Fimmtudagur, 7. september 2023
Eitruð umræða, 50 milljón kr. tap
Heimildin, áður Stundin og Kjarninn, tapaði 50 milljónum króna í fyrra. Eina afurð Heimildarinnar er fréttir til að fóðra opinbera umræðu.
Vandaðir blaðamenn byggja fréttir á heimildum; óvandaðir skrifa ýkjur, ef ekki skáldskap, með lélegum, vafasömum eða engum heimildum. Heiðarlegir blaðamenn virða lög og reglur landsins; óheiðarlegir stuðla að lögbrotum og véla með efni sem ýmist er stolið eða er óráðshjal fólks í vímuefnavanda.
Frægustu fréttir Heimildarinnar og forvera eru skáldskapur sem soðinn var upp úr stolnu efni. Fjórir blaðamenn ritstjórnarinnar eru sakborningar í glæparannsókn lögreglu á byrlun og gagnastuldi, þar á meðal annar ritstjórinn. Fimmti blaðamaðurinn verður annað tveggja sakborningur eða vitni í væntanlegu dómsmáli.
Enginn blaðamannanna hefur upplýst aðkomu sína að afbrotinu. Sakborningar hafa allir verið kallaðir í skýrslutöku hjá lögreglu og engu viljað svara um vitneskju sína um alvarlegt afbrot. Ekki heldur upplýsa þeir lesendur sína. Samt segjast þeir allir sem einn starfa í þágu almannahagsmuna og skrifa frétti m.a. um afbrot annarra. Afbrot sem blaðamennirnir eiga sjálfir aðild að fá ekki umfjöllun. Ekki er almenningi þjónað með lögbrotum og yfirhylmingu afbrota.
Þeir sem halda útgáfufélagi Heimildarinnar á floti með beinu fjárframlagi eða óbeinum stuðningi vilja íslensku samfélagi illt, að lögbrot séu framin og þau ekki upplýst. Góðu heilli eru þeir ekki margir sem vilja að útgáfan haldi áfram að eitra opinbera umræðu. Fimmtíu milljón króna tap staðfestir það.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 6. september 2023
Mútumálið á Selfossi og glæpir RSK-miðla
Meint mútumál Heimildarinnar gerist á Selfossi fyrir þrem árum. Tveir vinir til langs tíma, Tómas Ellert Tómasson þáverandi bæjarfulltrúi og Leó Árnason fjárfestir, hittast. Tómas Ellert tekur ljósmynd af texta sem varpað er á skjá á fundinum. Fyrirsögnin á textanum er ,,Efni: minnispunktar og samkomulag."
Heimildin opnaði málið á föstudag. RÚV birti frétt (og mynd af skjátextanum) á sunnudagskvöld. Mbl.is fjallar um málið í fyrradag, sjá viðtengda frétt, og aðrir miðlar sömuleiðis. Málið þykir fréttaefni sem almenningur þarf að fá vitneskju um.
Gott og vel. Um hvað snýst meint mútumál? Tómas Ellert segist hafa fengið tilboð um fjárstuðning fyrir framboð sitt gegn því að hann beitti sér fyrir að Árborg/Selfoss félli frá forkaupsrétti á Landsbankahúsinu í miðbæ Selfoss en þar á Leó fjárfestir hagsmuna að gæta. Jafnframt er upplýst að sveitarfélagið hafi fallið frá forkaupsrétti áður en fundur félaganna tveggja var haldinn. Langsótt er að gera tilboð um mútur fyrir eitthvað sem þegar er orðið að veruleika.
Lesendur geta sjálfir metið hvort hér sé á ferðinni mútugjöf, skjátextann má lesa í frétt RÚV. Í textanum er talað um vinnuhóp og að undirritaðir verði leiðandi í skipulagsvinnu. Ekki segir i textanum hverjir séu í vinnuhópnum né heldur hverjir ætla að undirrita. Tómas Ellert og Leó segja báðir að fundurinn hafi verið tveggja manna.
Ef það er svo, eins og Tómas Ellert lætur í veðri vaka, að félagarnir tveir hittist reglulega og skrifi minnispunkta um samtölin ætti honum að vera í lófa lagið að leggja fram álíka fundargerðir/minnispunkta/samkomulag fyrir og eftir nóvemberfundinn 2020. Almenningur sæi samhengi vináttunnar og hvort samsæri gegn almannahagsmunum sé reglulega á dagskrá eða stakt tilfelli.
Hvaða álit hefur Tómas Ellert á nánum félaga sem biður hann um að svíkja trúnað við almenning? Móðgaðist hann ekkert við tilboðið? Tómas Ellert átti að fá eina til tvær milljónir fyrir viðvikið. Lítil fjárhæð miðað við hagsmuni. Landsbankahúsið fór á 360 milljónir kr. Gaf Tómas Ellert til kynna að hann væri falur fyrir lítið fé?
Tómas Ellert er einn til frásagnar um meint tilboð um mútur. Skjátextinn er eina skriflega heimildin. Einbeittan ásetning þarf til að lesa mútugjöf inn í textann. Eina sem undarlegt er við fundinn er að tveir menn, æskufélagar, setji á skjávarpa texta um umræðuefni sitt. Er annar hvor þeirra eitthvað vanfær? Ef umræðuefnið hefur orðið að samkomulagi, undirrituðu, ætti sá texti að vera til, í tölvupósti til dæmis.
Eftirfarandi er haft eftir Tómasi Ellerti í Heimildinni:
Íslandi er stundum líkt við Sikiley, hér er nándin svo mikil og menn þora ekki að stíga fram. En ég er bara þannig gerður að ég er kjarkaður, ég óttast engan og ekkert og hef aldrei gert.
Engu að síður þurfti Tómas Ellert að safna kjarki í þrjú ár til að ,,stíga fram." Mýfluga verður að úlfalda á skemmri tíma. Minnir svolítið á Jóhannesarguðspjallið síðara. Kannski var Tómas Ellert að hugsa um Namibíu þegar hann sagði Sikiley.
Namibíu- og Selfossmálin eiga fleira sameignlegt en einstaklinga sem fá opinberun um spillingu löngu eftir að hún fór fram. Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður Heimildarinnar skrifar Selfossfréttina. Bróðir hans Finnur Þór Vilhjálmsson er saksóknari hjá héraðssaksóknara og rannsakaði Namibíumálið, sem Ingi Freyr fylgdi úr hlaði, þá blaðamaður á Stundinni. Nú er Selfossmálið komið til héraðssaksóknara. Fer Finnur Þór fyrir rannsókninni? Bræðurnir unnu líka að Sjólamálinu, Ingi Freyr skrifaði fréttir og Finnur Þór saksótti. Bræður í glæpum komu heim með öngulinn i rassinum úr báðum veiðiferðunum, kenndum við Namibíu og Sjólaskip. Fer á sömu lund með Selfossmálið? Geta blaðamenn með rétt fjölskyldutengsl pantað þjónustu héraðssaksóknara til að gera vafasamar fréttir trúverðugar?
En, sem sagt, meint mútumál á Selfossi þykir frétt í öllum fjölmiðlum landsins. Fréttamat er huglægt, rétt eins og siðleysi er huglægt ástand.
Víkur þá sögunni að glæpum sem blaðamenn RSK-miðla (RÚV og Heimildin) eru grunaðir um aðild að, hafa stöðu sakborninga í lögreglurannsókn. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður. Sakarefnin eru byrlun, þjófnaður og brot á friðhelgi einkalífs, ekki aðeins Páls heldur einnig Örnu McClure lögfræðings. Þáverandi eiginkona Páls, sem glímir við alvarleg andleg veikindi, var leiksoppur blaðamannanna, sem m.a. hirtu af henni símkort þegar fela átti samskiptaslóðina.
Mútumálið á Selfossi er tittlingaskítur í samanburði við glæpina gegn Páli skipstjóra. Fjölmiðlar velta sér upp úr tittlingaskítnum en stunda ákaft þögnina um stórglæpinn. Hver ætli sé skýringin á því?
Er það svo, eins og Tómas Ellert, höfundur Selfossmálsins, segir: ,,hér er nándin svo mikil og menn þora ekki að stíga fram"? Spurt á mannamáli: eru blaðamenn upp til hópa siðlausir hugleysingjar, sem nýta sér bágindi annarra, drykkjuskap og geðveiki, og slá sig í leiðinni til riddara? Bíta síðan höfuðið af skömminni er þeir úthluta sjálfum sér verðlaun fyrir óhroðann og kalla blaðamennsku.
![]() |
Héraðssaksóknari hefur rannsókn á meintu mútumáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 5. september 2023
Sigur á vígvellinum, ráðherra rekinn
Varnarmálaráðherra Úkraínu er rekinn samtímis sem sigrar á vígvellinum eru tilkynntir. Í stríði fá menn heiðursmerki fyrir landvinninga, eru ekki látnir taka pokann sinn. Hljóð og mynd fara ekki saman.
Gagnsókn Úkraínu er þriggja mánaða, hófst 4. júní. Mannfallið er um 50 þúsund hermenn. Ógrynni hergagna hefur farið forgörðum. Sáralítið landsvæði hefur unnist.
Stjórnin í Kænugarði er komin að þolmörkum, segir Die Welt, útgáfa sem heilshugar styður Úkraínu. Economist styður einnig Úkraínu en segir sömu sögu. Selenskí og félagar eiga ekki lengur hug og hjörtu úkraínsku þjóðarinnar, stríðsþreyta gerir vart við sig.
Varnamálaráðherra Úkraínu var fórnað. Einhver varð að taka á sig ófarirnar á vígvellinum.
Kænugarður er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður, menn til að senda á blóðvöllinn. Nýverið var tilkynnt um spillingu í öllum héruðum landsins þar sem herkvaðning skilar ekki tilætluðum árangri. Karlmenn kaupa sig í þúsundavís undan herþjónustu með fölskum læknisvottorðum.
Sigur Úkraínu er ekki í sjónmáli. Ekki heldur er rússneskur sigur á næsta leiti. Munurinn er sá að Rússar búa að fjórum til fimm sinnum meiri mannfjölda en Úkraína. Á meðan Nató-ríkin senda ekki hermenn í sléttustríðið er reikningsdæmið einfalt. Úkraínumenn þrýtur fyrr örendið en Rússum.
Hvers vegna er ekki samið um vopnahlé í stríði bræðraþjóðanna? Sitjandi valdhafar í Kænugarði annars vegar og hins vegar Kreml sjá fram á öngþveiti, óreiðu og upplausn ríkisins í óhagfelldum friði. Bæði ríkin búa að minningu um byltinguna 1917.
Valdaskákina verður að tefla til enda. Utanaðkomandi sjá tilgangsleysi mannfórna. Innherjar hildarleiksins aftur myrka tíð án sigurs.
![]() |
Skiptir um varnarmálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 4. september 2023
Miðflokkurinn stærri en Framsókn, Samfylking stopp
Miðflokkurinn er kominn upp í tæp níu prósent en fær Framsókn hálft áttunda prósent í nýrri mælingu Gallup, sem ekki fer hátt. Nokkur tíðindi atarna, ásamt þeim að sókn Samfylkingar stöðvast við 28 prósentin. Mælingin var tekin, að vísu, svo það sé sagt, áður en Helga Vala hrökk frá borði.
Vendingar stjórnmálanna síðustu vikurnar eru þær helstar að Samfylkingin færist jafnt og þétt til hægri í áherslum og málflutningi. Stefna Kristrúnar formanns er að gera flokkinn gjaldgengan í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Hægrisjónarmið sækja í sig veðrið, sbr. Miðflokkinn og umbreytingu Samfylkingar. Eftirlætismál vinstrimanna ríða ekki feitum hesti í umræðunni. Tilraunir Vinstri grænna með kynjapólitík, dýravernd, loftslagsmál og stuðning við hælisiðnaðinn skora ekki. Vinstri græn mælast undir sex prósentum í nefndri könnun. Gagnvart kjósendum birtast Vinstri grænir sem sérhagsmunabandalag öfgahópa sem trúa að sumir fæðist með rangt heilabú og að loftslagið sé manngert en ekki náttúrulegt.
Stærsta ósagða pólitíska fréttin síðustu missera er að ekki er talað um vinstristjórn sem valkost. Spurningin er hvernig hægristjórn leysir af sitjandi þjóðstjórn.
Harla ólíklegt er að í kosningum fái Sjálfstæðisflokkur og Samfylking meirihluta. Gæti þó gerst. Meiri líkur eru á þriggja flokka stjórn. Þriðji flokkurinn undir vagninum yrði Miðflokkur eða Framsókn. Ólíklega Viðreisn og tæplega Vinstri græn. Enginn talar við Pírata enda ekki viðræðuhæfir.
Enn er langt til kosninga og óvissuþættir margir. Vinstriflokkar munu gera áhlaup á Samfylkingu þar sem Kristrún á enn eftir að kjafta sig frá skattasniðgöngunni. Hún verður teiknuð upp sem auðkona í Garðabæ.
Þingveturinn sem fer í hönd verður giska fróðlegur. Í vetur er síðasta tækifæri Vinstri grænna að snúa fylgisþróuninni við, tileinka sér meginstraumsmál fremur en neðanbeltispælingar með grænkeraívafi. Kristrún er í færum að treysta Samfylkinguna sem 20-prósenta flokk. Það yrði afrek. Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur etja kappi um hugmyndaforræðið hægra megin við miðju. Framsókn leitar að miðgildinu þar á milli.
Vorið 2024 er enn ár eftir af kjörtímabilinu. Ef ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur treystir sér til að ljúka kjörtímabilinu, sem er óvíst, verður kosningaveturinn notaður í uppsóp meginstraumsflokka á fylgi jaðarflokkanna; Viðreisnar, Pírata og Ingu-flokksins. Enn er óljóst hvoru megin hryggjar Vinstri grænir lenda, í meginstraumi eða á jaðrinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. september 2023
Helga Vala, RSK-sakamálin og töfrar þagnarinnar
Helga Vala hættir á þingi fyrir Samfylkinguna og opnar lögfræðistofu. Ég mun taka upp þráðinn í sakamálum, mér finnast þau spennandi og skemmtileg," segir þingmaðurinn um skyndilega afsögn sína.
Hér er eitthvað málum blandið.
Hvernig veit Helga Vala að hún fái vinnu við sakamál? Atvinnuglæpamenn eru með lögmenn á sínum snærum, fylgir starfinu. Ekki bíða þeir eftir lögmennsku þingmanns. Óorðnir afbrotamenn kaupa sér ekki fyrirfram lögfræðiþjónustu.
Þá eru eftir þeir sem eru grunaðir um glæp en bíða ákæru og réttarhalda. Þar eru fremstir í flokki blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn/Heimildin). Í byrlunar- og símastuldsmálinu er vitað um fjóra blaðamenn sem sakborninga og sá fimmti gæti bæst við.
Blaðamennirnir eru þöglir sem gröfin og fjölmiðlar meðvirkir að halda fréttaumfjöllin í lágmarki. Eftir ákæru er ekki lengur hægt að þegja. Málsgögn verða opinber.
Sjálft er RÚV ekki formlega á sakabekk en stappar nærri. Þrír, mögulega fjórir, starfsmenn RÚV verða að líkindum ákærðir. Miðstöð glæpsins og skipulag var á Efstaleiti. Helga Vala útskýrir hvers vegna skrifborðslögmenn henti illa í slík mál. Þigmaðurinn segir sig klæðskerasniðinn í sakamál þar sem opinber málafylgja er áhrifaríkari en lögvörnin.
Já, þetta er leikhús, svona það sem snýr að almenningi. Ég held að menntun mín hafi nýst vel þarna, bæði lögfræðin og leiklistin. Að kunna að beita röddinni, þekkja töfra þagnarinnar, hafa presens og ná valdi á salnum. Sem raunar á líka við í dómsal.
Sem stendur umlykja ,,töfrar þagnarinnar" RSK-sakamálið. En það styttist í að ,,presens" skipti máli. Höfuðatriði er að ,,ná valdi á salnum." Verður Helga Vala einn verjendanna í einu stærsta sakamáli seinni ára? Kæmi ekki á óvart.
Í öllu falli er knýjandi ástæða fyrir þingmann að hætta störfum í miðjum klíðum. Kannski eru meginástæður brotthvarfsins átök á bakvið tjöldin í Samfylkingunni. Helga Vala tapaði formennsku í þingflokknum og ekki fengið hljómgrunn innan flokksins, þykir of pírataleg í upphlaupsmálum. Hún trekkir ekki atkvæði með leikrænum töfrum. Kannski að hún axli sín skinn södd pólitískra lífdaga.
Tilfallandi taldi að Helga Vala væri á leið í hælisiðnaðinn. Í viðtalinu þvertekur hún fyrir það. Hún er fullviss að fá næg verkefni til að reka lögmannsstofu og þarf ekki atbeina hælisútgerðarinnar. Við skulum sjá til. Þingmenn eru vanir að reiða sig á skammtímaminni almennings.
Það liggur fiskur undir steini. Hver hann er kemur fyrr en seinna á daginn. Víst er að þingmaðurinn kemur ekki til dyranna eins og hann er klæddur. Leikarar bregða sér í ólík hlutverk eftir hvaða handrit er sviðsett hverju sinni.
Í viðtalinu segist Helga Vala ,,fylgja hjartanu". Unglingar og þeir sem rétt eru byrjaðir í barneign nota þennan talsmáta. Ekki harðsvíraðir stjórnmálamenn, - nema leikritið kalli á tilfinningasemi.
![]() |
Helga Vala segir sig frá þingmennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. september 2023
RÚV í þjónustu imba
Óopinbert samfélag imba þrífst hér á landi með RÚV sem bakhjarl. Reglulega er efnt til samkeppni um heimskulegustu röksemdina fyrir álitamáli. RÚV birtir rök fáránleikans án athugasemda.
Katrín Oddsdóttir er fremst meðal jafningja í yfirstandandi samkeppni um vitgrennstu rökin fyrir hvalveiðibanni. RÚV birti eftirfarandi djúphugsun Katrínar.
Og nú þurfa flokkar, og ég nefni sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, að líta í spegil og spyrja sig sjálfa, er atvinnufrelsi Kristjáns Loftssonar sem veiðir langreyður með taprekstri, sé mikilvægara en atvinnufrelsi alls þess fólks sem vinnur í kvikmyndabransanum á íslandi?
Samkeppnin í imbasamfélaginu er hörð og furðufréttastreymi RÚV tekur endalaust við. Katrín mun hafa aðra rökhendu á hraðbergi tryggi sú fyrri ekki gullið.
Ég mun ekki nýta kosningarétt minn á meðan hvalur er veiddur á Íslandsmiðum. Ætla stjórnvöld að láta Kristján Loftsson hafa af mér kosningaréttinn?
Katrín er þegar búin að skrifa fyrirsögnina á væntanlega RÚV-frétt: Kristján ógnar mannréttindum Katrínar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 1. september 2023
Blóðþyrstir Píratar
Píratar leggja blessun sína yfir fjöldamorð á spendýrum, fiskum og fiðurfé með frumvarpi sem þeir hyggjast leggja fram á alþingi Íslendinga. Frumvarpið leyfir slátrun og veiðar á öllum dýrategundum nema einni - hvölum.
Hvers á kálfurinn að gjalda, þessi með fallegu augun en verður brátt að hakki? Eða saklausa fjallalambið á leið í steik? Hvers vegna er kjúklingaeldi ekki bannað? Hvað með frjálsa fugla himins, gæs og rjúpu, sem árvisst verða fyrir skotárásum byssuglaðra? Hugsið um fiskana í sjónum sem nauðugir viljugir eru dregnir upp úr náttúrulegum heimkynnum sínum með botnvörpu og krókaveiðiskap síðan blóðgaðir, kúttaðir og flattir.
Hvað gengur Pírötum til með að gera upp á milli málleysingjanna? Hvað með jafnrétti dýranna? Rasismi gagnvart lífverum í lofti, á láði og legi ber ekki mannúð vitni heldur mismunun af grófustu sort. Er eitthvað hinsegin við hvali sem kallar fram samúð Pírata? Eða eru sjóræningjarnir aðeins í þykjustunni dýravinir? Er markmiðið það eitt að draga á tálar kjósendur sem næst standa málleysingjum að vitsmunum?
Píratar skulda þjóðinni skýringar.
![]() |
Píratar kalla eftir banni við hvalveiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 31. ágúst 2023
Helga Vala veðjar á hælisiðnaðinn
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar endurnýjar lögmannsréttindi sín, segir í frétt á Vísi. Líklega sér þingmaðurinn viðskiptatækifæri í hælisiðnaðinum. Ferðaskrifstofur flytja fólki til landsins sem sækja um hæli og fá við það lögmannsþjónustu sem greidd er af ríkinu.
Stallsystir Helgu Völu, Arndís Anna Pírataþingmaður, stökk á tækifæri til að leika tveim skjöldum. Tilfallandi blogg frá í vor:
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata úthlutar almannagæðum, ríkisborgararétti, til skjólstæðinga sinna sem kaupa af þingmanninum lögfræðiþjónustu. Arndís Anna stundar einkarekstur sem lögfræðingur og færir skjólstæðingum sínum íslenskan ríkisborgararétt sem þingmaður.
Einkahagsmunir lögfræðingsins eru að skapa verðmæti fyrir kaupendur þjónustu. Þingmaðurinn skaffar þau gæði. Þegar lögfræðingurinn og þingmaðurinn eru einn og sami einstaklingurinn, Arndís Anna, er á ferðinni spilling í sinni tærustu mynd.
Helga Vala gefur enga skýringu á endurnýjun réttinda. ,,Helga Vala vildi ekki tjá sig um málið," segir í fréttinni á Vísi. Þingmennska gengur út á að tala í tíma og ótíma, jafnvel um mál sem viðkomandi hefur ekkert vit á. Þingmaður sem vill ekki tjá sig hefur vanalega eitthvað að fela.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 30. ágúst 2023
Meðvitund og kynvitund, sami hluturinn
Meðvitundin er aðeins aðgengileg þeim sem býr að henni. Ein meðvitund hefur ekki beinan aðgang að annarri. Að því leyti er stök meðvitund lokað kerfi.
Maður ályktar um meðvitund annarra út frá fasi, framkomu og orðræðu. Sá sem talar ruglingslega er sennilega í uppnámi ef ekki í verra ástandi. Elskendur horfast í augu og finna ástarhug en komast aldrei inn í aðra meðvitund en sína eigin. Reiðisvipur er túlkaður þannig að sá sem hann hefur sé gramur, í það minnsta í þykjustunni.
Að lesa í meðvitund annarra þykir svo mikilvægur eiginleiki að þeir sem slakir eru fá sjúkdómsgreiningu.
Meðvitundin er ekki með sérstakt hólf fyrir kynhugsun eða kyntjáningu. Ekki frekar en að meðvitundin hafi sérherbergi fyrir fegurðarskyn, réttlætiskennd eða löngun til að veiða silung í Elliðavatni.
Meðvitundin er í senn einangruð við þann sem hana hefur og altæk, verður ekki smættuð í einingar til frekari rannsóknar. Allt er þetta vitað frá 17. öld er tekið var til að hugsa fræðilega um vitundarlífið. Frakkinn og fjölfræðingurinn Descartes orðaði hvað skýrast eðli og einkenni meðvitundarinnar. Cogito, ergo sum. Ég hugsa, ég er.
Hver þremillinn, kynni einhver að segja, vísindi samtímans hljóta að geta gert betur en einhver dúddi á 17. öld, þótt franskur sé og íhugull. Svarið er nei.
Heilasérfræðingurinn og geðlæknirinn Iain McGilchrist skrifaði doðrant um samspil vinstri- og hægri heilahvels (það er flókið). Bókin var tuttugu ár í smíðum. Hér skrifar hann um þekkingu okkar á meðvitundinni, bls. 19:
Er meðvitundin afurð heilans? Eina örugga svarið við spurningunni er að hver sem telur sig hafa öruggt svar - hefur örugglega rangt fyrir sér. Við höfum aðeins hugmyndir um meðvitundina og heilann til að vinna með; eina sem við vitum fyrir víst er að þær hugmyndir eru afurð meðvitundarinnar. Þetta er, vísindalega talað, mun öruggara en að meðvitundin sé afurð heilans.
Ekki jafn snjallt og orðfæri Descartes en segir sömu sögu.
Meðvitundin býr í heilanum þótt hún sé ekki endilega afurð hans. Heiladauður maður er meðvitundarlaus.
Í meðvitundinni verða til aðskiljanlegar langanir. Einhvern langar í kaffi, annan í tölvuleik, þann þriðja í útilegu og svo framvegis. Langanir spretta fleiri upp, hjá flestum, en hægt er að ráða við. Ævina á enda stendur yfir glíman við langanir og forgangsröðun þeirra. Sumar langanir eru skaðlegar, t.d. í fíkniefni, en aðrar saklausar; kaffibollinn.
Hafi maður löngun í eitthvað, sem er manni óhollt eða veldur öðrum skaða, er freistandi að telja sér trú um að látið sé undan lönguninni af nauðsyn. Ef frá er talin sú nauðsyn halda líkamanum gangandi með fæðu er, strangt tekið, engin nauðsyn í lífinu.
Nú þegar eðli og einkenni meðvitundarinnar liggur fyrir má slá einu föstu. Sá sem segist ,,upplifa" sig í röngum líkama tjáir löngun en ekki röklegt samhengi hlutanna. Hugsanlegt er, og raunar dæmi um, að einhver vilji kynbreyta sjálfum sér. Það er löngun en ekki nauðsyn. Lögráða einstaklingur má gera hvað hann vill við líkama sinn, fá sér tattú eða skera undan sér. Láta undan löngunum sínum, brjóti hann ekki á öðrum.
Börnum og unglingum ætti aftur að halda utan við kynbreytingapælingar byggðar á löngun. Á æskuskeiði er altítt að ein löngun sé ráðandi fyrir hádegi en önnur síðdegis. Hlutverk fullorðinna er að sjá til þess að ungviðið valdi sér ekki óbætanlegum skaða með heimskulegum hugdettum. Kallast uppeldi.
Meðvitundin er órjúfanlega tengd líkama þess sem hana hefur. Tal um þessa og hina vitundina, eins og meðvitundin sé safnhaugur margra vitunda, er merkingarlaust þvaður. Meðvitundin er heil og óskipt hjá þeim sem býr að henni. Meðvitundin er ekki til utan líkamans sem hýsir hana - líkami án meðvitundar er lífvana.
Það er á forræði handhafa meðvitundar að hugsa vitrænt eða vitleysu, ráða við langanir sínar og stilla þeim í hóf eða gefa þeim lausan tauminn. Einstaklingur þræll langana sinna og á valdi ranghugmynda er ekki á góðum stað í lífinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 29. ágúst 2023
Skrítin frétt um hatur og fordóma
Morgunblaðið fjallaði um útilokun Samtakanna 22 frá opinberum vettvangi og hvernig Sigmundur Davíð kom mál- og fundafrelsinu til bjargar og leigði samtökum homma og lesbía sal Miðlokksins.
Frétt Morgunblaðsins um Sigmund Davíð birtist í fyrradag með fyrirsögninni Ógnað fyrir að hýsa fund um mannréttindamál.
Í gær var framhaldsfrétt um málið. Áhugavert, hugsaði tilfallandi lesandi, nú ætlar blaðamaður Morgunblaðsins að fá viðbrögð frá talsmönnum trans-aðgerðasinna sem skipulega reyndu að koma veg fyrir að Samtökin 22 fengu haldið málþing og ógnuðu í ofanálag formanni Miðflokksins fyrir það eitt að leiga fundarsal.
En fréttin í gær, sem er viðtengd blogginu, er hvorki um mál- og fundafrelsi né um trans-hugmyndafræðina. Fyrsta setning fréttarinnar er svohljóðandi:
Formaður Hinsegin daga segir það vera sorglegt ef transhatur verði útflutningsgrein Miðflokksins.
Fréttin í heild sinni er breiðsíða gegn Miðflokknum og formanni hans og meintu ,,transhatri."
Í fréttinni allri er ekki aukatekið orð um málefnið; hvort á Íslandi sé mál- og fundafrelsi til að ræða samfélagsleg málefni. Hvort það sé í lagi að þeim sé úthýst sem efast um transmenninguna.
Transhugmyndafræði vex og dafnar í skjóli þagnar. Börn eru helstu þolendur. Transtalsmenn þræða ekki Rótarýklúbba, fara ekki á Kiwanisfundi eða aðskiljanleg félög fullorðinna með boðskap sinn. Fullorðnir sjá fremur í gegnum blekkinguna en börn og óharðnaðir unglingar. Hjá ungviðinu má aftur fóstra ranghugmyndir.
Tavistock-klíníkinni, sem sérhæfði sig í að breyta líffræðilegu kyni barna, var lokað eftir fjöldamörg dæmi um að börnum hafi verið fórnað á altari hugmyndafræði um að hægt sé að fæðast með líkama af röngu kyni.
,,Mér var breytt í skrímsli," segir ung bandarísk kona, Chloe Cole. Tólf ára var henni talin trú um að hún væri í röngum líkama. Karlhormónum var dælt í stúlkulíkamann og brjóstin skorin af. ,,Trans átti að bjarga mér en eyðilagði líf mitt," segir Chloe.
Allt í nafni hugmyndafræði sem byggir á þeirri firru að sumir fæðist í röngum líkama. Það er líffræðilegur ómöguleiki.
Aftrönsun er það kallað þegar kynbreytt fólk, limlest og bjagað, leitar aftur í kynið sem það fæddist í. Chloe ásamt sex öðrum sat í pallborði þar sem skelfilegar afleiðingar kynbreytinga eru ræddar.
Meðvitundin er í heilabúinu. Þeir sem halda fram að hægt sé að fæðast í röngum líkama eru í raun að segja að nýburi fæðist með rangan heila. Enginn fæðist með rangan heila, ekki frekar en að fólk fæðist með rangan vinstrifót. Nýburi einfaldlega kemur í heiminn og er annað tveggja meybarn eða sveinn. Erfðaefninu verður ekki breytt, konur hafa XX-litninga en karlar XY. Frávikin frá meginreglunni eru læknisfræðilegt úrlausnarefni. (Innan sviga er þess að geta að heili karls er að jafnaði 10% stærri en konuheili. Engum dettur samt í hug að minnka eða stækka heilabúið í transferlinu).
Allir eldri en tvævetra vita að hægt er að hafa hugmyndir um lífið og tilveruna sem standast ekki skoðun. Ranghugmyndir má vinda ofan af enda verða þær til í samfélagi við aðra. Hvorki er hægt að skipta út heila eða líkama til að sigrast á hugsunum sem eru hindurvitni. Opin og frjáls umræða reytir á hinn bóginn fjaðrirnar af firrunum. Falsið verður ekki eins freistandi.
Talsmenn transhugmyndafræðinnar óttast umræðu og saka andmælendur um fjandskap, hatur og fordóma. Það eru menn eins og Sigmundur Davíð, einn örfárra stjórnmálamanna, sem þora að segja upphátt sannindi sem skipta máli. Velferð barna og unglinga er í húfi.
![]() |
Sigmundur ber í bakkafullan lækinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)