Skæruhernaður flugmanna Icelandair

Það væri tillitssamara af flugmönnum Icelandair að fara einfaldlega í verkfall og fá eina af þrem rökréttum niðurstöðum; A. brjóta á bak aftur ríkjandi launastefnu með tilheyrandi afleiðingum; B. gera Icelandair gjaldþrota og C. fá á sig lög.

Skæruhernaður flugmanna bitnar illa á farþegum sem fá að vita með nokkurra klst. fyrirvara að flugi er aflýst vegna þess að flugmenn eru hættir yfirvinnu og/eða boða veikindaforföll. Þetta eru ósmekklegar aðfarir hálaunamanna, svo vægt sé til orða tekið.

Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar eru heildarlaun flugmanna Icelandair á mánuði 1500 til 1700 þús. kr. og eru það þreföld mánaðarlaun Meðal-Jónsins. Margur þiggur minni laun og lætur sér ekki til hugar koma að læðast aftan að samborgurum sínum.


mbl.is „Stöndum ekki að skæruhernaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins stríð getur bjargað ESB

Til að bjarga Evrópusambandinu þarf styrjöld. Sameiginlegt mynt er misheppnuð; sameiginlegt regluverk er misheppnað; sameiginlegt þing er algerlega misheppnað - eins og kosningar síðar í mánuðinum leiða í ljós.

Evrópusambandið tekur einatt stökk í samrunaátt þegar stórfelld ógn steðjar að. ESB varð til í skugga kalda stríðsins og sameiginlegur gjaldmiðill var ákveðinn þegar Þýskaland sameinaðist og ógnaði valdajafnvæginu innan sambandsins.

Til að búa til Stór-Evrópu úr Evrópusambandi sem er að gliðna í sundur þarf stríð. ESB-elítan mun kætast ef meiri ófriður losnar úr læðingi í Úkraínu. Það yrði ekki í fyrsta sinn í sögunni sem stjórnmálamenn nota stríð til að bjarga sér úr sjálfskaparvíti.


mbl.is Haft neikvæð áhrif á útflutning Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin og drykkfelldi presturinn

Um prest sem þótti sopinn góður var sagt að hann væri ónærgætinn sjálfum sér. Um ríkisstjórn Sigmundar Davíðs má segja að hún ség ónærgætin sjálfri sér með því að farga málinu sem skóp ríkisstjórnarflokkunum tveim sóknarfæri á síðasta kjörtímabili: andstöðunni við ESB-umsókn Samfylkingar.

Ríkisstjórnin segist ætla að koma ,,stóru málunum" í höfn en bíða með afturköllun umboðslausu umsóknarinnar. Með leyfi: ESB-málið er langstærsta pólitíska deilumál seinni tíma stjórnmálasögu Íslands.

Svokallað ,,stórt mál" ríkisstjórnarinnar er að gefa heimilum landsins fé, og kalla það skuldaleiðréttingu. En þetta er ekki stærra mál en svo að heimilin eru í fínni stöðu nú þegar og þurfa ekki á gjafagjörningi ríkisstjórnarinnar að halda. Svokölluð skuldaleiðrétting er aðeins redding á yfirboði Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni - og það er ekki stórt mál.

Ríkisstjórnin er ekki allsgáð þegar hún hættir við afturköllun á ESB-umsókninni. Dómgreindarleysi ríkisstjórnarinnar í stórmáli verður henni að fótakefli allt kjörtímabilið og skapar andstæðingum hennar viðspyrnu.


mbl.is Samkomulag um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinni gróf undan mér - jamm

Fyrir nokkrum árum starfaði ég hjá opinberri stofnun sem var í töluverðum samskiptum við háskóla landsins. Eftir bloggfærslu um Evrópumál (og já þær eru orðnar nokkrar) þá hafði háskólaprófessor samband við yfirmann minn og kvartaði. Þetta veit ég vegna þess að yfirmaður minn sagði mér frá þessari kvörtun.

Það er alvanalegt að hinir og þessir taki upp símann eða skrifi tölvupóst til að finna að því að sumir aðrir notfæri sér tjáningarfrelsið til að hafa skoðun á þessu eða hinu. Rétt eins og það er réttur okkar að hafa skoðun, þá hafa Pétrar og Pálar og Skugga-Baldrar út í bæ sinn rétt að kvarta.

Háskólamenn, sumir hverjir, virðast halda að fólk eigi ekki rétt á að kveinka sér undan skrifum þeirra. Það er hálf-hallærislegt viðhorf að vælukjóar grafi undan gagnrýnendum með umkvörtunum. Ef þeir sem gagnrýna þola ekki andbyr ættu þeir kannski að finna sér annað áhugamál.  


Samfylkingardeild XD er ávísun á tap

Sjálfstæðisflokkurinn sýndi sig veiklulegan á landsvísu þegar forystumenn kiknuðu í hnjánum vegna upphlaups samfylkingardeildarinnar, Benedikts J. og Þorsteins Pálssonar, sem kröfðust þess að flokkurinn efndi ekki kosningaloforð um að afturkalla ESB-umsókn Samfylkingar.

Til að mæta kröfum ESB-sinna var leiddur til forystu í höfuðborginni Halldór Halldórsson, sem kemur úr litlu samfylkingardeildinni ásamt þeim ofannefndu auk Sveins Andra, auðvitað.

Og hvað gerist þegar Sjálfstæðisflokkurinn býður fram samfylkingarmann í sauðagæru? Jú, flokkurinn tapar á því en Samfylkingin styrkist.

Til að sýna að það sé líf í Sjálfstæðisflokknum, og að flokkurinn standi fyrir eitthvað annað en eftirgjöf, þá á að efna til sumarþings og afturkalla ESB-umsókn Samfylkingar frá síðasta kjörtímabili.

Eftirgjöf er ávísun á tap - eins og borgarstjórnarkosningarnar munu sýna svart á hvítu.


mbl.is Meirihlutinn í borgarstjórn heldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinnar falsa undirskriftasöfnun

Undirskriftarsöfnun ESB-sinna er fölsuð. Fréttatilkynning ESB-sinna segir að 53.555 hafi skrifað undir. Talning sýnir að af þessum fjölda eru 15.767 sem óska nafnleyndar.

Það er vitanlega galið að bjóða upp á nafnleynd í opinberri undirskriftarsöfnun. Bara það eitt er gerir
undirskriftasöfnunina ómarktæka.

Í fréttatilkynningunni er sagt að fyrir Ferli ehf. hafi yfirfarið undirskriftalistana. Og hvað er fyrir nokkuð fyrirtækið Ferli ehf. Jú, þar er fyrir á fleti G. Valdimar Valdemarsson einn af aðstandendum félagsins Já Ísland sem stendur að undirskriftasöfnuninni.

G. Vald, eins og hann er kallaður, hætti í Framsóknarflokknum á sínum tíma þegar þegar ESB-stefnunni var hafnað. Og núna dúkkar hann upp sem óháður eftirlitsaðili með undirskriftasöfnun ESB-sinna.

Vinnubrögð ESB-sinna eru fyrir neðan allar hellur.

 


Trúnaðarbrestur á 365, jæja

365-miðlar eru í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, kenndum við Baug, sem eignaðist fyrirtækið í frægum viðskiptum fyrir rúmum áratug.

Allan útrásartímann stöðu blaðamenn þétt við hlið eigandans, sem saup marga viðskiptafjöruna og átti m.a. stórt í Glitni/Íslandsbanka er varð gjaldþrota. Blaðamenn 365-miðla gerðu einnig ,,skoðanakannanir" á sínum tíma til að sýna fram á þjóðin studdi útgáfuveldi Baugs gegn ríkisstjórninni, sem vildi setja fjölmiðlalög er tryggðu fjölræði í umræðunni.

Frétt um að starfsmaður 365-miðla hafi gerst brotlegur vegna skoðanakönnunar í Reykjanesbæ kallar á eftirfarandi spurningu: á Jón Ásgeir hagsmuna að gæta í Reykjanesbæ? 


mbl.is Trúnaðarbrestur starfsmanns 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugmenn með þreföld meðallaun

Meðalheildarlaun á Íslandi eru 526 þúsund á mánuði. Flugmenn eru með eitthvað í kringum 1500 til 1700 þúsund á mánuði. Eðlilegt er að fjarvistir frá heimilum hækki laun umfram meðaltalið og eflaust er eitthvað annað sem má tína til.

Hér áður notuðu íslenskir flugmenn þau rök að launin þeirra yrðu að vera alþjóðlega samkeppnishæf - annars færu þeir annað. Þeir tala ekki lengur á þessum nótum og skýringin líklega sú að flugmennska á alþjóðavísu gefur töluvert minna í aðra hönd en kaup hjá almenningshlutafélaginu Icelandair.

Þegar við bætist að flugmenn láta ekki uppi um kröfugerð sína þá er óhætt að segja að þeir njóti ekki yfirþyrmandi samúðar almennings sem sættir sig við þriðjung af launum flugmanna.

(aths. í upphaflegri færslu var tala um fjórfaldan launamun  og miðað við regluleg laun - réttari samanburður er heildarlaun).


mbl.is Fella niður 26 ferðir á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör við hrunið í Reykjanesbæ

Árni Sigfússon og græðgistjórnmál réðu ríkjum á útrásartímum í Reykjanesbæ. Eigur bæjarins voru seldar til að fjármagna skýjaborgir. Hitaveitan var gerð að fjárplógsstarfsemi innlendra og erlendra auðmanna. Stolt bæjarins til áratuga, Sparisjóður Keflavíkur, fór í gjaldþrot enda var hann virkjaður í þágu græðginnar.

Árni Sigfússon var bæjarstjóri allan þennan tíma og Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta. Um Árna er sagt að hann sé svo sannfærandi sölumaður að þegar atvinnuleysingi kemur til hans í viðtal, og segir farir sínar ekki sléttar, fer hann út með bros á vör eftir að Árni telur honum trú um að atvinnuleysi sé ávísun á fastar tekjur - þótt þær heiti bætur.

Íbúar í Keflavík og Njarðvík eru tilbúnir í uppgjör við Árna og félaga og afþakka frekari þjónustu hrunkvöla. Það er merki um heilbrigði almennings suður með sjó.


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinnar svindla - Óskar Nafnleyndar er fjölfaldaður

Undirskriftarsöfnun felst í því að maður skrifar undir stuðningsyfirlýsingu við tiltekið málefni. Þessi stuðningsyfirlýsing er merkingarlaus nema maður kannist opinberalega við hana. Allir eldri en tvævetur skilja þessa einföldu meginreglu.

Nema ESB-sinnar. Þeir bera Óskar Nafnleyndar á borð fyrir alþjóð og kalla það stuðningsyfirlýsingu við málstaðinn. Vinnubrögðin lýsa svindláráttu ESB-sinna; aðlögunarferli heita óskuldbindandi viðræður; evra er betri en króna þótt hún valdi eymd og atvinnuleysi um allt meginland Evrópu; ESB-umsókn má senda til Brussel án þjóðaratkvæðagreiðslu en alls ekki afturkalla nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Undirskriftarsöfnun ESB-sinna er algerlega ómarktæk. Og að auglýsa að  53.555 Íslendingar hafi skrifað undir þegar Óskar Nafnleyndar er fjölfaldaður inni í þessari tölu sýnir einbeitta ósvífni ESB-sinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband