Albanía ekki lengur fyrirmynd Íslands

Eigendur sjúkrahótelsins í Ármúla, Ásdís Halla Bragadóttir og félagar, fengu hagfelldan samning við ríkið sem forstjóri Sjúkratrygginga varði með klóm og kjafti þegar Landspítalinn gagnrýndi fyrirkomulagið.

Ásdís Halla telur að Albanía eigi að vera fyrirmynd fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi og flutti um það erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífsins. Albanía er það ríki í Evrópu og Asíu sem mismunar mest þegnum sínum m.t.t. heilbrigðisþjónustu. En eflaust er hægt að græða góðan pening á þeirri misskiptingu.

Fyrirsjáanlega eru slit á aðild Ásdísar Höllu og félaga að heilbrigðiskerfinu. Mætti álykta að Albanía er ekki lengur fyrirmynd Íslands í heilbrigðismálum. Sumir myndu telja það framför.


mbl.is „Þetta eru vonbrigði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður: Árni Páll skilur hvorki pólitík né efnahagsmál

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingar, lagði fram frumvarp um afnám verðtryggingar, ásamt Helga Hjörvar, sem formaðurinn afneitar. Árni Páll formaður segist bíða eftir evru í stað krónu - þá munu öll efnahagsmál á Íslandi lagast af sjálfu sér.

Sigríður Ingibjörg segir Árna Pál ekki ekki fatta að slagurinn um evruna sé tapaður:

Nú, þegar ljóst sé að ekki verði tekinn upp annar gjaldmiðill en krónan í fyrirsjáanlegri framtíð, sé nauðsynlegt að losna við verðtrygginguna.

Árni Páll sigraði Sigríði í formannsslag Samfylkingar með einu atkvæði. Hún segist ekki ganga með formanninn í maganum en finnur hjá sér þörf að benda alþjóð á að sitjandi formaður skilji hvorki pólitík né efnahagsmál.


Vel meint hjá Kára, en vanhugsað

Heilbrigðiskerfið er langdýrasti þátturinn í ríkisrekstri. Almennt má segja að þjóðarsátt sé um að við setjum nægan pening í heilbrigðisþjónustuna til að hún sé á heimsmælikvarða.

Við erum með þing og ríkisstjórn til að ákveða framlög til heilbrigðismála. Á þeim vettvangi, og almennri pólitískri umræðu, fer fram forgangsröðun sem birtist í fjárlögum hvers árs.

Eflaust er það vel meint hjá Kára Stefánssyni að styrkja heilbrigðiskerfið með undirskriftasöfnun. En undirskriftarsafnanir eru ekki stjórntæki sem koma i stað þings og stjórnarráðs.

Undirskriftarsöfnun - einnig þjóðaratkvæði - á við þegar um alger undantekningatilvik er að ræða, samanber Icesave-málið. Heilbrigðiskerfið er viðvarandi viðfangsefni. Engin ein ákvörðun gerir það betra eða verra. Þess vegna mun söfnun undirskrifta á netinu ekki gera stóra hluti fyrir heilbrigðiskerfið, nema þá í skamma stund.

Stjórnfesta færi veg allrar veraldar ef undirskriftasafnanir leystu af hólmi pólitíska orðræðu á þingi, í ríkisstjórn og í samfélaginu. Við sætum uppi með múgræði.


mbl.is Reiknar með ásökunum um lýðskrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skák og mát góða fólksins

Æðstiklerkur í Sádí-Arabíu bannar manntafl og segir það tímasóun og tengt veðmálum. Þar með er skákbann orðið að trúarmenningu múslíma. Gagnrýni á skákbann múslíma gæti þótt móðgun við trú þeirra.

Annað dæmi: múslímskir karlar í Englandi komast upp með að banna eiginkonum sínum að læra ensku, samkvæmt frásögn lækna og annarra sem þekkja til. Gagnrýni á ólæsi múslímakvenna er móðgun við múslímska karlamenningu.

Gagnrýni og móðganir eins er hatursorðræða annars.

Góða fólkið er komið með lögregludeild sem fylgist með gagnrýni á trúarmenningu múslíma. Annað tveggja gerist, að við mátum góða fólkið eða góða fólkið setur skák og mát á tjáningarfrelsið.


mbl.is Vita lítið um hatursglæpi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll afneitar eigin þingmönnum

Formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, afneitar frumvarpi tveggja þingmanna flokksins, Helga Hjörvar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Framvarpið er um afnám verðtryggingar og sætti harðri gagnrýni þegar það var lagt fram.

Árni Páll segir frumvarpið ekki samrýmast stefnu Samfylkingar og hann muni ekki styðja það. Í þessu máli líkt og mörgum öðrum er erfitt að henda reiður á stefnu Samfylkingar. Flokkurinn á sér ekki pólitíska kjölfestu, er ýmist hægriflokkur eða vinstriflokkur en alltaf tækifærissinnaður.

Sigríður Ingibjörg bauð sig fram gegn Árna Páli á síðasta landsfundi flokksins. Árni Páll hélt formannsembættinu með einu atkvæði. Sennilega ekki með atkvæði Helga Hjörvar.


Samfylkingarpopúlismi

Samfylkingin trúir eigin áróðri um að verðtrygging sé höfuðmeinsemd á Íslandi. Jafnvel skráðir og skjalfestir jafnaðarmenn, t.d. hagfræðingurinn Jón Steinsson, súpa hveljur yfir lýðskruminu:

Hvað gerist þegar það kemur gott íslenskt verðbólguskot (eins og alltaf gerist með reglulegu millibili) og vextir á óverðtryggðum lánum hækka upp úr öllu valdi? Þá munu menn óska þess að geta jafnað þann skell yfir lánstímann. En það er einmitt það sem verðtryggð lán gera. [...] Úff hvað það er pirrandi að vera íslenskur jafnaðarmaður.

Samfylkingin eltir skottið á sjálfri sér í leit að einhverju að bíta í. Með skottið í kjaftinum étur flokkurinn sig upp að innan.

 


mbl.is Vilja afnema verðtrygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallup mátar Baldur Þórhalls við Bessastaði

Varaþingmaður Samfylkingar fyrrum, ESB-sinni og prófessor við HÍ, Baldur Þórhallsson og maki eru mátaðir við Bessastaði í skoðanakönnun Gallup. Spurningin er svohljóðandi:

Ert þú jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart því að dr. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði verði næsti forseti Íslands og setjist ásamt maka sínum Felix Bergssyni á Bessastaði? 

Fyrir utan venjubundna svarmöguleika, þ.e. hversu jákvætt eða neikvætt fólk er gagnvart forsetaframboði Baldurs, er boðið upp á: ,,Veit ekki hver dr. Baldur Þórhallsson er."

RÚV, sem iðulega flaggar Baldri, hlýtur að hlaupa til og koma honum í fréttirnar á meðan könnun Gallup stendur yfir.


Bótafólkið, Marx og kvótinn á lífsgæði

Karl Marx, samtíðarmaður Jóns Sigurðssonar forseta, kenndi að yfirbyggingin sé fall af skipulagi framleiðslunnar. Ráðandi hugmyndir í hverju samfélagi séu afleiðingar af valdahlutföllum í efnahagskerfinu.

Á dögum Jóns Sigurðssonar réðu bændur efnahagskerfinu og mótuðu ráðandi hugmyndir. Eftir lýðveldisstofnun og útfærslu landhelginnar urðu útgerðarmenn öflugir og létu eftir því til sín taka í þjóðfélagsmálum.

Síðasti þriðjungur síðustu aldar skóp aðstöðu í efnahgaskerfinu fyrir tvo nýja hópa, bótafólkið og starfsfólk stóriðju.

Bótafólkinu óx fiskur um hrygg á tímum útrásar enda hrundu brauðmolar af nægtarborði auðmanna til bótafólksins, sem annars lifir einkum á opinberum styrkjum. Bótafólkið er áberandi í þjóðfélagsumræðunni og vill fá valdastöðu enda með framlag til þjóðarframleiðslunnar, eins og rithöfundur benti á nýverið.

Bótafólkið herjar á starfsfólk stóriðju með því að segja þau störf andstæð hagsmunum Íslands og þó sérstaklega íslenskrar náttúru. Skeleggur talsmaður starfsmanna stóriðju las bótafólkinu pistilinn í bloggfærslu. Óðara fékk hann yfir sig vammir og skammir.

Marxísk greining á valdastöðu bótafólksins annars vegar og hins vegar starfsmanna stóriðju er kristaltær: forræðið er allt þeirra síðarnefndu.

Bótafólkið er á hinn bóginn tunguliprara og stendur öðrum hópum samfélagsins framar í textaframleiðslu. Bótafólkið telur sig í krafti stöðu sinnar í fjölmiðlun geta skenkt öðrum hópum lífsgæðum og mótað ráðandi hugmyndir um hvert þjóðin skuli stefna. 

Marx gat vitanlega ekki séð fyrir áhrif bloggheima á valdahlutföllin í samfélaginu.


Úkraína, olían og alþjóðakreppan

Lækkandi olíuverð ætti að hækka hlutbréf í öllum öðrum fyrirtækjum en þeim sem stunda olíuvinnslu. En markaðir í ársbyrjun hríðfalla, m.a.s. á Íslandi, þar sem engir olíuhagsmunir eru í veði.

Ástæðan fyrir svartsýni markaða er undirliggjandi spenna milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Rússlands. Vegna þessarar spennu er engin lausn fyrirsjáanleg í miðausturlöndum þar sem Bandaríkin styðja Sáda og súnna en Rússar sjíta og Írani en hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams fitna eins og púkinn á fjósabitanum. Afleiðingin er m.a. milljónir flýja miðausturlönd og lama stjórnmál í Evrópu.

Úkraína er uppspretta spennunnar milli Bandaríkjanna og Rússlands. Fyrir tveim árum studdu Bandaríkin og ESB-ríkin stjórnarskipti í Úkraínu. Forseti hliðhollur Rússum, Viktor Janúkovítsj, var settur af en við tók stjórn hliðholl vesturveldunum. Í framhaldi hirtu Rússar Krímskaga af Úkraínu og rússneskir uppreisnarmenn yfirtóku austurhéruðin. Ríkisstjórnin í Kiev er gerspillt og getur ekkert gert nema með fulltingi vesturveldanna.

Úkraínudeilan er um það bil að leysast. Fyrir nokkrum dögum voru lögð drög að pakkalausn stórveldanna með fundi utanríkisráðherra landanna. Frekari fundir hafa farið fram sem og símtöl á milli forsetanna Obama og Pútíns.

Takist að leysa Úkraínudeiluna er komin forsenda fyrir sameiginlegri nálgun stórveldanna á ástandinu í miðausturlöndum. Og þar með verður friðsamlegra um að litast í henni veröld.


mbl.is Olían lækkar og lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsala á ríkiseigum verður ekki fyrirgefin

Salan á Borgun fól í sér að ríkisbanki gaf útvöldum 20 milljarða króna. Salan fór fram á bakvið luktar dyr.

Íslenska ríkið á Landsbankann, stóra hluti í öðrum bönkum og fær í fangið aðrar eigur, upp á tugi milljarða króna, sem lið í uppgjöri föllnu bankanna.

Reynslan af sölunni á Borgun ætti að kenna ríkisstjórninni að ganga varlega um gleðinnar dyr þegar kemur að sölu ríkiseigna. Landsbankann ætti að taka strax af söluskrá, svo að enginn velkist í vafa um að Framsóknarflokkur Sjálfstæðisflokkur lærðu sínu lexíu af hruninu 2008.

Þjóðin mun ekki sýna þeim neina miskunn vorið 2017 sem gefa útvöldum almannaeigur. Enda veit þjóðin að gjafagjörningum fylgir hrun.


mbl.is Þolum ekki sömu mistökin aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband