Habermas: ESB í pólitískri gildru

Jürgen Habermas heimspekingur og samfélagsrýnir er stórt nafn í vinstrikreðsum í Evrópu, og raunar víðar, svo sanngirni sé gætt. Hann er einarður ESB-sinni og telur sambandið nauðsyn Þjóðverjum vegna sögulegra erfiðleika þeirra að vera til friðs í Evrópu, sbr. 1914-1918 og 1939-1945.

Habermas er grimmur gagnvart þýskum stjórnvöldum fyrir meðferðina á Griikjum og segir í viðtali við Guardian að Merkel og Schäuble sólundi evrópskum velvilja til Þýskalands er tók áratugi að byggja upp eftir seinna stríð. Grikkland sé í reynd leppríki ESB, dæmt í varanlega kreppu.

Habermas segir Evrópusambandið fast í pólitískri gildru:

Aðeins leiðtogar ríkja í ráðherraráðinu geta brugðist við. En einmitt þeir eru ófærir um að bera fram sam-evrópska hagsmuni enda eru þeir bundnir þjóðarvilja. Við erum fastir í pólitískri gildru.
(Only the government leaders assembled in the European Council are in the position to act, but precisely they are the ones who are unable to act in the interest of a joint European community because they think mainly of their national electorate. We are stuck in a political trap.)

Æ fleiri hallast að þeirri greiningu að Evrópusambandið sé komið langt fram úr sjálfu sér með yfirþjóðlegu valdboði. Því verði að endurskoða starf ESB frá grunni og draga úr yfirþjóðlega þætti sambandsins.

Habermas kýs öndverðan kost. Hann segir nauðsyn á að ,,kjarna-Evrópa" myndi pólitískt sambandsríki með evru sem gjaldmiðil. Það sé lærdómurinn sem megi draga af Grikklands-kreppunni. 

,,Kjarna-Evrópa" Habermas er um það bil það svæði sem Napoleón lagði undir sig í byrjun 19du aldar og var undir stjórn Hitlers laust fyrir miðja síðustu öld.

Þýski heimspekingurinn boðar klofna Evrópu.


mbl.is Skipti út ósammála ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn vantar nýjan draum - og flokk

Evrópusambandið er ekki lengur draumur íslenskra vinstrimanna, ekki eftir grísku martröðina. Gunnar Smári, sem dreymdi um að Ísland yrði fylki í Noregi, og stofnaði til þess flokk, segir að nú verði að dreyma nýja valdadrauma.

Samfylkingin getur ekki dreymt nýjan valdadraum án ESB. Flokkurinn er of tengdur misheppnuðustu umsókn Íslandssögunnar.

Finni vinstrimenn ekki nýjan draum á næstunni er útséð um möguleika þeirra í þingkosningunum 2017.


Jón Gnarr vegvísir deyjandi fjölmiðils

Áður en Jón Gnarr varð stjórnmálamaður þótt hann liðtækur brandarakall. Stjórnmálin breyttu Jóni úr uppistandara í vegvísi í opinberum málum undir vörumerkinu ,,borgarstjórinn úr eftirhruninu."

365 miðlar er deyjandi fjölmiðill. Fyrirtækið reynir að hasla sér völl á vettvangi símaþjónustu og hittir þar fyrir stönduga keppinauta.

Jóni Gnarr er ætlað að vísa 365 miðlum til endurnýjunar lífdaga. Jón Ásgeir, eigandi 365 miðla, er orðinn býsna örvæntingarfullur.

 


mbl.is Jón Gnarr „ráðinn til að hafa áhrif“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrmir og sekir sjálfstæðismenn

Fámennur hópur sjálfstæðismanna vill koma Íslandi undir erlend yfirráð. Þessir sjálfstæðismenn eru sporgöngumenn Una danska sem reyndi að koma Íslandi undir Harald hárfagra.

Á þessa leið er greining Styrmis Gunnarssonar fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins á þeim sjálfstæðismönnum sem vilja Ísland í Evrópusambandið.

Af orðum Styrmis má ráða að seku sjálfstæðismennirnir kveinki sér undan þeirri einkunn sem þeir fá; að vera sekir um meiriháttar dómgreindarbrest og trúa á bábiljur um að ESB sé félagsskapur sem vinni aldrei gegn grundvallarhagsmunum aðildarríkja. Gríski harmleikurinn er dæmisaga um misþyrmingu smáþjóðar innan ESB.

Seku sjálfstæðismennirnir senda Styrmi einkaskilaboð. Þeir þora ekki að koma fram á opinberum vettvangi að ræða pólitíska afstöðu sína.

Seku sjálfstæðismennirnir eru líka huglausir. Almennir flokksmenn ættu að hafa það í huga þegar valið er á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.


Minna Grikkland, meira ESB

Grikkland smækkar með því að völd Grikkja í eigin málum verða æ minni. Eftir því sem líður á evru-kreppuna yfirtekur Evrópusambandið æ meira af lagasetningavaldi sem einu sinni var í Aþenu.

Í þýskum fjölmiðlum er sagt hreint út: Weniger Griechenland, meher Europa. Grikkland varð að minnka í ESB-samhenginu, annað hvort með því að fara úr evru-samstarfi og ESB eða að láta ESB yfirtaka grísk málefni.

Grikkir sjá að baki 185 ára frelsis með samningunum við ESB. Forsætisráðherra þeirra var ýmist sagður ,,barinn hundur" eða ,,krossfestur" í Brussel af ráðandi öflum í ESB, samkvæmt frásögn í EU-Observer.

Evrópusambandið sigraði Grikki en stórskaðaði sig sjálft í leiðinni. Eftir grísku stjórnarbyltinguna er aðeins einn vegur fær fyrir ESB: að krefjast síaukinna valda yfir fjármálum evru-ríkjanna 19. Við það eykst klofningurinn við þau ESB ríki sem ekki nota evru, t.d. Bretland, Svíþjóð, Danmörku og Pólland.

Evrópusambandið verður risi á brauðfótum, sem kúgar smáþjóðir en ræður ekki við sjálfan sig.


mbl.is Staðráðinn í að ná samkomulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulnefni ekki sama og tilbúin persóna

Útgáfan Hringbraut lýgur að lesendum sínum með því að skálda upp persónu sem heitir Ólafur Jón Sívertsen og birta með ljósmynd og netfangi. Hringbraut vil að lesendur trúi að Ólafur Jón sé holdi klæddur maður með kennitölu hjá þjóðskrá og skrifi í Hringbraut.

Vörn Sigmundar Ernis, stjóra Hringbrautar, að löng hefð sé fyrir dulnefndum dálkum í fjölmiðlum, s.s. Staksteinar og Svarthöfði, er algerlega út í bláinn. Dulnefni og skálduð persóna er tvennt ólíkt.

Sigmundur Ernir ætti að biðja almenning afsökunar á Lyga-Ólafi Jóni Sívertsen og láta af blekkingunni.


mbl.is Skrifin á ábyrgð ritstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjúkrunarkonur og kvenlæknar - stál í stál

Áratugir eru síðan hjúkrunarfræðingar (nær eingöngu konur) og læknar (sem þá voru alflestir karlar) skiptu með sér völdum í sjúkrahúsum. Um árabil var sátt milli þessara stétta þ.m.t. launamuninn.

Árið 2012 var ,,þjóðarsátt" um hækkun launa til hjúkrunarfræðinga, einkum með þeim rökum að þeim buðust svo góð kjör í Noregi að til vandræða horfði. Í framhaldi urðu læknar, stétt sem óðum kvenvæðist, ókátir og efndu til verkfalla sem gáfum þeim um 30% kauphækkun.

Hjúkrunarfræðingar sjá ofsjónum yfir síðustu kauphækkun lækna og finnst þau 20% sem þeim bjóðast, eins og almenna markaðnum, ótæk.

Víxlkaupkröfur tveggja kvennastétta í sjúkrahúsum landsins eru ekki eingöngu kjaradeila, heldur valdatogstreita. Kynjabreyting læknastéttarinnar einfaldar ekki málið. Laun eru ekki eingöngu peningar heldur líka spurning um virðingu starfsins.

 


mbl.is „Hann kolféll bara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkir úr evru í drökmu; Grexit yfirvofandi á ný

,,Tsipras er gangandi stórslys," segir í uppslætti Die Welt um forsætisráherra Grikkja sem gerði samkomulag í Brussel um helgina en mætir í sjónvarpsviðtal í Aþenu í gær og segist ekki trúa á samkomulagið.

Ef forsætisráðherrann er ekki sannfærður um samkomulagið þá er það svo gott sem dautt. Grískir bankar munu ekki opna á næstunni enda engar evrur að fá frá Seðalbanka Evrópu. Der Spiegel segir að um helgina hafi Grikkland nærri fallið útbyrðis úr evru-samstarfinu.

Upplausn er í grískum stjórnmálum, aðstoðarráðherrar segja af sér og stjórnflokkurinn er í uppnámi. Við þessar aðstæður eru ekki forsendur að gera þá uppstokkun sem er forsenda fyrir stuðningi evru-þjóða við Grikkland.

Evrópska verkefnið sem heitir ESB stendur í ljósum logum, skrifar Paul Krugman, og mun ekki ná sér eftir gríska harmleikinn.

 


mbl.is Samkomulag byggt á sandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinni gefst upp á evru

Fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson á 365 miðlum er genginn af evru-trúnni. Þorbjörn er opinskár ESB-sinni og tekur einnig að sér fréttahönnun í þágu málstaðarins og Samfylkingar. En nú er Þorbirni nóg boðið. Hann skrifar í Fréttablaðið

Samkomulagið sem gert var í Brussel aðfaranótt mánudags er niðurlæging fyrir Grikki en um er að ræða víðtækasta inngrip í fjárhagslegt fullveldi ríkis í sögu evrópsks samstarfs á 20. og 21. öld.

og dregur eftirfarandi ályktun

Lærdómur síðustu ára er aftur á móti sá að evran sé ekki fýsilegur kostur. Ég á erfitt með að sjá að meirihluti Íslendinga muni nokkurn tímann sætta sig við jafn víðtækt inngrip í fjárhagslegt fullveldi íslenska ríkisins og evrusamstarfið felur í sér og atburðir síðustu vikna eru til vitnis um.

Eina röksemd ESB-sinna á Íslandi fyrir aðild að Evrópusambandinu, sem eitthvað kvað að, var evran. Nú þegar evran er orðin helsta ástæðan fyrir því að Íslendingar ættu EKKI að ganga í ESB þá er allur málatilbúnaður ESB-sinna ónýtur.

Samfylkingin situr uppi ónýtan málstað en fattar það ekki. Samfylkingin, sem á að heita flokkur háskólamanna, er of treg til að skilja fréttir frá útlöndum og hvaða þýðingu þær hafa fyrir íslenska pólitík.


Skattaafsláttur foreldra vegna íbúðakaupa barna

Launakerfið í landinu hyglar þeim eldri sem fá hærri laun, bæði út á lífaldur og starfsaldur. En það eru þeir yngri sem standa frammi fyrir stórum fjárfestingum, fyrstu íbúð, og útgjöldum vegna barna.

Launakerfið í landinu tekur ekki breytingum í bráð. Á hinn bóginn er hægt að auðvelda tilfærslu á fjármunum foreldra til barna sem kaupa sína fystu íbúð.

Það mætti t.d. veita skattaafslátt til foreldra sem leggja fjármuni í fyrstu íbúð barna sinna.

 


mbl.is Hvernig á ungt fólk að kaupa íbúð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband