Föstudagur, 31. janúar 2025
Tilveruréttur ósanninda
María Rut Kristinsdóttir þingmaður Viðreisnar skrifar skoðanapistil á DV/Eyjuna og segir:
Tjáningarfrelsið er okkur öllum mikilvægt. Ekki síst jaðarsettum hópum. En tilveruréttur fólks er ekki skoðun sem við eigum að rökræða.
Hópar hafa ekki tjáningarfrelsi, eins og María Rut vill vera láta, heldur einstaklingurinn. Skoðanir sem slíkar hafa ekki sjálfstæðan rétt á tilvist; mannhelgi tryggir aftur tilverurétt hvers og eins.
Greinina skrifar þingmaðurinn til að andmæla forsetatilskipun Trump að kynin séu aðeins tvö og það skuli koma fram í bandarískum vegabréfum. María Rut virðist halda að kynin séu fleiri en tvö - en tilgreinir ekki hve mörg þau eru að hennar viti. Öðrum þræði virðist tilgangur þingmannsins að hræða þá sem hafa þekkingu á einföldum lífsins sannindum að tjá hug sinn af ótta við ásakanir um mannvonsku.
Kyn er grunneinkenni á einstaklingi og fylgir honum frá vöggu til grafar. Trans, undir formerkjum hinsegin, heldur fram að kyn sé huglæg afstaða, skoðun, en ekki líffræðileg staðreynd. Sama hugmyndafræði heldur fram þeirri skoðun að sumir fæðist í röngum líkama. Báðar skoðanir eru rangar. Kyn er hlutlæg líffræðileg staðreynd og það er ómögulegt að fæðast í röngu kyni. Meðvitundin kemur í heiminn með líkamanum, er óaðskiljanlegur hluti hans.
Sumir fá löngun til að skipta um kyn, karl vill vera kona og öfugt, kona óskar sér að verða karl. Langanir fólks eru margar og misjafnar. Almennt gildir í samfélagi okkar að hver og einn má vera hvað sem er í huga sér og tjá þá sannfæringu, t.d. í klæðaburði, orðfæri eða framkomu, svo lengi sem sú tjáning gengur ekki á rétt annarra. Þeir sem segjast hinsegin eiga sama rétt, hvorki meiri né minni, og hinir sem ekki merkja sig sem hinsegin.
Hvað er þá vandamálið?
Jú, talsmenn hinsegin, María Rut þeirra á meðal, krefjast að samfélagið geri ósannindi fárra að viðurkenndri staðreynd. Sérviskan, að kynin séu fleiri en tvö og að hægt sé að fæðast í röngum líkama, er ígildi trúarkenningar. Fólk má hafa sína sérvisku, og stofna um hana samtök. Skörin færist aftur verulega upp á bekkinn með kröfunni að sérviska fárra skuli meðtekin af almenningi sem heilagur sannleikur.
Skoðanir eiga engin mannréttindi. Stundum eru skoðanir smekksatriði, í öðrum tilfellum eru þær réttar eða rangar, skynsamlegar eða óskynsamlegar og svo framvegis. Tjáningarfrelsið er á hinn bóginn mannréttindi án fyrirvara. Sérvitringarnir hafa á seinni tíð gert atlögu að málfrelsinu og krafist verndar yfirvalda fyrir gagnrýni. Skoðanir sem þurfa atbeina lögreglu og ákæruvalds eru ekki upp á marga fiska. Takmörkun á tjáningu í þágu skoðana, sem geta ekki staðið á eigin fótum, er hættuleg vegferð sem gæti endað illa, einkum og sérstaklega fyrir þá sem hafa í frammi minnihlutasjónarmið. Einstaklingurinn er, þegar allt kemur til alls, minnsti minnihlutinn.
María Rut ætti sem þingmaður að finna málamiðlun er sættir sérviskuna og almannahagsmuni að taka sannindi fram yfir ósannindi. Í siðuðu samfélagi eiga sérvitringarnir sinn tilverurétt eins og allir aðrir. Tjáningarfrelsið er aftur ekki umsemjanlegt. Það er í þágu almannahags enda verða sannindi oft ekki aðgreind frá ósannindum nema í frjálsri umræðu. Án frelsis til að tjá hug sinn hverfur allur annar réttur - og fyrst tapast réttur sérvitringa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 30. janúar 2025
Skæruliðarnir eru blaðamenn
Nútíminn fjallar um kenningu eins Pírata að Morgunblaðið reki skæruliðadeild. Rökin virðast þau að þar sem Morgunblaðið og Brynjar Níelsson fyrrum þingmaður séu stundum sammála megi spyrja
Hér er að nokkru að hyggja. Fyrst kenningin um samspil Morgunblaðsins og Brynjars. Á samfélagsmiðlinum Facebook er Brynjar virkur og mikið lesinn. Morgunblaðið á til að vitna í hann og það gera einnig aðrir fjölmiðlar. Varla er hér hægt að tala um ,,áhrifastarfsemi" hvað þá skæruliðadeild. Alsiða er að fjölmiðlar taki upp færslur á samfélagsmiðlum og geri úr frétt.
Til að skilja samhengið á milli ,,áhrifastarfsemi" í opinberri umræðu og skæruliða verðum við að rifja upp hvernig, hvenær og hvers vegna hugtakið skæruliðadeild varð til. Við höfum nákvæma tímasetningu. Skæruliðadeild Samherja fæddist morguninn 21. maí 2021. Tveir fjölmiðlar, sem almenningur taldi að væru sjálfstæðir og óháðir, Stundin og Kjarninn, birtu efnislega sömu fréttina að Samherji ræki skæruliðaliðadeild til að hafa áhrif á fjölmiðlaumræðu.
Meint skæruliðadeild var tveggja manna. Páll skipstjóri Steingrímsson og Arna Bryndís McClure lögfræðingur. Bæði störfuðu hjá Samherja og liðu önn fyrir hve fyrirsvarsmenn fyrirtækisins stóðu sig illa að verja útgerðina fyrir árásum blaðamanna. Þau litu á sig sem skæruliða gegn yfirstjórn fyrirtækisins og vildu betri varnir gegn ómaklegum fréttaflutningi.
Einu afurðir meintrar skæruliðadeildar voru greinar í fjölmiðla sem Páll skipstjóri var skrifaður fyrir. Ekki eitt einasta dæmi er um að skipstjórinn og lögfræðingurinn hafi átt þann aðgang að ritstjórnum fjölmiðla að þau gætu skipulagt fréttaflutning þeirra. Það að einn maður birti eftir sig greinar er ekki og getur ekki verið ,,áhrifastarfsemi". Þá væru allar greinar og allar frétt ,,áhrifastarfsemi."
Með ,,áhrifastarfsemi" hlýtur að vera átt við skipulagða starfsemi á bakvið tjöldin þar sem reynt er að draga upp bjagaða eða falsaða mynd af veruleikanum.
Og þá berast böndin að blaðamönnum.
Við vitum það núna að samræmdu fréttirnar í Stundinni og Kjarnanum voru búnar til á RÚV. Páli skipstjóra var byrlað, síma hans stolið og tækið afritað á RÚV. Á RÚV voru tvær efnislega samhljóða fréttir unnar, með vísan í gögn úr síma skipstjórans, og sendar til birtingar á Stundinni og Kjarnann. Þetta er réttnefnd ,,áhrifastarfsemi" og skæruliðakennd að auki.
Almenningur stóð í þeirri trú að tveir sjálfstæðir og ótengdir fjölmiðlar hefðu hvor í sínu lagi komist yfir heimildir og skrifað keimlíkar fréttir. En, nei, fréttaflutningi Stundarinnar og Kjarnans var ritstýrt frá Efstaleiti af þeim Þóru Arnórsdóttur og Helga Seljan. Skipulagðar blekkingar voru hafðar í frammi til að villa um fyrir almenningi. Að kvöldi 21. maí 2021, daginn sem Stundin og Kjarninn birtu samræmda frétt, deildi Þóra fréttinni á Stundinni á Facebook með eftirfarandi athugasemd:
Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir.
Þóra lét eins og fréttin í Stundinni væri henni nýmæli. En hún afritaði síma Páls skipstjóra sem var tilefni fréttarinnar og stóð að ritun fréttarinnar. Samræmdar aðgerð að búa til falska frásögn, ,,áhrifastarfsemi".
Skæruliðablaðamennska RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, var gagngert stunduð til að skipuleggja óhróður um Samherja. Byrlunar- og símamálið vorið 2021 var óbeint framhald Namibíumálsins, ásakanir um mútugjafir, sem þessir miðlar hófu í nóvember 2019.
Skæruliðablaðamennska er áfram stunduð, þótt búið sé að afhjúpa RSK-miðla. Vísir hefur verið í sérflokki að verja blaðamennina sex sem voru sakborningar í byrlunar- og símamálinu. Eitt dæmi er innistæðulaus kæra Þórðar Snæs fyrrum ritstjóra Kjarnans, Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns á Stundinni og Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra. Þeir kærðu Pál skipstjóra fyrir hótanir í sinn garð. Kæran var heilaspuni eins og tilfallandi fjallaði um þegar lögreglan fleygði kærunni í ruslið.
Aðalsteinn og Þórður Snær kærðu til ríkissaksóknara að lögreglan vildi ekki rannsaka ímyndaðar hótanir. Stefán útvarpsstjóri sá að sér, áttaði sig á að blaðamenn hefðu haft sig að fífli með upphaflegu kærunni, og kærði ekki niðurstöðu lögreglu.
Ríkissaksóknari staðfesti að kæran var tómt bull. Þegar Kolbeinn Tumi Daðason fréttastjóri Vísis skrifaði frétt um niðurstöðu ríkissaksóknara lét hann þess ekki getið að Stefán útvarpsstjóri var ekki ábekingur kærunnar eftir að rannsókn lögreglu sýndi að kæran var verk blaðamanna sem kunna ekki skil á ímyndun og veruleika. Tilfallandi bloggaði um frétt Kolbeins Tuma og sagði:
Líklegasta skýringin er að Kolbeinn Tumi á Vísi sé ekki að skrifa frétt heldur málsvörn sakborninga. Fókusinn þarf að vera á aumingja blaðamennina sem unnu það eitt sér til sakar að skrifa fréttir. Ofsóttu smælingjarnir mega ekki sýnast eiga skjól hjá voldugasta fjölmiðli landsins, RÚV. Fólk gæti grunað að um samsæri væri að ræða
Hvers vegna skrifar Kolbeinn Tumi ekki fréttir um byrlunar- og símamálið heldur málsvörn blaðamanna? Jú, Kolbeinn Tumi og Aðalsteinn Kjartansson eru góðir vinir. Á Facebook-síðu Páls skipstjóra eru myndir af þeim félögum Kolbeini Tuma og Aðalsteini að skemmta sér og hjartnæmar afmæliskveðjur frá Kolla til Steina. Líklegast hefur einhver vinur tekið myndina af Facebook-síðu fréttastjóra Vísis og sent skipstjóranum sem er kunnur gagnasafnari.
Sem fréttastjóri á Vísi hefur Kolbeinn Tumi tök á að stýra fréttaflutningi miðilsins. Aðalsteini, besta vini aðal Kolbeins Tuma, var ásamt Þóru Arnórsdóttur boðið í pallborð á Vísi í lok október á síðasta ári. Til stóð að viku síðar yrði Pál skipstjóra boðið að segja sína hlið málsins. En, nei, einhver kippti í spotta og skipstjóranum var úthýst. Blaðamenn grunaðir um glæpi þykja merkilegri pappírar en dugandi sjómenn sem verða brotaþolar téðra blaðamanna.
Svona verður til skæruliðablaðamennska. Vinir, hver á sínum fjölmiðli, segja sömu fréttafrásögnina til að hjálpa hver öðrum. Í leiðinni ljúga þeir að almenningi, sem látinn er borga fyrir herlegheitin í formi ríkisstyrkja til fjölmiðla. Skæruliðablaðamennirnir verða jú að fá sín laun fyrir þá iðju að endurtaka ósannindi nógu oft til að úr verði sannfrétt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 29. janúar 2025
Grænlandsdeilan: Ísland lús milli tveggja nagla
Landakrafa Bandaríkjanna á hendur Dönum, að Grænland fari undir bandarískt forræði, veldur köldu stríði milli Bandaríkjanna annars vegr og hins vegar Dana og Evrópusambandsins. Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana sækir liðstyrk í höfuðborgir Evrópu. Macron Frakklandsforseti býðst til að senda franska hermenn til Grænlands.
Grænlandsdeilan er grafalvarleg fyrir Ísland. Allur flutningur á búnaði, og mögulega herliði, ESB til Grænlands fer yfir hafið í kringum Ísland. Ekki er lengur fræðilegur möguleiki, heldur raunverulegur, að Ísland verði bitbein stórveldahagsmuna, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu.
Til að bæta gráu ofan á svart sitja Íslendingar uppi með ríkisstjórn sem vinnur leynt og ljóst að því að gera Ísland að ESB-ríki. Fátt er hættulegra smáþjóð en að verða leiksoppur í hráskinnaleik stórvelda. Það veit á grimm innanlandsátök þar sem útlend öfl koma sér upp innlendum skjólstæðinum og beita fyrir vagn sinn.
Eina von smáþjóðar er samstaða um skynsamlega stefnu er tekur mið af ríkjandi valdahlutföllum stórvelda. Á Norður-Atlantshafi eru Bandaríkin risi en ESB-Evrópa dvergur með nýlendukryppu. Við eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að gefa Brussel færi á að seilast hér til áhrifa. En einmitt það höfum við þegar gert.
Ríkisstjórn Kristrúnar lítur svo á að Ísland sé með gilda umsókn í Brussel um aðild að Evrópusambandinu. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Eins og betlikerlingar fóru bæði Kristrún forsætis og Þorgerður Katrín utanríkis í pílagrímsför til Brussel og létu það verða sitt fyrsta verk í embætti. ESB-daðrið gefur stórveldum í vígahug tilefni til að koma ár sinni betur fyrir borð. Stórveldin tvö, Bandaríkin og ESB-Evrópa, eru án nokkurs vafa með í bígerð áætlanir um Ísland.
Ísland fór undir bandarískt áhrifasvæði snemma í seinna stríði. Bretar, sem hertóku Ísland vorið 1940 til að hindra að landið færi undir Þjóðverja, líkt og Danmörk og Noregur, gáfu frá sér landvinninginn ári síðar er bandarískt herlið tók við landvörn hér á landi. Með fáheyrðu dómgreindarleysi gefa ráðherrar til kynna endurskoðun á íslenskum varnar- og öryggismálum.
Kvenkynið í stjórnarráðinu skilur ekki alþjóðapólitík. Smáríki, sem reyna að gera sig gildandi í stórveldapólitík, komast alltaf að því fullkeyptu. Garðabæjarstelpan og Hafnarfjarðarundrið vita ekki hvað við er að eiga. Haldi þær áfram á markaðri vegferð leiða þær óhamingju og eymd yfir þjóðina. Þær rjúfa samstöðu sem verið hefur í áratugi um öryggi íslenska ríkisins.
Til að afstýra stórslysi verður ríkisstjórnin að gera tvennt. Í fyrsta lagi að lýsa yfir gömul og dragúldin umsókn Íslands um ESB-aðild, sem er frá 2009, sé dauð og ómerk. Í öðru lagi afturkalla ESB-atkvæðagreiðsluna og lýsa yfir að viðsjár á norðurslóðum gefi ekki tilefni til að endurskoða varnar- og öryggisstefnu Íslands sem er eldri en íslenska lýðveldið.
Ef kvenkynið á æðstu stöðum kveikir ekki strax á perunni og grípur til ráðstafana sem lágmarka líkur að Ísland verði bitbein Bandaríkjanna og ESB-Evrópu er aðeins eitt til ráða. Að koma sitjandi ríkisstjórn frá völdum með öllum tiltækum ráðum.
![]() |
Buðust til að senda hermenn til Grænlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 28. janúar 2025
Trump, Pútin og Ísland
Trump forseti ásælist Grænland vegna öryggishagsmuna Bandaríkjanna. Stysta leið rússneskra eldflauga á skotmörk í Bandaríkjunum liggur yfir Grænland. Þótt ekki sé það ætlunin af hálfu Trump þá spilar krafan um bandarískt Grænland beint upp í hendurnar á Pútín Rússlandsforseta í Úkraínustríðinu.
Pútín krefst rússneskrar Úkraínu til að tryggja vesturlandamæri Rússlands. Meginkrafa Rússa er að Úkraína verði hlutlaust land, gangi ekki í Nató. Úkraínustríðið, sem hófst fyrir þremur árum, á rætur að rekja til Nató-fundar í Búkarest 2008 þegar Úkraínu var boðin aðild að hernaðarbandalaginu. Vestrið veðjaði á Úkraínu til að gera Rússland að hjálendu. Veðmálið tapaðist vestrinu.
Haldi Trump áfram að þjösnast á Dönum um bandarískt forræði yfir Grænlandi, sem hann gerir líklega, er það áþreifanleg sönnun þess að raunstjórnmál leysa af hólmi hugsjónapólitík. Að breyttu breytanda stunda forsetar Bandaríkjanna og Rússlands sömu pólitíkina.
Raunstjórnmál taka styrkleikahlutföll ríkja sem útgangspunkt. Danmörk er lítið og veikt, Bandaríkin stór og sterk; danskir hagsmunir víkja fyrir bandarískum. Rússland er sterkara en Úkraína og af sjálfu leiðir að úkraínskir hagsmunir láta undan rússneskum.
Raunstjórnmál og lögmál frumskógarins eru ekki sami hluturinn. Kjarninn í raunstjórnmálum er ekki drottnunargirni heldur krafa um tillitssemi annars vegar og hins vegar sameiginlegan skilning á valdahlutföllum. Hugsjónapólitík leyfði smáríkjum að vera með derring gagnvart stórríkjum - þannig sigraði ísland Bretland í þorskastríðunum. (Plús sá bónus að sú hætta vofði ávallt yfir að Ísland segði sig úr Nató og opnaði á sovéska hervernd.)
Kalda stríðið fóstraði vestræna hugsjónapólitík. Síðasta útgáfa hennar er fáránleikafræði að maðurinn stjórni veðurfari jarðar. Í annan stað að karl geti orðið kona með hugsuninni einni saman - eða þriðja, fimmta og jafnvel seytjánda kynið. Raunpólitík yfirtekur nú sviðið og jaðarsetur þá sem kunna ekki skil á ímynd og veruleika.
Lítið dæmi um raunpólitík í framkvæmd síðustu daga eru deilur Kólumbíu og Bandaríkjanna. Þrjár herflugvélar Bandaríkjanna fullar af ólöglegum innflytjendum stefndu á Kólumbíu. Yfirvöld í Suður-Ameríkuríkinu höfðu í frammi hugsjónamúður, að ekki væru allir ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum glæpamenn, og synjuðu lendingarleyfis bandarísku hervélanna. Hvað gerir Trump? Jú, gefur út forsetatilskipun um refsitolla og ferðbann á kólumbíska stjórnarerindreka til Bandaríkjanna. Viðbrögð yfirvalda í Kólumbíu? Þau gefast upp á hugsjónamúðrinu og játa sig sigruð. Geta má nærri hvort önnur Suður-Ameríkuríki hafi í frammi andóf gegn Trump. Sámur frændi er mættur til leiks og talar ekki í hugsjónafrösum.
Danmörk er ekki Suður-Ameríkuríki. Meðferðin sem Danir hljóta af hálfu Trump verður ögn kurteisari. Þó aðeins ögn. Þrýst verður á dönsk stjórnvöld að gefa eftir, sem þau munu á endanum gera. Grænlendingum verður boðin dúsa, aukin sjálfsstjórn, jafnvel fullt sjálfstæði, og bandarískt fé. Varnarsamningur verður gerður á milli Bandaríkjanna og Grænlands með eða án danskrar aðildar. Bandaríkin fá í raun forræði yfir Grænlandi þótt það verði kallað samstarf.
Kraftbirting bandarískra raunstjórnmála í Grænlandi skiptir Ísland verulegu máli. Bandarískt-Grænland er allt annar nágranni en Danskt-Grænland. Bæði eru þarna á ferðinni ógnanir og tækifæri fyrir íslenska hagsmuni, sem óþarfi er að fjölyrða um á meðan yfirtaka Bandaríkjanna á stærstu eyju í heimi er enn í vinnslu.
Samstaða Íslands á að vera með Grænlendingum, ekki Dönum. Við eigum að stórefla samskiptin við Grænland, á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar. Út á við segjum við að sjálfstæði og sjálfsforræði þjóða sé greypt í stein. Vitum þó samt að ætli stórveldi sér stöðutöku í minni máttar smáríki vegna öryggishagsmuna er aðeins hægt að óska eftir að siðaðra manna háttur verði hafður á.
Kristrún og Þorgerður Katrín eru fávísar á alþjóðastjórnmál. ESB-daðrið er nægur vitnisburður um djúpheimskuna. Inga Sæland kann ekki einu sinni að tala við skólastjóra án þess að úr verði hneyksli. Það er okkar veikleiki að sitja uppi með illa áttaðar konur við stjórnvölinn þegar heimurinn tekur hamskiptum. Kristrún ræður staðfestan siðleysingja í trúnaðarstöðu; Þorgerður Katrín rekur utanríkisstefnu sem miðast við að hvítir miðaldra amerískir perrakarlar fái aðgang að kvennasalernum; eldhúsflokkur Ingu Sæland er gjaldþrota. Til að kóróna hörmungarstöðu Íslands er nær allt embættisverkið gírað inn á að fá vel launað starf hjá ESB í Brussel. Embættismenn eru með hugann í austri en hagsmunir Íslands eru á norðurslóðum, nokkru fjarri veitingahúsum höfuðborgar Belgíu.
Í stuttu máli: menn á borð við Trump og Pútín leggja línurnar í heimspólitíkinni. Raunstjórnmál eru maskúlín, hugsjónapólitík er femínísk fortíð.
![]() |
Upplýsa af hverju Kristrún sótti ekki fundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 27. janúar 2025
Ísland nær Grænlandi en Úkraínu
Neyðarástand ríkir í Danmörku vegna kröfu Trump Bandaríkjaforseta um að leysa til sín Grænland. Danski forsætisráðherrann kallar til sín þá forsætisráðherra Norðurlanda sem skipta máli, Kristrún ekki meðtalin, til að ræða landakröfu Bandaríkjanna.
Norski forsætisráðherrann segir frá umræðuefninu
Við ræddum svæðisöryggi, þ.á.m. sæstrengsrof í Eystrasalti, styrkingu á norrænni þjóðaröryggissamvinnu og stuðning okkar við Úkraínu
Svæðisöryggi Norðurlandanna nær ekki til Norður-Atlantshafsins. Þótt Norðmenn sitji Svalbarða norður í Dumbshafi eru þeir ekkert uppteknir af landareign sinni þar. Stóru Norðurlandaríkin eru kirfilega bundin öryggishagsmunum meginlandsríkja Evrópu sem snúa að austurlandamærum Evrópusambandsins.
Tapist Úkraínustríðið vestrinu verður Evrópusambandið í verulegum vanda næstu áratugina að finna leið til að eiga sambýli með sterku Rússlandi.
Öryggishagsmunir Íslands eru hvorki í Úkraínu og né á meginlandi Evrópu, heldur á Norður-Atlantshafi.
Söguleg tilviljun réð að Danir eignuðust Grænland. Þeir fengu eyjuna, ásamt Íslandi og Færeyjum, þegar Noregur lagði upp laupana sem sjálfstætt konungsríki seint á 14. öld. Fyrsta byggð norrænna manna á Grænlandi var íslensk um 400 árum fyrr. Siðferðilegt tilkall Dana til að ,,eiga" Grænland er veikt, svo ekki sé meira sagt.
Gangi það fram, sem virðist ásetningur Trump, að Bandaríkin leysi af hólmi danskt forræði yfir Grænlandi, blasir við algerlega ný staða á Norður-Atlantshafi. Það kallar á endurmat Íslendinga á öryggishagsmunum. Náin tengsl við ESB-Evrópu eru okkur hættuleg, góð tengsl við Bandaríkin nauðsynleg. Við sitjum aftur uppi með utanríkisráðherra sem heldur að alþjóðastjórnmál séu dúkkulísuleikur.
![]() |
Danir í kröppum dansi: Trump ekkert að grínast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. janúar 2025
Slúður réttlætir ekki byrlun, stuld og afritun
Föstudaginn 21. maí 2021 birtu Stundin og Kjarninn efnislega sömu fréttina um svokallaða skæruliðadeild Samherja. Rétt fyrir hádegi þennan sama dag tók Vísir saman fréttirnar í miðlunum tveim undir fyrirsögninni
Skæruliðadeild Samherja sögð hafa lagt á ráðin um pistlaskrif gegn RÚV og fleirum
Fyrirsögn Vísis og samantekin sjálf sýnir að meint skæruliðadeild Samherja var í raun að vinnufélagarnir Páll skipstjóri Steingrímsson og Arna Bryndís McClure lögfræðingur slúðruðu sín á milli, eða ,,lögðu á ráðin", hvernig mætti verjast árásum RÚV á atvinnuveitanda þeirra, Samherja. Aðkeypt vinna almannatengils kom einnig við sögu.
Slúðrið, eða ráðabruggið, fól ekki í sér neitt ólögmætt. Hvergi kom til tals á milli vinnufélaganna að fremja afbrot af einu eða öðru tagi. Fyrst og fremst var rætt um að rétta hlut Samherja í óvæginni fjölmiðlaumfjöllun.
Almenningur vissi ekki vorið 2021 hvernig Stundin og Kjarninn fengu heimildina sem var tilefni samræmds fréttaflutnings tveggja fjölmiðla. Síðar, eftir að lögreglurannsókn hófst, kom á daginn að blaðamenn á RSK-miðlum, RÚV, Stundin og Kjarninn, unnu saman á bakvið tjöldin og voru í sambandi við andlega veika þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra.
Konan byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og lét í hendur Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Þóra hafði fyrir byrlun keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Afritunarsíminn varð að vera af réttri gerð, annars var ekki hægt að afrita. Hvernig skyldi Þóra vita hvaða gerð af símtæki hún átti að kaupa?
Á Efstaleiti var sími skipstjórans afritaður á símann sem Þóra hafði keypt. Síma skipstjórans var skilað á sjúkrabeð hans á Landsspítala þar sem hann var í gjörgæslu. Skipstjórinn skyldi vera grunlaus um að síma hans hafði verið stolið til afritunar á RÚV. Tvær útgáfur sömu fréttar voru skrifaðar á RÚV og sendar til Stundarinnar og Kjarnans til samræmdrar birtingar.
Það sem fór á milli Páls skipstjóra og Örnu Bryndísar lögfræðings var spjall vinnufélaga um að koma á framfæri mótmælum við einhliða fréttaflutningi. Eins og oft á tveggja manna tali, þar sem trúnaður ríkir, var iðulega látið vaða á súðum.
Vörn RSK-blaðamanna er að samskipti Páls og Örnu Bryndísar hafi átt erindi til almennings. Það er álitamál hvort tveggja manna slúður og ráðabrugg í hálfkæringi eigi heima í umræðunni. Hitt er öllum ljóst að aðild blaðamanna að hreinum og klárum lögbrotum hlýtur að eiga erindi til almennings. Fordæmið sem RSK-blaðamenn setja er tvíþætt. Í fyrsta lagi að enginn munur sé gerður á einkasamtölum og opinberri umræðu. Í öðru lagi að sjálfsagt sé að fólki sé byrlað, eigum þess stolið og friðhelgi brotin til að koma einkamálum á framfæri í fjölmiðlum.
Allir, sem kynna sér byrlunar- og símamálið, sjá í hendi sér að RSK-blaðamenn eru þeir sem eiga að svara til saka fyrir að hafa farið offari, svo vægt sé til orða tekið. En þeir þegja allir sem einn, upplýsa ekkert um málsatvik. Sama gildir um yfirmann RÚV, Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Aðrir fjölmiðlar láta gott heita að mesta hneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu liggi í láginni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 25. janúar 2025
RÚV þegir um hlut Þóru í skæruliðafréttinni
Fréttin um skæruliðadeild Samherja frumbirtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum, að morgni dags 21. maí 2021. Fréttin, efnislega samhljóða í báðum miðlum, vísaði í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, einkum samtöl við samstarfsmenn. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV fékk síma skipstjórans til afritunar 4. maí 2021.
Kveikur er fréttaskýringaþáttur. Hvers vegna notaði Þóra ekki efni úr síma skipstjórans í fréttaskýringu um skæruliðadeild Samherja? Hvers vegna var fréttin send á Stundina og Kjarnann til birtingar? Fjölmiðlar vinna aldrei þannig að einn fjölmiðill aflar heimilda, vinnur fréttina og sendir hana á aðra fjölmiðla til birtingar. Allir blaðamenn vita að svona vinnubrögð eru aldrei stunduð á fjölmiðlum.
Lifibrauð fjölmiðla er fréttir. Fjölmiðill sem situr einn að frétt en gefur hana frá sér til annarra fjölmiðla er augljóslega ekki að stunda fréttamennsku. Eitthvað annað en að upplýsa almenning býr að baki.
Af öllum fjölmiðlum á Íslandi ber RÚV mesta ábyrgð að upplýsa þjóðina, eiganda ríkisfjölmiðilsins, hvers vegna starfsmenn RÚV tóku við síma, sem fékkst með byrlun, afrituðu efni símans, unnu frétt og sendu tvær útgáfur hennar á Stundina og Kjarnann.
Í gærkvöld birti RÚV fréttaskýringu um staðfestingu ríkissaksóknara að lögreglurannsókn er hætt á hlut blaðamanna í byrlunar- og símamálinu. RÚV birtir mynd af Þóru ásamt öðrum sakborningum en fjallar ekkert um hlut hennar að málinu.
Þóra fékk stöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu í febrúar 2022, ásamt blaðamönnum á Stundinni og Kjarnanum. Í ársskýrslu RÚV er staða Þóru sem sakbornings útskýrð. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri eru skrifaðir fyrir eftirfarandi:
Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, [...]Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna.(feitletrun pv)
Réttlæting Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttarstjóra gengur út á að verjandi sé að fjölmiðill taki við illa fengnu efni sem eigi ,,erindi til almennings." Þóra Arnórsdóttir tók við gögnum, það viðurkenna Stefán og Heiðar Örn, en Þóra og RÚV birtu enga frétt.
Er fjölmiðill veitir gögnum viðtöku er tilgangurinn að birta frétt, eigi efnið ,,erindi til almennings." Þar sem efnið var ekki birt á RÚV hlýtur það að hafa verið mat Þóru að skæruliðafréttin ætti ekki erindi til almennings. Ályktunin liggur í augum uppi. Staðfest í orðum Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttastjóra annars vegar og hins vegar verkum Þóru - að birta ekki skæruliðafréttina.
Þóra hélt stöðu sinni sem ritstjóri Kveiks í heilt ár eftir að hún varð sakborningur í febrúar 2022. Svo gerist það ári síðar, 6. febrúar 2023, að RÚV birtir frétt um að Þóra sé hætt:
Þóra Arnórsdóttir lét í dag af starfi sem ritstjóri Kveiks. Þeirri stöðu hafði hún gegnt frá því þátturinn hóf göngu sína 2017 ef undan er skilið eitt ár þegar hún var í leyfi.
Þóra fékk fullan stuðning Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttastjóra eftir að hún varð sakborningur í febrúar 2022 en ári síðar hættir hún störfum fyrirvaralaust og án skýringa.
Hvað breyttist?
Jú, tilfallandi útskýrði það í bloggi stuttu eftir grunsamleg starfslok Þóru:
Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.
Þóra Arnórsdóttir á RÚV var ekki saklaus viðtakandi stolins síma, sem fékkst með byrlun. Hún vissi fyrirfram að sími Páls skipstjóra var væntanlegur. Skipulagið gekk út á að afrita með hraði illa fenginn síma og skila tilbaka á sjúkrabeð skipstjórans sem lá meðvitundarlaus á Landspítalanum í Fossvogi, steinsnar frá Efstaleiti, dagana 4.-6. maí 2021.
Þóra vissi að sími skipstjórans var væntanlegur og það var einnig búið að ákveða fyrirfram að RÚV myndi ekki birta frétt upp úr stolnu gögnunum. Skipulagið gerði ráð fyrir að afritun og fréttavinnsla færi fram á Efstaleiti en að Stundin og Kjarninn skyldu sjá um birtingu.
Stefán útvarpsstjóri og Hreiðar Örn fréttastjóri studdu Þóru með sérstakri yfirlýsingu í febrúar 2022 og áttu vitanlega að gefa aðra yfirlýsingu ári síðar um að Þóra hefði fyrirfram vitað af afbrotinu gegn Páli skipstjóra. Í ljósi fyrri yfirlýsingar var það fagleg og siðferðisleg skylda útvarpsstjóra og fréttastjóra að upplýsa um málsatvik. En báðir þögðu. Alveg eins og sakborningarnir sex í yfirheyrslum lögreglu.
Aðalsteinn Kjartansson, einn sakborninga, var undirmaður Þóru á Kveik, þangað til þremur dögum fyrir byrlun. Föstudaginn 30. apríl 2021 fór Aðalsteinn af Kveik yfir á Stundina, sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrði. Aðalsteinn er skráður höfundur skæruliðafréttarinnar sem birtist í Stundinni. Að kveldi 21. maí 2021, daginn sem Stundin og Kjarnin birtu skæruliðafréttina, deildi Þóra frétt Aðalsteins á Facebook og skrifaði eftirfarandi færslu:
Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir.
Fréttin sem hún fékk sem ritstjóri Kveiks var komin í loftið í öðrum fjölmiðli og Þóra lætur eins og hún sjái hana i fyrsta sinn. Færslan á Facebook er til að afvegaleiða og blekkja. Ekki undir nokkrum kringumstæðum mátti það fréttast að sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti og að aðgerðin öll var skipulögð.
Fréttamaðurinn sem vann fréttaskýringu RÚV í gær heitir Brynjólfur Þór Guðmundsson. Hann er sami fréttamaðurinn og skrifaði fréttina um fyrirvaralaus starfslok Þóru Arnórsdóttur 6. febrúar 2023.
Brynjólfur Þór fréttamaður veit meira en hann lætur uppi um óvænt starfslok Þóru og aðkomu hennar að byrlunar og símamálinu. En það er ekki fréttamennska sem Brynjólfur Þór stundar, ekki frekar en Þóra vorið 2021. Fagmennskan á Glæpaleiti snýr að öðru en fréttaflutningi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. janúar 2025
Byrlunar- og símamálið: blaðamenn láta veika konu eina um sök
Rannsókn lögreglunnar á byrlunar- og símamálinu var réttmæt, kemur fram í 12 síðna greinargerð ríkissaksóknara sem í gær staðfesti að rannsókn lögreglu á hlut blaðamanna skuli hætt. Málsaðild andlegrar veikrar konu, fyrrum eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar, skal áfram rannsökuð. Lögreglan hætti rannsókn í september s.l. með sérstakri yfirlýsingu um að ekki hefði tekist að sanna óyggjandi glæpi blaðamanna enda hafði gögnum ,,verið eytt."
Sex blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum höfðu stöðu sakborninga í byrlunar- og símamálinu sem hófst með byrlun Páls skipstjóra 3. maí 2021. Þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal síma hans og færði blaðamönnum til afritunar. Síminn var afritaður á RÚV, sem birti engar fréttir. Aftur birtust samræmdar fréttir, með vísun í gögn úr síma skipstjórans, í Stundinni og Kjarnanum samtímis morguninn 21. maí 2021. Fyrirsagnir og efni fréttanna voru efnislega samhljóða. Skálduð deild norðlenskrar útgerðar fæddist á Efstaleiti en kynnt til sögunnar í Stundinni og Kjarnanum: Skæruliðadeild Samherja.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að blaðamennirnir hafi verið ósamvinnuþýðir og neitað að tjá sig um málsatvik. Það sé þeirra réttur sem sakborninga. Á meðan blaðamenn hafa sín á milli þagnarbandalag telur ríkissaksóknari ekki ástæðu til að halda áfram rannsókninni. Ein röksemd ríkissaksóknara er eftirfarandi:
starfsmönnum fjölmiðlaveitu sé óheimilt að upplýsa um það hver sé heimildarmaður að efni hafi þeir óskað nafnleyndar. (undirstrikun pv)
Veika konan hefur ekki óskað nafnleyndar. Þvert á móti hefur hún, í samskiptum við blaðamenn, lagt til að hún stígi sjálf fram á sjónarsviðið og upplýsi málið. Í tölvupósti 20. október 2021 skrifar veika konan til eins sakborninganna, Þóru Arnórsdóttur:
Sæl Þóra, mér sýnist Helga ekki veita af aðstoð. Er ekki bara kominn til að ég afhjúpi mig. Ég hef hvort eð er ekki neitt að missa. Kveðja XXX (nafn fellt út af pv)
Í tölvupóstinum vísar konan til Helga Seljan fréttamanns á RÚV sem hafði fimm dögum áður mætt í viðtalsþátt Gísla Marteins og sagt að hann þyrfti geðhjálp vegna stríðsins við Samherja. Tilfallandi fjallaði um samhengi málsins þegar heimildarmaðurinn bauðst til að ganga fram fyrir skjöldu og gera grein fyrir málavöxtu. Má nærri geta hver viðbrögð blaðamanna hafa verið; hvorki lögreglu né almenningi kemur við hvernig blaðamenn starfa á bakvið tjöldin.
Blaðamennirnir hafa reglulega verið í sambandi við veiku konuna og beðið hana lengstra laga að upplýsa ekki málið. Lengi vel hlýddi hún tilmælum blaðamanna. Síðast liðið sumar, aftur, gaf hún skýrslu til lögreglu þar sem hún staðfesti nöfn tveggja af þrem starfsmönnum RÚV sem tóku við síma skipstjórans 4. maí 2021. Miðað við það sem að ofan segir er ekki ólíklegt að þriðji maðurinn sé Helgi Seljan. Sú grunsemd kemur fram í niðurstöðu ríkissaksóknara.
Nú þegar liggur fyrir að rannsókn á hlutdeild blaðamanna skal hætt, a.m.k. í bili, en ekki á hlut veiku konunnar, er opin spurning hvort konan endurtaki tilboðið og ,,afhjúpi sig", eins og hún orðaði það í tölvupósti til Þóru Arnórsdóttur fyrir rúmum þrem árum. Ríkissaksóknari felldi ekki niður rannsóknina heldur staðfesti að henni væri hætt hvað blaðamenn varðar. Ef ný málsgögn koma fram, eða nýr vitnisburður, er hægt að hefja rannsókn á ný.
Þagnarbandalag blaðamanna gerir það að verkum að andlega veik kona situr ein uppi með sökina í byrlunar- og símamálinu. Þeir sex blaðamenn sem voru sakborningar njóta meðvirks stuðnings félaga sinna á öðrum fjölmiðlum sem ekkert hafa gert til að upplýsa málið. Ekki er það stórmannlegt af hálfu sakborninganna sex að láta einstakling, sem á um sárt að binda, bera alla sök í máli sem stofnað var til að afla frétta fyrir blaðamenn - sem þáðu verðlaun fyrir. Fjölmiðlar almennt ríða ekki feitum hesti frá málinu. Þeir fá ríkisfé til að upplýsa almenning um brýn samfélagsmálefni. En það þykir ekki merkileg frétt að þrír fjölmiðlar og sex blaðamenn eiga aðild að byrlun, gagnastuldi og brot á friðhelgi. Raðfréttir hafa verið sagðar af minna tilefni.
Einu sinni var í siðareglum Blaðamannafélags Íslands ákvæði sem veitti vernd þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Þáverandi varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, sá til þess að ákvæðið var fellt úr siðareglum. Aðalsteinn var sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Tilfallandi bloggaði um nýmælið að blaðamaður grunaður um glæp skrifi reglur um siðlega háttsemi: Siðareglur miskunnarlausra blaðamanna.
Á meðan byrlunar- og símamálið er ekki að fullu upplýst mun íslensk blaðamennska ekki bera sitt barr. Þagnarbandalag sakborninganna sex og meðvirkni fjölmiðla er níðstöng í minnum höfð á meðan fréttir verða sagðar hér á landi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. janúar 2025
Trump, málfræði, félagskyn og trans
Í ensku heitir líffræðilegt kyn sex, en málfræðilegt kyn gender. Flestir vita að líffræði er eitt en málfræði annað. Transfólk hefur aftur komist upp með að rugla þessu tvennu saman. Líffræðilegur karl getur orðið málfræðileg kona. Amerísk heimska.
Trump bannaði með forsetatilskipun að málfræðileg sérviska kæmi í stað líffræðilegra sanninda. Í vegabréfi skulu allir skráðir eftir líffræðilegu kyni, karl eða kona. Það er allur glæpurinn.
Á íslensku er sama orðið - kyn - notað í líffræði og málfræði. Allir íslenskumælandi vita að aðeins í málfræði, en ekki líffræði, er til hvorugkyn.
Transhugmyndafræðin er í heild sinni innflutt sérviska. Vegna tungumálsins var ekki hægt að selja hér á landi málfræðilegt kyn sem líffræðilegt ástand. Gripið var til þess ráðs að kalla gender á íslensku kyngervi. Í orðabók Hinseginsinna er þetta útskýrt:
Kyn (sex) og kyngervi (gender) eru lykilhugtök bæði innan hinseginfræða og kynjafræða. Í þessum fræðum þykir oft gagnlegt að greina á milli líffræðilegs kyns annars vegar, sem þá er einfaldlega nefnt kyn, og hins vegar félagslega mótað kyns, sem þá er nefnt kyngervi. Í almennu talmáli hérlendis vísar þó kyn oftast bæði til kyns og kyngervis. Á þessum vef verður kyn notað jöfnum höndum yfir líffræðilegt kyn og félagslegt kyn (kyngervi) sem er í samræmi við íslenska málvenju.
Íslenskan kemur í veg fyrir ruglandann á málfræði og líffræði. Til að komast upp með ruglið, en á öðrum forsendum, jafn fölskum, er kyngervi látið þýða félagslegt kyn. Munurinn er útskýrður á þennan veg:
Kyngervi er hið félagslega mótaða kyn en ekki hið líffræðilega kyn.
Eins og málfræði og líffræði eru sitt hvað þá er líffræði og félagsmótun tvennt ólíkt. Líffræði er áþreifanleg. Félagsmótun er orð um siði og venjur í samfélaginu sem eðli málsins samkvæmt eiga við hópa en ekki einstaklinga. Fyrirbærið ,,félagslegt kyn" er hugtak án innihalds þegar kemur að einstaklingum. Sá sem segist af ,,félagslegu kyni" fer með staðleysu, ímyndun.
Hugtakið ,,félagsmótun" er hægt að nota um siði og venjur sem áhrif hafa á hóphegðun, t.d. unglingsstráka eða leikskólabarna. Mannasiðir eru dæmi um félagsmótun, skráðar og óskráðar reglur á skólalóð er annað dæmi.
Um leið og hópunum sleppir, og einstaklingur er skoðaður, missir marks að tala um félagsmótun. Við segjum ekki um ókurteisan mann að hann sé illa félagsmótaður, heldur að hann kunni ekki mannasiði. Þótt við verðum fyrir margvíslegum samfélagslegum áhrifum berum við hvert og eitt ábyrgð á okkur sjálfum.
Ef karl segir ,,ég er félagsmótuð kona" þá fer hann með merkingarlausa setningu. Hann gæti allt eins sagt ,,ég er félagsmótuð bókahilla". Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að segja slíkar setningar um sjálfa sig. Við sem samfélag eigum á hinn bóginn ekki að leggja trúnað á þvættinginn. Enn síður eigum að halda bábiljunum að börnum, líkt og Samtökin 78 komast upp með í leik- og grunnskólum.
Transhugmyndafræðin og kynjaruglið gerir í því að slá saman almennum hugtökum, sem eiga við samfélag og hópa, og sértækum áþreifanlegum lífsins sannindum; að kynin eru tvö og maður fæðist í öðru hvoru. Afleiðingin verður allsherjarruglingur þar sem enginn munur er gerður að staðreynd og ímynd. Ruglið plægir akurinn fyrir menn eins og Trump.
![]() |
Hvað er Trump búinn að gera? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 22. janúar 2025
Þóra þegir, Þórður Snær kvartar undan skipstjóranum
,,Það eina sem við gerðum var, það sem er fullkomlega löglegt, að taka á móti gögnum," segir Þórður Snær fyrrum ritstjóri og nú sakborningur og framkvæmdastjóri Samfylkingar um byrlunar- og símamálið í nýjum Blaðamanni, félagsriti Blaðamannafélags Íslands.
Viðtalið við Þórð Snæ er tekið í tengslum við félagsfund BÍ 8. október í fyrra sem átti að vera baráttufundur en endaði sem leynifundur. Tilfallandi bloggaði um fundinn:
Fjölmiðlar láta eins og fundurinn hafi ekki farið fram. Ekkert er sagt frá fundinum á heimasíðu BÍ, press.is. Engar myndir, enginn texti, engin ályktun. Ekkert.
Hvers vegna þessi hyldjúpa þögn? Almenning varðar byrlunar- og símamálið miklu. Þar er undir hvort blaðamenn hafi heimild til að sækja sér stolið efni sem fæst með byrlun og flytja fréttir á milli fjölmiðla undir þagnarhjúpi. Sími Páls skipstjóra var afritaður á RÚV en fréttirnar birtust í Stundinni og Kjarnanum. Samráð RSK-miðla veitir innsýn í baktjaldamakk fjölmiðla við fréttavinnslu.
Í Blaðamanninum, sem fór í dreifingu í vikunni, eru loksins sýndar myndir af fundinum 8. október í fyrra. Fimm af sex sakborningum mættu, aðeins Ingi Freyr Vilhjálmsson lét sig vanta. Ljósmyndir af fundinum sýna hann fámennan. Fyrir utan sakborninga sést í átta fundarmenn. Hnakkasvipurinn er aðeins sýndur, líklega skammast menn sín fyrir að vera leikmunir í sviðsetningunni.
Þórður Snær er talsmaður sakborninganna. Hann fer með rangt mál þegar hann segir að ,,við" tókum við gögnum. Aðeins einn sakborninganna, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, tók við einu gagni - síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Áður en Þóra fékk síma skipstjórans frá byrlara hans, þáverandi eiginkonu, hafði Þóra keypt samskonar síma af Samsung-gerð til að afrita síma skipstjórans.
Þóra vissi með fyrirvara að sími skipstjórans væri væntanlegur til afritunar á Efstaleiti. Þóra og RÚV birtu enga frétt. Hvergi í vestrænni blaðamennsku tíðkast að einn fjölmiðill aflar heimilda fyrir frétt sem send er á annan fjölmiðil til birtingar. Blaðamenn vissu um glæpinn áður en hann var framinn og höguðu undirbúningi til samræmis. Það mátti alls ekki fréttast hvernig að málum var staðið. Enda vissu málsaðilar að hér var ekki á ferðinni blaðamennska heldur lögbrot.
Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti 4. maí 2021. Tæpum þrem vikum síðar, þann 21. maí, birtu Stundin og Kjarninn samtímis fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Samráð um tímasetningu birtingar staðfestir miðlægt skipulag á aðgerðinni.
Páli skipstjóra var byrlað heima hjá sér á Akureyri kvöldið 3. maí. Hann fór í hjartastopp, var endurlífgaður með rafstuði oftar en einu sinni. Daginn eftir var flogið með skipstjórann í sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Börnum hans var sagt að tvísýnt væri pabbi þeirra lifði af.
Þórður Snær birti frétt með vísun í gögn sem fengust með byrlun og þjófnaði. Lífi og heilsu manns var stefnt í hættu til að ritstjórinn fengi frétt. Er ritstjórinn og nú framkvæmdastjóri þingflokks leiður yfir hörmungunum sem Páll skipstjóri varð fyrir? Nei, Þórður Snær eyðir ekki orðum á raunir skipstjórans. Aftur er Þórður Snær upptekinn af þeim álitshnekki sem hann sjálfur hefur orðið fyrir vegna byrlunar- og símamálsins. Í viðtalinu segir Þórður Snær:
[Málið] hafði áhrif á trúverðugleika minn sem blaðamanns. Það hafði áhrif á trúverðugleika minn sem ritstjóra. Það hafði áhrif á trúverðugleika þeirra miðla sem ég stýrði á þeim tíma
Tilfallandi tók upp vasaklútinn þegar hann las þessi orð talsmanns sakborninga og Samfylkingar. Voðaleg örlög að tapa trúverðugleika sé maður sakborningur í refsimáli þar sem byrlun, þjófnaður og brot á friðhelgi koma við sögu.
Þórður Snær kennir auðvitað skipstjóranum um tapað rykti, ,,þessa narratívu sem Páll Steingrímsson setti fram."
Munurinn á frásögn (narratvíu) Páls skipstjóra annars vegar og hins vegar Þórðar Snæs og sakborninganna er sá að atburðarásin og tiltæk gögn styðja frásögn skipstjórans en ekki sakborninga.
Þóra Arnarósdóttir keypti Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, fyrir byrlun og þjófnað. Kjarninn og Stundin birtu samtímis sömu fréttina í tveim útgáfum þann 21. maí. Skráður höfundur fréttarinnar í Stundinni, Aðalsteinn Kjartansson, var fréttamaður RÚV þangað til 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun. Þóra, yfirmaður Aðalsteins, var búinn að kaupa síma er Aðalsteinn fór á Stundina, sem systir hans ritstýrði, og tók þar við frétt sem aflaði honum og Þórði Snæ verðlauna. Gögn sýna veruleg samskipti á milli þáverandi eiginkonu skipstjórans og blaðamanna, ekki síst til að hylja slóðina.
Öll ofangreind atriði renna stoðum undir frásögn skipstjórans. Sakborningarnir ræða ekki efnisatriðin, láta eins og þau séu ekki til. Blaðamenn tala um að vernda heimildamenn. Engum óþekktum heimildamönnum er til að dreifa. Eiginkona skipstjórans játaði byrlun, stuld og afhendingu símans til Þóru. Fyrir utan eiginkonuna eiga aðeins blaðamenn málsaðild. Enginn annar.
Hvorki Þórður Snær né aðrir sakborningar eiga frásögn sem útskýrir atburðarásina vorið 2021. Viðtalið við Þórð Snæ í Blaðamanninum er þrjár síður. Hvergi er reynt að segja fréttina um aðkomu blaðamanna að byrlunar- og símamálinu. Gullna reglan í blaðamennsku er að hverja sögu skal segja eins og hún er. Íslenskum blaðamönnum er ofviða að segja fréttina. Skráður höfundur viðtalsins við Þórð Snæ er Bára Huld Beck. Hún var til skamms tíma undirmaður Þórðar Snæs á Heimildinni og þar áður á Kjarnanum. Þarf frekari vitnanna við um faglegt sifjaspell blaðamanna á Fróni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)