Reglur um rætni á RÚV

Um helgina, sjá hér og hér, sagði tilfallandi frá dánarfrétt RÚV um Benedikt heitinn Sveinsson, og viðbrögðum við rætnum athugasemdum í RÚV-fréttinni sem þjónuðu þeim tilgangi að ófrægja og meiða. Heiðar Örn fréttastjóri skrifaði texta sem hann afritaði og límdi inn í nokkra tölvupósta og réttlætti ærumeiðingar. Nú ber svo við að Stefán útvarpsstjóri lætur svo lítið að svara einum tölvupósti vegna málsins. Stefán hyggst setja reglur um leyfða rætni á RÚV. 

Í svari Stefáns er játning, óbein að vísu, að andlátsfregn RÚV sé óverjandi. Stefán biðst þó ekki afsökunar á atlögu fréttastofu að manni er lagði í sína hinstu för.

Lítum fyrst á tölvupóstinn sem var sendur á Stefán um hádegisbil á sunnudag. Þar skrifar maður sem starfaði á RÚV og hefur borið blak af ríkisfjölmiðlinum - þangað til núna. Maðurinn þekkir vel til starfa Benedikts heitins. Hann skrifar:

Eftir þriggja sólarhringa meðgöngu get ég ekki afborið að sitja þegjandi undir fréttaflutningi Ríkisútvarpsins þann 19. september síðastliðinn af andláti Benedikts Sveinssonar, lögfræðings. Sem fyrrum launamaður og þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu fyrir um hálfri öld og af kynnum mínum af því mikilhæfa og faglega fólki, sem ég kynntist þar á bæ á þeim tíma, hef ég borið sterkar taugar til stofnunarinnar og nú í seinni tíð varið hana af fremsta megni, þegar að henni hefur verið vegið. Þar verða nú kaflaskil þó að léttvæg geti talist.

Í morgunfréttatíma Ríkisútvarpsins framangreindan dag var greint frá andláti Benedikts á skýran og hlutlægan hátt [hér er átt við leiðrétta veffrétt, innsk. pv]. Í hádegisfréttum sama dag var á hinn bóginn talin ástæða til þess að bæta um betur og greina því til viðbótar sérstaklega frá því og engu öðru að hinn látni hafi haft óbein áhrif á stjórnmálin með því að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka, sem Alþingi fól syni hans að selja, og að skrifa upp á meðmæli með umsókn dæmds kynferðisafbrotamanns um uppreist æru. Hvernig má það vera að Ríkisútvarpið skuli nú á tímum, þegar menn geta leitað sér æðri menntunar á sviði fréttamennsku, hafa á að skipa þvílíkum starfskrafti, sem hefur þetta eitt fram að færa frá eigin brjósti, þegar greint er frá andláti sómakærs manns á níræðisaldri sem hefur æði margt af mörkum lagt í þjóðarþágu á starfsævi sinni. Ekkert annað hafði Ríkisútvarpið til mála að leggja til viðbótar fyrri fréttafrásögn [sem tekin var úr Morgunblaðinu, innsk. pv]. Hvílík forsmán af hálfu ríkisfyrirtækisins. Og það sem verra er þá verður hún þeim mun meiri, þegar litið er til þess að því skuli bera lögum samkvæmt „að rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.”

Skömm Ríkisútvarpsins er mikil og á henni bera stjórn, útvarpsstjóri og fréttastjóri ótvíræða ábyrgð. Lítilsigldur fréttamaðurinn, höfundur textans, er svo aumkunarverður að ekki er einu sinni hægt að eyða á hann frekari orðum. Framkoma þessi og dómgreindarleysi af hálfu Ríkisútvarpsins er á hinn bóginn með þeim hætti, að manni er gjörsamlega misboðið og verður algerlega fyrirmunað að skilja réttmæti þess að ríkisvaldið skikki skattgreiðendur þessa lands til að halda uppi vinnubrögðum af þessu tagi.

Stefán hafði fengið tölvupósta af sama tilefni allt frá fyrir hádegi á fimmtudag síðast liðinn en látið Heiðar Örn fréttastjóra um að svara. Heiðar Örn varði vinnubrögð fréttastofu, sagði þau réttmæt. Annað hljóð er í strokki Stefáns í hádeginu á sunnudag. Hann viðurkennir að ómakleg og rætin ummæli fréttastofu en ætlar ekki að biðjast afsökunar á þeim. Skoðum svar Stefáns í heild:

Sæll [nafn fellt út] og þakka þér fyrir póstinn og þær athugasemdir og ábendingar sem þar er að finna.

Fréttastofan hefur fengið þónokkrar athugasemdir og kvartanir út af efnistökum og framsetningu umræddrar fréttar. Yfir þær athugasemdir hefur verið farið og texti í veffrétt var lagfærður í kjölfarið. Þá hefur fréttastjóri ákveðið að bregðast við framangreindri gagnrýni með því að setja saman formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu.

Með kveðju,

Stefán Eiríksson

RÚV játar mistök með lagfæringu á fréttinni. Mistökin eru það alvarleg að gefin verða út ,,formleg viðmið" um leyfða rætni í fréttum. Á normal ritstjórnum þarf ekki að stafsetja ofan í fréttmenn að nýlátnum skuli sýnd sú virðing að ata þá ekki auri. En það er ekkert normalt á Efstaleiti. Stjórnandinn þar, Stefán Eiríksson, viðurkennir í einu orðinu alvarleg mistök en neitar að biðjast afsökunar á þeim. Einhver þarf að vekja athygli útvarpsstjóra á að hann stýrir ekki ríkisfjölmiðli með lögheimili í Norður-Kóreu.   


Morgunblaðið skorar á Stefán útvarpsstjóra

Byrlunar- og símastuldsmálið er viðfangsefni leiðara Morgunblaðsins um helgina. Einkum sá þáttur er snýr að RÚV.

Leiðarinn segir að sakborningar í málinu tönnlast á að þeir verji heimildarmann sinn með þögninni, bæði í umræðunni og í skýrslutöku lögreglu. En lögreglan hefur aldrei spurt blaðamenn um heimildarmann. Tilfallandi hefur lesið allar lögregluskýrslur, sem komnar eru til sakborninga og brotaþola, og aldrei spyr lögreglan um heimildarmann.

Hvers vegna?

Jú, lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar 2022, lögð fram í opinberu dómsmáli, sem einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson, höfðaði segir:

Í þessu máli er engin þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína. Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Heimildarmaðurinn er X.

X er fyrrum eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar. Hún hefur játað að hafa byrlað eiginmanni sínum, stolið síma hans og fært blaðamönnum. Eftir afritun símans á Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV, fór konan með símann yfir Bústaðarveg og skilaði á sjúkrabeð eiginmannsins, sem var í lífshættu á gjörgæslu Landsspítalans. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi.

Þegar blaðamennirnir, sakborningarnir, segjast þegja til að koma ekki upp um heimildarmann sinn eru þeir að blekkja. Eins og segir í leiðara Morgunblaðsins:

Blaðamönnum ber að verja heimildarmenn, en vafamál hvort það eigi við þegar lögreglu er kunnugt um hver hann er og rannsakar ekki þann þátt málsins.

Leiðarinn tekur sérstaklega fyrir þátt RÚV í málinu. Engin frumfrétt með vísun í gögn úr síma Páls skipstjóra birtist í RÚV. Stundin og Kjarninn birtu fréttirnar, samtímis morguninn 21. maí 2021. Um þennan hluta málsins segir Morgunblaðið:

Vernd heimildarmanna frétta, sem aldrei voru sagðar, er ekki góð ástæða þess að neita að tjá sig um sakamál. Málið flækist enn ef rétt  reynist að fréttamenn Rúv. hafi  komið gögnunum til annarra miðla. Þá mætti spyrja fyrir hvern þeir hafi í raun verið að vinna, en aðallega þó hvaða heimildarmenn þeir þykist vera að verja með þögninni? Sjálfa sig?

Leiðarinn hittir á auman blett í málsvörn sakborninga. Blaðamenn á RÚV líta á sjálfa sig sem heimildarmenn blaðamanna á Stundinni og Kjarnanum. Með þessum fyrirslætti reyna þeir að komast undan réttvísinni. Lögin um vernd heimildarmann voru ekki sett til að einn blaðamaður geti verið heimildarmaður annars blaðamanns og þannig notið lagaverndar í refsimáli.

Morgunblaðið áréttar að blaðamenn þjóna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Með þessum fyrirvara:

Þeim [blaðamönnum] er samt ekki heimilt að fara út fyrir ramma laganna eða vera naumir á hið sanna. Það þekkja fáir betur en Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, sem sjálfur er fyrrverandi lögreglustjóri. Hvernig sem í málinu liggur er löngu tímabært að Ríkisútvarpið geri hreint fyrir sínum dyrum.

Áskorun Morgunblaðsins til Stefáns útvarpsstjóra að upplýsa vitneskju innanhúss á Efstaleiti um byrlunar- og símastuldsmálið hlýtur að hafa þær afleiðingar að fyrrum lögreglustjóri taki á sig rögg. Yfirmaður ríkisfjölmiðils getur ekki verið þekktur fyrir annað en að bera almannahag fyrir brjósti. 

 

 

 


RÚV einangrast, skrif ættingja og vina

Bloggið í gær, RÚV vegur að nýlátnum manni, er það mest lesna í 20 ára sögu Tilfallandi athugasemda. Viðbrögðin eru öll á einn veg. Fólk skilur ekki hvað RÚV gengur til með rætnum athugasemdum í andlátsfregn. Frétt RÚV birtist í morgunsárið á fimmtudag og var flutt í hádegisfréttum sama dag. Strax um morguninn höfðu vinir og ættingjar Benedikts heitins Sveinssonar samband við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóra.

Tilfallandi fékk leyfi til að birta dæmi um tölvupósta sem kurteist en ákveðið benda á að hér hafi RÚV farið yfir öll velsæmismörk. Enginn tölvupóstanna er frá kjarnafjölskyldu Benedikts heitins. Persónugreinanlegar upplýsingar eru felldar út.

Stefán Eiríksson og Heiðar Örn Sigurfinnsson
Ég get ekki orða bundist yfir lágkúru Ríkisútvarpsins í fréttaflutningi af andláti [ættingja] míns, Benedikts Sveinssonar. Að fréttastofan skuli tilkynna andlát hans og í sömu andrá nefna barnaníðing til sögunnar er með ólíkindum. Annað hvort stafar þetta af lélegum vinnubrögðum fréttamannanna Brynjólfs Þórs Guðmundssonar og Markúsar Þ. Þórhallssonar eða af getuleysi þeirra til að skilja á milli pólitíkur og starfa sinna. Hvort sem er þá eigið þið, Stefán og Heiðar, að hafa manndóm til að biðja fjölskyldu Benedikts Sveinssonar opinberlega afsökunar á þessari framkomu fyrir hönd RÚV. Þar breytir engu þótt búið sé að breyta fréttinni á vef RÚV enda var upprunaleg útgáfa hennar lesin í hádegisfréttum.
Virðingarfyllst

 

Ágæti Útvarpsstjóri
Frétt um andlát Benedikts Sveinssonar í hádegisfréttum í dag finnst mér vera svo ósmekkleg og svo langt fyrir neðan virðingu Útvarps allra landsmanna að engu tali tekur.

Að kasta rýrð á látinn mann á meðan hann hefur ekki einu sinni fengið greftrun er ekki siðaðra manna háttur. Það er ósmekklegt í meira lagi.

Ég hef verið hlustandi RÚV í hartnær 80 ár og verð að viðurkenna að ég minnist tæplega svona lágkúru og að viðeigandi fréttamenn hugi ekki örlítið að virðingu við látinn sómamann, fjölskyldu hans og vini og það innan við tveimur dögum eftir andlátið.

Mér finnst augljóst, að þú, sem æðsti maður Útvarpsins, biðjist afsökunar fyrir hönd fréttamanna og/eða fréttastofunnar.
Með virðingu

Góðan dag Stefán og Heiðar Örn.
Oft hef ég furðað mig, og stöku sinnum hneykslast en  nú get ég ekki orða bundist yfir umfjöllun fréttastofu RÚV - að þessu sinni yfir umfjöllun í hádegisfréttum útvarps um andlát Benedikts Sveinssonar. Einhverra hluta vegna þótti fréttaskrifara Ríkisútvarpsins fara vel á því í örstuttri - kannski 40 sekúndna langri umfjöllun um andlát Benedikts að spyrða hann við dæmdan kynferðisafbrotamann. Það þykir mér óviðeigandi og ómaklegt.

Við [nafn fellt út], eiginkona mín, hlustuðum á þetta í forundran og veltum fyrir okkur hversu langt pólitísk óvild einstakra manna á Ríkisútvarpinu í garð Sjálfstæðisflokksins, og ekki síst í garð Bjarna Benediktssonar, getur dregið menn í foraðið. Býsna langt greinilega.

Ef málið tengdist mér persónulega - ef hér væri um að ræða föður minn - myndi ég fara fram á opinbera afsökunarbeiðni.

Fyrir utan hvernig umfjöllun Ríkisútvarpsins lítilsvirðir minningu nýlátins manns og skapar að ósekju hugrenningatengsl hjá hlustendum Ríkisútvarpsins milli Benedikts Sveinssonar og "dæmds kynferðisafbrotamanns" - nokkuð sem nær ómögulegt er að verjast eða leiðrétta jafnvel þótt raunveruleg málsatvik fengju einhverja umfjöllun - ýtir þess háttar framferði Ríkisútvarpsins undir það eitraða andrúmsloft sem við búum við í opinberri umræðu og fælir marga hæfa einstaklinga frá því að taka þátt og gefa kost á sér í pólitísk embætti. Allt er þetta í litlu samræmi við hlutverk og tilgang Ríkisútvarpsins.
Virðingarfyllst.

Þrátt fyrir tölvupóstana lét RÚV ekki segjast og hélt til streitu að ríkisfjölmiðlinum væri i sjálfsvald sett að fjalla um nýlátinn mann á þann hátt sem lagt var upp með á fimmtudag. Heiðar Örn skrifaði staðlað svarbréf við þessum tölvupóstum, og öðrum, og varði gjörninginn, sjá blogg gærdagsins. Stefán útvarpsstjóri svarar ekki.

Á Efstaleiti er ekki allt í lagi.

 

 

 


RÚV vegur að nýlátnum manni

Almenna reglan í íslenskum fjölmiðlum er að andlátsfregnir eru hlutlægar og tillitssamar, gefa yfirlit yfir fjölskyldu og lífshlaup hins látna. Andlátsfregn er fyrsta fréttin um að samborgari hafi fallið frá. Ættingjar syrgja, vinir minnast. Engin skylda er á fjölmiðlum að birta dánarfrétt, heldur valkvætt. RÚV gerði frétt um andlát Benedikts Sveinssonar lögmanns sem var allt annað en hlutlæg og tillitssöm, sýndi þvert á móti ríkan vilja til að valda miska.

RÚV tók viðtengda andlátsfregn Morgunblaðsins og spann við hana ósmekklegum athugasemdum til að réttlæta fyrri atlögu að mannorði Benedikts heitins og koma höggi á son hans, Bjarna forsætisráðherra.

Aðstandendur Benedikts höfðu samband við fréttastofu RÚV og fóru fram á leiðréttingu og afsökunarbeiðni. Áður en þau samskipti verða rakin er rétt að huga að forsögunni, fyrstu atlögunni að orðspori manns sem féll frá í vikunni.

Haustið 2017 er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Veruleg ókyrrð var í stjórnmálum, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði fallið árið áður. 

Síðdegis 14. september 2017 birtir RÚV frétt með fyrirsögninni Faðir forsætisráðherra ábyrgðist barnaníðing. Fyrirsögnin staðhæfir í einn stað að Benedikt axli ábyrgð á barnaníðingi. Í annan stað gefur fyrirsögn til kynna að Benedikt starfi í umboði sonar síns. Hvorugt er rétt. Benedikt hafði skrifað undir beiðni manns um uppreist æru. Maðurinn hafði 13 árum áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Í réttarríki axla menn ábyrgð á afbrotum með refsingu. Þeir sem skrifa undir beiðni brotamanns, sem tekið hefur út sína refsingu, að hann fái uppreist æru, eru meðmælendur formlegrar beiðni að sá dæmdi fái á ný borgaraleg réttindi sem hann missti við dóminn. Löng hefð var fyrir þessari málsmeðferð.

Nú má deila um hvort Benedikt hefði átt að skrifa undir beiðni dæmds manns að fá uppreist æru. Líkt og kemur fram í yfirlýsingu hans, í lok fréttarinnar auðvitað, er um að ræða mann tengdan kunningjafólki og hafði maðurinn annað slagið beðið Benedikt ásjár - m.a. þessa undirskrift. En að Benedikt þar með ábyrgist barnaníðing er stílfærsla sem ekki stenst skoðun. Enn langsóttara er að gefa til kynna Benedikt hafi skrifað undir í umboði Bjarna forsætisráðherra.

Bellibragð RÚV heppnaðist. Daginn eftir fréttina um Benedikt var ríkisstjórn Bjarna fallin, eins og aðgerðamiðstöðin á Efstaleiti sagði frá sigri hrósandi.

Atburðirnir haustið 2017 eru sagnfræði. Benedikt lést síðast liðið þriðjudagskvöld, dánarfréttin var í fimmtudagsútgáfu Morgunblaðsins. Fréttamenn RÚV tóku frétt Morgunblaðsins og bættu inn í hana frásögnina frá 2017 um undirskrift Benedikts á skjal dæmds manns er beiddist uppreistar æru. Aðstandendur höfðu samband við Stefán útvarpsstjóra og Heiðar Örn fréttastjóra og gerðu athugasemdir við óboðlega framsetningu í andlátsfregn. Undir hádegi var fregnin leiðrétt til að gera hana minna meiðandi. Í hádegisfréttum er þó ekki lagfært meira en svo að nýlátum manni er spyrt við kynferðisbrotamann. Í leiðréttri útgáfu á netinu er efnisgreinin, sem um ræðir, með eftirfarandi upphaf:

Benedikt hafði mikil óbein áhrif á stjórnmál síðasta áratug. Þar bar hæst þegar ríkisstjórn Bjarna, sonar hans, sprakk á haustdögum 2017 innan við ári...  

Benedikt hafði hvorki bein né óbein áhrif á stjórnmálin haustið 2017. Hann var löngu hættur afskiptum af stjórnmálum, eins og kemur fram í yfirliti Morgunblaðsins. Aðgerðafréttamennska RÚV hafði aftur veruleg áhrif, líkt og rakið er hér að ofan.

Stefán útvarpsstjóri svaraði ekki tölvupóstum vegna málsins, eftir því sem næst verður komist. Heiðar Örn skrifaði á hinn bóginn einum aðstandanda eftirfarandi:

Það er mikilvægt að hafa í huga að RÚV flytur ekki minningargreinar um látið fólk en segir hins vegar stundum frá andláti fólks - þá aðallega fólks sem hefur sett svip sinn á samtíð sína. Þegar slíkar fréttir eru sagðar þarf að setja hlutina í samhengi - rifja upp hvernig viðkomandi hafði áhrif á samtíð sína, bein eða óbein. Í þessu tilfelli er ekki hægt að líta fram hjá því að óbein áhrif Benedikts heitins á stjórnmálasöguna voru talsverð. Með því að taka þetta fram er ekki verið að kasta rýrð á látinn mann heldur er einungis verið að rifja upp staðreyndir sem voru mikið í fréttum á sínum tíma. (feitletr. pv)

RÚV valdi sértækt samhengi til að varpa rýrð á nýlátinn mann. Samhengið valdi RÚV til að réttlæta fyrri atlögu að Benedikt heitum Sveinssyni. Staðreyndirnar sem fréttastofan teflir fram eru handvaldar til að ófrægja og meiða. Vinnubrögð ríkisfjölmiðilsins eru til háborinnar skammar.

 

 


mbl.is Andlát: Benedikt Sveinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórður Snær í útgáfu með Vilhjálmi Tortóla-auðmanni

Þórður Snær, fyrrum ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, og sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu, hyggur á nýja útgáfu. Nýmælin kynnti Þórður Snær í þakhýsi Miðeindar við Fiskislóð. Miðeind er í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar sem vann sér til frægðar á mótmæla aflandsfélögum auðmanna á Austurvelli en átti sjálfur Tortóla-félag.

Vilhjálmur varð að segja af sér embætti gjaldkera Samfylkingar er uppvíst varð um tvískinnunginn. Um árabil er Vilhjálmur fjárhagslegur bakhjarl Þórðar Snæs og átti m.a. hlut í Kjarnanum sem rann inn í Stundina eftir að komst upp um RSK-samstarfið að fá andlega veika til óhæfuverka.

Þórður Snær skrifar helst langhunda en hyggst hafa hemil á sér í nýju útgáfunni og kallar hana Kjarnyrt. Orðasalatið verður fáorðara en álíka sannyrt og fyrrum. Til að lenda ekki öfugu megin réttvísinnar ætlar ritstjórinn að einbeita sér að skoðanapistlum; ígildi yfirlýsingar að frétta verði ekki aflað með byrlun og gagnastuldi.

Afturbatapíkan stefnir á þingmennsku, ef ekki fyrir Samfylkingu þá Pírata. Vilhjálmi af Tortóla finnst gott að eiga hönk upp í bakið á ritstjórum og þingmönnum. Fjárfesting í skoðanamyndun og þingmennsku er falið vald. Líkt og aflandsfélag er falið fjármagn.


Heimildarmaðurinn benti á Arnar, þriðja yfirheyrsla Þóru

Fyrrum eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar benti á Arnar Þórisson framleiðanda/pródúsent hjá RÚV sem fyrsta viðtakanda símans sem hún stal af eiginmanni sínum vorið 2021. Arnari er verulega áfátt þegar hann segir á Vísi:

Ég veit ekki alveg hvað hún [lögreglan] vildi vita. Hún náttúrulega bara heldur áfram með það að reyna að fá okkur blaðamenn til að brjóta lög, því eins og þú veist þá gefum við ekki upp heimildarmenn.

Arnar ber það á borð fyrir alþjóð að hann verndi heimildarmann með því að gefa hann ekki upp til lögreglu. Pródúsentinn lætur eins og þar fari einhver huldumaður. En það er öðru nær. Heimildarmaðurinn, fyrrum eiginkona Páls skipstjóra, sagði í sumar í yfirheyrslu lögreglu að Arnar hafi verið maðurinn sem tók á móti henni 4. maí 2021 og fylgdi inn í útvarpshúsið á Efstaleiti. Þar kom Þóra Arnórsdóttir að málum, enda Arnar undirmaður hennar. 

Blaðamenn vernda nafnlausa heimildarmenn. Sumarið 2021 vissi lögreglan að þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal og afhenti blaðamönnum símann samkvæmt skipulagi.

Blaðamaður Vísis, sem tók viðtalið, lét Arnar komast upp með þau ósannindi að heimildarmaðurinn sé ókunnur og nafnlaus og þurfi sérstaka vernd blaðamanna.

Í viðtengdri frétt á mbl.is er fjallað um raunverulegt tilefni þess að Arnar er sakborningur:

Hann [Arnar] sagði að lög­regl­an hefði spurt sig um ým­is­legt sem sím­ann varðaði, svo sem hvort hann hefði haft aðkomu að hvarfi sím­ans og að sím­inn hafi verið opnaður, en Arn­ar kvaðst ekki hafa viljað tjá sig um það.

Hvers vegna ekki að tjá sig um viðtöku á símanum og afritun? Er síminn kannski heimildarmaðurinn í hugarheimi Arnars? Þarf símtæki sérstaka persónuvernd?

Þóra Arnórsdóttir var boðuð í sína þriðju yfirheyrslu í sömu vikunni og Arnar var yfirheyrður. Sakborningar sem fara í þrjár yfirheyrslur hjá lögreglu eru vanalega með marga snertifleti við afbrotið sem er til rannsóknar. Vitað er að Þóra var í reglulegum samskiptum við fyrrum eiginkonu skipstjórans. Mögulega voru fleiri sakborningar yfirheyrðir. Einn þeirra, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni/Heimildinni, var, líkt og Arnar, undirmaður Þóru þangað til þremur dögum fyrir byrlun skipstjórans. Á hádegi 30. apríl 2021 skipti Aðalsteinn um vinnustað, fór af RÚV á Stundina. Þóra yfirmaður Aðalsteins var búin að kaupa síma til að afrita þegar Aðalsteinn fór yfir á Stundina, sem systir hans ritstýrir.  

Byrlunar- og símastuldsmálið virðist vera á lokametrunum í rannsókn lögreglu. Meginatriði málsins liggja fyrir. Blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum, RSK-miðlum, vissu með fyrirvara að von væri á síma skipstjórans. Þóra Arnórsdóttir keypti í apríl Samsung-síma, sömu gerðar og sími skipstjórans. Eiginkonan byrlaði 3. maí. Skipulagið var byrlun, stuldur, afritun og síðan var símanum skilað á sjúkrabeð Páls skipstjóra.

Eftir afritun á Efstaleiti var unnið með gögnin úr símanum. Skálduð var sú frétt að innan Samherja starfaði skæruliðadeild. Tvær útgáfur voru skrifaðar af sömu fréttinni og sendar til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. RÚV frumbirti enga frétt. Á Stundinni og Kjarnanum birtist samtímis tvær útgáfur sömu fréttar morguninn 21. maí 2021. Á Stundinni var Aðalsteinn Kjartansson skrifaður fyrir fréttinni en frétt Kjarnans er merkt Þórði Snæ og Arnari Þór. Allir þrír fengu verðlaun Blaðamannafélagsins fyrir athæfið. Allir þrír eru sakborningar.

Samkvæmt skipulagi sá RÚV um að fylgja eftir fréttum Stundarinnar og Kjarnans. Fréttamenn RÚV ráku hljóðnemann upp í stjórnmálamenn og áhrifavalda með þessa spurningu: finnst þér ekki voðalegt að Samherji starfræki skæruliðadeild? Reiðibylgju í samfélaginu var hrundið úr vör. Til þess var líka leikurinn gerður.

Fréttin um Arnar er á öllum fjölmiðlum í gær og fyrradag: mbl.is, vísir, Mannlíf og DV. Ekki fyrr en í gærkvöldi um kl. níu sagði RÚV fréttina. Í ítarlegri frétt tókst RÚV að þegja um þriðju yfirheyrsluna yfir Þóru. Haft er eftir Arnari að þar sem Þóra og Kveikur hefðu ekki birt neina frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans væri málið hrunið ,,eins og spilaborg." Lögreglan rannsakar ekki fréttaflutning heldur byrlun, símastuld og hvernig farið var með stolin gögn. RÚV birti enga frumfrétt og það stóð aldrei til. Glæpaleiti er miðstöðin í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þar var sími skipstjórans afritaður og fréttir samdar til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Allt samkvæmt skipulagi.

Enn er opin spurning hvaða lögbrot verða sönnuð á sakborninga. Þeir voru fyrst boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022 en mættu ekki fyrr en í ágúst. Á þeim tíma kepptust þeir að eyða sönnunargögnum. Botnlaust siðleysi blaðamanna er aftur öllum ljóst. Fyrrum eiginkona skipstjórans hefur um árabil glímt við alvarleg andleg veikindi. Bágindi hennar nýttu blaðamenn sér af fullkomnu miskunnarleysi.


mbl.is Yfirframleiðandinn kominn með stöðu sakbornings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símboðar og skilaboð

Síðdegis í gær lamaðist stjórnkerfi Hisbollah-hryðjuverkasamtakanna í Líbanon er þúsundir símboða sprungu samtímis innan klæða liðsodda hryðjuverkamanna. Símboðar eru lítið tæki, minni en spilastokkur, sem hringt er í við bráðavá. Tækin voru, og eru jafnvel enn, notuð á sjúkrahúsum að kalla lækna og hjúkrunarlið á bráðadeild.

Hisbolla-samtökin nota símboðana til að kalla liðsmenn saman í skyndi. Hversdags er þorri hryðjuverkamannanna við dagleg borgaraleg störf en er símboðinn tifar og tístir er það herkvaðning. En nú bar svo við að einhver, líklegast ísraelska leyniþjónustan, hafði komið fyrir sprengiefni í þúsundum símboða Hisbolla-manna. Hvernig veit enginn. Tilgáta um að Ísraelar búi yfir aðferð til að valda sprengingu í rafhlöðum símboða er langsótt.

Ef gefið er að Ísraelsmenn standi að baki og tilviljun hafi ekki ráðið hvenær símboðarnir sprungu var atvikið í gær upphaf að stórárás Ísraelshers á Hisbolla í Líbanon. Gabi Taub, ísraelskur sagnfræðingur og myndbloggari, segir fyrsta skrefið í stórárás sé að lama stjórnkerfi andstæðingsins. Það hafi verið gert í gær. Sé það raunin ættu að hefjast hernaðaraðgerðir í beinu framhaldi. Annar möguleiki er að Ísraelar bíði eftir hefndaraðgerðum Hisbolla og noti þær til að réttlæta víðtækan hernað.

Enn er sú kenning að árásin á Hisbolla hafi verið gerð í gær til að sýna stafræna yfirburði Ísraela og valda úlfaþyt í herbúðum hryðjuverkamanna.

Aðgerðin tók langan tíma að skipuleggja. Hún verður ekki endurtekin. Margra mánaða undirbúningur þjónaði stærri tilgangi. Í morgun kom fram sú tilgáta að leyniaðgerð Ísraelsmanna hafi verið afhjúpuð. Í gær varð að beita vopninu ellegar færu símboðarnir í ruslið ósprengdir. Tímasetningar á skilaboðum eru stundum þaulhugsaðar en geta einnig verið tilviljun eða handvömm. 

 


mbl.is Sprengingar: Átta látnir og hátt í þrjú þúsund særðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir vara við Róbert Spanó og aðgerðalögfræði hans

Lögmaðurinn og fyrrum forseti Mannréttindadómsstóls Evrópu, Róbert Spanó, er til umfjöllunar í danskri umræðu um hvort Danir ættu að segja sig frá lögsögu dómstólsins. Í nýlegri bók og og blaðagrein er vitnað í Spanó sem aðgerðalögfræðing. 

Danir ræða útgöngu frá Mannréttindadómstólum til að endurheimta forræði dómsmála, einkum hvað útlendingamál varðar. Mannréttindadómstóllinn er ekki hluti af stofnanaveldi ESB. Dómstólinn er með 46 aðildarríki sem tilefna dómara. Í dönsku greininni, sem hér er til umfjöllunar, segir að ,,dómstóllinn sé samsuða af hefðum, menningu, pólitík, réttarkerfi, siðvenjum, efnahag og félagsgerð 46 landa en skilar samt einni niðurstöðu í hverju máli." Afgreiðsla dómsins sé einatt ,,skapandi" lögfræði á pólitískum forsendum.

Í samsuðunni er þó rauður þráður og þar kemur Spanó til skjalanna sem fyrrum forseti dómstólsins 2020-2022. Danska greinin vísar í bók sem kom út í Danmörku síðsumars og segir:

Viðhorf Spanó er ,,að Mannréttindadómstóllinn á samkvæmt skilgreiningu að takmarka framgang vilja meirihlutans. Og áfram að dómstóllinn ,,er settur á laggirnar til að valda meirihlutanum gremju. Það er kjarninn í okkar starfi."

Á dönsku: Spanos holdning er, ”at Menneskerettighedsdomstolen per definition skal indføre begrænsninger for flertallets synspunkt.” Og videre, at Domstolen ”er skabt til at skabe frustration hos flertallet. Det er essensen af vores job.

Meirihlutinn sem talað er um í dönsku greininni er þjóðarviljinn í 46 aðildarríkjum dómstólsins. Spanó, samkvæmt dönsku greininni og bókinni sem vísað er í, segist starfa eftir þeirri réttarheimspeki að ómerkja þjóðlegan meirihlutavilja, sem er niðurstaða lýðræðislegra kosninga. Spanó og félagar hafa ekkert umboð frá almenningi, en þeir hafa vald til að hnekkja niðurstöðum lýðræðislegra stjórnarhátta.

Greiningin á Spanó á dönsku fellur eins og flís við rass að framferði hans í íslenskum málefnum. Spanó var aðalhöfundurinn að falli Sigríðar Andersen sem dómsmálaráðherra 2019 og meðhöfundur atlögu Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að Guðrún Hafsteinsdóttur sitjandi dómsmálaráðherra.

Sigríður útskýrði í svari til fjölmiðla plottið að fjarlæga úr embætti Helga Magnús vararíkissaksóknara, sem hafði sjálfstæðar skoðanir, meira í takt við almenning en Sigríður þoldi. Á RÚV er haft eftir Sigríði að ,,sérfræðingar" hefðu átt að úrskurða hvort Helgi Magnús héldi starfinu eða ekki. Og hvaða sérfræðingar sætu í nefndinni? Jú, auðvitað Róbert Spanó og aktívistalögfræðingar af sama sauðahúsi.

Plottið gegn Helga Magnúsi og atlagan að Guðrúnu dómsmálaráðherra er hönnuð atburðarás óreiðufólks með prófgráður. 

 

 


Misheppnuð vók-bylgja Spanó og Sigríðar saksóknara

Vinstrimenn sérhæfa sig í reiðibylgjum á fjöl- og samfélagsmiðlum. Þegar vel tekst til sópar reiðibylgjan málefnalegum rökum út af borðinu. Eftir stendur sigri hrósandi vók-liðið. Vinstrinu er tekið að förlast í fréttahönnun og reiðibylgjum, sé tekið mið af afdrifum andófs Róberts Spanó lögmanns og Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara gegn Guðrún dómsmálaráðherra.

Guðrún ráðherra dómsmála tilkynnti síðdegis 9. september að hún yrði ekki við beiðni Sigríðar ríkissaksóknara að veita Helga Magnúsi vararíkissaksóknara lausn frá störfum. Sema Erla Sólaris innflytjandi hælisleitenda hafði krafist að Helgi Magnús yrði beittur viðurlögum fyrir að gagnrýna innflutning ofbeldismanna. Sigríður ríkissaksóknari gerði málstað Semu Erlu að sínum.

Þrem dögum eftir úrskurð Guðrúnar ráðherra birti lögmaðurinn Róbert Spanó, innmúraður vinstrimaður, harða gagnrýni á ráðherra. Spanó sérhæfir sig í að ganga á milli bols og höfuðs á kvenkyns dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins og í leiðinni grafa undan tiltrú almennings á réttarríkið.

Grein Spanó var upphafsskotið. Nú var ræs, allir vinstrimenn upp á dekk til gera óskunda í umræðunni. Sigríður ríkissaksóknari fylgdi eftir og úthlutaði skotfærum á Vísi og RÚV. Deila, dreifa og fordæma voru skilaboðin. Látið rísa stafræna hamfarabylgju.

Sígilt skipulag á upphlaupi sem skyldi sauma að Guðrún. Samspil Spanó og Sigríðar gekk út á að aðrir kæmu í kjölfarið, álitsgjafar og stjórnmálamenn. RÚV flytti raðfréttir, neikvæðar í garð Guðrúnar ráðherra, og eftir nokkra daga fár myndi einhver krefjast afsagnar hennar, - sem einnig yrði frétt.

En vók-bylgjan gegn Guðrúnu ráðherra fjaraði snöggt út, varð aldrei meira en Spanó-gárur og Sigríðar.

Hvers vegna fataðist elítu-vókinu flugið í stafrænni atlögu að Guðrúnu ráðherra?

Svarið er tvíþætt. Í fyrsta lagi málsstaðurinn og í öðru lagi veik staða RÚV. 

Byrjum á málstaðnum. Innflutningur hælisleitenda til Íslands vekur vaxandi tortryggni. Jafnvel ráðherra Vinstri grænna spyr hvort útlendingar séu orðnir of margir. Af útlendingum eru hælisleitendur síst líklegir til að aðlagast íslensku samfélagi. Hælisleitendur eru sennilegri en aðrir erlendir að sigla undir fölsku flaggi.

Þá er það RÚV, sem er miðlægt afl í vók-bylgjum vinstrimanna. RÚV er meira og minna lamað í aðgerðafréttamennsku þessi misserin. Demóklesarsverð byrlunar- og símastuldsmálsins hangir á örþræði yfir Efstaleiti. Yfirmenn RÚV, einkum Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri, eru með lífið í lúkunum að frekari upplýsingar komi fram sem tengi byrlun og símastuld við ríkisfjölmiðilinn. Þeir vita sem er að á hverri stundum gæti brostið á fár þar sem aðild RÚV að alvarlegum afbrotum er miðja stormsins.  Staða RÚV er veik, sjálfstraustið er í lágmarki. Stofnunin undirbýr að berjast fyrir lífi sínu. Virk aðild að vók-bylgju Spanó og Sigríðar væri of áhættusöm við ríkjandi kringumstæður.

Skötuhjúin Spanó og Sigríður eru í vanda, Sigríður þó sýnum meiri. Spanó getur látið sig hverfa í lögmennsku og akademíu. Sigríður reiddi hátt til höggs er hún spann dómsmálaráðherra pólitískt tilræði. Höggið geigaði, spuninn reyndist hálmstrá. Veturinn verður langur Sigríði ríkissaksóknara. Góðu heilli situr í embætti vararíkissaksóknara maður með trausta dómgreind.

 

 

 


Lyfja sig í geðrof og maníu

Íslendingar nota ADHD-lyf í meira mæli en þekkist í samanburðarlöndum. Lyfin geta valdið alvarlegum geðkvillum samkvæmt viðtengdri frétt. 

Hann [Oddur Ingimarsson, geðlæknir] og fleiri meðferðaraðilar á geðdeild Land­spít­al­ans hafi tekið eft­ir því að meira væri um slík veik­indi [geðrof og manía] á geðdeild­inni í tengsl­um við ADHD-lyfjameðferð en áður. Einnig hafi fleiri til­felli geðrofs komið upp í tengsl­um við notk­un ADHD-lyfja þar sem hann starfar við end­ur­hæf­ingu ungs fólks á Laug­ar­ási.

Oddur er ekki eini geðlæknirinn til að vekja máls á ótæpilegri notkun ADHD-lyfja. Fyrir ári skrifaði í Læknablaðið Óttar Guðmundsson geðlæknir:

Æ fleiri með lítil einkenni leita eftir greiningu og tilheyrandi lausnum á vandamálum daglegs lífs sem nú eru túlkuð sem ADHD-einkenni. [...]

Þetta fólk vill lyf til að geta bætt lífsgæðin og náð betur utan um lífið. Mér finnst eins og samfélagið sé að uppgötva á nýjan leik töframátt örvandi lyfja. [...]

Sú flökkusaga komst á kreik að ekki væri hægt að misnota lyfið en læknar vita af biturri reynslu að það er þvættingur.

Ástæða er að staldra við og endurmeta greiningu og meðferð ADHD er á daginn kemur að oflækning gerir illt verra.

 


mbl.is Vilja umræðu um ADHD byggða á gögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband