Mánudagur, 23. október 2023
73% Rússa styðja Úkraínustríðið
Eftir 20 mánaða stríð í Úkraínu og mannfall sem hleypur á tugum þúsunda styðja fleiri en sjö af hverjum Rússum stríðsreksturinn, samkvæmt óháðri skoðanakönnun. Niðurstaðan gengur þvert á frásagnir vestrænna meginstraumsfjölmiðla sem draga upp þá mynd af rússneskum almenningi að hann sé mótfallinn stríðinu sem hófst í febrúar 2022.
Þýska útgáfan Die Welt segir frá könnuninni sem gerð er af Lewada. Die Welt er borgaraleg útgáfa og, líkt og flestir vestrænir fjölmiðlar, höll undir málstað Úkraínumanna. Þannig talar útgáfan iðulega um stríð Pútíns, líkt og það sé einkaframtak forsetans. Die Welt ræðir við stjórnanda Lewada, Lew Gudkow.
Gudkow nefnir tvær meginástæður fyrir tiltölulega breiðum stuðningi rússnesks almennings við Úkraínustríðið. Í fyrsta lagi óttast Rússar að tapa þjóðarsérkennum. Yfirlýst markmið yfirvalda í upphafi átaka var að verja Rússland vestrænni ágengni Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem kappsamlaga unnu að innlimun Úkraínu í hernaðarbandalag vestursins, Nató. Með Úkraínu sem bandamann ættu vesturlönd allskostar við Rússland. Rússar vilji eiga her sem er i stakk búinn að verja landamæri ríkisins.
Seinni ástæðan er að ósigur í Úkraínu ylli kollsteypu heimafyrir, Pútín og ríkisstjórn hans myndu falla. Rússar muna niðurlægingartímabilið frá 1991 til 2000 þegar auðmenn, bæði rússneskir og vestrænir, sölsuðu undir sig ríkiseigur á meðan almenningur átti vart til hnífs og skeiðar. Um aldamótin, þegar Pútín tók við, hófst skeið stöðugleika og efnahagslegra framfara sem allur þorri landsmanna naut ávaxtanna af. Árin eftir fall Sovétríkjanna voru hörmungarár í rússneskri sögu. Lítill áhugi er að endurnýja kynnin.
Blaðamaður Die Welt spyr Gudkow hvort hann muni eftir óvæntum niðurstöðum úr skoðanakönnunum. Eftir umhugsun kveðst Gudkow mun eftir einu svari sem stakk hann. Rússar voru spurðir hvort þeir finndu til persónulegrar ábyrgðar á stríðsrekstrinum í Úkraínu. Aðeins tíu prósent sögðu já. ,,Allur þorri manna skildi ekki einu sinni spurninguna," segir Gudkow.
Stríðið í Úkraínu fellur í skuggann af átökum Hamas og Ísrael, sem hófust 7. október. Á þeim tveim vikum sem liðnar eru versnar staða stjórnarhers Úkraínu. Sumarsóknin fór út um þúfur. Rússar tóku frumkvæðið á vígvellinum. Engar fréttir eru af friðarviðræðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 22. október 2023
Darwinismi fórnarlambanna
Þeir hæfustu lifa af, er hugsun ættuð frá Charles Darwin um miðja 19. öld. Náttúruval heitir kenningin og er ætlað að lýsa þróun lífs á jörðinni. Það lífsform sem best stenst samkeppni í náttúrunni eignast fleiri afkvæmi en þau lífsform sem búa að minni aðlögun. Afleiðingin er að sumar tegundir deyja út en þær hæfustu lifa af. Segir kenningin.
Lítt þekkt staðreynd, en mun þó vera sönn, er að 99% af öllum lífstegundum í sögu jarðlífsins eru útdauðar. Að segja ,,sumar" tegundir lifa af er rangmæli; þær deyja út. Nema þetta eina prósent sem fékk happadrættismiða.
Um aldamótin 1900 var komin til sögunnar samfélagsútgáfa af náttúruvali Darwins, félagslegur darwinismi. Sú útgáfa skipti fólki í æðri og óæðri tegundir. Reykurinn úr ofnunum í Auschwitz-Birkenau var óbein, ef ekki bein, afleiðing af félagslegum darwinisma.
Í okkar samtíma er orðin til enn ein útgáfan af kenningunni um náttúruval. Það má nefna útgáfuna öfugan darwinisma eða, eins og gert er í fyrirsögn, darwinisma fórnarlambanna.
Kjarninn í darwinisma fórnarlambanna er að þeir samfélagshópar sem geta útmálað sig sem mestu förnarlömbin munu erfa landið, þeirra verði almættið. Hugsunin að baki er að fátt veki meiri andstyggð meðal nútímamannsins en vanlíðan. Normið, nýja guðspjallið, er vellíðan. Andstaða þess er vanlíðan sem skal úthýsa með öllum tiltækum ráðum úr mannlífinu.
Vanlíðan er hlutskipti mannsins. Erfiði er vanlíðan sem þjónar tilgangi. Eftir strit við að stinga upp kartöflugarð eða yrkja ljóð fylgir ánægja, - að því gefnu að sæmilega hafi tekist til. Þessi sjálfsögðu sannindi um tilveru mannsins fara fyrir ofan garð og neðan darwinisma fórnarlambanna.
Nýja guðspjallið byggir á trúarsetningu um himneskt jarðlíf velmegunar og ánægju. Eins og nærri má geta er trúarkenningin vestræn út í gegn. Það er aðeins á vesturlöndum sem efnahagsleg velsæld er komin á það stig að einhverjum dytti í hug að dreifa mætti jafnt lífsánægjunni. En það er ekki hægt. Lífsánægja er hugarástand sem verður aldrei til með samfélagsverkfræði.
Sérviskuhópar af margvíslegu tagi hafa sprottið fram og keppast við að lýsa sjálfa sig sem mestu fórnarlömbin er fari á mis við vellíðan er skuli vera almenn mannréttindi. En það eru ekki mannréttindi að líða vel í eigin skinni. Maður þarf sjálfur að leggja eitthvað af mörkum.
Sérviskuhóparnir krefjast ekki aðeins efnahagslegrar velmegunar heldur sálarró sem fylgir því að vera ekki andmælt. Afnám hugsana- og málfrelsis er sameiginlegt einkenni félagslegs darwinisma og darwinisma fórnarlambanna. Í báðum tilfellum er æðsta boðorðið pólitísk rétthugsun. Herraþjóðin og fórnarlömbin eru tvær hliðar á sömu mynt.
Félagslegur darwinismi er mannvonska. Darwinismi fórnarlambanna er heimska. Í sögu ismanna frá Darwin myndu sumir segja að skárra sé heimskt samfélag en mannfjandsamlegt. Það er ekki huggun harmi gegn. Mannvonskan vex upp úr heimsku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 21. október 2023
Tilgáta um hatursglæp Samtakanna 78
Í viðtengdri frétt er haft eftir Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni að enginn sé grunaður vegna meintrar árásar á ráðstefnugest Samtakanna 78 þann 26. september. Fyrir skömmu sagði Grímur að ,,mjög óvanalegt" væri að glæpur af þessu tagi sé ekki upplýstur.
Eftir tæpan mánuð eru þverrandi líkur að rannsókn leiði til staðfestingar að árás hafi verið gerð á ráðstefnugestinn. Án grunaðra stendur aðeins eftir ásökun um glæp.
En hvernig meiddist ráðstefnugesturinn? Fram hefur komið að maðurinn, sem er útlendur, líklega norrænn, slasaðist í andliti, hlaut m.a. tannskaða. Maðurinn var farinn úr landi 36 klukkustundum eftir atvikið og ekkert hefur til hans spurst.
Ef gefið er að maðurinn slasaðist, en ekki vegna árásar, eru tveir möguleikar: sjálfsáverki eða slys, t.d. fall af rafhjóli.
Ef saklausari útgáfan er valin, slys, vaknar spurningin hvers vegna slysið var tilkynnt sem glæpur, líklega hatursglæpur. Jú, það þjónaði tilgangi Samtakanna 78. Þau halda fram að skjólstæðingar sínir séu ofsóttur minnihlutahópur sem ekki nýtur verndar ríkisvaldsins. Fátt er um haldbær rök fyrir sjónarmiðinu en þess meira um upphrópanir.
Hatursglæpur í miðborg Reykjavíkur átti að staðfesta að skjólstæðingar Samtakanna 78 séu ekki óhultir í almannarými. Margir stukku á fordæmingarvagn Samtakanna 78, m.a. ráðherrar og þingmenn og, auðviðtað, gagnrýnislausir fjölmiðlar. Aðfinnslur foreldra á skólastarf Samtakanna 78 átti á kæfa með hatursglæpnum.
Reynist tilgátan rétt, að slys var gert að hatursglæp, hefur það alvarlegar afleiðingar. Í fyrsta lagi er það lögbrot. Í öðru lagi er stórlega vafasamt að veita opinberan fjárstuðning til samtaka sem stunda lögbrot (þótt RÚV sé enn á fjárlögum). Í þriðja lagi verður gengið á stjórnmálamenn sem gleyptu hráar fullyrðingar forsvarsmanna Samtakanna 78. Í fjórða lagi eru fjölmiðlar með allt niðrum sig, líkt og fyrri daginn, endurvarpa staðlausum stöfum hávaðafólks og kalla rannsóknablaðamennsku.
Tilfallandi tekur undir með Grími yfirlögregluþjóni að hér er á ferðinni ,,mjög óvanalegt" atvik sem allir viðkomandi ættu að leggja kapp á að upplýsa. Samtökin 78, sem kærðu og kynntu meinta árás, eru aftur fjarska þögul um málið. Ekkert hefur t.d. frést af meintum brotaþola, reynslu hans af atvikinu og hvernig heilsu hans er háttað. Samtökin segja ekkert og fjölmiðlar spyrja ekki.
Kurlin eru ekki öll komin til grafar í þessu máli.
![]() |
Enn enginn grunaður í tengslum við árásina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 20. október 2023
Trúarstríð, bandalag íslam og vinstrimanna
Þýskt stéttafélag lögreglumanna segir trúarstríð geisa á götum Berlínar, höfuðborgar Þýskalands. Dálkahöfundur Telegraph segir ,,sjúklegt" gyðingahatur á vesturlöndum.
Tilefni trúarstríðsins og gyðingahatursins er átök Ísraela og Hamas. Þau hófust 7. október með fjöldamorðum Hamas á almenningi í Ísrael.
Margir múslímar telja átökin vera á milli trúarsannfæringar, íslam annars vegar og hins vegar gyðingdóms. Víða í Vestur-Evrópu eru fjölmenn samfélög múslíma, t.d. í Berlín.
Margir vestrænir vinstrimenn líta svo á að Ísrael sé nýlenduveldi er sitji yfir hlut araba í landinu helga. Pólitík bætist við landlæga gyðingaandúð.
Bandalag íslam og vinstrimanna býr til pólitíska orku sem má leysa úr læðingi með falsfréttum að Ísraelar stundi fjöldamorð s.s. með árás á sjúkrahús.
Ísraelsríki var stofnað 1948. Yfirstandandi átök eru ekki ólík mörgum fyrri í 75 ára sögu Ísrael.
Mótmælin til stuðnings Hamas síðustu daga í Vestur-Evrópu gefa til kynna að bandalag múslíma og vinstrimanna sé sterkara en áður.
Almennt eru vestrænir vinstrimenn ekki trúaðir, fremur halla þeir sér að guðlausri veraldarhyggju. Ef dæmigerður vinstrimaður yrði að velja sér búsetu og valið stæði á milli Ísrael eða múslímaríkis, t.d. Egyptalands, Írak eða Íran, myndi sá dæmigerði velja Ísrael sem byggir á vestrænum gildum.
Múslímar á vesturlöndum kjósa vestræn lífskjör en hafna samfélögum þar sem íslam ræður ríkjum. Almennt eru lífsgæðin síðri í múslímaríkjum og mannréttindi í skugga trúarsetninga.
Það sem sameinar múslíma og vinstrimenn, fyrir utan gyðingaandúð, er hatrið á vestrænum gildum og lífsháttum. Mótsögnin er að hvorugur hópurinn, múslímar og vinstrimenn, vilja vera án vestrænna lífsgæða.
Svo vill til að á íslensku var á 13. öld skrifað um sálarástand vestrænna múslíma og vinstrimanna. Greiningin er lögð í munn blóðþyrstrar konu sem ellimóð sagði forvitnum syni sínum hver stæði hjarta hennar næst af föllnum ástmönnum. ,,Þeim var ég verst er ég unni mest."
![]() |
65 lögregluþjónar særðir í Berlín: Brennið allt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 19. október 2023
Gulla-skýrslan: það gæti kólnað, hækkum samt skatta
Í skýrslu Guðlaugs Þórs umhverfisráðherra segir meira muni hlýna norðan lands en sunnan og sums staðar kólni. Orðrétt
Niðurstöður líkanreikninga benda til þess að hlýnun verði meiri norðan við landið en sunnan við það. Í mörgum líkönum gætir tímabundinnar, staðbundinnar kólnunar.
Segja sem sagt líkönin í fleirtölu. Hér væri réttara að segja: margar ágiskanir eru um veðurfar framtíðar, það gæti hlýnað en líka kólnað.
Líkan gefur útkomu samkvæmt forsendum líkanasmiðsins. Líkön í höndum áhugamanna um hlýnun af mannavöldum sýnir niðurstöðu sem fyrirfram er ákveðin. En jafnvel hörðustu hamfarasinnar hafa orðið að éta ofan í sig fyrri orð um heimsbyggðin stikni á næstunni sakir útblásturs mannsins á koltvísýringi, CO2. Það getur líka kólnað. Vísindin vita það ekki. Löngu fyrir daga vísinda var vitað að veður er breytilegt.
Í raun ætti yfirskriftin á skýrslunni að vera: Loftslag breytist frá einum tíma til annars.
Norska hagstofan birti rannsóknaskýrslu nýlega um áhrif manngerðs koltvísýrings á loftslag jarðar. Þar segir að líkön geti ekki greint á milli náttúrulegra hitabreytinga og meintra áhrifa mannsins á loftslag jarðarinnar síðustu 150 árin. Lokaorðin eru eftirfarandi:
niðurstöður gefa til kynna að áhrif af manngerðum koltvísýringi séu ekki nægilega sterk til að valda kerfisbundnum breytingum á hita. Með öðrum orðum, greining okkar sýnir að með núverandi þekkingu er ómöguleg að segja til hve hátt hlutfall hitahækkunar sé af völdum CO2-útblásturs.
Í Gulla-skýrslunni er oft og mörgum sinnum kvartað undan of litlu fé í þetta og hitt til að skilja að veðurfar breytist frá einum tíma til annars.
Aukið skattfé til rannsókna á þekktu ástandi, að veðurfar breytist, er sóun á almannafé. Guðlaugur Þór ætti ekki að tala fyrir hækkun skatta á almenning til að moka í botnlausa hít sem engu skilar.
![]() |
Sláandi en ekki óvæntar niðurstöður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. október 2023
Kona barnaði karl
Kona barnaði karl, sem gekk með fóstrið í 24 mánuði. Er nýburinn kom í heiminn var hann miðaldra hvítur karlmaður. Við ljósmóðurina segir miðaldra barnið:
Ég lít kannski út eins og miðaldra hvítur karl. Í reynd er ég þeldökk kona á óræðum þrítugsaldri. Vinsamlega skráðu mig rétt í fæðingardagbókina. Gemmér svo eitthvað að drekka og hafðu það áfengt. Ég á erfitt líf fyrir höndum verandi getin af konu og fædd af karli og mér er vorkunn. Kallaðu svo í blaðamann. Á eftir vímu er sýnileiki það brýnasta í lífinu. Spegill opinberrar umræðu gerir ímyndun mína trúverðuga.
Ljósmóðirin reiddi óðara fram tvöfaldan vodka í kók handa nýburanum og samsinnti að fjölmiðlar væru bráðnauðsynleg skolpveita ósanninda. Lífið væri hvort eð er áfeng lygi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 17. október 2023
Heimsslit, Ísrael og Úkraína
Ótti við kjarnorkustríð gerði vart við sig er tvísýnt var um framgang sléttustríðsins í Garðaríki. Sagt var að Pútín forseti Rússlands kynni að beita kjarnorkuvopnum færi hann halloka í Úkraínu. Vestrið tók slaginn engu að síður.
Eftir fjöldamorð Hamas á gyðingum og svar Ísraelshers var ekki rætt um heimsslit. Áhyggjur beindust norðurlandamærum Ísraels, hvort skjólstæðingar klerkanna í Íran kynnu að opna nýja víglínu. En almennt var ekki talað annað en að um staðbundin átök yrði að ræða með tilheyrandi hörmungum þeirra sem í hlut eiga en litla hættu á kjarnorkubáli.
Eftir árás Hamas á Ísrael hvarf Úkraína af dagskrá fjölmiðla. Sléttustríðið varð að héraðsríg slavneskra frændþjóða.
Á meðan Úkraína var til umræðu stóð vestrið nokkuð einhuga að baki stjórn Selenskí í Kænugarði. Litlar fréttir voru af vestrænum kröfum, hvort heldur frá valdamönnum eða almenningi, um að saminn yrði friður. Einhugur um að láta Úkraínu blæða út til að skaða Pútín.
Öðru máli gegnir um afstöðuna til Ísrael. Þar gildir að þorri ráðamanna á vesturlöndum fordæmir Hamas. En víða, t.d. í henni Reykjavík, má heyra af samkomum, mótmælum, til stuðnings málstað Palestínumanna sem túlkaður er a.m.k. sem óbeinn stuðningur við fjöldamorð Hamas ef ekki fullur stuðningur.
Meginstuðningurinn við Palestínumenn og Hamas í vestrinu er frá vinstrimönnum. Meðal vinstrimanna, ekki allra en stórum hópum þeirra, er litið svo á að Ísrael eigi sér tæpast tilverurétt.
Samkvæmt forskrift meginstraumsfjölmiðla stendur Úkraínustríðið um tilvistar- og sjálfsákvörðunarrétt úkraínsku þjóðarinnar. Ráðandi frásögn sem fáir andmæla. En aftur telja stórir hópar, einkum vinstrimenn, að vafi leiki á tilvistarrétti Ísrael. Raunar ganga sumir skrefinu lengra og taka undir með Hamas: Ísrael skal afmá af landakortinu.
Fyrir Úkraínu má stefna heimsfriðnum í hættu. En fyrir Ísrael skal ekki gera meira en að þjóð gyðinga rétt tóri, ef það. Ísrael er örríki í samanburði við Úkraínu. Ef Úkraínuher myndi leggja niður vopn á morgun þyrftu landsmenn varla að óttast skipulagðar ofsóknir Rússa. Ef Ísraelsher legði niður vopn á morgun stæðu gyðingar frammi fyrir útrýmingu.
Samhygðin er töluvert meiri með slavneskri þjóð en gyðingaþjóðinni. Þeir sem skipta ójafnt manngæskunni telja sig undantekningalaust til mannvina.
Hún er kyndug mennskan á vesturlöndum. Einkum vinstrimennskan.
![]() |
Frelsishetja eins hryðjuverkamaður annars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 16. október 2023
Viðbrögð við gyðingahatri á Íslandi
Fróðlegt verður að sjá viðbrögð íslenskra stjórnvalda við staðfestum dæmum um gyðingahatur hér á landi. Bæði forsætisráðuneytið og ráðhús Reykjavíkur reka sérstakar mannréttindaskrifstofur er gagngert hafa það hlutverk að fjalla um hatur og mismunun gagnvart minnihlutahópum.
Um 200 gyðingar munu vera hér á landi. Eftirfarandi er haft eftir Finni Thorlacius Eiríkssyni talsmanni menningarfélags gyðinga.
Hatursorðræða gegn gyðingum er svolítið stikkfrí. Fólk sem berst gegn hatursorðræðu þegir oft þegar það verður vitni að hatursorðræðu gegn gyðingum
Má ekki búast við Katrín forsætis og Dagur borgarstjóri láti til sín taka og virkja mannréttindadeildirnar til að álykta og efna til funda um gyðingaandúð? Verða ekki fluttir inn fyrirlesarar til að setja elsta og ofstækisfyllsta hatur á minnihlutahópi í sögulegt samhengi?
Líklega ekki.
Stórir hópar frjálslyndra vinstrimanna á vesturlöndum styðja hryðjuverk Hamas og íslamista. Fléttast þar saman rómantík frjálslyndra vinstrimann gagnvart skæruliðum og ofbeldismenningu annars vegar og hins vegar gyðingaandúð.
Meintir íslenskir sérfræðingar í hatursorðræðu sjá í gegnum fingur sér er hatrið beinist að hópum sem þeir sjálfir hafa ímugust á. Öll hugmyndafræðin í kringum hatursorðræðuna snýst einmitt um að virkja hatur í þágu pólitískra markmiða.
![]() |
Gyðingaandúð vandamál á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 15. október 2023
Sigmundur Davíð, Kristrún og baráttan um Sjálfstæðisflokkinn
Bjarni Benediktsson er á leið úr pólitík, stólaskiptin við Þórdísi Reykfjörð staðfesta það. Ráðgert er að konan sem lýsti stríði á hendur Rússlandi verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Þórdís Reykfjörð býr ekki að dómgreind til að móðurflokkurinn verði annað en þriðja hjólið undir landsmálavagninum.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar ætlar sér að fylla í valdatómarúmið og bjóða fram undir merkjum Samfylkingarsjálfstæðisflokks, stétt með stétt. Herfræðin er að færa Samfylkingu til hægri, á fylgislendur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar.
Strætisvagninn með breiðfylkingu sjálfstæðiskrata er löngu farinn. Ríkisrekstur eða einkarekstur eru ekki mál málanna. Yfirstandandi menningarstríð, sem er bæði háð inn á við, með deilum um líffræði eða kynóra, og út á við, þar sem álitamálin eru íslensk menning eða fjölþjóðlegur óskapnaður, er ráðandi slagur. Efnahagsmál eru áfram mikilvæg en menningarstríðið skör hærra í pólitískum slag um forystu í landsmálum.
Ung kona er kallar sig hagfræðing en veit ekki muninn á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti á eigin skattframtali er ekki trúverðug. Þá er formaður Samfylkingar blautur á bakvið eyrum í menningarstríðinu og eftir því illa í stakk búinn að marka flokknum sérstöðu.
Brotthvarf Bjarna býr til sóknarfæri fyrir Sigmund Davíð. Miðflokkurinn getur vaxið nægilega til að toga Sjálfstæðisflokk úr örmum Samfylkingar. Stjórnmálaþroski Sigmundar Davíðs er ljósárum á undan bernskubrekum Kristrúnar.
Hvað með Kötu spöku og Vinstri græna? Í menningarstríðinu er enginn munur á henni og Samtökunum 78. Vúdú-fræðin eru að syngja sitt síðasta. Þau þola ekki umræðu enda byggð á hindurvitnum um sálnaflakk.
Það verða Sigmundur Davíð og Kristrún sem heyja baráttuna um Ísland. Reykfjörð-útgáfa Sjálfstæðisflokksins fylgir sigurvegaranum.
![]() |
Vill gera einkunnarorð Sjálfstæðisflokks að sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 14. október 2023
Glæpur Samtakanna 78 óupplýstur
Samtökin 78 kærðu til lögreglu líkamsárás þriðjudaginn 26. september. Jafnframt kæru til lögreglu tilkynntu Samtökin 78 glæpinn með Facebook-færslu. RÚV segir daginn eftir atvikið
Ráðstefnugestur Samtakanna 78 var fluttur á slysadeild eftir líkamsárás í miðborginni í gærkvöld. Lögregla var kölluð til. Samtökin greina frá þessu í færslu á Facebook og segja að líðan mannsins sé eftir atvikum.
Maðurinn var útlendur og daginn eftir fór hann með flugvél heim til sín. Samtökin 78 gerðu því skóna að um væri að ræða hatursglæp án minnstu sannana að svo væri. Framkvæmdastjóri samtakanna sagði í viðtali daginn eftir atvikið að kærðan glæp ætti að setja í samhengi við skort á löggjöf sem takmarkar tjáningarfrelsið. Framkvæmdastjórinn nánast krefst þess að Samtökin 78, og áhugamál þeirra, fái friðhelgi frá gagnrýni. Að öðrum kosti verði barsmíðar og líkamsmeiðingar. Gefum honum orðið:
Daníel átti fundi með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær og segir þær báðar líta málið alvarlegum augum.
Við ræddum um málefnin í stóru samhengi. Hatursorðræðu og hatursglæpi, þessi löggjöf í forsætisráðuneytisins er ekki á þingmálaskrá ríkistjórnarinnar núna, en ég veit að forsætisráðherra ætlar að beita sér í málinu, segir Daníel.
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 er þungvopnaður andstæðingur frjálsrar hugsunar. Hann segir nánast að Reykjavík sé ekki hótinu skárri en Gaza-ströndin fyrir fólk í regnbogalitum. Ástæðan sé að enn hafi Íslendingar mál- og tjáningarfrelsi. Það er ekki einu sinni vitað hvort meintir gerendur séu læsir á íslensku.
Þrátt fyrir að kæra meintan glæp og tilkynna á Facebook-síðu gáfu Samtökin 78 fjölmiðlum ekki færi á að spyrja skjólstæðing sinn, þolanda glæpsins. Ekki eru fréttir hve alvarleg árásin var og hvaða miski hlaust af. Þolandinn var ferðafær daginn eftir atvikið og fór heim og þegir stíft, ólíkt talsmönnum Samtakanna 78.
Atvikið átti sér stað í miðborg Reykjavíkur. Þar er krökkt af eftirlitsmyndavélum. En málið er óupplýst eftir þrjár vikur. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir málið hið undarlegasta. Haft er eftir Grími að ,,mjög óalgengt" sé að glæpir af þessu tagi séu óupplýstir.
Cui bono, hver hagnast, er spurt um óupplýstan glæp.
Fjölmiðlaherferðin í kjölfar atviksins þriðjudaginn 27. september svarar spurningunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)