Kristrún sammála Pútín, en vill frekar stríð en frið

Kristrún forsætis er sammála Pútín Rússlandsforseta um að vopnahlé í Úkraínustríðinu ,,á hvaða forsendum sem er gengur ekki upp." Að öðru leyti er íslenski forsætisráðherrann ólíkt herskárri í orðum en þjóðhöfðingi Bjarmalands. Orðfærið sækir Kristrún til Brussel.

Tilvitnunin i Kristrúnu um vopnahlé er eftirfarandi:

Kveðst Kristrún hafa full­an skiln­ing á vilja fólks til að stoppa stríð og blóðsút­hell­ing­ar. „Ég held að það sé mjög mann­leg krafa, sér­stak­lega fyr­ir okk­ur Íslend­inga sem erum mjög fjar­læg­ir þess­um viðburði. Við erum ekki með her, við eig­um ekki mikla sögu af svona sam­skipt­um. En það skipt­ir samt miklu máli að hafa í huga að vopna­hlé, á hvaða for­send­um sem er, geng­ur ekki upp,“ seg­ir Kristrún ákveðin.

Pútín Rússlandsforseti segir sama hlutinn, vopnahlé eitt og sér skilar engu. Átök blossa upp án fyrirvara ef ástæður stríðsins eru ekki ræddar og komist að niðurstöðu um hvernig varanlegur friður líti út.

Rússar setja fram þríþætt skilyrði fyrir friði. A. Úkraína verði ekki Nató-ríki. B. Landvinningar Rússa í austurhluta Úkraínu, sem er rússneskumælandi, verði viðurkenndir. C. Heildstætt samkomulag um öryggis- og varnarmál í Evrópu verði hluti af friðarsamningi.

Trump Bandaríkjaforseti hefur í meginatriðum samþykkt nálgun Rússa sem geti orðið undirstaða friðarsamkomulags. Annað gildir um Evrópusambandið, sem óttast hrun eftir rússneskan frið í Úkraínu.

Kristrún forsætis hefði vitanlega átt að fagna friðarútspili Trump forseta. Illu heilli er íslenski forsætisráðherrann múlbundinn á klafa Evrópusambandsins. Líkt og ESB-vinirnir vill Kristrún meira blóð og eyðileggingu en segist í hinu orðin friðelskandi. Pólitískur kleyfhugi í stól forsætisráðherra eftir tvo mánuði í starfi er líklega Íslandsmet.

Evrópusambandið ætlaði sér landvinninga í austurvegi. Bandaríkin áttu að skaffa flest vopnin og mest fjármagnið og Úkraínumenn karla til að deyja á vígvellinum. Evrópskur vinstrifemínismi í framkvæmd. Trump hefur minni áhuga á manndrápum en forveri hans Biden og afturkallar bandarískan stuðning við stríðsaðgerðir. Trump vil frið og evrópska-elítan gengur af göflunum, kisulórurnar á Arnarhvoli hvæsa með.

Í þágu Kristrúnar og Þorgarðar Katrínar, óvíst hvort Inga sé memm, eru settar á flot ESB-ættaðar hugmyndir um íslenskan her. Frá samfylkingarskólanum á Bifröst kemur krafa um ,,sterkan íslenskan her" og leyniþjónustu að auki. Fjöldahandtökur og misþyrming á málfrelsi er ekki í tillögum sem Bjarni Már Magnússon lagaprófessor er skráður fyrir - en stappar nærri.

Hugvíkkandi efnin sem samfylkingar- og viðreisnarliðið tekur í Brussel-skömmtum valda ofsóknaræði. Auðvelt er sjá hvers vegna. Evrópusambandið er einangrað. Hvorki Trump né Pútín ætla sér að semja við ESB. Brussel mun sitja uppi með afleiðingarnar af markaðri stefnu Trump að Rússland sé stórveldi en ESB héraðsríki.

Alþjóðlega umpólunin þessa dagana er að Rússland er viðurkennt stórveldi af Bandaríkjunum. Fyrir aðeins tíu árum sagði áhrifamikill bandarískur stjórnmálamaður, John McCain, að Rússland væri stór bensínstöð í líki þjóðríkis. Á fréttamannafundi Trump og Starmer forsætisráðherra Bretlands í gær spurði Trump hvort Bretar réðu einir við Rússa og uppskar hlátur. Bretland er hernaðarlegur dvergur; ESB-ríkin eru handfylli dverga.

Í Úkraínu berjast tveir herir, um og yfir milljón hermenn hvor. Talað er um að evrópskir friðargæsluliðar komi á vettvang til að ganga á milli. Frakkar geta sent 25 þúsund hermenn og Bretar kannski annað eins. Þjóðverjar enga, síðasta herleiðangri þeirra í austurvegi lauk með falli Berlínar. Dvergaher Frakka og Breta breytir engu á þúsund kílómetra víglínu sem telur tvær milljónir hermanna. Kristrún og Þorgerður Katrín virðast halda að tylft skátahermanna frá Bifröst ríði baggamuninn.

Séð frá Íslandi ættu menn að horfa rólega og yfirvegað á þróun mála á meginlandi Evrópu, sem er fjarlægur hreppur. Um ESB-sinna gildir annað, þeir eru í móðursýkiskasti, vita að aðeins heimskasta tíund íslensku þjóðarinnar styður vegferð Samfylkingar og Viðreisnar til dvergahælisins í Brussel, sem á allt sitt undir að Rússar láti sér nægja Úkraínu.

 


mbl.is „Vopnahlé á hvaða forsendum sem er gengur ekki upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrlunar- og símamálið til alþingis

Eva Hauksdóttir lögmaður Páls skipstjóra Steingrímssonar hefur sent erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis. Í bráðum fjögur ár hefur Páll skipstjóri barist fyrir rétti sínum til að fá upplýsingar um lífshættulega atlögu blaðamanna og fjölmiðla að heilsu sinni og friðhelgi einkalífs. Miðstöð aðgerða gegn skipstjóranum var á höfuðstöðvum ríkisfjölmiðilsins, RÚV, á Efstaleiti.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur ekki gert grein fyrir aðkomu RÚV að atlögunni gegn Páli skipstjóra. Stefán hefur aftur losað sig við fólk sem tengist málinu, t.d. Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra, Helga Seljan fréttamann og Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks.

Páli skipstjóra var byrlað að kvöldi 3. maí 2021 á heimili sínu á Akureyri. Nóttina eftir var hann nær dauða en lífi á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ítrekaðar lífgunartilraunir þurfti til að skipstjórinn gæfi ekki upp öndina. Um hádegisbil 4. maí var skipstjórinn fluttur með sjúkravél að norðan á gjörgæslu Landsspítalans í Fossvogi.

Þáverandi eiginkona skipstjórans er mikið andlega veikur einstaklingur. Hún hefur játað að byrla eiginmanni sínum. Jafnframt hefur konan játað að hafa tekið síma eiginmannsins traustataki og afhent Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks símann þann 4. maí 2021. Á Efstaleiti var síminn í sólarhring þar sem hann var afritaður. Eiginkonan fékk afhentan símann daginn eftir, 5. maí og kom tækinu fyrir í föggur skipstjórans sem var meðvitundarlaus 4. til 6. maí. Skipulagið gerði ráð fyrir að skipstjórinn yrði ekki var við að sími hans hefði verið afritaður á meðan hann lá fársjúkur og meðvitundarlaus á spítala.

Undirbúningur var á RÚV fyrir móttöku síma skipstjórans. Til reiðu var samskonar sími og skipstjórinn notaði, af gerðinni Samsung. Sími skipstjórans var með númerið 680 2141 en afritunarsíminn á RÚV hafði númerið 680 2140. Aðeins skeikaði síðasta tölustaf í símnúmerunum. 

Afritunarsíminn, með númerið 680 2140, þjónaði þríþættu hlutverki. Í fyrsta lagi geymdi hann öll gögn skipstjórans, s.s. samtöl á spjallrás, myndefni, dagbók, símaskrá, aðgang að heimabanka og samfélagsmiðlum. Í öðru lagi var síminn notaður til samskipta við andlega veika eiginkonu skipstjórans, það sýna lögregluskýrslur. Í þriðja lagi var síminn notaður til að komast inn á einkareikninga skipstjórans, bæði banka og samfélagsmiðla. Þær upplýsingar liggja fyrir þar sem skipstjórinn fékk aðvörun í síma sinn um að utanaðkomandi reyndi að komast inn á téða reikninga. Allt sumarið 2021 fékk skipstjórinn skilaboð um að reynt væri að komast inn á reikningana með utanaðkomandi tæki - afritunarsímanum á RÚV.

Tilgangur RÚV með afritun var að komast yfir upplýsingar um persónulega hagi skipstjórans sem hafði með greinarskrifum varið atvinnuveitanda sinn, Samherja, fyrir fjölmiðlaherferð sem hófst á RÚV í nóvember 2019 með Kveiksþætti um Namibíumálið svokallaða. Um er að ræða ásakanir um að Samherji hafði stundað mútur í Afríkuríkinu, keypt fiskveiðiheimildir með ólögmætum greiðslum. Þrátt fyrir bráðum sex ára rannsókn á Íslandi og í Namibíu finnst hvergi arða af sönnunargögnum sem staðfesta ásakanir RÚV og samstarfsmiðla, sem voru Stundin og Kjarninn - RSK-miðlar.

Samstarf miðlanna þriggja er hvergi skráð og hefur aldrei verið gert opinbert. Allt samstarfið er á bakvið tjöldin, enda í eiga í hlut ríkisfjölmiðill annars vegar og hins vegar einkafjölmiðlar í eigu auðmanna og sérvaldra blaðamanna.

RÚV frumbirti enga frétt með vísun i gögn úr síma skipstjórans vorið 2021. Það gerðu aftur samstarfsmiðlarnir, Stundin og Kjarninn. Þeir birtu morguninn 21. maí sömu fréttina í tveim útgáfum um meinta skæruliðadeild Samherja, sem Páll skipstjóri átti að hafa stýrt.

Meginásökunin í frétt Stundarinnar og Kjarnans var að skipstjórinn hefði staðið á bakvið ,,ófrægingarherferð" gegn blaðamönnum og fjölmiðlum. Til að ,,afhjúpa" skrif Páls skipstjóra nýttu blaðamenn sér byrlun, stuld og stórfellt brot friðhelgi á einkalífs. Það þarf ekki að ófrægja slíka blaðamenn, þeir sjá um það sjálfir.

Skráður höfundur fréttarinnar á Stundinni er Aðalsteinn Kjartansson. Hann skipti um starf í hádeginu föstudaginn 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans. Skráðir höfundar fréttarinnar í Kjarnanum eru Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson. Báðir hafa hrakist úr blaðamennsku og eru núna starfsmenn þingflokks Samfylkingar, Þórður Snær raunar framkvæmdastjóri þingflokksins. Samfylkingin ber pólitíska og siðferðilega ábyrgð á þessum mönnum.

Undanfarið hefur Morgunblaðið fjallað skipulega um byrlunar- og símamálið. Mörgum spurningum er ósvarað um hlutdeild RÚV í málinu og hvaða afstöðu stjórnendur þar á bæ hafa á tilefnislausri atlögu að fjölskyldu Páls skipstjóra, heilsu hans og friðhelgi einkalífs. Yfirstjórn RÚV hefur neitað Morgunblaðinu um svör. Fáheyrt er, ef ekki einsdæmi, að ríkisfjölmiðillinn neiti að svara eðlilegum spurningum blaðamanna í jafn alvarlegu máli.

Árlega fær RÚV um sex milljarða króna á fjárlögum sem alþingi samþykkir. Stjórnskipun- og eftirlitsnefnd þingsins hlýtur að taka vel i sanngjarna ósk Páls skipstjóra Steingrímssonar að aðild RÚV að byrlunar- og símamálinu verði upplýst. 


mbl.is Tímalínan: Atburðarásin í Efstaleiti og víðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Selenskí vildi selja Úkraínu í ágúst í fyrra

Hugmyndin um að selja Bandaríkjunum aðgang að náttúruauðlindum Úkraínu, einkum fágætum málmum, kom fram í ágúst í fyrra, þrem mánuðum áður en Trump var kjörinn forseti. Selenskí Úkraínuforseti falbauð náttúruauðlindir landsins í samtali við tvo bandaríska öldungardeildarþingmenn sem heimsóttu Kænugarð.

Þingmennirnir Richard Blumenthal og Lindsey Graham gáfu út yfirlýsingu 12. ágúst í fyrra eftir heimboð hjá Selenskí í Úkraínu. Í yfirlýsingunni segir m.a.

Selenskí forseti var áhugasamur og viljugur að gera samkomulag við Bandaríkin um fágæta málma í úkraínskri jörð að verðmæti trilljóna dollara

Alþjóðlegar fréttastofur sögðu frá tilboði Selenskí um framsal á náttúruauðlindum landsins til að tryggja áframhaldandi stuðning frá Bandaríkjunum.

Trump, sem tók við embætti 5 mánuðum eftir tilboð Selenskí, leggur áherslu á að Úkraínuforseti efni vilyrðið sem hann gaf bandarískum öldungardeildarþingmönnum í ágúst á liðnu ári. Tilgangur Trump með auðlindakröfum liggur ekki í augum upp.

Drjúgur hluti af meintum fágætum málmum eru í austurhluta Úkraínu. Rússar sitja austurhéruð Úkraínu.

Mögulegt er að Trump hyggist tryggja bandarískt eignarhald á náttúruauðlindum Úkraínu fari svo að ekkert verði af friðarumleitunum við Rússland og stríðsátök blossi upp af endurnýjuðum krafti og auknum bandarískum stuðningi. Sé það tilfellið gjaldfellir Trump eigin friðarboðskap um að tilgangslausum blóðsúthellingum verði að linna. Boðskapurinn yrði drepum til að græða. Menn fá ekki friðarverðlaun Nóbels fyrir það hugarfar.

Önnur skýring gæti verið að mögulegt samkomulag sé gildra fyrir Selenskí. Framselji Úkraínuforseti náttúruauðlindir landsins til annarra ríkja grefur það undan trúverðugleika forsetans - sem raunar þegar hefur boðið afsögn sína.

Þjarkið um ágóða af náttúruauðlindum sýnir Úkraínustríðið í hrárra og harðneskjulegra ljósi en reynt var að selja það á vesturlöndum; sem baráttu fyrir fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti.

Alþjóðpólitík færist nær lögmálum frumskógarins.

 


mbl.is Endurgreiðsla úr úkraínskri jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán, Þóra og Samsung síminn

Fyrstu sakborningarnir í byrlunar- og símamálinu voru fjórir. Af Stundinni og Kjarnanum voru það blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson. Þessir þrír blaðamenn birtu samtímis sömu fréttina í sínum miðlum morguninn 21. maí 2021 með vísun í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV er fjórði sakborningurinn. Hún frumbirti enga frétt.

RÚV sagði fréttina um sakborningana fjóra 14. febrúar 2022. Ef Þóra birti enga frétt hvers vegna var hún sakborningur? Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV útskýrðu fyrir alþjóð, fimm dögum eftir að Þóra varð sakborningur, hver ástæðan var fyrir réttarstöðu ritstjóra Kveiks. Fréttatilkynning Stefáns og Heiðars Arnar er í heild svohljóðandi:

Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, líkt og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna. (feitletr. pv)

Með þessari yfirlýsingu tekur Stefán fulla ábyrgð á starfsháttum Þóru í byrlunar- og símamálinu. Þegar yfirlýsingin er skrifuð, í febrúar 2022, liggur fyrir í málinu að Þóra tók ekki við efni/gögnum/upplýsingum heldur heilu símtæki sem var persónuleg eign Páls skipstjóra. Páll er óbreyttur borgari, ekki með önnur mannaforráð en yfir áhöfn á fiskiskipi. Skipstjórinn er ekki valdamaður í samfélaginu. Þóra vissi vel hver átti símann, hún tók við honum úr hendi eiginkonu skipstjórans. Þóra fletti ekki símanum í leit að tilteknum gögnum sem ættu ,,erindi til almennings" heldur afritaði hún símann í heild sinni með öllum persónulegum gögnum skipstjórans.

Í febrúar 2022 liggur einnig fyrir að Þóra á RÚV frumbirti ekki eina einustu frétt sem vísaði í efni úr síma skipstjórans. Stefán segir í yfirlýsingunni að fjölmiðlum  er ,,rétt að fjalla um" efni sem á ,,erindi til almennings" og að RÚV hafi þau ,,sjónarmið að leiðarljósi." En Þóra á RÚV fjallaði ekki um eitt eða neitt úr síma skipstjórans. Fréttin var send í tveim útgáfum til samræmdrar birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Hvers vegna þessi feluleikur með ,,efni sem á erindi til almennings"? Varla er það ,,leiðarljós" RÚV að blekkja almenning, afla heimilda fyrir fréttum og vinna þær en flytja fréttirnar með leynd yfir á aðra fjölmiðla til birtingar?

Allt þetta lá fyrir í febrúar 2022. En Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri gáfu Þóru fullan stuðning til starfshátta sem ekki standast faglega skoðun. Óheimil afritun á síma er lögbrot. Þóra starfaði áfram á RÚV sem sakborningur í sakamálarannsókn, líkt og ekkert hefði í skorist.

Ári síðar, í janúar 2023, spyr lögreglan Stefán útvarpsstjóra um tiltekinn Samsung síma með númerið 680 2140. Númerið er leyninúmer, hvergi skráð opinberlega. Þóra átti í margháttuðum samskiptum við byrlara Páls skipstjóra með þeim síma, sem einnig var notaður til að afrita síma skipstjórans. Fyrst neitaði útvarpsstjóri lögreglu um upplýsingar en áttaði sig á að þar með hindraði hann framgang réttvísinnar, eins og rakið var í bloggi.

Í beinu framhaldi af samskiptum útvarpsstjóra og lögreglu í janúar 2023 var Þóra látin fara frá RÚV. Örfrétt birtist á RÚV um skyndilegt brotthvarf ritstjóra Kveiks frá stofnun. Engin skýring á óvæntum starfslokum ritstjóra eina fréttaskýringarþáttar RÚV. 

Stefán útvarpsstjóri tók afgerandi ákvörðun mánaðarmótin janúar/febrúar 2023, þegar hann lét Þóra fara eftir að hafa haldið yfir henni hlífiskildi sem sakborningi í heilt ár.

Hver er skýringin?

Stefán er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Eftir að hafa fengið fyrirspurn frá lögreglu um Samsung símann með númerinu 680 2140 og gengið úr skugga um að síminn var í umsjón Kveiks hefur Stefán spurt Þóru um símann. Svör Þóru hafa verið þess eðlis að hún varð að víkja úr starfi fyrirvaralaust.

Hverju svaraði Þóra Stefáni útvarpsstjóra um símann? Aðeins tveir möguleikar eru í stöðunni.

a. Samsung síminn með númerinu 680 2140 er á Kveik en búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið apríl 2021 til október 2021.

b. Samsung síminn er týndur.

Víst er að ef Samsung síminn væri heill og óskaddaður, ekki búið að eyða úr símanum gögnum, væri hann í fórum RÚV, ef ekki lögreglu, og sýndi með óyggjandi hætti hvaða samskipti fóru milli byrlara Páls skipstjóra annars vegar og hins vegar Þóru og annarra starfsmanna RÚV. Símtalaskrá í gögnum málsins staðfesta að samskiptin fóru fram.

En Samsung síminn er ekki heill og óskaddaður á Efstaleiti. Annað tveggja er síminn týndur og tröllum gefinn eða búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið sem byrlun, afritun og yfirhylming fór fram.  Þess vegna varð Þóra að víkja fyrirvaralaust úr starfi á RÚV í byrjun febrúar 2023.


Selenskí og Trump, himnaríki og helvíti

Tilboð Selenskí að segja af sér forsetaembættinu flýtir falli Úkraínu. Landið fær ekki Nató-aðild út á afsögnina. Innrás Rússa hófst fyrir þremur árum til að koma í veg fyrir að Úkraína yrði Nató-ríki.

Ástæðan fyrir tilboði Selenskí um afsögn er ekki Rússland heldur Trump. Sitjandi Bandaríkjaforseti hlaut kosningu í nóvember á síðasta ári m.a. út á loforð um að binda endi á Úkraínustríðið.

Úkraína var viljugt verkfæri Evrópusambandsins og Biden fráfarandi Bandaríkjaforseta til að knésetja Rússland. Verkaskiptingin var að vestrið útvegaði fé, vopn og efnahagsþvinganir gegn Rússum en Selenskí hermenn og vígvöll. Fyrst eftir að stríðsátök brutust út, í febrúar 2022, mátti ekki á milli sjá hvor stríðsaðili hefði betur. Annað stríðsárið, 2023, var þrátefli. En á síðasta ári var öllum ljóst að Rússar stóðu af sér efnahagsþvinganir, vestræn vopn og fjármuni. Víglínan hreyfist ekki hratt en hún breytist jafnt og þétt Rússum í vil. Gnótt er af vopnum og skotsilfri Úkraínumegin en skortur á mannafla. Fyrir stríð taldi Úkraína 40 milljónir manna. Rússland er 140 milljónir.

ESB og Selenskí hugðust beita þeirri herfræði á Trump að leiða hann í smáskrefum inn í stríðsbröltið og gera hann samábyrgan. Trump ákvað að virða kosningaloforðið og sneri sér beint til Pútín Rússlandsforseta með friðartilboð. ESB og Úkraína voru sett út í kuldann. Selenskí brást ókvæða við, nánast skoraði Trump á hólm en býður nú afsögn sína. ESB bryður jaxlana, vitandi að án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínustríðið gjörtapað. ESB mun sitja uppi með öflugt Rússland í túnfætinum gangi fram rússneskur friður.

Eina sem bjargað getur Selenskí og ESB er að snuðra hlaupi á þráðinn í viðræðum Bandaríkjanna og Rússlands. Það gæti gerst en þá myndu Pútín og sérstaklega Trump tapa andlitinu, verða ótrúverðugir. Orðspor beggja forseta er í húfi.

Samninganefndir Bandaríkjanna og Rússlands fjalla ekki fyrst og fremst um frið í Úkraínu. Aðalatriðið er samskipti stórveldanna að gefnum stríðslokum. Ef og þegar samkomulag næst um gagnkvæma hagsmuni stórveldanna verður hugað að útfærslu á Úkraínufriði. Ástæðan fyrir móðursýki ESB er að í Brussel óttast umboðslausir tæknikratar að Bandaríkin yfirgefi Evrópu er stríði linnir.

Á meðan viðræður Bandaríkjanna og Rússlands standa er áfram barist í Úkraínu. Vígstaða Rússa styrkist dag frá degi. Trump og Pútín geta stytt eða lengt sínar viðræður um vikur ef ekki mánuði. Tíminn vinnur með fyrirsjáanlegum friði. Baráttuþrek Úkraínuhers eykst ekki við að Selenskí forseti bjóðist til að segja af sér.

Í upphafi stríðsátaka fyrir þrem árum talaði vestrið fjálglega um að lýðræði og frelsi vesturlanda væri í húfi á gresjum Garðaríkis. Enginn nennir lengur að halda hugsjónablekkingunni á lofti.

Um hvað er þá barist? Tvennt. Í fyrsta lagi öryggishagsmuni og valdajafnvægi i Austur-Evrópu. Í öðru lagi hráa viðskiptahagsmuni, sbr. kröfu Trump um að Úkraína afsali sér náttúruauðlindum og innviðum til Bandaríkjanna fyrir veitta aðstoð.

Í menningarpólitísku samhengi er Úkraínustríðið milli hugsjónamanna og raunsæismanna. Hugsjónfólk fylkti sér um Selenskí og Úkraínu. Raunsæismenn töldu að stríð óþarfa. Auðvelt var að semja um öryggishagsmuni og valdajafnvægi í Austur-Evrópu án vopnaskaks. Hugsjónafólkið vildi blóð og landvinninga. Eftir innrás Rússa fyrir þrem árum töldu raunsæismenn farsælast að Rússar hefðu betur. Ástæðan er einfaldur reikningur. Rússneskt niðurlæging á vígvellinum þýddi kjarnorkustyrjöld og/eða að kjarnorkuveldið leystist upp í innanlandsófriði og vopnabúrið færi á flakk til misáreiðanlegra aðila. Í báðum tilvikum eru afleiðingarnar stórum hrikalegri en að Selenskí forseti bíði lægri hlut og land skipti um yfirráð. Orðaskrautið um frelsi og lýðræði var aldrei trúverðugt í augum raunsæismanna.

Hugsjónafólk skilur ekki að pólitík gengur út á skásta kostinn, sá besti er aldrei í boði. Pólitík er tilraun til mannlífs í samlyndri siðmenningu. Um manninn gildir að hann er pólitískt dýr, sagði Aristóteles fyrir 2500 árum. Sagt með öðrum orðum; dýrslegt félagseðli mannsins gefur færi á siðmenningu en tryggir hana ekki. Raunsæismenn kunna þessa lexíu og vinna með manneðlið eins og þar. Hugsjónamenn skrifa handrit að fegurri nýrri veröld. Himnaríki er lofað en efndirnar eru helvíti á jörð.


mbl.is Tilbúinn að stíga til hliðar gegn skilyrðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán fór á bakvið stjórn RÚV, upplýsti ekki um Þóru

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri leyndi stjórn RÚV að hann hefði átt í samskiptum við lögreglu í byrjun janúar 2023 um málefni Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks. Hann reyndi einnig, með lögfræðiáliti, að koma sér undan því að veita lögreglu upplýsingar. Samskiptin við lögreglu leiddu til að Þóra var látin fara frá RÚV. 

Stefán fékk upplýsingabeiðni frá lögreglu 4. janúar 2023 um símanúmerið 680 2140. Það er númerið á Samsung símanum sem notaður var til að afrita síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Símann hafði Þóra Arnórsdóttir keypt í apríl 2021, rétt áður en skipstjóranum var byrlað og síma hans stolið. Stefán svaraði með tölvupósti 11. janúar eftir að lögreglan ítrekaði upplýsingabeiðnina. Stefán fékk aðstoð lögfræðings og komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingar yrðu ekki veittar. Niðurlag tölvupósts útvarpsstjóra er afgerandi neitun að veita lögreglu upplýsingar: ,,Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði."

Daginn eftir hafði Stefáni snúist hugur. Óvíst er hvað olli sinnaskiptum útvarpsstjóra sem bæði er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Kannski hefur Stefán notað tengsl sín í kerfinu, spurst fyrir á bakvið tjöldin og áttað sig á að honum væri ekki stætt á að neita upplýsingagjöf í rannsókn lögreglu á sakamáli. Ellegar væri hætta á að hann yrði sjálfur kallaður til yfirheyrslu, annað tveggja sem sakborningur eða vitni.

Í tölvupósti 12. janúar 2023 sagði hann símann notaðan af Kveik og að Þóra Arnórsdóttir gæfi upplýsingar ,,munnlega" um notkun símans. Stefán ákveður, ef til vill í samráði við Þóru, að ekkert skuli fréttast af málinu innan veggja RÚV. Hann ákveður jafnframt að halda leyndu fyrir stjórn RÚV að Þóra sé undir lögreglurannsókn fyrir að hafa tekið við stolnum síma, sem fékkst með byrlun.

Næsti stjórnarfundur RÚV eftir samskipti útvarpsstjóra og lögreglu var 25. janúar 2023. Á stjórnarfundum leggur útvarpsstjóri fram minnisblað og fer yfir helstu viðfangsefni stofnunarinnar frá síðasta fundi. Fundir eru að jafnaði mánaðarlega. Þann 25. janúar sagði hann m.a. frá dómsmálum sem RÚV á aðild að en ekki orð um að starfsmaður RÚV sé undir lögreglurannsókn fyrir alvarleg afbrot. Ekkert er sagt um upplýsingabeiðni lögreglu sem eindregið bendir til að stjórnandi á RÚV sé beinn aðili að byrlunar- og símamálinu. Stefán hafði þegar grafið sér djúpa holu. Ári áður, í febrúar 2022, hafði hann, ásamt Heiðari Erni fréttastjóra, gefið út sérstaka traustsyfirlýsingu til Þóru. Það hefði verið vandræðalegt fyrir útvarpsstjóra að útskýra fyrir stjórn RÚV og öðrum að hann gerði mistök með traustsyfirlýsingunni árið áður. Útvarpsstjóri kaus að ljúga með þögninni.

Stefáni ber skylda til að upplýsa stjórn RÚV um formleg samskipti við aðrar ríkisstofnanir, einkum og sérstaklega þegar um er að ræða sakamálarannsókn á yfirmönnum RÚV. Án þessara upplýsinga getur stjórn RÚV ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.

Stefán losaði sig við Þóru í byrjun febrúar 2023, stuttu eftir að upp komst að hún hafði keypt Samsung síma til að afrita síma Páls skipstjóra. Snubbótt fréttatilkynning var gefin út 6. febrúar. Þóra hafði verið 25 ár á stofnunni og ritstjóri Kveiks frá upphafi. Ef allt væri með felldu hefðu tímamótin verið nýtt til að fara yfir afrekaskrá Þóru og Kveiks. Fáorð fréttatilkynning var látin nægja. Það mátti ekki vekja athygli á skyndilegu brotthvarfi ritstjóra Kveiks. Fólk gæti farið að spyrja og krefjast skýringa.

Á næsta fundi stjórnar RÚV, þann 22. febrúar 2023, leggur Stefán fram minnisblað, samkvæmt venju. Ekki orð um Þóru. En útvarpsstjóri tekur fram að Þröstur Helgason hætti sem dagskrárstjóri Rásar 1 komandi mánaðarmót. Í starfsaldri er Þröstur ekki hálfdrættingur Þóru. Starfsmannamál millistjórnenda eru sem sagt á dagskrá, en ekki þegar Þóra á í hlut. Það mátti ekki ræða skyndileg starfslok Þóru, þá hefði þurft að ræða sakamálið. Útvarpsstjóri ætlaði að þegja sig og RÚV frá byrlunar- og símamálinu. 

RÚV er opinber stofnun. Stefáni ber skylda að upplýsa stjórnina um mikilsverð málefni. Að millistjórnandi sé undir lögreglurannsókn vegna alvarlegs sakamáls er augljóslega eitthvað sem Stefán á að greina stjórninni frá. Upplýsingabeiðni frá lögreglu sem leiðir til þess að stjórnandinn lætur af störfum fyrirvaralaust staðfestir að mikilsvert málefni er á ferðinni.

Stefán brást skyldum sínum sem útvarpsstjóri. Með þögninni laug Stefán útvarpsstjóri kalt og yfirvegað að stjórn RÚV. Í öllum stjórnum stofnana og fyrirtækja hefur slík framkoma forstjóra afleiðingar.


mbl.is Hringurinn þrengist um Efstaleiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óánægja á RÚV með byrlunarvörn Stefáns útvarpsstjóra

Stjórnarmenn RÚV eru ekki sáttir með að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri gefi ekki kost á viðtölum vegna byrlunar- og símamálsins. Starfsfólk ríkisfjölmiðilsins furðar sig á þögn útvarpsstjóra. Stefán er andlit RÚV og á að svara fyrir starfsemina á Efstaleiti. En Stefán er á flótta eins og sakamaður. Til að lægja öldurnar sendi Stefán tölvupóst til starfsmanna í gær. Tölvupósturinn sýnir mann sem hefur málað sig út í horn.

Vísir gerir skil tölvupósti útvarpsstjóra. Samkvæmt endursögninni lýtur eina efnislega athugasemd útvarpsstjóra við fréttaflutning Morgunblaðsins síðustu daga að símanúmerinu 680 2140. Um það segir Stefán: ,,Umrætt númer var hins vegar skráð árið 2018, þvert á það sem kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins." Er Stefán var í samskiptum við lögreglu, í janúar 2023, hafði hann ekki í frammi þessa mótbáru, eins og vikið verður að hér að neðan.

Tilfallandi fjallaði um Samsung-síma með símanúmerinu 680 2140 fyrir tveim árum:

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.  

Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.

Í tölvupósti til RÚV-starfsmanna í gær talar Stefán útvarpsstjóri aðeins um símanúmerið sjálft en ekki Samsung-símann sem Þóra keypti í apríl, rétt fyrir byrlun skipstjórans. Símanúmerið 680 2140 kann að hafa verið skráð 2018 en Samsung-síminn var keyptur í apríl 2021. Til að afrita síma skipstjórans þurfti Samsung-síma, samskonar og skipstjórinn notaði. Afritunin fór fram á símtæki, ekki símanúmer. Stefán afvegaleiðir með því að tala aðeins um símanúmerið en ekki símtækið sjálft.

Vitneskja um hvernig síma skipstjórinn notaði gat ekki komið frá neinum öðrum en þeim sem voru í nánum kynnum við hann. Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra hefur játað að hafa byrlað eiginmanninum, stolið síma hans og afhent Þóru Arnórsdóttur á Efstaleiti.

Í samskiptum við lögreglu 12. janúar 2023 segir útvarpsstjóri: ,,Þetta símanúmer mun vera notað af Kveik." Í sömu samskiptum vísar Stefán á Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks til að upplýsa lögreglu. Fyrir tveim árum vissi Stefán hvað klukkan sló. En hann gerði ekkert til að upplýsa málið. Þóra var kölluð í yfirheyrslu og tilfallandi bloggaði um skýrslugjöfina:

Í yfirheyrslu lögreglu bar Þóra því við að Samsung síminn hafi verið notaður til samskipta við heimildamenn Kveiks. En símanúmerið er hvergi skráð heldur leyninúmer. Enginn gat hringt í númerið með fréttaskot eða upplýsingar. Þá var ekki mikið hringt úr símanum í apríl. Reikningurinn fyrir mánuðinn er upp á 692 kr. 

Þóra varð sakborningur í lögreglurannsókn í febrúar 2022, ári áður en samskiptin voru, sem rakin eru hér að ofan. Stefán útvarpsstjóri hélt verndarhendi yfir henni. Hann og Heiðar Örn fréttastjóri sendu frá sér yfirlýsingu um að Þóru hefði verið heimilt að taka við stolnum gögnum sem fengust með byrlun. Þessi yfirlýsing stendur enn, hefur hvorki verið afturkölluð né útskýrð. Þóra birti enga frétt á RÚV með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Fréttir birtust aftur samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021. Unnið var eftir skipulagi, aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti.

Útvarpsstjóri og fréttastjóri öxluðu ábyrgð á ritstjóra Kveiks með sérstakri yfirlýsingu og sú ábyrgð er enn i gildi. Stefán útvarpsstjóri reynir að hlaupast undan ábyrgðinni, segir afbrot og siðleysi á Glæpaleiti vera trúnaðarmál.

Eftir að upp komst, í janúar 2023, að Þóra hafði keypt Samsung-síma fyrir byrlun var Þóra látin fara frá RÚV. Engin útskýring, aðeins fáorð tilkynning. Stefán vildi ekki lengur Þóru á RÚV en gaf engar útskýringar, upplýsti ekkert. Í tölvupósti núna í gær til starfsmanna RÚV þykist Stefán ekkert vita hvernig það æxlaðist að hann hélt Þóru sakborningi í eitt ár, frá febrúar 2022 til febrúar 2023, en lét hana svo fara umyrðalaust. Stefán áttaði sig, ekki seinna en í janúar 2023, að starfsmenn RÚV áttu aðild að alvarlegum glæp. En ekki hvarflaði að útvarpsstjóra að upplýsa málavöxtu, hann einfaldlega losaði sig við fólk. Áður en Þóru var varpað útbyrðis á Efstaleiti höfðu Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan axlað sín skinn vegna byrlunar- og símamálsins.

Stefán útvarpsstjóri lék ýmsa biðleiki til að tefja rannsókn lögreglu og þæfa málið. Eftir fyrstu fyrirspurn um símann með númerið 680 2140 þurfti lögregla að ítreka fyrirspurnina og þá bar Stefán fyrir sig lögfræðiálit um að hann mætti ekkert segja. Rétt eins og hann fullyrðir núna að honum sé óheimilt að tjá sig um aðild starfsmanna að lögbrotum og siðleysi. Stefán tók einnig þátt i, með Þórði Snæ Júlíussyni og Aðalsteini Kjartanssyni, að skálda kæru til lögreglu um að skipstjórinn hefði hótað þeim ofbeldi. Kæran var lögð fram til að afvegaleiða umræðuna um byrlunar- og símamálið, eins og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins. Útvarpsstjóri lagði lag sitt við siðlausa blaðamenn, eins og bæði fyrr og síðar.  

Byrlunar- og símamálið þarf að upplýsa. Allir sjá það nema Stefán útvarpsstjóri og blaðamennirnir sem eiga hlut að máli.

 


Morgunblaðið til bjargar blaðamennsku

Í bráðum 4 ár liggur byrlunar- og símamálið eins og mara á íslenskri blaðamennsku. Allt að sex til átta blaðamenn og þrír fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, áttu aðild að byrlun, þjófnaði og afritun á síma. Fjölmiðlar sögðu fáar fréttir og tóku iðulega upp hanskann fyrir félaga sína á RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Núna í febrúar ákveður Morgunblaðið að gera skil stærsta og alvarlegasta hneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu. Heiðarleg blaðamennska á sér bandamann.

Umfjöllun Morgunblaðsins byggir á gögnum úr lögreglurannsókn sem var hætt, en ekki felld niður. Í yfirlýsingu lögreglu í haust kemur fram að brotið var á Páli skipstjóra Steingrímssyni, honum var byrlað, síma hans var stolið og símtækið afritað á RÚV. En þar sem blaðamenn voru ,,ósamvinnuþýðir" og höfðu eytt gögnum tókst ekki að sýna fram á hvaða blaðamenn frömdu tilgreind afbrot. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur játað að byrla, stela og færa Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV síma skipstjórans 4. maí 2021.

RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Það gerðu aftur Stundin og Kjarninn samtímis 21. maí 2021, 17 dögum eftir að Þóra tók við síma skipstjórans og afritaði á símtæki sem hún keypti fyrir byrlun. Samráð RSK-miðla gekk út á að glæpurinn var framinn á Efstaleiti en afurðin flutt með leynd á Stundina og Kjarnans til birtingar. Heiðarlegir fjölmiðlar afla sér ekki frétta með þessum hætti.

Tilfallandi hóf að skrifa um byrlunar- og símamálið í nóvember 2021. Eftir nokkurra daga þögn frá blaðamönnum RSK-miðla birtust sama daginn, þann 18. nóvember, breiðsíður á Stundinni og Kjarnanum gegn tilfallandi skrifum. ,,Svar við ásökun um glæp," er fyrirsögnin hjá Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans sparaði ekki stóru orðin í Kjarnanum. ,,Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar," var yfirskrift málsvarnarinnar.

Síðar áttu bæði Þórður Snær og Aðalsteinn eftir að stefna tilfallandi fyrir dóm og krefjast bóta upp á nokkrar milljónir króna. Blaðamennirnir kalla það ,,kælingu" þegar þeir fá á sig málssókn, en þeim finnst sjálfsagt að herja á bloggara og tjáningarfrelsi hans.

Þórður Snær gerðist óopinber talsmaður RSK-blaðamanna. Tæpu ári eftir greinina um glæp í höfði tilfallandi Páls kom enn skýrari afneitun frá Þórði Snæ, sem nú er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar: Sagan af manninum sem ekki var eitrað fyrir og blaðamönnum sem valdið vildi kæla. Ásamt afneitun á bláköldum staðreyndum slær ritstjórinn þann tón að lögreglurannsókn á byrlun og stuldi sé ofsóknir á hendur blaðamönnum. Lögreglan var sökuð um annarlegar hvatir. ,,Tvö ár af kælingu vegna glæps sem aldrei var framinn," skrifar Þórður Snær fyrir einu ári og hafði þá sjálfur ,,kælt" bloggara með málssókn.

Fréttir og fréttaskýringar Stefáns Einars Stefánssonar í Morgunblaðinu síðustu daga staðfesta að það sem tilfallandi sagði um byrlunar- og símamálið er satt og rétt. Það sem Þórður Snær og Aðalsteinn hafa sagt um málið er meira og minna ósatt.

Blaðamannafélag Íslands hefur staðið meðvirka vakt með blaðamönnum RSK-miðla og skipulega reynt að afvegaleiða umræðuna og taka undir fáheyrð sjónarmið að lögreglan sé óheiðarleg með rannsókn á alvarlegum afbrotum. Sigríður Dögg formaður BÍ skrifar í Blaðamanninn í desember 2022, ,,Aðgerðir gegn blaðamönnum, aðför að tjáningarfrelsi." Þar klappar hún sama stein og Þórður Snær, að lögregla ofsæki blaðamenn án réttmætrar ástæðu. Í sama tölublaði Blaðamannsins er sagt frá að Aðalsteinn og Þórður Snær fái verðlaun fyrir aðild sína að byrlunar- og símamálinu. Stéttafélag verðlaunar skúrka til að fegra ásýnd þeirra gagnvart almenningi. Verðlaunablaðamenn stunda ekki afbrot, blekkingu og siðleysi eru skilaboð BÍ.

Annað dæmi um vinnubrögð blaðamanna og stéttafélags þeirra er að siðreglum BÍ var breytt fyrir tveim árum til að minnka vernd þeirra sem eiga um sárt að binda og komast í kast við fjölmiðla. Þáverandi varaformaður BÍ, sjálfur Aðalsteinn Kjartansson, hafði forystu um að fella úr gildi siðareglu sem veitti andlega veikum vernd gegn ágangi blaðamanna.

Íslensk blaðamennska var komin í sorpflokk er Morgunblaðið tók til við að fjalla um byrlunar- og símamálið. Blaðamenn á öðrum fjölmiðlum þegja enn um glæpi og siðleysi í eigin röðum. Þeir þjóna öðrum hagsmunum en faglegri og heiðarlegri blaðamennsku. Sigríður Dögg á BÍ er líka mállaus. Sennilega upptekin að ganga frá skattframtalinu sínu.  


mbl.is Starfsfólk RÚV huldi slóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og trúarvakning vinstrimanna

Trúlausir vinstrimenn fylkja sér um vígða menn sem gagnrýna Trump. Um daginn var átrúnaðargoðið biskup í Washington og núna norskur prestur, sbr. viðtengda frétt. Trúarvakning vinstrimanna er krampakennt viðbragð við heimspólitískri umpólun. Heilbrigð dómgreind felldi af stalli vók-heimsku. 

Lítið dæmi íslenskt. Hér á Íslandi eru foreldrar spurðir af Skólapúlsinum hvort barnið þeirra sé ,,stelpa, strákur eða annað." Barn getur ekki verið annað en strákur eða stelpa. Það getur ekki verið hani, köttur, krummi, hundur eða svín. Afmennskun mannsins ber ekki kristilegu hugarfari vitni.

Trump bakaði sér reiði vinstrimanna með forsetatilskipun um að kynin séu aðeins tvö.

Í tilefni af forsetatilskipun Trump senda heildarsamtök launþega á Íslandi, Kennarasamband Íslands meðtalið, frá sér yfirlýsingu, að áeggjan Samtakanna 78. Fyrsta málsgreinin:

Heildarsamtök launafólks taka undir kröfu Samtakanna 78 um að íslensk stjórnvöld fordæmi tilskipun Bandaríkjaforseta um tvö kyn.

Djúpheimskan í yfirlýsingunni afhjúpast með einni spurningu. Ef kynin eru fleiri en tvö, hvað eru þau þá mörg? Hvorki Kennarasambandið né forysta annarra launþegasamtaka og heldur ekki Samtökin 78 geta svarað barnslega einfaldri spurningu. Hvað eru kynin mörg? En samt eru mannréttindi í húfi þegar forseti Bandaríkjanna staðfestir óyggjandi sannindi. Ranghugmyndir, ekki frekar en hugmyndir almennt, eiga mannréttindi. Maðurinn á mannréttindi og hann er aðeins til í tveim kynjum.

Stórt dæmi útlenskt. Evrópuelítan hittist í Frakklandi í vikunni á neyðarfundi. Tilefnið? Jú, Trump boðar frið í Úkraínu en Evrópuelítan heimtar meira stríð. Örútgáfa elítunnar á Íslandi, Þorgerður Katrín utanríkis, tekur undir. Enn er ekki nóg drepið í Garðaríki. Síðan hvenær er kristilegt að hámarka mannfall og eyðileggingu?

Sannkristinn prestur, Dietrich Bonhoeffer, andæfði helstjórn nasista í Þýskalandi fyrir miðja síðustu öld og galt með lífi sínu. Bonhoeffer sagði heimsku verri en illsku. Heilbrigður einstaklingur þekkir illskuna fyrir það sem hún er. Heimskan er lævísari. Hún sýnist þrungin viti fái hún nægilega marga ábekinga. Fólk hefur samúð með smælingjum á klafa ranghugmynda. Aumingjagæsku er umbreytt í fylgisspekt við vitfirringuna. Samlandi Bonhoeffer og samtíðarmaður, Göbbels, kenndi að endurtekin fáviska verður sannleikur, séu nógu margir um endurtekninguna. Eðjótin fengu byr í seglin á lýðnetinu. Ranghugmyndir urðu viðtekin sannindi í stafrænni síbylju. 

Trump er andskoti vinstrimanna af þeirri einföldu ástæðu að afhjúpaði heimssýn fólksins sem kallar sig gott en gerir illt. Andlegir leiðtogar góða fólksins eru imbar með háskólapróf.

Raunsæir hægrimenn sjá ekki í Trump spámann eða endurborinn messías. Maðurinn er 78 ára og dauðlegur eins og við hin. Afrek Trump er að hann í Bandaríkjunum smíðaði meirihluta undir þeim formerkjum að nóg væri komið af hálffasískri hugmyndafræði sem kallast vók. Bandaríkin eru upphaf vóksins - en líka endalok.


mbl.is Of margir drukkið „Trump-eitrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þóra stefndi byrlara til Finns Þórs saksóknara

Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá samskiptum Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar. Morgunblaðið birtir hluta samskiptanna sem fóru fram 24. ágúst 2021. Byrlunar- og símamálið hófst þá um vorið þegar eiginkonan byrlaði skipstjóranum, stal síma hans og færði Þóru til afritunar. Lögreglan á Akureyri fór með rannsóknina enda skipstjóranum byrlað í höfuðborg Norðurlands.

Síðsumars 2021 var lögreglurannsóknin enn á frumstigi. Blaðamenn höfðu veður af rannsókninni og vildu freista þess að flytja hana frá lögreglunni á Akureyri til héraðssaksóknara í Reykjavík. Blaðamennirnir töldu eiginkonunni, sem er alvarlega andlega veik, trú um að rannsóknin á henni tengdist Namibíumálinu og vildu að hún gæfi sig fram við héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að byrlunar- og símamálið yrði sameinað Namibíumálinu. Eini samnefnari Namibíumálsins og byrlunar- og símamálsins er að blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru upphafsmenn í báðum tilvikum.

Tilfallandi fjallaði um samskipti Þóru og byrlara Páls skipstjóra fyrir hálfu öðru ári:

Úr símanum 680 2140 var Þóra í reglulegum samskiptum við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra. Hún er andlega veik, hefur tvisvar verið nauðungarvistuð á sjúkrastofnun, talin sjálfri sér hættuleg og öðrum. Eiginkonan sá um byrlun og símastuld í samráði við blaðamenn.

Blaðamenn urðu þess áskynja sumarið 2021 að lögreglurannsókn væri hafin. Skipstjórinn hafði kært málið 14. maí þá um vorið. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins enda var Páli byrlað á Akureyri. Þóra og samstarfsmenn hennar á RSK-miðlum fengu veiku konuna til að banka upp á hjá héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að forræði rannsóknarinnar flyttist þangað og yrði sameinað Namibíumálinu svokallaða.

Sá sem fer fyrir Namibíumálinu hjá héraðssaksóknara er Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari. Bróðir hans, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður er einn fimm sakborninga RSK-miðla. Plottið gekk út á að Finnur Þór myndi fella niður lögreglurannsóknina.

Sumarið 2021 var rannsókn enn á frumstigi. Enginn hafði verið yfirheyrður, hvorki eiginkona skipstjórans né blaðamenn. Þar af leiðir var enginn kominn með stöðu sakbornings í málinu. Eiginkonan var sú fyrsta sem boðuð var í yfirheyrslu og það var ekki fyrr en 5. október 2021. Blaðamenn töldu að þeir gætu bjargað sér fyrir horn með því að rannsókn málsins flyttist til héraðssaksóknara þar sem Finnur Þór er fyrir á fleti.

Veika konan, forrituð af blaðamönnum, mætti óboðuð til héraðssaksóknara 10. september 2021 til að tjá sig um Namibíumálið og Samherja. Allar upplýsingar um þau mál hafði eiginkona Páls vitanlega fengið frá blaðamönnum enda hún aðeins tengd Samherja með hjónabandi við skipstjóra hjá útgerðinni. Ekki það að blaðamenn reyndu ekki að fá hana til verka. Í lögregluskýrslum eru samskipti sem sýna að heimsókn veiku konunnar til aldraðrar móður Þorsteins Más forstjóra Samherja var rædd. RSK-liðum er ekkert heilagt.

Lögreglufulltrúi tók á móti eiginkonu skipstjórans 10. september 2021 og kallaði til annan starfsmann embættisins, mögulega var það Finnur Þór eða undirmaður hans. Konunni hafði verið sagt að tilkynna að hún hefði upplýsingar um Namibíumálið sem hún vildi koma á framfæri. Það átti að vera tilefnið til að færa forræði rannsóknar á byrlun og símastuldi suður yfir heiðar.

Lögreglufulltrúinn sem tók á móti konunni skrifaði skýrslu, dagsett 14. mars í ár, 2023, þar sem hann greinir frá heimsókn konunnar. Þar segir að þáverandi eiginkona skipstjórans hafi verið ,,í mjög miklu andlegu ójafnvægi. Hún óð úr einu í annað og grét mikið."

Eiginkonan var buguð, fárveik andlega og undir stöðugum ágangi blaðamanna sem spiluðu á ranghugmyndir hennar um lífið og tilveruna. Héraðssaksóknari gat ekki notað játningar eiginkonu Páls sem rök til að taka yfir málið og sameina það Namibíumálinu. 

Af Finni Þór er það að frétta að hann hætti hjá héraðssaksóknara og gerðist dómari við héraðsdóm Reykjavíkur. Þegar einni angi Namibíumálsins, réttarstaða Örnu McClure kom til kasta héraðsdóms, gerði Finnur Þór allan dómstólinn vanhæfan. Heilir 24 dómarar urðu vanhæfir á einu bretti - sennilega Íslandsmet. Finnur Þór varð að segja sig lausan frá dómarastörfum og var fluttur til í stjórnkerfinu, stýrir núna rannsókn á Súðavíkursnjóflóðinu. Samkrull embættismanna og blaðamanna sem láta lög og siðareglur lönd og leið er meinsemd sem grefur undan réttarríkinu.

Byrlunar- og símamálið heldur áfram að eitra samfélagið, fjórum árum eftir að það hófst. Þeir sem mest vita um málið þegja þunnu hljóði. Þeir eru: Þóra Arnórsdóttir nú á Landsvirkjun, áður ritstjóri Kveiks, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni, áður á Stundinni og RÚV, Þórður Snær Júlíusson áður ritstjóri Kjarnans en nú framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Það er í þeirra höndum að upplýsa hvernig það atvikaðist að blaðamenn RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, hófu samstarf við andlega veika konu sem vann óhæfuverk í þágu blaðamanna og fjölmiðla þeirra. 


mbl.is RÚV og Stundin með puttana í símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband