þekkjum við kaþólsku og mótmælendatrú sem meginútgáfur. Eftir frönsku byltingunni á kristni í vök að verjast sem altækt lífsskoðunarkerfi. Vísindalegur sósíalismi var kynntur á 19. öld sem valkostur við kristni sem altæk heimsmynd. Í reynd veraldleg trúarbrögð.

Um miðbik 19. aldar kemur til sögunnar þróunarkenning Darwins sem útskýrir ,,vísindalega" tilurð lífs á jörðu. Kristni hélt þó menningarlegri stöðu sinni, þótt heimsmynd hennar léti á sjá. Tilfallandi, sem er 15 árum eldri en Stefán, fór upphátt með faðirvorið í fyrstu bekkjum barnaskóla Keflavíkur. Morgunbænin var jafn sjálfsögð og lýsið. Menn geta rétt ímyndað sér hvað gert yrði við kennara í dag er léti börn fara með kristilega bæn á hverjum morgni.

Þriðji þátturinn, auk hnignun kristni og hruns kommúnisma, sem lét á sér kræla undir lok síðustu aldar var sú von að eðlisfræðin væri um það bil að útskýra hinstu rök alheimsins. Strengjafræði, héldu menn fyrir 30 árum, myndi sameina almennu afstæðiskenningu Einstein og lögmál skammtafræðinnar. Það yrði til ein kenning um alheiminn og smæstu agnir hans. Eðlisfræði, eins og menn vita, fæst ekki við almætti - nema þá alveldi efnisins. Vísindalegar sannanir virtust á næsta leiti er myndu leiða manninn í fagra nýja veröld.

Stefán og kynslóð hans var í kjörstöðu að ávaxta sitt menningarpund undir öðrum og nýrri formerkjum en hafði tíðkast. Engin kynslóð byrjar með hreint borð; fær góss fortíðar inn í samtíð sína. Kynslóðin á undan, kennd við 68 og hippamenningu, var merkisberi frjálslyndis og uppreisnar gegn ráðandi millistéttarmenningu eftirstríðsáranna. Um 1990 má setja skil. Eitt gildiskerfi hrynur og annað er á flótta.

Hvað kom í staðinn? Ekki vísindaleg niðurstaða um hvernig réttast væri að haga mannlífinu.

Upp úr hattinum kom vók.

Tvær meginhugmyndir vóksins eru loftslagsvá af mannavöldum annars vegar og hins vegar trans. Sú þriðja er að hvítir karlmenn, einkum þeir miðaldra, séu helstu óvinir mannkyns, bæði í sögu og samtíma.

Líkt og marxismi fyrrum segist trúflokkur hamfarasinna byggja heimsendaspár á vísindum. Manngerður koltvísýringur, CO2, ku valda loftslagsvá. Koltvísýringur í andrúmslofti er 97 prósent náttúrulegur - maðurinn ber aðeins ábyrgð á 3%. Heimsendaspámenn kenna að þessi þrjú prósent sem maðurinn er ábyrgur fyrir ráði ferðinni í veðurkerfum. Þau 97% sem náttúran skaffar séu loftslagshlutlaus. Náttúran er meðvitundarlaus. Hún gerir ekki upp á milli koltvísýrings úr bensínvél og eldgosi við Grindavík. Náttúran hagar ekki málum þannig að 97 prósent koltvísýrings hafi engin áhrif á loftslag en þau 3% sem maðurinn veldur skipti sköpum. Meðvitundarlaus náttúra er rökvísari en loftslagsmarxistar sem eiga að heita vitundarverur.

Trans byggir á þeirri forsendu að sumir fæðist í röngu kyni. Transarar útskýra aldrei hvernig hægt er að fæðast í röngum líkama. Enda er það ekki hægt. Enginn fæðist í röngu kyni, punktur. Aftur eru þeir til sem vilja skipta um kyn. Ástæðurnar eru margvíslegar en koma sjaldnast heim og saman við heilbrigða dómgreind. Trúarstefið, að hægt sé að fæðast í röngu kyni, er notað til komast hjá að útskýra hvers vegna einhver vill vera annað en hann er. Flóttinn frá sjálfinu er dulbúinn sem sigur einstaklingsins yfir inngripum æðri máttarvalda er setja ranga meðvitund í réttan líkama eða öfugt, rétta meðvitund í rangan líkama. Vúdú-fræði á öld samfélagsmiðla.

Nýguðfræði vóksins kom eftir trúarþurrð kristni og kommúnisma. Ólíkt kristni og kommúnisma eru hvorki hamfaratrú né trans sjálfstæð gildiskerfi. Vókið i heild sinni er aðskiljanleg sérviska fárra sem nýttu sér nýja samskiptatækni í byrjun aldar, samfélagsmiðla, til að skapa upplýsingaóreiðu, þar sem hvítt varð svart. Alþjóðlegar stofnanir, s.s. Sameinuðu þjóðirnar, tóku firrurnar, einkum loftslagsvá, upp á sína arma. Útbreiðsla sérviskunnar steytti lítt á skerjum eldri gildiskerfa sem voru komin að fótum fram.

Of snemmt er að spá endalokum vóksins. Vælumenningin er víða orðin hagvön, ekki síst í háskólum. Sérvisku skortir þó iðulega úthald til að marka varanleg spor í sögulega framvindu. 

Strengjafræðin, sem vísað var til hér að ofan, stóð ekki undir þeim væntingum að útskýra heiminn í einni setningu. Á meðan ekki er ein kenning um efnisheiminn er orðið laust margvíslegri sérvisku. Ein leið til að halda sönsum er að gjalda varhug við nýmælum lukkuriddara;  horfa yfir farinn veg og meta hvað virkaði áður og hvað ekki. Spyrja um forsendur og rök þeirra sem bera fram nýsannindi. Kallast íhaldssemi. 

 


Vókið er falskt frjálslyndi

Vókið hakkaði sig inn í vestrænt frjálslyndi. Loftslagsvá, trans og opin landamæri eru afleiðingin, segir Kemi Badenoch nýkjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretland. Badenoch gengst stolt við auðkenningunni ,,menningarstríðsmaður." Í menningarstríðinu stendur yfir uppgjör milli heilbrigðrar dómgreindar annars vegar og hins vegar sérvisku sem kennd er við frjálslyndi.

Í baráttunni til að verða leiðtogi Íhaldsflokksins stóð Badencoh keik og sagði þessi sjálfsögðu sannindi: barn getur ekki verið trans. Margur sem kennir sig við borgaraleg stjórnmál þorir ekki að segja upphátt hið augljósa af ótta við hnýfilyrði og aðkast frá vókinu. Lifandi nýburi er með líkama og meðvitund. Líkaminn er annað tveggja karlkyns eða kvenkyns. Barn getur ekki verið í röngum líkama, ekki frekar en það gæti haft ranga meðvitund eða verið af rangri tegund. Það er ómöguleiki.

Vókið, stundum kallað vælupólitík á íslensku, ,,smyglaði inn í stjórnmál hugmyndum sem á yfirborðinu sýnast frjálslyndar en eru það alls ekki," sagði Badenoch á fundi bandarísku miðhægri hugveitunnar International Democracy Union, IDU. Formaður breska Íhaldsflokksins er í Bandaríkjunum að treysta tengslin við Trump verðandi forseta og Repúblíkanaflokkinn.

Ekki þarf að leita lengi að vókistum íslenskum sem þykjast hægrimenn. Guðlaugur Þór ráðherra innleiddi í haust reglugerð um bann við kyngreindum salernum. Badenoch nefnir sérstaklega ókyngreind salerni sem dæmi um falskt frjálslyndi. Inga Sæland formaður Flokks fólksins tók í hnakkadrambið á Guðlaugi Þór og sagði:

Að taka af kynja­skipt sal­erni er hrein og klár aðför að per­sónu­vernd og ör­yggi kvenna. Þrátt fyr­ir að við kon­ur séum líka menn þá ættu flest­ir að vera bún­ir að fatta, að við erum ekki al­veg eins. Ég mót­mæli því af öll­um kröft­um og tel það gróft brot á mann­rétt­ind­um okk­ar að þvinga okk­ur til að pissa stand­andi ell­egar setj­ast á annarra manna þvag. [...]

Þessi reglu­gerð er enn eitt dæmið um hvernig stjórn­völd hafa gert risa­vaxn­ar breyt­ing­ar á sam­fé­lag­inu án sam­ráðs við al­menn­ing eða at­vinnu­rek­end­ur. Há­vær minni­hluti hef­ur á ör­skömm­um tíma náð að snúa sam­fé­lag­inu á hvolf með yf­ir­gangi og aðkasti á alla þá sem voga sér að vera þeim ekki sam­mála.

Guðlaugur Þór er ekki einn um falskt frjálslyndi. Þórdís Kolbrún ráðherra talar eins og vókisti með Rússafóbíu og Palestínublæti. Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir á Facebook um Þórdísi Kolbrúnu:

Hvers vegna lokuðum við ein Norðurlandaþjóða sendiráði í Moskvu? Hvers vegna fór Ísland ekki að dæmi margra annarra Evrópuþjóða og svaraði engu um hina fráleitu handtökuskipun á hendur forsætisráðherra Ísraels? Hvers vegna heldur ráðherrann áfram að ráðast á Ísrael, sem er að reyna að uppræta hryðjuverkasamtök? Utanríkisstefna Íslands á að vera einföld: að selja fisk og tryggja varnir. Við eigum að selja öllum fisk, líka Rússum og Kínverjum (þótt mér geðjist ekki að valdsmönnum þar), og hinir einu, sem geta tryggt varnir okkar, eru Bandaríkjamenn, og þess vegna eigum við að taka okkur stöðu við hlið þeirra. Virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stendur í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra, sagði Bjarni Benediktsson eldri. Það er Íslendingum um megn að frelsa heiminn. Þeir eiga að halda sér til hlés eins og Svisslendingar, hyggnasta þjóð Evrópu.

Sjálfstæðisflokkurinn á verk að vinna í grisjun vóksins innan eigin raða. Góðu heilli er auðvelt nú um stundir að sækja sér erlendar fyrirmyndir. Trump og hans lið varða veginn í vesturheimi. Í Bretlandi er vegvísir nýkjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins, Kemi Badenoch.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband