Mánudagur, 10. mars 2025
Þóra og RÚV tóku sér valdheimildir sem lögreglan hefur ekki
Sækist lögreglan eftir upplýsingum í símtæki vegna sakamálarannsóknar þarf hún að afla sér dómsúrskurðar. Dómari vegur og metur friðhelgi einkalífs andspænis opinberum hagsmunum, að upplýsa afbrot. Lögreglan hefur ekki lagalega heimild, né nokkur annar, til brjótast inn í einkasíma án dómsúrskurðar.
RSK-blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum tóku sér með ólögmætum hætti víðtækari heimildir en lögreglan hefur þegar þeir vorið 2021 afrituðu síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Spurðu hvorki kóng né prest. Veittu viðtöku stolnum síma, sem fékkst með byrlun, og afrituðu. Ekki til að upplýsa afbrot heldur afla frétta til að klekkja á Samherja.
Eva Hauksdóttir lögmaður skipstjórans vekur athygli á lögleysu Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Eva segir verknaðinn jafngilda innbroti og sé gróf aðför að einkalífi.
Fyrsta bloggið sem tilfallandi skrifaði um byrlunar- og símamálið, 2. nóvember 2021, fjallaði einmitt um valdheimildirnar sem blaðamenn RSK-miðla tóku sér:
Eftir að síma Páls var stolið komst innihald símans til RÚV og samstarfsfjölmiðla sem vitnuðu ótæpilega í samskipti Páls við aðra undir þeim formerkjum að Páll væri í ,,skæruliðadeild" Samherja.
En nú vaknar spurning. Fékk RÚV eða einhver samstarfsaðili dómsúrskurð til að nota efni úr snjallsímanum? Það er harla ólíklegt enda hefði Páll skipstjóri líklega eitthvað um það að segja hvort sóttar væru upplýsingar í símann.
Varla er það svo að RÚV og samstarfsaðilar hafi rýmri heimild en lögreglan að skoða síma einstaklinga út í bæ sem hafa það eitt til saka unnið að bera blak af Samherja?
Þegar tilfallandi skrifaði færsluna fyrir hálfu fjórða ári voru ekki komin fram gögn sem sýna svart á hvítu að sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti. Nú liggur fyrir að RÚV tók sér valdheimildir til að brjótast inn í einkasíma og stela þaðan gögnum.
Eva Hauksdóttir lögmaður furðar sig að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri neiti að upplýsa byrlunar- og símamálið, lætur eins og málið komi sér ekki við. Gögn málsins sýna að aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti. Sími skipstjórans var afritaður á RÚV. Fréttir með vísun í gögn úr símanum birtust á hinn bóginn ekki á RÚV. Leynd og blekking var viðhöfð til að fela tengsl milli aðgerðamiðstöðvar og fréttaflutnings. Tvær útgáfur sömu fréttar voru skrifaðar á RÚV og sendar til birtingar á Stundinni og Kjarnanum, þar sem þær birtust samtímis morguninn 21. maí 2021. Engin tilviljun á ferðinni, unnið var samkvæmt skipulagi.
Eva hefur, fyrir hönd Páls skipstjóra, farið fram á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis taki málið á dagskrá. Árlega samþykkir alþingi fjárframlag til RÚV upp á sex milljarða króna. RÚV starfar samkvæmt lögum frá alþingi. Stjórn RÚV er tilnefnd af alþingi. Ríkar skyldur eru á alþingi að upplýsa aðkomu og aðild RÚV að alvarlegu sakamáli.
![]() |
Frömdu starfsmenn Ríkisútvarpsins innbrot? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 9. mars 2025
Kulnun vísinda og mennta
Nær helmingur háskólakennara brennur út, kulnar, samkvæmt viðtengdri frétt. Frá háskólum koma kennarar til starfa á lægri skólastigum, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Kennslan er með þeim hætti að 15 ára nemandi skilur ekki grunnhugtak eins og rök.
Skoðanagrein á Vísi varpaði ljósi á málið og úr varð frétt í sama miðli.
Kulnunarfrétt Morgunblaðsins og umfjöllun í Vísi segja sömu söguna. Vísindi og menntun byggja ekki lengur á gagnrýnni hugsun heldur pólitískum rétttrúnaði.
Imbavæðingin byrjar í háskólasamfélaginu og smitast niður. Í leik- og grunnskólum er kennt að kynin séu þrjú, fimm eða seytján; að hægt sé að fæðast í röngu kyni. Þá er einnig kennt að Hamas standi fyrir manngæsku og að Gréta Thunberg sé æðsti sannleikurinn um loftslagsmál. Ekkert af ofangreindu stenst gagnrýna hugsun en allt fær tíu á skala pólitísks rétttrúnaðar.
![]() |
40% með einkenni kulnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 8. mars 2025
Logi beitir ríkisvaldinu gegn Morgunblaðinu
Umfjöllun Morgunblaðsins um styrkjamál Flokks fólksins leiddi til þess að Logi Einarsson ráðherra fjölmiðla breytti reglum um styrki til fjölmiðla. Breytingin fól í sér að hámarsfjárhæð til einkarekinna fjölmiðla var lækkuð. Tveir fjölmiðlar verða fyrir barðinu á ákvörðun Loga, Morgunblaðið og Sýn (Vísir, Stöð 2 og Bylgjan).
Í viðtengdri frétt Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt minnisblöðum úr menningarmálaráðuneytinu, sem blaðið fékk aðgang að, var tekin ný ákvörðun á milli ríkisstjórnarfunda um að lækka fjölmiðlastyrkinn til Morgunblaðsins og Sýnar.
Verkaskiptingin á milli ríkisstjórnarflokkanna liggur fyrir. Flokkur fólksins stundar sjálftöku úr ríkissjóði en Samfylking sér um að setja þá fjölmiðla út af sakramentinu sem fjalla um gripdeildina.
Grímulaus valdbeiting ríkisvaldsins gegn sjálfstæðum fjölmiðli sýnir svo ekki verður um villst hugarfarið á ríkisstjórnarheimilinu til frjálsrar umræðu.
Ríkisstjórnin er á hættulegri braut. Fordæmið sem hún setur með hrárri valdbeitingu boðar illt. Ekki síst fyrir ríkisstjórnina sjálfa og þá hagsmuni sem hún þykist að nafninu til bera fyrir brjósti og kallast almannahagur.
![]() |
Minnisblöðum ber illa saman við orð ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 7. mars 2025
Trump: stórveldafriður í stað staðgenglastríðs
Úkraínustríðið er staðgenglastríð. Í stað þess að Nató-hermenn berjist við Rússa eru Úkraínumenn málaliðar sem fá vopn og fjármagn frá Bandaríkjunum og ESB-Evrópu til að berjast á gresjum Garðaríkis forna. Trump forseti býður stórveldafrið í stað staðgenglastríðs og fær þungar ákúrur frá ESB-Evrópu fyrir vikið. Á Íslandi er tekið undir með gömlu nýlenduveldunum sem ólm vilja gera sig gildandi í heimsskipan á hverfandi hveli.
Stórveldafriður þýðir að eitt stórveldi, Bandaríkin, semji við annað stórveldi, Rússland, um að friður skuli ríkja þar sem áður var hildarleikur. Í grunninn einfalt. Margt annað hangir á spýtunni sem flækir ögn málefnin, þótt meginlínur séu skýrar.
Umpólun er á stefnu Bandaríkjanna að viðurkenna Rússland sem stórveldi. Fyrir rúmum áratug lýsti Obama forseti Rússlandi sem héraðsríki í Austur-Evrópu. Gott og gilt sem slíkt, en ekkert merkilegra en héraðsríkin Vestur-Evrópu, Frakkland, Þýskaland og Bretland, sem lúta forsjá Bandaríkjanna í utanríkismálum frá lokum seinna stríðs. Sumir gengu lengra en Obama að lýsa Rússlandi ómerkilegu. Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagði Rússland bensínstöð í líki þjóðríkis. Orð Obama og McCain féllu á velmektardögum vestrænnar alþjóðahyggju þegar þjóðríki og þjóðmenning voru talin fortíðargóss. Annað hefur komið á daginn. Lykilorðin í alþjóðaþróun á liðnum áratug eru Trump 2016, Brexit, Pútín og Trump 2024.
Með því að Trump viðurkennir Rússland sem stórveldi er ESB-Evrópa sjálfkrafa gjaldfelld. í Brussel og höfuðborgum héraðsríkja í Vestur-Evrópu er litið á stefnubreytingu Trump sem móðgun í einn stað en í annan stað hótun um að Bandaríkin láti ESB-Evrópu eina um að kljást við Rússa að stríði loknu. ESB-Evrópa, þrátt fyrir um 450 milljónir þegna, stendur þar höllum fæti gagnvart 140 milljón Rússum, einkum á afmörkuðum sviðum s.s. hernaði og náttúruauðlindum. Fjörugt ímyndunarafl þarf til að trúa að Rússland sé á leið með her sinn í Vestur-Evrópu. Sögulega er einstefna í hina áttina. Napóleon 1812, Þýskalandskeisari 1914 og austurríski liðþjálfinn 1941. Öflugt Rússland girðir aftur fyrir útþenslu ESB og Nató í austurátt. Sú stefna tilheyrir veröld sem var.
Ástæðan fyrir viðurkenningu Trump á Rússlandi sem stórveldi er þríþætt. Í fyrsta lagi eru Rússar kjarnorkuveldi. Í öðru lagi eru Rússar á sigurbraut í Úkraínu þrátt fyrir einarðan stuðning vesturveldanna og harðar refsiaðgerðir. Í þriðja lagi eiga Rússar sterkt alþjóðlegt bakland, Brics-samstarfið og tvíhliða samstarf við Kína og Íran og fjöldann allan af þriðja heims ríkjum. Rússland er hvergi nærri á pari við Bandaríkin og Kína, en í öruggu þriðja sæti.
Stefna Trump er að efla Bandaríkin sem efnahagsveldi fremur en hernaðarveldi. Færri stríð og meiri viðskipti þar sem Bandaríkin njóti heimamarkaðar er vegvísirinn. Bandaríkjaforseti lítur svo á að Evrópa sé ekki lengur kjarnasvæði Bandaríkjanna, líkt og álfan var á dögum kalda stríðsins. Kyrrahaf er forsetanum hugstæðara en Atlantshaf. Nema sá hluti Atlantshafs sem liggur næst Bandaríkjunum. Trump ítrekaði nýverið að hann sæi bandarískt Grænland fyrir sér. Bandaríkin hafa áður eignast lönd með viðskiptum, s.s. Alaska, Louisiana og hluta Kaliforníu. Grænland er næsti nágranni Íslands í vestri, þótt ESB-sinnar hér á landi viti það ekki.
Valkosturinn við stórveldafrið Trump er framhald á staðgenglastríðinu. Stríðum lýkur með tvennum hætti, uppgjöf eða málamiðlun, þ.e. friðarsamningi. Ef gefið er að hvorugur stríðsaðilinn, Úkraína og Rússland, muni gefast upp verða gerðir friðarsamningar. Stórveldafriður gæti fengist í ár. Friður í staðgenglastríðinu yrði kannski eftir þrjú, fimm eða sjö ár. Á þeim tíma vofir sú hætta yfir að Úkraínuátökin breytist í Austur-Evrópustríð og í framhaldi þriðju heimsstyrjöld. Ekki huggulegar horfur.
ESB-Evrópa reynir allt sem í hennar valdi stendur að fresta því óhjákvæmilega. Bandaríkin segja sig frá vestrænni alþjóðahyggju eins og hún hefur verið stunduð frá lokum kalda stríðsins. Nýr veruleiki stórveldahagsmuna blasir við á alþjóðasviðinu. Þar er ESB-Evrópa í aukahlutverki, veigamiklu að vísu, en hvergi nærri aðalleikari. Stórveldin eru aðeins þrjú og í þessari röð: Bandaríkin, Kína og Rússland.
Stórveldafriður er besti kosturinn í Úkraínustríðinu. Sérstakur bónus er að vestræn alþjóðahyggja er í leiðinni sex fet ofan í jörð. Menningarhryllingurinn sem vestræn alþjóðahyggja ól af sér er siðlaus fáviska.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 6. mars 2025
RÚV er samfélagsmein
Fjölmiðlar á Íslandi hanga á horriminni, allir nema RÚV. Árlega eru sex milljarðar af almannafé settir í hítina á Efstaleiti. Í ofanálag ryksugar RÚV auglýsingamarkaðinn. Hlutdeild ríkisfjölmiðilsins á fjölmiðlamarkaði er þrefalt meiri á Íslandi en tíðkast á hinum Norðurlöndunum.
Á meðan sjálfstæðir fjölmiðlar lepja dauðann úr skel vex markaðsdrottnun RÚV. Á öðrum Norðurlöndum eru ríkisfjölmiðlar ekki á auglýsingamarkaði. Hér á Íslandi er RÚV ráðandi.
Yfirburðastaða í fjölmiðlun ræktar með RÚV hroka og yfirgang. Stjórnendur RÚV telja sig ekki þurfa fylgja landslögum og almennu siðferði. Morgunblaðið hefur í nokkrum fréttum og fréttaskýringum fjallað um byrlunar- og símamálið.
Vorið 2021 tóku fréttamenn RÚV við stolnum síma, sem fenginn var með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal. Útvarpsstjóri og fréttastjóri RÚV viðurkenndu í febrúar 2022 að símanum var veitt viðtöku á RÚV. En RÚV birti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Frétti var skrifuð á RÚV og myndefni tekið, skjáskot af síma skipstjórans. Fréttin var með leynd flutt í tveim útgáfum til birtingar í Stundinni og Kjarnanum.
Yfirlýsing lögreglu tekur af öll tvímæli að miðstöð aðgerða RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans var í Efstaleiti:
Sakborningurinn [eiginkonan] hefur einnig verið stöðugur í framburði um að hafa upplýst þá sem tóku við símanum hvernig síminn væri til kominn og hver ætti símann. Í júlí síðastliðnum [2024] upplýsti sakborningur um að hafa afhent fréttamanni RÚV símann í húsnæði RÚV í Reykjavík.
Í samantekt Morgunblaðsins yfir atburðarásina frá vorinu 2021 til dagsins í dag vakna fjölmargar áleitnar spurningar um aðkomu fréttamanna RÚV að byrlunar- og símamálinu. Hvað gerir útvarpsstjóri? Jú, hann neitar að svara spurningum. Með hroka skal drepa umfjöllun um fréttamál sem liggur eins og mara á íslenskum fjölmiðlum.
![]() |
Fækkað um 1.400 á einkareknum miðlum en 50 hjá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 5. mars 2025
Stefán kaupir þögn Helga Seljan
Helgi Seljan er atvinnulaus síðan hann hætti á Heimildinni fyrir fimm mánuðum. Fyrir skemmstu mætti hann í settið hjá vini sínum Gísla Marteini og sagðist í sjálfboðavinnu hjálpa fíklum að sprauta sig með hreinum nálum. Sjálfboðavinna af þessum toga er gjarnan stunduð af þeim sem hafa brunnið út og eru í endurhæfingu.
Endurhæfing Helga gengur það vel að nú er hann kominn í afleysingastarf á RÚV. Frá RÚV var Helgi látinn fara áramótin 2021/2022. Lögreglurannsókn var hafin í byrlunar- og símamálinu. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri varð að losa sig við þá sem voru í sambandi við andlega veika konu sem byrlaði Páli skipstjóra Steingrímssyni, stal síma hans og afhenti Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks og yfirmanns Helga Seljan.
Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti á Samsung síma RÚV með númerið 680 2140. Útvarpsstjóri staðfestir að símanúmerið er á RÚV en neitar að upplýsa hvar síminn sé niðurkominn. Ekkert hefur spurst til símans síðan sumarið 2021.
Afritað eintak af síma Páls skipstjóra var til á RÚV frá og með 4. maí 2021. En RÚV birti enga frétt með vísun í gögn úr fórum skipstjórans. Þóra og Helgi á ritstjórn Kveiks ákváðu að ekki væri óhætt að RÚV birti fréttina sem þau höfðu undir höndum. Hvers vegna? Jú, það er ólöglegt að afrita síma í heimildarleysi. Þau vissu að síminn var skipstjórans, eiginkona hans afhenti þeim símann. Þegar eiginkonan mætti eftir hádegi 4. maí 2021 á Efstaleiti var til reiðu samskonar sími og skipstjórans, af Samsung gerð, til að afritun mætti fara fram. Hvernig vissu Þóra og Helgi að sími skipstjórans væri af gerðinni Samsung?
Fréttin sem var unnin á RÚV birtist í tveim útgáfum á Stundinni og Kjarnanum, samtímis að morgni dags þann 21. maí 2021, samkvæmt skipulagi sem ákveðið var á Efstaleiti. Skráður höfundur fréttarinnar á Stundinni er Aðalsteinn Kjartansson, sem hafði verið samstarfsmaður Þóru og Helga á Kveik þangað til þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans. Fréttin í Kjarnanum er höfundarmerkt Þórði Snæ Júlíussyni og Arnari Þór Ingólfssyni, sem báðir eru nýorðnir starfsmenn þingflokks Samfylkingar. Verður fróðlegt að sjá hvernig þingmenn Samfylkingar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis taka á erindi Páls skipstjóra.
Helgi Seljan var í sambandi við eiginkonu skipstjórans. Fyrsta yfirheyrslan í lögreglurannsókninni fór fram 5. október 2021. Tíu dögum síðar var Helgi mættur í settið hjá vini sínum Gísla Marteini. Þeir eru jú félagar og þegar mikið liggur við gefur Gísli Marteinn vinum sínum vettvang til að vinna sér inn prik.
Helgi bar sig aumlega, kvaðst ,,ekki sterkur á geði" í sófanum hjá Gísla Marteini. Verðlaunablaðamaðurinn sagðist ofsóttur af norðlenskri útgerð án þess að útskýra í hverju þær fælust. Sumir norðan heiða myndu segja að þar sneri Helgi sannleikanum á haus. Allt frá árinu 2012, með Seðlabankamálinu, til Namibíumálsins 2019 og skæruliðamálsins 2021 er það Helgi sem eltir og ofsækir með RÚV sem bakhjarl. Heimildirnar sem verðlaunablaðamaðurinn teflir fram eru fölsuð gögn, ógæfumaður og vanheil kona. Ríkisfjölmiðillinn er ekki vandur að virðingu sinni þegar kemur að klappa Samherjasteininn.
Tilgangurinn með sviðsetningu RÚV í þætti Gísla Marteins fyrir hálfu fjórða ári var að afla Kveiks-manninum samúðar. Eiginkona skipstjórans vorkenndi Helga eftir snöktið á skjánum og skrifaði Þóru ritstjóra Kveiks tölvupóst, sem er að finna í rannsóknagögnum lögreglu. Tölvupósturinn er svohljóðandi:
Sæl Þóra, mér sýnist Helga ekki veita af aðstoð. Er ekki bara kominn til til að ég afhjúpi mig. Ég hef hvor eð er ekki neitt að missa. Kveðja XXX (nafn fellt út af pv)
Ekki er að finna í gögnum lögreglu svar Þóru. Líkt og mörgum öðrum stafrænum sporum hefur svarinu verið eytt. En það liggur fyrir tilboð um játningu. Blaðamenn vissu vitanlega að játning fæli í sér afhjúpun á þeim sjálfum. Þeir hafa beðið konuna lengstra orða að segja sem minnst.
Nú er Helgi Seljan á ný mættur til starfa á RÚV. Örorkubætur gefa ekki mikið í aðra hönd, starfstilboðum hefur ekki rignt yfir verðlaunablaðamanninn. Ráðningin fór ekki fram án vitundar og vilja Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra. RÚV skilar tapi þrátt fyrir sex milljarða framlag frá ríkissjóði en það er alltaf til peningur að bera fé á mann og annan.
Útvarpsstjóri veit að arki lykilvitni um göturnar á bótum er alltaf hætta á að einn góðan veðurdag gefi það sig fram við lögreglu og lýsi sig tilbúið í skýrslutöku um atburðina vorið 2021. Stefán útvarpsstjóri á starf sitt undir og orðspor að byrlunar- og símamálið verði aldrei upplýst.
Helgi Seljan á Glæpaleiti hentar útvarpsstjóra prýðilega. Sá á hund sem elur.
![]() |
Helgi Seljan snýr aftur til RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 4. mars 2025
Trump-friður eða ófriður í boði ESB-Evrópu
Trump Bandaríkjaforseti ætlar sér frið í Úkraínu fyrr en seinna. Skilaboðin frá Washington eru að friði verði komið á með eða án Selenskí Úkraínuforseta og helstu bakhjarla hans, Bretlands og ESB-Evrópu.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands reynir að feta milliveg, bjóða upp á vopnahlé sem undanfara friðarsamninga. Á meðan friðarviðræður standa yfir muni breskt og franskt herlið gæta víglínunnar. Tillaga Starmer á neyðarfundi í London í gær er sambærileg og Macron Frakklandsforseti lagði fram í París fyrir hálfum mánuði. Í báðum tilvikum er hugmyndin að Bandaríkin taki óbeinan þátt, tryggi öryggi bresku og frönsku hermannanna.
Ekkert bendir til að Bandaríkjamenn taki undir með Starmer og Macron. Báðir heimsóttu Hvíta húsið nýverið og reyndu að selja húsbóndanum þar sínar hugmyndir en fengu kurteist afsvar. Rússar segja nei við skammtíma vopnahléi með evrópskum her til að gæta víglínunnar.
Breska dagblaðið Telegraph segir breska forsætisráðherrann brátt kominn í þá stöðu að velja á milli Trump og Selenskí. ESB-Evrópa er í sömu stöðu.
Trump átti símtal við Pútín Rússlandsforseta fyrir þrem vikum. Aðdragandi var að samtalinu, Steve Witkoff, trúnaðarmaður Bandaríkjaforseta átti fundi með æðstu ráðamönnum í Kreml.
Eftir símtalið tók Trump ákvörðun um að færa samskiptin við Rússland í eðlilegt horf. Friður í Úkraínu er nauðsynlegur þáttur stefnubreytingarinnar. Hvorki Selenskí né ESB-Evrópa vilja frið á bandarískum-rússneskum forsendum. Þeir óttast, líklega með réttu, að friðarsamningar munu hafa yfirbragð uppgjafar.
Úkraínustríðið hefur staðið yfir í þrjú ár og nokkrum dögum betur. Á vígvellinum gengur flest Úkraínu í óhag. Rússar hafa hertekið um 20 prósent landsins. Framsókn Rússa er hæg en stöðug.
Án bandarískra vopna og fjármagns er Selenskí bjargarlaus. ESB-Evrópa og Bretland geta bætt í baukinn en hergögn eru af skornum skammti.
Trump getur, án fyrirvara, stöðvað fjármagns- og vopnaflutninga til Úkraínu. Stutt yrði í endalok Úkraínustríðsins gangi það eftir. Bretland og ESB-Evrópa geta í mesta lagi framlengt stríðið í fáeinar vikur eða mánuði. Nú þegar Bandaríkin hafa gert hlé á hernaðaraðstoðinni er deginum ljósara að ekki verður aftur snúið.
Leiðtogar Bretlands og ESB-Evrópu freista þess á neyðarfundi eftir neyðarfundi að fá Trump ofan af fyrirætlan sinni að taka upp eðlileg samskipti við Rússland og ljúka Úkraínustríðinu. Trump gefur sig ekki og vill, ef eitthvað er, hraða framvindu mála.
Úkraínumál á Íslandi taka fremur óvenjulega stefnu, svo ekki sé meira sagt. Utanríkisráðherra telur herskáa en vanmáttuga ESB-Evrópu gilda ástæðu fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef fórna skal fullveldi og sjálfstæði væri nær að gera dollar að lögeyri og sækja um að verða 51sta fylki Bandaríkjanna.
![]() |
Trump gerir hlé á hernaðaraðstoð við Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 3. mars 2025
Stefán á RÚV kynnir símanúmer án síma
Samsung sími með númerinu 680 2140 var notaður til að afrita síma Páls skipstjóra Steingrímssonar 4. til 5. maí 2021. Afritunin var framkvæmd í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Þáverandi eiginkona skipstjórans játaði að hafa fært Þóru Arnórsdóttur Samsung síma eiginmannsins, sem lá meðvitundarlaus í gjörgæslu á Landsspítalanum í Fossvogi, skammt frá RÚV.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur legið yfir þeim gögnum á Efstaleiti sem snúa að Samsung símanum með númerið 680 2140, sem er keimlíkt símanúmeri skipstjórans, 680 2141. Stefán staðfestir að númerið sé skráð á RÚV og hafi verið frá 2018.
Hvað er að frétta af símanum sjálfum, af gerðinni Samsung? Í gögnum RÚV eru upplýsingar um hvenær sá sími var keyptur og hvar síminn sé niðurkominn. Stefán útvarpsstjóri þegir þunnu hljóði um símtækið sem var notað til að afrita síma skipstjórans. Allar líkur eru á að Samsung-síminn hafi gagngert verið keyptur í þeim tilgangi að vera til reiðu þegar sími skipstjórans kom í hús á Efstaleiti 4. maí 2021.
Tilfallandi útskýrði samhengi hlutanna í bloggfærslu:
Stefán er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Eftir að hafa fengið fyrirspurn frá lögreglu um Samsung símann með númerinu 680 2140 og gengið úr skugga um að síminn var í umsjón Kveiks hefur Stefán spurt Þóru um símann. Svör Þóru hafa verið þess eðlis að hún varð að víkja úr starfi fyrirvaralaust.
Hverju svaraði Þóra Stefáni útvarpsstjóra um símann? Aðeins tveir möguleikar eru í stöðunni.
a. Samsung síminn með númerinu 680 2140 er á Kveik en búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið apríl 2021 til október 2021.
b. Samsung síminn er týndur.
Víst er að ef Samsung síminn væri heill og óskaddaður, ekki búið að eyða úr símanum gögnum, væri hann í fórum RÚV, ef ekki lögreglu, og sýndi með óyggjandi hætti hvaða samskipti fóru milli byrlara Páls skipstjóra annars vegar og hins vegar Þóru og annarra starfsmanna RÚV. Símtalaskrá í gögnum málsins staðfestir að samskiptin fóru fram.
En Samsung síminn er ekki heill og óskaddaður á Efstaleiti. Annað tveggja er síminn týndur og tröllum gefinn eða búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið sem byrlun, afritun og yfirhylming fór fram. Þess vegna varð Þóra að víkja fyrirvaralaust úr starfi á RÚV í byrjun febrúar 2023.
Stefán útvarpsstjóri þvær ekki hendur sínar og RÚV af byrlunar- og símamálinu þótt símanúmerið 640 2140 hafa verið skráð á RÚV árið 2018. Sími skipstjórans var afritaður á Samsung síma RÚV. Útvarpsstjóri þarf að gera grein fyrir hvenær Samsung síminn var keyptur, hvar síminn er niðurkominn og í hvaða ástandi.
Útvarpsstjóri er vel meðvitaður um miðlægan þátt Samsung símans í að upplýsa aðild RÚV að byrlunar- og símamálinu. Hann hefur líka haft nægan tíma til að kynna sér málið. Fyrir rúmum tveim árum, 4. janúar 2023, fékk Stefán útvarpsstjóri fyrirspurn frá lögreglu um Samsung símann með númerinu 680 2140. Stefán neitaði viku síðar, 11. janúar 2023, að veita lögreglu umbeðnar upplýsingar. Í tölvupósti til lögreglu skrifar Stefán: ,,Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði."
Daginn eftir sá Stefán sig um hönd og sendi annan tölvupóst til lögreglu. Hann upplýsti ekkert en sagði að Þóra Arnarósdóttir ritstjóri Kveiks hefði umráð yfir Samsung símanum og gæfi upplýsingar ,,munnlega."
Upplýsingar um hvenær Samsung síminn var keyptur er að finna í bókhaldi RÚV. Stefán útvarpsstjóri talaði við Þóru Arnórsdóttur um símann í janúar fyrir tveim árum. Hann vissi þá allt sem var að vita um símann. Í beinu framhaldi lét Þóra af störfum hjá RÚV.
Er ekki kominn tími til að Stefán útvarpsstjóri geri hreint fyrir dyrum RÚV og upplýsi aðild ríkisfjölmiðilsins að byrlunar- og símamálinu?
![]() |
Segir númer skráð á RÚV í árslok 2018 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 2. mars 2025
ESB-Evrópa mun krjúpa fyrir Trump og fórna Úkraínu
Evrópa er sníkjudýr á Bandaríkjunum, lifir á hervernd Nató sem Bandaríkin halda að mestu uppi, sagði Trump á fyrri forsetatíð sinni, 2017-2021, er hann krafðist hærri framlaga aðildarríkja hernaðarbandalagsins. Samkvæmt BBC hafa þau hækkað, þótt Bandaríkin beri þyngstu byrðina og hefur auk þess yfir 50 þúsund hermenn í Evrópu.
Á seinni forsetavaktinni, sem hófst í janúar í ár og lýkur 2025, ætlar Trump að losna undan skuldbindingum sem Biden-stjórnin gaf Úkraínu. Í viðtengdri frétt segir Selenskí forseti Úkraínu að landið sé bjargarlaust án stuðnings Bandaríkjanna. Sama gildir um meginland Evrópu, sem kenna má við ESB.
Allt frá lokum seinna stríðs eru Bandaríkin í ábyrgð fyrir öryggis- og varnarhagsmunum Evrópu. Á tímabili kalda stríðsins, 1946 - 1991, var Evrópu, og heiminum að nokkru leyti, skipt upp í tvær blokkir, austur og vestur, kommúnisma og borgaralegan kapítalisma. Eftir fall Sovétríkjanna var sögulegu hlutverki Nató lokið. Framhaldslíf öðlaðist bandalagið í Júgóslavíustríðunum 1991-2001 og síðar með hernaðarbrölti í Afganistan, Írak og Sýrlandi.
Úkraína verður Nató-verkefni 2008 með tilboði um aðild að hernaðarbandalaginu. Á þeim tíma var samræmd utanríkisstefna Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Í reynd hlýddi Brussel fyrirskipun Washington. Á fyrri forsetatíð sinni, 2017-2021, vildi Trump friðmælast við Pútín starfsbróðir sinn í Moskvu. En það var pólitískur ómöguleiki. Pútín var sagður hafa tryggt Trump forsetakjör og allt kjörtímabilið sat Trump undir ámæli að vera leiksoppur Kremlarbónda.
Sigur Trump í kosningunum í nóvember á síðasta ári var ekki vefengdur. Ekki var hægt að endurnýta áróðurinn um að Pútín væri bakhjarl Trump enda uppspuni. Trump hefur frjálsari hendur að hrinda í framkvæmd stefnu sem var a.m.k. til í drögum á fyrri forsetavaktinni; að semja við Pútin um friðsamleg samskipti Bandaríkjanna og Rússlands.
Ólík sýn Trump og ráðandi afla í Evrópu á Úkraínudeiluna er öðrum þræði menningarleg en hinum þræðinum pólitísk. Trump deilir ekki frjálslyndri vinstrisinnaðri heimssýn Evrópu, sem ber yfirheitið vók. Í pólitík er forgangsmál Trump Bandaríkin en ekki vestræn alþjóðahyggja, sem er ær og kýr ESB-Evrópu.
Í augum ESB-Evrópu er versta hugsanlega niðurstaða Úkraínustríðsins friðsamleg samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Ástæðan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi gefur bandarískur-rússneskur friður Rússum lausa tauminn í Evrópu. Ekki svo að skilja að ESB-Evrópa óttist rússneska beina innrás, þótt kvak um slíkt heyrist, heldur hitt að ógnin sem stafar af Rússum knýr ESB-Evrópu til undanlátssemi. Rússar yrðu komnir í stöðu gagnvart ESB-Evrópu sem þeir áttu sjálfir að vera í eftir inngöngu Úkraínu í Nató og ESB. Með óvígan rússneskan her á landamærum ESB-Evrópa verður að sýna Rússum tillitssemi. Rétturinn til að derra sig er orðinn rússneskur.
Í öðru lagi óttast ESB-Evrópa að eftir Úkraínufrið yfirgefi Bandaríkin Evrópu, skilji álfuna ekki aðeins eftir varnarlausa heldur, það sem verra er, þvingi Evrópuríkin til að byggja upp margfalt stærri og dýrari heri en hingað til. Pandóruboxið sem opnast hefur verið lokað frá falli Hitlers. Hvernig mun Frökkum líða þegar öflugasti herinn í ESB-Evrópu er þýskur? Tvisvar gerðist það á síðustu öld, 1914 og 1939. Minningin um fyrra og seinna stríð er hvergi nærri gleymd valdhöfum álfunnar.
Evrópa á aðeins eitt raunhæft svar í stöðunni. Að friðmælast við Trump og taka upp stefnu hans gagnvart Úkraínu. Selenskí forseta verður fórnað. Trump fær heiðurinn að koma á friði í Úkraínu og þar með von um friðarverðlaun Nóbels. Í staðinn fær ESB-Evrópa enn um sinn að njóta herverndar Bandaríkjanna og fresta óhjákvæmilegri aðlögun að margpóla heimi þar sem vestræn alþjóðahyggja er komin á ruslahaug sögunnar.
Mörgum mun þykja þessi forspá með miklum ólíkindum í ljósi svigurmæla evrópskra ráðamanna eftir moldviðrið í kringum fjölmiðlafund Trump og Selenskí fyrir tveim dögum. ESB-Evrópa framreiðir tilfinningaklám til að fela kaldan veruleika. Án Bandaríkjanna stenst ekki pólitíska yfirbyggingin sem kallast Evrópusambandið. Neyðin kennir naktri konu að spinna og valdhöfum að taka skárri kostinn af tveim slæmum.
![]() |
Selenskí: Þurfum á stuðningi Trumps að halda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. mars 2025
Kristrún og Þorgerður Katrín: Úkraína ofar íslenskum hagsmunum
Úkraína og Selenskí forseti eru okkur ofar í huga en íslenskir hagsmunir, eru skilaboð Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra. Kristrún forsætis tekur undir. Íslenskur almenningur hlýtur að spyrja sig hvað fær æðstu ráðamenn Íslands til að lýsa yfir hollustu og trúnaði við forseta í fjarlægu þjóðríki.
Tilefnið liggur fyrir. Forseti Úkraínu var í Bandaríkjunum til að framselja náttúruauðlindir landsins í hendur Bandaríkjanna í skiptum fyrir peninga og vopn. Viðskipti og völd voru á dagskrá. Áður en kom að undirskrift var fundur með fjölmiðlamönnum í Hvíta húsinu. Þar tók Selenskí forseti upp á því að munnhöggvast við Trump og J.D. Vance varaforseta. Forsetarnir kvöddust í styttingi og ekkert varð úr framsali náttúruauðlinda.
Einn harðasti og ákafasti stuðningsmaður Selenskí og Úkraínu í Bandaríkjunum er öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham. Upphaflega gaf Selenskí Graham vilyrðið að láta af hendi úkraínskar náttúruauðlindir í skiptum fyrir peninga og vopn. Vilyrðið gaf Selenskí í ágúst í fyrra, þrem mánuðum áður en Trump var kjörinn forseti. Viðskipti og völd.
Graham er miður sín hvernig Selenskí hagaði sér í Hvíta húsinu og efast um að hægt sé að endurvinna glatað traust.
Uppákoman í Hvíta húsinu er áhugaverð fyrir þær sakir að Trump vill semja frið við Rússa en Selenski ekki. Líkt og Úkraínuforseti vill Evrópusambandið að blóðsúthellingar haldi áfram. Úkraína og ESB vilja stríða en geta ekki haldið áfram án stuðnings Bandaríkjanna. Trump á hinn bóginn lofaði bandarískum kjósendum að binda endi á hildarleikinn. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Framsal á náttúruauðlindum Úkraínu til Bandaríkjanna átti að liðka fyrir framhaldi á flæði peninga og vopna til Kænugarðsstjórnarinnar. Eftir misheppnaðan fund í Hvíta húsinu eru þær áætlanir allar í uppnámi.
Hvers vegna gerast Kristrún og Þorgerður Katrín gelgjulegar klappstýrur Selenskí eftir að hann klúðraði viðskiptatækifæri í Hvíta húsinu?
Þorgerður Katrín tekur málið persónulega og ræðst að Bandaríkjaforseta, sakar Trump um að hafa ,,einsett sér að niðurlægja Selenskí." Beina útsendingin frá Hvíta húsinu sýndi Úkraínuforseti einfæran að niðurlægja sjálfan sig, þurfti enga aðstoð. Blaðamaður Telegraph bendir á punktinn þegar fundurinn, sem byrjaði vel, fór norður og niður. Selsnskí sagði að ekki væri hægt að semja við Rússa, eina leiðin væri að stríða áfram. Maður þarf ekki annað en að fylgjast með fréttum til að skilja að Trump er búinn að taka ákvörðun um að hægt sé að semja við Rússa. Selenskí taldi sig vita betur. Dvergur í hermannaklæðum segir ekki stórveldi fyrir verkum í beinni útsendingu.
Nú kann að vera að þær stöllur, forsætis og utanríkis, hafi persónulegar ástæður fyrir að dýrka og dá Selenskí, upphefja málstað Úkraínu og séu fremur elskar að stríði en friði. Krissa og Tobba Kata eru aftur kjörnar á alþingi og fá aðgang að stjórnarráðinu til að vinna í þágu íslenskra hagsmuna en ekki erlendra.
Blóðþyrstir í Brussel og Kænugarði stunda stríð á eigin forsendum. Deilan við Rússa byrjar 2008, já, fyrir 17 árum. Úkraínu var boðin Nató-aðild. Rússar sögðu öryggishagsmunum sínum ógnað. Stjórnarbylting að vestrænu undirlagi 2014 leiddi til Krímtöku Rússa. Minsk-samkomulag frá 2015 var ekki efnt. Innrásin 2022 er afleiðing ekki orsök. Úkraína er búin að tapa stríðinu. Aðeins útfærslan á tapinu er eftir.
Íslenskar forsendur eru þær að við eigum ekkert sameiginlegt með ESB-Evrópu og Úkraínu. Staða okkar á Norður-Atlantshafi skilgreinir þarfir okkar í varnar- og öryggismálum og þær eru allt aðrar en þjóðríkja á fastalandi Evrópu. Kristrún og Þorgerður Katrín eru annarrar sannfæringar. Þær hafa rangt fyrir sér.
![]() |
Eins og Trump hafi einsett sér að niðurlægja Selenskí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)