Stefán, Egill: hættum við ESB-umsóknina

Tveir álitsgjafar á vinstri kantinum, Stefán Ólafsson og Egill Helgason, leggja báðir til að misheppnuð ESB-umsókn Samfylkingar frá 16. júlí 2009 verði sett ofan í skúffu við yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður.

Stefán og Egill eiga það sameiginlegt að fylgjast með erlendri þróun, ólíkt mörgum ESB-sinnum sem eru jafn illa að sér um útlend málefni og þeir eru heitir í óskhyggjunni um að Íslandi verði ESB-ríki.

Á Íslandi er sjö ára samfelldur meirihluti fyrir því að landið standi utan Evrópusambandsins. Það skyti skökku við að næsta meirihlutastjórn yrði mynduð til að koma minnihlutamáli á dagskrá. Sem í ofanálag klýfur þjóðina í herðar niður.


mbl.is Vaxandi andstaða við inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín boðar skammtímastjórn - 5 ómöguleikar

Ríkisstjórn fjögurra vinstriflokka og Viðreisnar, sem Katrín Jakobsdóttir hyggst mynda, er dauðanum merkt. Hún lifir ekki til næsta vors. Ástæðurnar eru þessar í réttri röð:

Píratar, Samfylking, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri grænir.

Ef Katrín myndar slíka stjórn eyðileggur hún Vinstri græna sem trúverðugt stjórnmálaafl. Vinstri grænir fetar sömu slóð og Samfylkingin, sem líka reyndi hið ómögulega; að troða Íslandi í ESB, og galt fyrir með 5,7 prósent fylgi í síðustu kosningum.


mbl.is Katrín vill mynda fjölflokkastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvinguð leikjaröð Vinstri grænna

Formaður Vinstri grænna stendur frammi fyrir þvingaðri leikjaröð í stjórnarmyndunarviðræðum. Trú fyrri yfirlýsingum verður Katrín Jakobsdóttir að leita eftir samstöðu vinstriflokkanna um ríkisstjórn.

Vinstriflokkarnir fjórir eru með 27 þingmenn á alþingi en 32 þarf í meirihluta. Ef Viðreisn yrði boðið með væri þingmannafjöldinn kominn upp í 34 en flokkarnir fimm. Ríkisstjórn þessara flokka yrði hvorki til vinstri né lífvænleg.

Þar á eftir yrði Katrín að máta Vinstri græna við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkarnir eru til samans með 31 þingmenn og yrðu að fá einn af þessum þrem með í stjórn: Framsókn, Bjarta framtíð eða Viðreisn.

Pólitískt yrði erfiðast að selja baklandi Vinstri grænna stjórn með tveim hægriflokkum, Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Auðveldast væri að fá Bjarta framtíð með í púkkið. Vandinn er að Björt framtíð gerði sig að pólitískum síamstvíbura Viðreisnar strax eftir kosningar.

Rökréttast er að Framsókn yrði þriðja hjól Katrínar og Bjarna Ben. En pólitík er ekki rökæfing heldur list hins mögulega, eins og járnkanslarinn Bismarck sagði forðum daga.


mbl.is Katrín á fund forseta á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar hrynja - þjóðin afhuga óreiðupólitík

Fylgi Pírata hrynur um heil 8,6 prósent og rétt kemst upp í tveggja stafa tölu, 11,9% fylgi. Píratar standa fyrir óreiðupólitík þar sem saman fer núllstefna, t.d. í atvinnumálum, og krafa um upplausn ríkjandi stjórnskipulags.

Píratar voru stóri flokkurinn í mælingum allt síðasta kjörtímabil, en féllu undir 15 prósent í kosningum. Hratt undanhald í skoðanakönnunum er staðfesting á þeirri þróun að eftir því sem þjóðin kynnist Pírata-pólitík betur líst henni verr á.

Önnur óábyrg stjórnmálasamtök, Samfylking, voru sett í skammakrókinn í kosningunum og ný könnun staðfestir að það var ekki tilviljun. Samfylking mælist með 5,6 prósent fylgi.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíska andlitið eftir kosningar

Viðreisn er þriðji minnsti flokkurinn á alþingi og Björt framtíð næst minnsti. Aðeins hornkerling Samfylkingar er minni en þessir flokkar. Smáflokkar eru og verða smáflokkar þótt þeir taki sæti í ríkisstjórn.

Vandræði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru þau sömu. Flokkarnir börðust fyrir kollsteypum á sviði utanríkismála, stjórnskipunar og í landbúnaðarmálum. En kjósendur voru ekki áhugasamir, Viðreisn fékk 10,5 prósent fylgi en Björt framtíð 7,2 prósent.

Af þessu leiðir eru hvorki Viðreisn né Björt framtíð með umboð frá kjósendum að gera stórfelldar breytingar á meginþáttum samfélagsins. Til að halda andlitinu verða flokkarnir á fá bein að naga. Á beininu verða tægjur af kosningaloforðum sem engin rök stóðu til að hægt væri að efna.


mbl.is „Væntanlega“ fundað áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump afhjúpar Nató-lygina um Pútín

Utanríkisstefna Nató-ríkjanna, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, er frá aldamótum byggð á þeirri lygi að Pútín Rússlandsforseti stefni að heimsyfirráðum. Þessi lygi er fóðruð með endalausum áróðri um að Pútín sé voðalegur maður á alla vegu og kanta. Í reynd stendur Pútín aðeins fyrir lögmæta öryggishagsmuni rússneska ríkisins og sýndi enga tilburði til að endurvekja útþenslustefnu föllnu Sovétríkjanna.

Í skjóli lyganna um Pútin reka Bandaríkin og Evrópusambandið herská utanríkisstefnu í Austur-Evrópu sem leiddi til Úkraínustríðsins. Með Bandaríkin í forystu stunda sömu aðilar ævintýralega dómgreindarlaus afskipti af málefnum miðausturlanda þar sem slóð stríða og eyileggingar liggur um Írak, Sýrland og Líbýu.

Trump andæfði lyginni um Pútín Rússlandsforseta og hann fordæmdi hernaðarstefnu Bandaríkjanna í miðausturlöndum. Helstu hönnuðir Pútín-lyginnar, t.d. William Hague fyrrum utanríkisráðherra Breta, skrifa núna hrollvekjur um að Vesturlönd séu að falli komin - ef þau halda ekki í Pútín-lygina.

Eina leiðin fyrir Vesturlönd til að halda velli er í friðsamlegri sambúð við Rússland. Sögulega og menningarlega stendur Rússland nærri Vesturlöndum. Til að nokkur von sé um að halda ófriðnum í miðausturlöndum í skefjum verða Vesturlönd (les Nató-ríkin) að vinna með Rússum og Pútín.

 

 


mbl.is Biður fólk að gefa Trump tækifæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítir karlar og hrun Vesturlanda

Reiðir hvítir karlar er stærsti kjósendahópur Trump. Sami hópurinn var á bakvið úrsögn Breta úr ESB. Hvorugt átti að gerast, samanber grein í vinstriútgáfunni New Statesman snemmsumars.

En hvorttveggja Trump og Brexit dundu yfir heimsbyggðina sama árið. Chris Patten, gamalreyndur breskur stjórnmálamaður, segir að kjör Trump viti á endalok Vesturlanda.

Gangi heimsendaspádómar eftir, og Vesturlönd hrynja, fer vel á því að hvítir karlar sjái um niðurrifið. Það voru jú þeir sem bjuggu til Vesturlönd.


mbl.is Trump leggur drög að fyrstu dögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur og Jóhanna tala um allt nema Samfylkingu

Össur Skarphéðinsson fyrrverandi formaður Samfylkingar skrifar eitur um stjórnarmyndun undir forystu Bjarna Ben.

Annar fyrrverandi formaður Samfylkingar, Jóhanna Sigurðardóttir, var trú eðli sínu og fór í manninn en ekki boltann þegar hún ræddi sama mál.

Hvorugur fyrrum formanna Samfylkingar segir stakt orð um málefnið sem þeim er skyldast, ófarir flokksins í kosningunum. Eða finnst Össuri og Jóhönnu fínt mál að hafa 5,7 prósent fylgi? 


mbl.is Viðræðum haldið áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar vita ekki hvað þeir vilja

Þingmaður Pírata sagði á ASÍ-þingi að flokkurinn væri ekki með neina stefnu í atvinnumálum. Píratar sátu hjá við afgreiðslu búvörusamninga og uppskáru reiði flokksmanna. Gunnar Hrafn Jónsson þingmaður segir að Píratar

hefðu lagt spil­in á borðið fyr­ir kosn­ing­arn­ar og lýst því yfir að ekki hann væri ekki til­bú­inn að gefa eft­ir varðandi ákveðin mál. En Pírat­ar væru eft­ir sem áður reiðubún­ir að leika hvaða hlut­verk sem þyrfti til þess að tryggja stöðug­leika annaðhvort í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu.

Í afstöðu Gunnars Hrafns kemur fram að Píratar vilja hvorttveggja í senn vera prinsippflokkur sem ekki gefur afslátt en jafnframt flokkur málamiðlana. Þetta tvennt fer ekki saman.

Píratar hafa ekki gert upp við sig hvort þeir séu byltingarflokkur undir formerkjunum ,,heimsyfirráð eða dauði" eða hvort þeir séu tilbúnir að axla ábyrgð og miðla málum.

En til að taka þátt í málamiðlunum þarf vitanlega að hafa stefnu um meginsvið samfélagsins, s.s. í atvinnumálum og landbúnaði. Ágætis byrjun hjá Pírötum væri að koma sér upp pólitískri stefnu.


mbl.is Ekki óskað eftir Pírötum í forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB er fangi eigin stórveldisdrauma

Bandaríkin standa fyrir 70 prósent af kostnaði við hernaðarbandalagið Nató. Evrópusambandið stækkaði inn í Austur-Evrópu undir hlífiskildi Nató og innbyrti Eystrasaltsríkin, Pólland, Rúmenínu, Ungverjaland, Búlgaríu og Tékkóslóvakíu, sem nú er tvö ríki. Öll þessi ríki voru á viðurkenndu áhrifasvæði Sovétríkjanna, sem liðuðust í sundur fyrir aldarfjórðungi.

Þegar Evrópusambandið, í samvinnu við Bandaríkin og með Nató sem verkfæri, ætlaði að innlima Úkraínu sögu Rússar hingað og ekki lengra. Vestræn yfirtaka á Úkraínu ógnaði öryggishagsmunum Rússlands. Í dag geisar borgarastríð í Úkraínu.

Án Nató er stöðutaka Evrópusambandsins í Austur-Evrópu vonlaus. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar ekki að fjármagna valdadrauma ESB í austri, heldur leita samkomulags við Pútín Rússlandsforseta.

Evrópusambandið boðar stofnun Evrópuhers til að bæta upp minni framlög Bandaríkjanna til Nató. Eitt öflugasta herveldi ESB, Bretland, er á leiðinni út. Það þýðir að Frakkar og Þjóðverjar verða að bera uppi nýja Evrópuherinn, sem verður fyrst og fremst ógn við öryggishagsmuni Rússlands.

Evrópa stóð fyrir tveim heimsstyrjöldum á síðustu öld vegna innbyrðis landamæradeilna. Staðan sem nú er komin upp er að breyttu breytanda áþekk þeirri sem blasti við um aldamótin 1900. Bandaríkin eru áhugalaus um framtíð Evrópu og Bretar hikandi að taka á sig ábyrgð á landamæraskiptingu álfunnar. Helsti munurinn er að í fyrri heimsstyrjöld voru Frakkland og Rússland bandamenn. Í dag standa Frakkar og Þjóðverjar saman gegn Rússum.

Evrópusambandið var stofnað til að Frakkar og Þjóðverjar græfu stríðsöxina. En eftir að Evrópusambandið tók upp úþenslustefnu í Austur-Evrópu hitti það fyrir rússneska björninn. Aldrei kom til tals að bjóða Rússlandi aðild að Evrópusambandinu, til þess er Rússland of stórt og myndi riðla valdajafnvægi sambandsins.

Í stað þess að leita samkomulags við Rússa eftir fall Sovétríkjanna tók Evrópusambandið upp herskáa stefnu sem núna tapar öllum trúverðugleika - eftir kjör Trump, sem ekki hefur áhuga á valdaskaki í Austur-Evrópu.

Evrópusambandið er skelfingu lostið. Þó ól með sér draum um að verða stórveldi en býr ekki að þeim eina innviði sem er forsenda stórvelda: sínum eigin her.

Annað tveggja gerist á næstum árum. Ólíklega útgáfan er að Evrópuher verði skipulagður til að mæta Rússum í austri. Líklegra er að Evrópusambandið verði knúið til að láta af stöðutöku sinni í Austur-Evrópu og semji við Rússa úr veikri stöðu.

Evrópusambandið er þrátt fyrir allt aðeins stórveldisdraumur embættismanna í Brussel. En engin söguleg dæmi eru um að embættismenn skapi stórveldi - þótt þeir séu nauðsynlegir til að halda þeim gangandi. Til að Evrópusambandið verði stórveldi þarf sameiginlega hugsjón þeirra þjóða sem mynda sambandið. Slík hugsjón er ekki til.

 


mbl.is Trump snúi ekki baki við Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband