Blaðamenn þegja í skömm

Hjálmar Jónsson fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, BÍ, skrifar grein á Vísi um stöðu mála hjá félaginu:

Tugmilljóna lögfræðikostnaður félagsins á síðasta ári er auðvitað algerlega út úr kortinu og jafngildir áratuga lögfræðikostnaði félagsins á árum áður. Hver tekur lögfræðing, sem tekur 35 þúsund krónur á tímann, með sér á samningafundi?! Ég þekki þess engin önnur dæmi.
Óráðsían er algjör. Og til þess að standa undir henni hafa réttindi félagsmanna verið skert stórlega og iðgjöld hækkuð.

Hjálmar þjónustaði BÍ um árabil, fyrst sem formaður en síðar framkvæmdastjóri. Sigríður Dögg formaður rak Hjálmar eftir að hún varð uppvís að skattsvikum og varð að hætta sem fréttamaður á RÚV. Tilfallandi rakti þá sögu.

Enginn blaðamaður tekur Vísis-grein Hjálmars til athugunar, hvorki í frétt né skoðanagrein. Blaðamenn vita að fyrrum formaður þeirra og framkvæmdastjóri fer með rétt mál.

Undir forystu Sigríðar Daggar er stéttafélag blaðamanna ekki svipur hjá sjón, bæði fjárhagslega og faglega.

Fyrir ári efndi Sigríður Dögg til auglýsingaherferðar í þágu blaðamennsku. Eitt orð, heiðarleiki, var aldrei notað í herferðinni. Skattsvik eru ekki heiðarleg. Ekki heldur er heiðarlegt að verja siðlausa blaðamenn, sem eiga aðkomu að byrlun og gagnastuldi. 

Í málsvörn fyrir siðlausu blaðamennina í byrlunar- og símamálinu laug Sigríður Dögg ásökunum upp á lögregluna, eins rekið er í tilfallandi bloggi.

Blaðmenn þegja í skömm þegar málefni formanns Blaðamannafélags Íslands ber á góma.

 

 


Hópnauðgarar með íslenskan ríkisborgararétt

Inngangurinn að frétt sem ætlað er að upplýsa hópnauðganir hér á landi hljómar svona:

Af þeim sex hópnauðgunum sem hafa verið kærðar á árinu eru grunaðir gerendur erlendir ríkisborgarar í þremur tilvikum og menn með íslenskan ríkisborgararétt grunaðir í hinum þremur tilvikunum.

Orðalagið gefur til kynna að í öllum sex tilvikum sem hópnauðgun er kærð eru meintir gerendur útlendingar - en í helmingi tilfella eru útlendingarnir komnir með íslenskan ríkisborgararétt.

Hópnauðgun er alvarlegra brot en nauðgun eins geranda. Einn gerandi er slæmt eintak, tveir eða fleiri saman eru til marks um þjóðfélagsástand. Hópnauðgun vísar til ásetnings, samráðs og skipulags. Tveir eða fleiri karlar leggja á ráðin um hvernig skuli að verki staðið. Þeir finna bjargarlausar konur til að koma fram vilja sínum. 

Við hópnauðgun vaknar spurning menningu, eða öllu heldur ómenningu, gerenda. Ef t.d. tveir er fleiri íslenskir karlar hópnauðga yrði spurt um félagslegan bakgrunn þeirra í leit að skýringum á glæpnum. Er eitthvað í sameiginlegu umhverfi gerendanna er hvetur til glæps af þessu tagi?

Stæk kvenfyrirlitning er ein breytan sem þarf að skoða. Kvenfyrirlitning er menningarbundin.

Danir hafa áttað sig á að afbrotatíðni er ólík milli danskra þjóðfélagshópa. Danskar hagtölur um glæpi skipta íbúum Danmerkur í fjóra flokka:

Danskur uppruni

Vestrænir innflytjendur

Innflytjendur frá öðrum ríkjum en vestrænum

Múslímskir innflytjendur

Á daginn kemur að múslímskir innflytjendur fremja glæpi í Danmörku langtum oftar en hinir þrír þjóðfélagshóparnir, margfeldið er 2,5 til 3,5. Önnur kynslóð múslímskra innflytjenda, þ.e. einstaklingar aldir upp í Danmörku af múslímskum innflytjendum, eru stórum líklegri að brjóta af sér en samanburðarhópar.

Danir áttuðu sig að til að ræða af viti um innflytjendur og glæpi þarf upplýsingar. Hér á landi er farin leið kennd við strútinn, höfðinu er stungið í sandinn. Á meðan er nauðgað í hópum.

 


mbl.is Útlendingar grunaðir í helmingi hópnauðgana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úkraína: engin leið að hætta

Verði Úkraínustríðið ekki leyst við samningaborðið ráðast úrslitin á vígvellinu. Hvorugur stríðsaðili lætur bilbug á sér finna. Stórorustur sem skilja á milli feigs og ófeigs eru fáar og langt á milli þeirra. Hæg framsókn Rússa í landmesta landi Evrópu, fyrir utan Rússland sjálft, þýðir að stríðið, með núverandi takti, gæti staðið næstu þrjú til fimm árin.

Ógæfa Úkraínu er að framtíð landsins er að mestu ákveðin í Washington annars vegar og hins vegar London, Berlín og París. Til skamms tíma var samhugur milli Bandaríkjanna og ESB-Evrópu að styðja Úkraínu. Samstaðan rofnaði við forsetakjör Trump. Sitjandi Bandaríkjaforseti telur stríðið ekki þjóna bandarískum hagsmunum og vill frið.

Við núverandi aðstæður er engin von um friðarsamninga nema Rússar fái í sinn hlut um eða yfir 20 prósent af úkraínsku landi. Selenskí forseti getur ekki gengið að þeim kjörum enda sterk öfl í landinu er telja slíka samninga landráð. Ekki er að sjá að verulegrar stríðsþreytu gæti hjá almenningi í Úkraínu. Menn á herskyldualdri flýja að vísu landið unnvörpum en fáar ef nokkrar fréttir eru af ókyrrð meðal almennings. Sama gildir um Rússland, nema að herkvaðning ungra karla gengur þar mun betur en í Úkraínu.

Á meðan þjóðirnar sem glata flestum mannslífum, Úkraínumenn og Rússar, setja valdhöfum ekki stólinn fyrir dyrnar er viðbúið að hildarleikurinn haldi áfram.

Vonir manna, eða ótti, að Trump myndi knýja fram frið á skömmum tíma, fyrstu 100 dagana í embætti, hafa dvínað. Yfirlýsingar forsetans hafa ekki sömu þyngd og í fyrstu þar sem eftirfylgni skortir. Orð eru ódýr, efndir kosta fórnir. Trump er kominn í sjálfheldu með marglofaða friðarsamninga. ESB-Evrópa, plús Bretland, vonast til að Bandaríkjaforseti gerir stríðið að sínu og taki upp háttu forvera síns. Það gæti orðið raunin. Trump, ólíkindatól sem hann er, gæti einnig tekið róttæka ákvörðun, yfirgefið Úkraínu og sagt stríðið evrópskan héraðsríg Bandaríkjunum óviðkomandi.

Úkraínustríðið er síðbúið uppgjör kalda stríðsins. Sovétríkin féllu fyrir rúmum 30 árum. Rússland stóð eftir og gat mátað sig við stærstu Evrópuríkin og bjó yfir kjarnorkuvopnum. Stækkun Nató í austurveg var aðferð Bandaríkjanna og ESB-Evrópu að þrengja kost Rússlands. Þegar komið var að Úkraínu sögðu Rússar hingað og ekki lengra. Andmæli Rússa voru að engu höfð og ekki talið að efndir fylgdu orðum. Vestrið mislas staðfestu Rússa. Úkraína var boðin velkomin í Nató árið 2008. Eftir það braust út nýtt kalt stríð sem varð heitt í febrúar 2002 - með innrás Rússa.

Verkefni ESB-Evrópu eftir Úkraínustríðið er að finna leið að lifa með sterku Rússlandi. Betur að það hefði verið gert fyrir 15 árum eða svo. 

 


mbl.is Trump: Vladimír hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Transþögn íslenskra ráðherra og fjölmiðla

Kvengervill, þ.e. karl sem þykist kona, er ekki kona, segir hæstiréttur Bretlands í nýlegum úrskurði. Annað orð yfir kvengervil er transkona. Í viðtengdri frétt segir að Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands telji ekki lengur að transkona sé kona, heldur þykjustukona. Áður en dómur hæstaréttar Bretlands féll var Starmer þeirrar skoðunar að transkona, þ.e. karl í þykjustuleik, væri í raun kona.

Eins og nærri má geta velta breskir fjölmiðlar sér upp úr mótsögnum sem breski forsætisráðherrann er uppvís að, sjá t.d. hér og knýja hann til að játa að hafa látið vókhugmyndafræðina bitna á konum og kvenréttindum.

Úrskurður hæstaréttar Bretlands, að þykjustukonur séu ímyndun og líffræðilegar konur séu einu konurnar sem standa undir nafni, og umpólun Starmer forsætisráðherra, ættu að kalla á spurningar íslenskra fjölmiðla til íslenskra ráðherra.

Hvers vegna eru Kristrún, Þorgerður Katrín, Inga, Hanna Katrín og Þorgerður ekki spurðar um skilgreininguna á konu? Eru þær sammála hæstarétti Bretlands að líffræði skilgreini konur eða telja þær að karlar geti orðið konur með einfaldri yfirlýsingu: ég er kona?

Það má bóka, að hefði hæstiréttur Bretlands úrskurðað á hinn veginn, að karlar geti orðið konur, væri umræðan á Íslandi yfirfljótandi um réttindi karlkvenna til að fá aðgang að kvennaíþróttum, kvennasalernum, búningsklefum kvenna, kvennafangelsum, kvensjúkdómadeildum og mæðraþjónustu. 

Hvers vegna þessi viðkvæmni fjölmiðla og ráðamanna um þau sjálfsögðu sannindi, sem hæstiréttur Bretlands staðfesti, að konur eru þær einar sem fæðast kvenkyns?

Fyrir ári skrifað tilfallandi blogg um skilgreiningu fyrrum forsætisráðherra Bretlands. Tony Blair er ekki í vafa um hvað ræður kyni. Konur hafa sköp en karlar lim. Í færslunni sagði jafnframt:

Transheimskan fær útbreiðslu á tíma samfélagsmiðla. Efnislegur veruleiki, þaulprófaður frá örófi alda, varð um tíma að feimnismáli eftir að fámennur hópur sérvitringa taldi sig ofsóttan af heilbrigðri skynsemi og fékk með sér samúðarbylgju á samfélagsmiðlum. Nýju fötin keisarans voru að kyn sé huglægt. En sérhver með hálfa hugsun eða meira veit að hún er kynlaus. Hugsun er óefnisleg. Kyn er aftur efnisleg og áþreifanleg staðreynd. Tilfinningar s.s. ást, afbrýði og gleði eru af sömu ástæðu kynlausar.

Hugsun og tilfinningar eiga uppsprettu í skrokki sem frá fæðingu er annað tveggja kvenkyns eða karlkyns. Líkamanum fylgir engin nauðhyggja, að kona eigi að hugsa á þennan veg en karl á hinn veginn. Hugsun er valfrjáls, sumir verða hugfangnir af vitleysu. 

Einstaklingur sem segist af röngu kyni lýsir ómöguleika. Hann gæti allt eins lýst yfir að vera ekki spendýr. Hugur ræður hvorki kyni né tegund. 

Nú, ári síðar, staðfestir hæstiréttur Bretlands heilbrigða skynsemi. En íslenskir fjölmiðlar láta eins og breskar konur séu þær einu sem skuli njóta líffræðilegrar skilgreiningar. Með því að íslenskir fjölmiðlar heimfæra ekki niðurstöðu hæstaréttar Bretlands á íslenskar aðstæður og spyrja ekki íslenska ráðamenn um skilgreininguna á konu gefa hérlendir fjölmiðlar til kynna að íslenskar konur skuli ekki njóta sömu réttinda og þær bresku.

Eru Samtökin 78 skuggastjórnendur íslenskra fjölmiðla? er nýleg tilfallandi spurning. Transþögnin um dóm hæstaréttar Bretlands og fréttaþurrðin af afstöðu ráðamanna hér á landi gefa eindregið til kynna að svarið sé já, Samtökin 78 eru skuggastjórnendur íslenskra fjölmiðla.

 


mbl.is Telur trans konur ekki vera konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 20 m.kr. lögfræðikostnaður Sigríðar Daggar

Afkoma Blaðamannafélags Íslands, BÍ. versnaði um rúmlega 50 milljónir króna á milli ára. Stórfelld útgjöld vegna lögfræðiþjónustu vega þungt í rekstri BÍ. Sigríður Dögg formaður BÍ getur illa staðið í stafni stéttafélagsins og kaupir sér skálkaskjól lögmanna sem koma fram fyrir hönd félagsins.

Tvö mál eru Sigríði Dögg formanni sérlega þung í skauti. Í fyrsta lagi hennar eigin skattamál. Hún stakk undan skatti tugum milljónum króna þegar hún stundaði umsvifamikla AirBnB-útleigu. Upp komst um skattsvikin síðsumars 2023 en formaður BÍ neitaði að tjá sig við fjölmiðla um málavöxtu. Sigríður Dögg, þá fréttamaður RÚV og formaður BÍ, missti starfið hjá RÚV vegna skattamálsins. Til að tryggja sér laun rak Sigríður Dögg Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra BÍ og settist sjálf i stól hans. Hjálmar greindi frá sinni afstöðu til formennsku skattsvikara í stéttafélagi blaðamanna:

Það liggur fyrir í samtölum mínum við núverandi formann að hann er sekur um að skjóta tekjum undan skatti í þrjú ár. Það hefði ekki komist upp nema vegna þess að skattyfirvöld kölluðu eftir upplýsingum frá Airbnb og fengu um síðir. Að telja ekki fram tekjur til skatts í eitt ár getur verið mistök, í tvö ár kannski heimska, en í þrjú ár samfleytt hlýtur að teljast einbeittur brotavilji.

Lögfræðilegur herkostnaður við að reka Hjálmar er ekki undir 14 milljónir króna.

Seinna málið sem skrúfar upp lögfræðikostnað BÍ er byrlunar- og símamálið. Sigríður Dögg varð formaður BÍ vorið 2021, en þá var Páli skipstjóra Steingrímssyni byrlað, síma hans stolið og afritaður á vinnustað Sigríðar Daggar - RÚV. Þeir sem tryggðu sigur Sigríðar Daggar í formannsslagnum vorið 2021 komu úr RSK-miðlum, RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Fréttamenn á þessum þrem fjölmiðlum eru grunaðir um aðkomu að glæpnum gegn skipstjóranum.

Á formannstíð sinni hefur Sigríður Dögg ráðstafað ótöldum milljónum króna Blaðamannafélags Íslands í þágu sakborninga í byrlunar- og símamálinu. Til dæmis mætti lögmaður, á tímakaupi hjá BÍ, í pallborðsþátt á Vísi með tveim sakborningum. Sami lögmaðurinn mætti fyrir hönd Sigríðar Daggar í Spursmálsþátt Moggans. Lögmaðurinn sem um ræðir, Flóki Ásgeirsson, fylgdi einum sakborninganna í byrlunar- og símamálinu, Aðalsteini Kjartanssyni, í lögregluyfirheyrslu haustið 2022. Aðalsteinn var þá varaformaður BÍ, hægri hönd Sigríðar Daggar. Þau voru samstarfsmenn á RÚV vorið 2021, þegar Sigríður Dögg varð formaður og Aðalsteinn komst í illa fengin símagögn.

Skattamál Sigríðar Daggar annars vegar og hins vegar byrlunar- og símamálið ríða fjárhag Blaðamannafélags Íslands á slig. Hvað faglegan trúverðugleika blaðamanna áhrærir má vitna í fyrrnefnda grein Hjálmars Jónssonar sem var rekinn fyrir að standa í ístaðinu:

Þetta er ekki mitt mál og ömurlegt að þurfa að koma að svona lágkúru. Orðstír Blaðamannafélagsins er hins vegar mitt mál og þau gildi sem Blaðamannafélagið stendur fyrir. Ég hef notið trúnaðar blaðamanna og félagsmanna í BÍ til að starfa fyrir þá í tæpa fjóra áratugi og það er ekki í myndinni að bregðast þeim trúnaði. Formaður Blaðamannafélags Íslands þarf að hafa hreinan skjöld; svo einfalt er það. Það sorglega er að núverandi formaður hefur tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni félagsins. Það er til skammar fyrir núverandi formann og þá sem hafa lagt hönd á plóg.

Blaðamenn láta yfir sig ganga að formaður þeirra er skattsvikari og verðlaunuðustu félagsmenn BÍ eru grunaðir um alvarlegan glæp. Er einhver ástæða að taka mark á blaðamönnum sem hreyfa hvorki legg né lið til að upplýsa spillingu og lögbrot sem framin eru í nafni stéttarinnar? Vel að merkja: eini fjölmiðlablaðamaðurinn sem gert hefur byrlunar- og símamálinu skil, Stefán Einar á Morgunblaðinu, er ekki félagsmaður Blaðamannafélags Íslands.


mbl.is Tugmilljóna tap blaðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-tollar snilldarbragð eða brjálæði

Dálkahöfundur Telegraph, hlynntur frjálsri verslun, segir Trump-tolla snilldarbragð sem líklega heppnist. Liam Halligan, dálkahöfundur Telegraph, segist fyllast hryllingi yfir mögulegu tollastríði. En Halligan telur meiri línur en minni að tollastríðið sem Bandaríkjaforseti efndi til verði afstýrt og Trump fái sigur. Lykilsetning i grein Halligan er eftirfarandi:

Grunnsannindi eru að um árabil hafa mörg stór hagkerfi, ekki síst Kína og ESB, lagt tolla á vörur frá Bandaríkjunum sem eru hærri, stundum mun hærri, en tollar sem Bandaríkin leggja á vörur frá þessum hagkerfum.

Í hávaðanum af Trump-tollum vilja þessi grunnsannindi gleymast, að tollar á bandarískar vörur eru iðulega hærri, stundum margfalt hærri, en þeir tollar sem Bandaríkin leggja á innflutning frá öðrum ríkjum.

Ef tollar valda skaða, eins og hagfræðin kennir, hljóta allir tollar að vera til óþurftar, ekki aðeins Trump-tollar.

Yfirlýst markmið Trump er að jafna leikinn, að tollar verði sambærilegir á milli Bandaríkjanna og viðskiptaþjóða. Hljómar ekki ýkja byltingarkennt.

Halligan segir viðræður bandarískra stjórnvalda við ríki eins og Japan, Indland og Suður-Kóreu ganga út á að einangra Kína og líklegt sé að þær viðræður skili árangri. Dálkahöfundurinn þykist viss í sinni sök að fyrstu tollasamningar Trumpstjórnarinnar verði við Bretland. Það gæti gerst innan næstu tveggja til þriggja vikna. Vitnað er í orð varaforseta Bandaríkjanna, J. D. Vance og heimilda í Hvíta húsinu fyrir væntum tollasamningum Bretlands og Bandaríkjanna.

Dálkahöfundur Telegraph er í minnihluta hagspekinga er gefa álit á Trump-tollum. Fæstir líta á tollastríðið sem snjallt bragð til að jafna vöruskiptajöfnuð Bandaríkjanna og endurræsa innlenda framleiðslu. Allur þorri óttast að varanlegar hörmungar, efnahagslegar og pólitískar, hljótist af tiltekt Trump í tollamálum. Í haust, síðasta lagi næsta vetur, ætti lýðnum að vera ljóst hvort Trump-tollar séu til marks um snilling eða brjálæðing.

 

 

 


Efnið, frjáls vilji og guð

Efnishyggjumaður trúir hvorki á guð né frjálsan vilja, aðeins efni. Lögmál, ekki öll þekkt, útskýra efni, hvað það er og hvernig það hegðar sér í fortíð, nútíð og framtíð. Sabína Hossenfelder útskýrir afstöðu efnishyggjumannsins til frjáls vilja. Sabína er ekki kverúlant með sérvisku; hún fær sæti á pallborði með Roger Penrose og Salvoj Zizek.

Efnishyggja er ráðandi í vísindum og frekust til fjörsins að útskýra heimsmynd okkar síðustu 150 árin eða svo. Efnishyggju fylgir nauðhyggja, hlutir eru eins og þeir eru af nauðsyn. (Innan sviga: skammtafræði gefur eilítið svigrúm fyrir tilviljun, sbr. útskýringu Sabínu).

Tvöföld afneitun, á frjálsum vilja og guði, er forsenda efnishyggju. Á yfirborðinu, í það minnsta, er frjáls vilji og guð óskyldir hlutir. Guð gæti verið til með eða án frjáls vilja mannskepnunnar. Frjáls vilji ætti að gera verið til, burtséð frá tilvist guðs. Í fljótu bragði virðist þetta vera tilfellið.

Annað sem gerir frjálsan vilja og guð óskylda er að viljinn er innra með manninum en almættið, sé það til, býr utan mannsins.

Aftur er líkt með frjálsum vilja og almáttugum guði að hvorugur verður sannaður. Hversdagsleg reynsla manna er að þeir iðki frjálsan vilja, velja t.d. hrökkbrauð í morgunmat frekar en ávöxt. En þrautin er þyngri að sanna það öðrum en manni sjálfum að valið var frjálst. Um guð er það að segja að hann verður ekki sannaður með mannlegum rökum eða mælingum.

Við látum eins og frjáls vilji sé veruleiki, þótt vísindaleg efnishyggja kenni annað. Maður að nafni Trump varð forseti Bandaríkjanna í janúar. Samkvæmt fréttum eru hugdettur hans, frjáls vilji, um það bil að setja heimsbyggðina á annan endann.

Heimurinn er lítt skiljanlegur, ef ekki fullkomlega óskiljanlegur, án hugmyndarinnar að það sé val, að eitthvað gæti verið öðruvísi en það er. Efnishyggjumenn myndu svara til að hugmyndin um val, frjálsan vilja, sé ímyndun. Á bakvið ímyndina séu járnhörð lögmál efnisins, sem okkur eru ekki enn fullkunnug. Við verðum að bíða efsta dags til að skilja. Efnið er guð.

Gleðilega páska.  


Ísland nær Ameríku en Evrópu

Ísland situr á tveim jarðskorpuflekum, Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Jarðfræðilega færumst við nær Ameríku en fjarlægjumst Evrópu. Líkt og Norður-Ameríka er Ísland landnemasamfélag í upphafi. Flóttamenn frá Noregi og norrænum byggðum á skosku eyjunum og Írlandi settust að hér á landi. Þorri landnema í Bandaríkjunum og Kanada kom frá Evrópu.

Stjórnskipulag sem íslenskir landnámsmenn völdu sér, ýmist kallað þjóðveldið eða kennt við goða og talað um goðaveldi, var á skjön við þróun mála í Evrópu á hámiðöldum, sem var öll í átt til konungsvalds. Bandaríkin höfðu sama háttinn á er þeir losuðu sig undan bresku konungsvaldi á 18. öld og stofnuðu til lýðveldis. Meginþáttur í goðaveldinu og bandarísku stjórnskipuninni er valddreifing. Í stjórnmálamenningu Íslands og Bandaríkjanna er ríkur fyrirvari við miðstýrt yfirvald og vex fyrirvarinn eftir því sem yfirvaldið er fjarlægara.

Í landapólitík samtímans, heitir geó-pólitík á útlensku, færumst við nær Bandaríkjunum en fjarlægjumst að sama skapi ESB-Evrópu. Áhugi, að ekki sé sagður ásetningur, Bandaríkjanna á Grænlandi færir okkur heim sanninn um það.

Fyrir 16 árum þegar misheppnuð vinstristjórn Jóhönnu Sig. sóttist eftir aðild Íslands að ESB-Evrópu var ekki raunhæft að setja fram sem valkost nánari samvinnu við Bandaríkin. Í dag er það raunhæfur kostur.

Íslendingar eiga í grunninn tvo valkosti í utanríkismálum í fyrirsjáanlegri framtíð. Í fyrsta lagi að sameinast um að halda fullveldi okkar og sjálfstæði. Í öðru lagi að efna til óvinafagnaðar og gera upp á milli Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Seinni kostinum fylgir innanlandsófriður, það er jafnvíst og degi fylgir nótt.

Haldi sitjandi ríkisstjórn áfram feigðarflani til ESB-Evrópu verður stofnuð hér landsmálahreyfing sem boðar nánari samskipti við Bandaríkin sem valkost við innlimun í ESB-Evrópu. Vinum er að fagna í vestri. Bandaríska tilboðið verður ávallt betra en það evrópska. Brussel er síðra yfirvald en Washington.

Skynsamlegast fyrir land og þjóð er að gefa hvorki Bandaríkjunum né ESB-Evrópu færi á okkur. Vitkist valkyrjur í tíma getur orðið sæmilegur friður um utanríkismál þjóðarinnar. Ef ekki þarf að beita öllum tiltækum löglegum ráðum að vísa valkyrjum á dyr stjórnarráðsins.

 


mbl.is Ísland tilheyrir ekki Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfrelsið krossfest, Miðflokkurinn til bjargar

Ákæruvaldið á Íslandi er í herferð gegn tjáninarfrelsinu. Þrír borgarar eru til meðferðar hjá ákæruvaldinu fyrir að andmæla transvóki, þeirri hugmyndafræði að karlar geti orðið konur með hugdettunni einni saman, að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að karlar geti brjóstfætt ungabörn.

Tilfallandi hefur verið ákærður og verður réttað í máli hans í lok maí. Helga Dögg Sverrisdóttir kennari er til meðferðar hjá ákæruvaldinu sem og Eldur Smári Kristinsson formaður Samtakanna 22. Ekki hafa verið gefnar út ákærur á hendur Helgu Dögg og Eldi Smára, en nokkuð harkalega gegnið fram af hálfu lögreglu, eins og tilfallandi drap á.

Ákæruvaldið hóf sína vegferð gegn tilfallandi, Helgu Dögg og Eldi Smára eftir að lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 kærðu okkur þrjú. Ákæruvaldinu bar engin skylda til að taka mark á kærum Samtakanna 78. Án efa fara margar sambærilegar kærur beint í ruslið hjá ákæruvaldinu. En nú skyldi látið til skarar skríða gegn þeim sem andæfa transvókinu. Ákvörðun um að hefja aðgerðir gegn okkur þrem er tekin af ríkissaksóknara. Þrjú lögregluembætti koma við sögu: lögreglan í Reykjavík, á Akureyri og á Suðurnesjum.

Tilfallandi, Helga Dögg og Eldur Smári eru sökuð um að brjóta 233.gr.a. almennra hegningarlaga:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Lykilorðin eru háð, rógur, smánun og ógnun annars vegar og hins vegar aðskiljanlegir hópar í samfélaginu er njóta sérréttinda. Ýmsir hópar njóta ekki sérkjara hjá löggjafanum, t.d. kristnir. Þeir kristnu verða reglulega fyrir hæðni, rógi og smánun - en vonandi ekki oft hótunum - hér á landi. Ákæruvaldið eltir ekki uppi einstaklinga sem gera gys að meyfæðingunni, afneita tilvist guðs og segja jólin heiðna hátíð. Allt má þetta túlka sem háð, róg og smánun í garð kristni. En, sem sagt, þeir kristnu njóta ekki sérmeðferðar í lögum. Þótt talað sé um trúarbrögð í lagatextanum er kristni tekin út fyrir sviga. Sama gildir um Íslendinga almennt. Íslenskt þjóðerni og íslenskur þjóðlegur uppruni nýtur ekki lagaverndarinnar sem hinir útvöldu fá. Útlendingur hér á landi, sem hæðist að Íslendingum, rógber þá, smánar og ógnar, er í sterkari lagalegri stöðu en Íslendingur sem svarar í sömu mynt, geldur útlendingnum rauðan belg fyrir gráan.

Ákæruvaldið beitir sárasjaldan 233.gr.a. almennra hegningarlaga og það af skiljanlegum ástæðum. Lagagreinin er til þess fallin að hefta málfrelsi borgaranna. Án málfrelsis er illa komið fyrir öðrum mannréttindum.

Ákæruvaldið hefur ekki gert grein fyrir því hvers vegna þrír almennir borgarar séu nú teknir sérstaklega í karphúsið fyrir að andmæla transvókinu og skulu sæta sektum og allt að tveggja ára fangelsi fyrir. Almennt skyldi ætla að það sé ekki hlutverk ákæruvaldsins að krossfesta tjáningarfrelsið.

Góðu fréttirnar í hörmungartíð tjáningarfrelsisins á Íslandi eru að þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp, með ítarlegum skýringum, um að breyta 233.gr.a. almennra hegningarlaga. Tillaga Miðflokksins er að bæta við fyrirvara við núverandi lagagrein. Í heild sinni myndi greinin hljóma svona, verði frumvarp Miðflokksþingmanna samþykkt. Viðbótin er feitletruð:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Frumvarp Miðflokksmanna er til bóta. Í lagagreinina er settur áskilaður að til að hún verði virkjuð þarf að vera hvatning til haturs, ofbeldis eða mismununar. Eins og greinin er núna er nóg að einhver móðgist til að ákæruvaldið stökkvi af stað og dragi mann og annan fyrir dóm og ákæri fyrir að stíga óvarlega á tilfinningatær fólks út í bæ sem njóta sérverndar að lögum.

Ekki liggur fyrir hvort Helga Dögg og Eldur Smári verða ákærð, mál þeirra eru enn til meðferðar hjá ákæruvaldinu. Tilfallandi er aftur ákærður maður. Ákæruvaldið fann í tilfallandi bloggi frá 13. september 2023 tvær efnisgreinar sem réttlæta fangelsun höfundar í allt að tvö ár. Þær eru eftirfarandi:

1. Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.

2. Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi - BDSM. Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.

Eins og lesa má í blogginu eru tilfærð dæmi um óviðeigandi kennsluefni sem matreitt er ofan í börn. Þannig að ekki er um að ræða róg. Hæðni er ekki stílbragð í blogginu. Smánun kemur ekki fyrir enda reka Samtökin 78 BDSM-deild í einn stað og í annan stað er boðskapur lífsskoðunarfélagsins að börn geti fæðst í röngum líkama. Trauðla er það smánun að vekja athygli á starfsemi lífsskoðunarfélagsins. Hvergi í blogginu er hótun eða hvatning til ofbeldis. Bloggið, aftur, andmælir að Samtökunum 78 sé hleypt í leik- og grunnskóla með boðskap sem ekki er við hæfi barna. Síðast þegar tilfallandi gáði mátti hafa skoðun á kennsluefni skóla og telja sumt ágætt en annað ósæmilegt.

 


Kvengervill er ekki kona

Karl sem segist kona er kvengervill en ekki kona. Annað orð er karlkona, það þriðja transkona. Úrskurður hæstaréttar Bretlands staðfestir sjálfsögð og augljós sannindi, að karl er eitt, kona annað. Undarlegt er að í menningu okkar urðu áhöld um grundvallarsannindi mannlífsins frá örófi. Formaður breska íhaldsflokksins, Kemi Badenoch, segir þörf á endurmenntun vókliða sem útbreiddu fals um lífsins staðreynd.

Hlutverkaleikur er liður í þroska barna og tómstundagaman sumra fullorðinna. Í nafni mannréttinda varð hlutverkaleikur örhóps í samfélaginu, þeirra sem kenna sig við trans, að viðteknum sannindum um hríð. Kynjahopp fékk sömu stöðu og rétturinn til lífs, sjálfræðis og hamingjuleitar. Jafnhliða greri um sig djúpheimska, að kynin væru ekki tvö heldur þrjú, fimm eða seytján.

Allur þorri kvenna lét sér vel líka að karlar stunduðu stórfellt menningarrán á konum. Nóg var að karl segðist kona innra með sér og honum stóðu allar dyr opnar. Kvennaklefar sundlauga og íþróttahúsa, kvennafangelsi, kvennasalerni og mæðradeildir sjúkrahúsa. Karl lélegur í íþróttum kynjahoppaði sig í kvennaíþrótt og hirti gull ætlað konu. Konur stóðu álengdar og klöppuð upp transið. Vinstriflokkarnir í sitjandi ríkisstjórn, Samfylking og Viðreisn, eru í senn með konur á helstu póstum og löðrandi í transi.

Menningarrán karla á konum, með stuðningi þorra kvenna, vekur grun um að ekki sé allt með felldu í sjálfsmati kvenþjóðarinnar. Femínismi sem fagnar innrás karlkvenna í kvennarými starfar tæplega í þágu kvennaheilla. Nema að hugsunin sé sú að vonlausir karlar séu eftirlæti kvenna.

Eins og galdratrú á 17. öld er transið innflutt fyrirbæri. Á málsvæði engilsaxa er til orðið ,,gender" sem vísar í málfræðilegt kyn. Við aðstæður, sem verða skýrðar hér á eftir, komst sérviskuhópur í akademíunni (les: kynjafræði) upp með að markaðssetja ,,gender", málfræðikyn, sem valkost við ,,sex" eða líffræðilegt kyn. Ruglið var selt sem einstaklingsfrelsi. Karl gat orðið málfræðileg kona og við það fengið sömu stöðu og líffræðileg kona. Slagorðið var ,,transkonur eru konur". Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að málfræði og líffræði eru ekki sami hluturinn. Líffræði, ekki málfræði, ræður hvort einstaklingur sé kona eða karl. 

Tvær ritgerðir, gefnar út í bókarformi, eftir Harry G. Frankfurt, útskýra menningarlegar rætur trans. Sú fyrri er Um kjaftæði/On bullshit (nei, þetta er ekki handbók fréttastofu RúV) en þar er útskýrt hvernig kjaftavaðli óx fiskur um hrygg seinni hluta 20. aldar. Kjaftavaðall er verri en ósannindi, segir Frankfurt, að því leyti að ósannindi er hægt bera undir mæliker sanninda. Kjaftæði hrærir öllu saman, lætur sig engu skipta hvað sé satt og hvað logið. Seinni ritgerðin Um sannindi/On truth birtist 2006. Þar vekur Frankfurt athygli á þeirri lensku að taka einlægni fram yfir sannindi. Segi einhver í einlægni að hann hafi fæðst í röngum líkama sé það tekið gott og gilt sem sannleikur. Til að það sé satt, að hægt sé að fæðast í röngum líkama, þarf aðgreiningu meðvitundar og líkama, sem er ómöguleiki. Lifandi fæddur nýburi fæðist með meðvitund og er annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Einlægni breytir ekki ómöguleika í sannindi. Ranghugmynd verður ekki rétt með einlægni.

Ranghugmyndir eru ekki bannaðar. Hver og einn má hafa þá sjálfsmynd sem hann kýs sér. Leiðinlegur má telja sig hrók alls fagnaðar; grjótheimskur að hann sé ljóngáfaður; pervisinn að hann sé vaxtarræktartröll. Af frjálsræði einstaklingsins og umburðalyndu samfélagi leiðir að karl má gerast kvengervill, temja sér siði og háttu kvenna í fasi og framkomu. Samfélagið umber sérvisku. Ef transið hefði látið þar við sitja, að karlar mættu þykjast konur, hefði trauðla orðið siðrof. Transið kunni sér ekki hóf, krafðist viðurkenningar að karlar væru í raun og sann konur; að hægt sé að fæðast í röngum líkama og kenna skuli leik- og grunnskólabörnum þau ósannindi. Transöfgarnar eru bæði ósannar og ólögmætar, segir í  úrskurði hæstaréttar Bretlands.


mbl.is Orðið kona vísi til líffræðilegs kyns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband