Föstudagur, 17. janúar 2025
Ríkissaksóknari úrskurðar um byrlunar-og símamál
Byrlunar- og símamálið, þar sem sex blaðamenn eru með stöðu sakborninga, er á borði ríkissaksóknara. Lögreglan hætti rannsókn í september með sérstakri yfirlýsingu. Brotaþolinn í málinu, Páll skipstjóri Steingrímsson, kærði ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara. Embættið birtir niðurstöðu sína í dag eða næstu daga.
Í yfirlýsingu lögreglunnar frá í september kemur fram að afbrot voru framin á Páli skipstjóra; byrlun, sem telst líkamsárás ef ekki banatilræði, síma hans var stolið og hann afritaður á RÚV sem ekki birti stafkrók upp úr gögnum skipstjórans. Tveir fjölmiðlar, RÚV óviðkomandi, Stundin og Kjarninn, sáu um að birta fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Stundin og Kjarninn birtu efnislega sömu fréttina, um skæruleiðadeild Samherja, snemma morguns 21. maí 2021.
Aðgerðin öll, frá byrlun skipstjórans 3. maí til frétta Stundarinnar og Kjarnans 21. maí, ber þess merki að miðlæg stjórnstöð sá um skipulag og framkvæmd. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti í apríl Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem beið tilbúinn á Efstaleiti er Páli skipstjóra var byrlað. Þóra fékk á símann númerið 680 2140, en númer Páls var 680 214X.
Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra, sem glímir við andleg veikindi, hefur játað að byrla eiginmanninum, stela síma hans og færa Þóru á Efstaleiti. Eftir afritun á RÚV fékk konan símann á ný og skilaði honum á sjúkrabeð Páls skipstjóra sem lá meðvitundarlaus í öndunarvél handan götunnar, á Landsspítala. Úr afritunarsímanum, 680 2140, var reynt að komast yfir persónuleg gögn skipstjórans, s.s. aðgang að samfélagsmiðlum og bankareikningum. Þá var síminn notaður til samskipta við veiku konuna. Í yfirheyrslum lögreglu neita blaðamenn að tjá sig um málsatvik. Fjórir blaðamenn fengu stöðu sakbornings í febrúar 2022, síðar bættust tveir við.
Í gögnum lögreglu eru margvísleg samskipti milli blaðamanna og veiku konunnar. En ekki nærri öll. Lögreglurannsókn hófst sumarið 2021 og fór hægt af stað. Fyrsta yfirheyrslan var ekki á dagskrá fyrr en í byrjun október. Blaðamenn og byrlari höfðu nægan tíma til að eyða gögnum úr snjallsímum og tölvum. Ein ástæða fyrir hægagangi rannsóknarinnar er að lögregla neitaði í fyrstu að trúa að íslenskir blaðamenn, með RÚV í fararbroddi, stunduðu blaðamennsku er fól í sér byrlun og gagnastuld.
Í dag eða næstu daga kemur í ljós hvaða mat embætti ríkissaksóknara leggur á byrlunar- og símamálið. Erlendir fjölmiðlar sýna meiri áhuga á málinu en íslenskir. Hvers vegna skyldi það vera?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. janúar 2025
Kristrún kokgleypir ESB-áróðri um Úkraínu
Kristrún forsætis fer nærri að stunda falsfréttamennsku á vef stjórnarráðsins. Þar er haft eftir henni: ,,Ógnir í norðanverðri Evrópu hafa stigmagnast á undanförum misserum, ekki síst í kjölfar árásarstríðs Rússa í Úkraínu."
Norðanverð Evrópa er vanalega skilgreind sem Norðurlönd og eftir atvikum Norður-Atlantshaf. Bretlandseyjar eru gjarnan taldar með. Úkraína hefur aldrei talist til Norður-Evrópu.
Hvers vegna fleiprar Kristrún um ógnir á nærsvæði Íslands vegna Úkraínustríðsins? Ástæðan er að nýorðinn forsætisráðherra kokgleypir áróðri Evrópusambandsins. Í Brussel er sannfæring manna að Úkraínustríðið skipti sköpum fyrir Evrópusambandið - sem fyrst og fremst er meginland Evrópu plús Svíþjóð, Finnland og úteyjan Írland.
Bretland, Noregur, Færeyjar, Ísland og Grænland eru ekki hluti Evrópusambandsins. Þessar þjóðir áttu enga aðild að útþenslu og yfirgangi ESB í austurvegi þar sem úkraínsk stjórnvöld voru véluð til samstarfs.
Rússar eru ekki í landvinningahug í Norður-Evrópu og af þeim stafar engin hætta þjóðum á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin, undir forystu Trump, eru aftur áhugasöm að koma ár sinni betur fyrir borð í hafinu í kringum okkur. Skemmst er að minnast orða Trump að hann vilji kaupa Grænland.
Augljóst er hvað fyrir Trump vakir; að treysta varnir Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin líta ekki lengur á meginland Evrópu sem kjarnasvæði sitt er verði að halda uppi hervörn fyrir. Nýja línan í Washington er að Evrópa eigi að ráða fram úr eigin vanda. Í raun var þetta stefna Bandaríkjanna allt til byltingarársins 1917 er þáverandi forseti, Woodrow Wilson, ákvað að ganga til liðs við Frakka og Breta í stríði þeirra við Þjóðverja. Eftir seinna stríð ábyrgðust Bandaríkin lönd vestan megin járntjalds. Nú er ekkert járntjald í Evrópu, aðeins stórveldahagsmunir; Rússlands annars vegar og hinsvegar ESB. Bandaríkin ætla ekki að skipta sér af.
Skilji Kristrún lítt hvar raunverulegir öryggishagsmunir Íslands liggja er utanríkisráðherra hennar hálfu sljórri. Þorgerður Katrín er í henni Brussel að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu, segir okkur RÚV. Þær stöllur leiða Ísland fram af bjargbrúninni verði af ESB-áætlunum þeirra. Í pólitík yrðum við hjáríki hnignandi ESB en landfræðilega á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Ísland gæti sem hægast orðið bitbein stórveldahagsmuna. Það er alversta staða sem smáríki getur ratað í.
Ógnir í norðanverðri Evrópu hafa stigmagnast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 15. janúar 2025
Kennaralaun jöfnuð niður
Framhaldsskólakennarar eru með hærri laun en leik- og grunnskólakennarar. Líkleg niðurstaða launadeilu kennara við ríki og sveitarfélög eru að laun framhaldsskólakennara lækki hlutfallslega miðað við kennara á yngri skólastigum.
Ásteytingarsteinn í yfirstandandi kjaraviðræðum er yfirlýsing ríkisins frá árinu 2016 til framhaldsskólakennara um að jafnvirða laun þeirra og sérfræðinga á almennum vinnumarkaði. Á þeim tíma sömdu framhaldsskólakennarar beint við ríkið. Leik- og grunnskólar eru reknir af sveitarfélögum án aðkomu ríkisins.
Fyrir fimm árum var gerð sú lagabreyting að eitt kennaraleyfi var gefið út fyrir öll skólastig. Áður höfðu framhaldsskólakennarar sérstakt leyfi, sem fól t.d. í sér að grunnskólakennari gat ekki sótt um stöðu í framhaldsskóla. Breytingin bjó í haginn fyrir það sem síðar kom.
Framhaldsskólakennarar gerðu þau mistök í yfirstandandi kjaradeilu að hafa samflot með leik- og grunnskólakennurum. Viðsemjendur eru ekki þeir sömu. Ríkið rekur framhaldsskólana en sveitarfélögin lægri skólastig. Til skamms tíma var fremur um það rætt á vettvangi framhaldsskólakennara að segja sig úr Kennarasambandi Íslands, sem er regnhlíf kjarafélaga nokkurra kennarahópa, fremur en að lúta forræði sambandsins.
Í frétt á Vísi segir Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins að kennarar eigi ,,hljómgrunn meðal fólks." Ef svo væri lægi fyrir undirritaður samningur um að kennarar fái milljón á mánuði. Líkt og framhaldsskólakennarar hafa nú þegar.
Nú gilda reykfylltu bakherbergin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 14. janúar 2025
Verkalýðskapítalismi Sólveigar Önnu
Óspektir á almannafæri sýna að jafnaði veika málefnastöðu, sé á annað borð einhverjum málefnum til að dreifa. Efling undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur stundar verkalýðsbaráttu sem þjónar ekki yfirlýstum markmiðum að bæta kaup og kjör launþega.
Ef Efling hefði gott rykti þyrfti félagið ekki að ganga um götur og torg öskrandi með hnefann á lofti. Í skjóli einokunaraðstöðu á vinnumarkaði er rekinn kapítalismi með öfugum formerkjum. Verkalýðseigendur fleyta rjómann af striti og svita launþega. Réttur launþega til að standa utan verkalýðsfélaga er vanvirtur. Ný verkalýðsfélög, stofnuð til að semja um kaup og kjör en ekki ekki fitna á félagsgjöldum, eru lögð í einelti. Verkalýðskapítalistarnir verja stöðu sína og forréttindi.
Efling og Sólveig Anna eru birtingarmynd þróunar sem jafnt og þétt grefur undan tiltrú á launþegasamtökunum, einkum og sérstaklega á almenna markaðnum. Verkalýðsfélög, er þau náðu þroska á síðustu öld, tóku mið af launþegum í fullu starfi alla starfsævina. Dagsbrúnarmaður sem fór að vinna fyrir sér 16 ára var enn Dagsbrúnarmaður er hann komst á eftirlaun. Á þessari öld, einkum síðustu 15 ár eða svo, fjölgar þeim ört sem vinna hlutastörf oft tvö eða þrjú. Þeir koma til viðbótar við ungt fólk á framhalds- og háskólaaldri sem stunda hlutastörf meðfram námi, ekki síst í veitinga- og hótelgeiranum.
Verkalýðskapítalistarnir hafa mest upp úr ungu fólki og þeim sem stunda hlutastörf. Félagsgjöld eru innheimt af þeim en þessi hópur er léttastur á fóðrum verkalýðsfélaganna.
Um langan aldur hafa verkalýðsfélög haft fyrir sið við lok kjarasamninga að knýja fram greiðslur í ýmsa sjóði sem undirbyggir fjárstreymi í yfirbyggingu verkalýðsfélaga.
Á Íslandi er félagafrelsi en verkalýðskapítalistarnir viðurkenna það ekki, eins og Sigurður G. Guðjónsson rekur í viðtengdri frétt.
Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT vekur athygli á að verkalýðskapítalistarnir standa frammi fyrir tekjufalli tapi þeir einokunarstöðu sinni.
Einu sinni var talað um félagsauð launþegahreyfingarinnar. Félagsauðurinn er orðinn að einkakapítali verkalýðsrekenda.
Segir Eflingu í ófrægingarherferð gegn atvinnurekendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 13. janúar 2025
Snorri og Gandri, málfrelsi og ritskoðun
Snorri Másson þingmaður Miðflokks og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og fyrrum þingmaður Samfylkingar skiptast á skoðunum. Snorri reið á vaðið, Guðmundur Andri brást við. Öðrum þræði eru skoðanaskiptin um Trump og Evrópusambandið. Hinum þræðinum álitamál er lúta að málfrelsi og ritskoðun.
Snorri vekur athygli á að valdastofnanir, t.d. Evrópusambandið, sýna ríka tilhneigingu til ritskoðunar og banna óæskilegar skoðanir. Snorri er ekki einn um að þakka kjöri Trump að heldur sé hærra til lofts og víðari til veggja í málfrelsinu. Guðmundur Andri spyr á móti hvort ekki eigi að vernda minnihlutahópa og tekur vara á að ,,tuddaréttinum" sem er samlíking af skólalóðinni og vísar til að sumir tuddast á öðrum. Rithöfundurinn varpar fram eftirfarandi spurningu:
Er rétturinn til að lifa í samræmi við eigin sjálfsmynd æðri réttinum til að að gera athugasemdir sem kynnu að særa annað fólk?
Augljóst er, og Guðmundur Andri hlýtur að viðurkenna það, að hver og einn má hafa hvaða sjálfsmynd sem vera skal. Kallast hugsanafrelsi. Það felur í sér að sérhver má í huga sér vera hvað sem er; Jón, Guðrún, brunabíll eða bókahilla.
Börn eru með ævintýrum hvött til að gefa sig á vald ímyndunarheims. Það örvar þroska, sjálfsskilning og læsi á mannlífið. Er börn fullorðnast gera þau greinarmun á ímyndun og veruleika. Sum þó ekki, halda í bernsku sinni að mannlífið lúti lögmálum hugarflugs fremur en áþreifanleika. Fólk í þessari stöðu hefur sinn rétt, að skilgreina sig sjálft eftir behag. Illu heilli hefur sama fólkið ríka hneigð til að ganga á rétt annarra, sem aðskilja ímyndun frá hlutveruleika.
Gamanið tekur að kárna þegar krafist er að ímyndun eins verði veruleiki annars. Fullorðinn karlmaður hefur fullt leyfi að vera kona í huga sér en hann hefur enga heimild að krefjast þess að samferðarmenn hætti að sjá greinarmun á körlum og konum.
Guðmundur Andri gefur til kynna, en segir ekki beint, að rök standi til að yfirvöld grípi í taumana þegar einhverjir finna til særinda í umræðunni. Hann tekur aftur tuddalíkinguna af skólalóðinni og færir hana yfir á almenna umræðu fullorðinna. Rithöfundurinn setur mál sitt fram með spurningu:
Hvenær eigum við að grípa inn í þegar við verðum vitni að tuddaskap og yfirgangi?
Með ,,við" er átt við yfirvöld. Stutta svarið er að yfirvöld eiga almennt ekki að skipta sér af orðræðu frjálsra borgara. Viti bornir menn eru fullfærir um það sjálfir. Ómakleg orð og þau sem eru út í hött falla dauð af sjálfu sér.
Þeir sem fara halloka í umræðunni kenna andstæðingum iðulega um yfirgang og frekju þegar skipst er á orðum. Yfirvöld, lögregla og ákæruvald, eiga engin ráð að meta málefnalega hvað sé ,,tuddaskapur og yfirgangur" í skoðanaskiptum. Annað heiti á slíkum ásökunum er móðgunargirni. Málfrelsi má ekki takmarka þótt einhver fari í fýlu, móðgist. Á skólalóðinni eru leikir ekki bannaðir þótt einhver fari fram af þjösnaskap. Leikir barna og umræða fullorðinna þjóna stærra hlutverki en svo að einleikur fárra skipti sköpum. Án leikja og umræðu yrði tilveran valdboðin grámygla.
Í lok greinar sinnar biðst Guðmundur Andri undan því að vera kallaður ,,samfylkingarmaður" en Snorri viðhafði kennimarkið. Guðmundur Andri kveðst líta á sjálfan sig sem rithöfund. Trúlega er rithöfundurinn og fyrrum þingmaður Samfylkingar ekki þeirrar skoðunar að ákæruvaldið eigi að hlutast til séu menn auðkenndir á annan hátt en þeim sjálfum hugnast. Jafnvel þótt þeir móðgist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 12. janúar 2025
Dagur gegn Kristrúnu
Fyrrum formaður Samfylkingar, Oddný Harðardóttir, skrifar færslu á samfélagsmiðil að Dagur B. Eggertsson fyrrum borgarstjóri verði aldrei aukaleikari í pólitík. Færsla Oddnýjar er ekki tilviljun.
,,Dagur er aukaleikari," skrifaði Kristrún formaður til kjósanda fimm vikum fyrir kosningar. Dagur hafði í óþökk Kristrúnar fengið sig samþykktan inn á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík-norður. Jafnframt skrifaði hún að fyrrum borgarstjóri yrði ekki ráðherra í ríkisstjórn sem Samfylking ætti aðild að. Það gekk eftir, Dagur fékk ekki ráðherraembætti. Hann vonaðist til að fá í sárabætur þingflokksformennsku. En, nei, Kristrún valdi nýliða á alþingi fram yfir Dag til að vera talsmenn þingflokksins.
Oddný, fyrrum formaður, skrifar ekki stuðningsyfirlýsingu fyrir Dag upp úr þurru. Færsla Oddnýjar er liður í að skapa fyrrum borgarstjóra sóknarfæri innan og utan Samfylkingar.
Á alþingi er enginn flokkur til til vinstri við Samfylkinguna. Aftur eru úti í samfélaginu afgangurinn af Pírötum og Vinstri grænum. Innan Samfylkingar eru öfl sem ekki skrifa upp á stefnu og áherslur formannsins.
Útspil Oddnýjar þjónar þeim tilgangi að búa í haginn fyrir Dag sem gagnrýnanda ríkisstjórnarinnar frá vinstri. Kristrún er skilgreind sem hægrikrati. Svigrúm er frá vinstri til að andæfa.
Ríkisstjórn Kristrúnar fær friðhelgi fyrir alvarlegri gagnrýni fyrstu þrjá til fimm mánuðina, líkt og nýjar ríkisstjórnir almennt. En frá og með næsta hausti er kominn stjórnarferill og þar með fóður til að hampa valkostum. Skoðanakannanir munu sýna fall í vinsældum stjórnarflokkanna, gera það nær alltaf. Undir þeim kringumstæðum er hugsun Oddnýjar, og fleiri vinstrikrata, að Dagur verði þeirra talsmaður.
Sjálfur mun Dagur sleikja sárin næstu vikur og mánuði og ígrunda stöðu sína.
Dagur verði aldrei aukaleikari í pólitík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 11. janúar 2025
Selenskí biður um Nató-hermenn
Á Ramstein-fundi í Þýskalandi í fyrradag hitti Selenskí forseti Úkraínu vestræna bakhjarla sína. Ramstein-fundir eru reglulega haldnir um framgang stríðsins, eru orðnir 25 frá upphafi innrásar Rússa í febrúar fyrir þrem árum. Selenskí óskaði eftir beinni aðild Nató-ríkja að átökunum.
Fundurinn í fyrradag er merkilegur fyrir þær sakir að hann er sá síðast fyrir embættistöku Trump forseta eftir tíu daga. Samkvæmt heimasíðu Selenskí eru Bretar jákvæðir að senda hermenn til Úkraínu. Vitað er að fjöldi Nató-hermanna starfa sem sérfræðingar í hátæknivopnum á vígvellinum og all nokkrir hafa fallið. Selenskí vill fá fótgönguliða frá Nató-ríkjum til að berjast í skotgröfum Úkraínu. Við það yrði formlegt stríð milli Nató og Rússlands.
Nánast óhugsandi er að Nató-ríkin sendi fótgönguliða til að berjast í austri. Ósk forseta Úkraínu hermenn frá bakhjörlum sínum lýsir örvæntingu en ekki raunsæi.
Úkraínuher stendur höllum fæti á allri víglínunni. Liðhlaup eru algeng og baráttuþrekið fer þverrandi. Á Ramstein-fundinum var rædd áætlun um stuðning við Úkraínu næstu tvö árin, til 2027. Þýskur varnarmálasérfræðingur segir slíka áætlun tilgangslausa sjái Bandaríkin sig um hönd, krefjist friðar.
Fyrrum ofursti í Bandaríkjaher, Daniel L. Davis, heldur úti youtube-rás um Úkraínustríðið. Hann fékk til sín fyrrum sendiherra, Chas Freedman, til að ræða stöðu mála. Þeir segja að stjórnin í Kænugarði sé búin að vera. Engar líkur séu á hagfelldri niðurstöðu fyrir Selenskí og félaga - og vestræna bakhjarla. Spurningin sé aðeins hve slæm útkoman verður.
Davis og Freedman draga upp dökka mynd af ástandinu, kannski er þar eitthvað ofmælt. Diplómatískt orðalag er að segja alla kosti Úkraínu slæma. Vafi leiki á um framtíð úkraínska þjóðríkisins.
Félagarnir, líkt og þorri stjórnarmálaskýrenda, telja Trump forseta ráða miklu, ef ekki öllu, um framvindu mála í austurvegi. Í kosningabaráttunni sagðist Trump ljúka stríðinu innan 24 stunda eftir embættistöku. Nú er talað um páska eða jafnvel næsta hálfa árið.
Haldi Trump og Pútín Rússlandsforseti fund, fljótlega eftir embættistöku Bandaríkjaforseta, er orðspor beggja í húfi. Pútín kemst ekki upp með, gagnvart rússnesku þjóðinni, að gefa frá sér landvinninga sem hafa kostað ómældar blóðfórnir. Trump þarf að skila friði sem felur í sér að Úkraína verði áfram sjálfstætt þjóðríki. Einn fundur slær ekki botninn í Úkraínustríðið. Aftur er líklegt að fyrirsjáanleg eftirgjöf Trump á úkraínsku landi í þágu friðar hafi áhrif á stöðuna á vígvellinum. Ekki Úkraínu í hag.
Pútín tilbúinn í viðræður við Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 10. janúar 2025
Kristrún, Dagur og staða Þórðar Snæs
Kristrún forsætis og formaður Samfylkingar úthýsti Degi B. Eggertssyni bæði fyrir og eftir kosningar. Það mátti gjarnan strika Dag út á atkvæðaseðlinum og hann kæmi ekki til greina sem ráðherraefni, sagði Kristrún fyrir kosningar. Að loknum kosningum vonaðist Dagur eftir þingflokksformennsku, en Kristrún sagði nei.
Þórður Snær Júlíusson var á lista Samfylkingar og fékk kjör. Í kosningabaráttunni var Þórður Snær afhjúpaður sem netníðingur. Fylgið tók að reytast af Samfylkingunni. Til að stöðva fylgishrunið gaf Þórður Snær út yfirlýsingu um að hann myndi ekki taka sæti á alþingi þótt hann næði kjöri. Fyrir utan að vera netníðingur er Þórður Snær sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Sakamálið er á borði ríkissaksóknara sem næstu daga tekur afstöðu til þess hvort málið verði fellt niður eða rannsakað áfram.
Í yfirlýsingu lögreglu kemur fram að blaðamenn frömdu afbrot gegn Pál skipstjóra Steingrímssyni, en ekki tókst að sanna afgerandi hvaða blaðamenn frömdu tiltekin afbrot. Hvort heldur Þórður Snær sé sekur eða saklaus býr hann yfir upplýsingum um afbrotin sem voru framin. Líkt og aðrir sakborningar, þeir eru sex úr röðum blaðamanna, neitar Þórður Snær að upplýsa vitneskju sína um málið. Hann er aftur sífellt tilbúinn til að réttlæta aðför blaðamanna að heilsu, æru og einkalífi skipstjórans, síðast í viðtali við sænskan útvarpsmann sem birt var í byrjun árs.
Í netníðinu notaði Þórður Snær dulnefni. Í lögreglurannsókn á alvarlegu sakamáli heldur hann fram að ekkert afbrot hafi verið framið. Valkvæður veruleiki er sérgrein Þórðar Snæs.
Eftir kosningar er hljótt um Þórð Snæ í umræðunni. Sögusagnir eru um að hann fái launað starf hjá Samfylkingunni, e.t.v. sem framkvæmdastjóri flokksins. Þar með yrði hann að einhverju marki andlit og ásjóna flokksins. Maður með svæsið netníð á samvikunni og aðild að sakamáli getur trauðla átt meira upp á pallborðið hjá Kristrúnu formanni og forsætisráðherra en Dagur fyrirverandi borgarstjóri. Eða hvað?
Dagur gerði ráð fyrir að verða þingflokksformaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. janúar 2025
Trump, Grænland og Viðreisnarógæfa Íslands
Grænland fer undir áhrifasvæði Bandaríkjanna með góðu eða illu. Ekki vegna Trump sérstaklega heldur langtímaþróunar bandarískra öryggishagsmuna. Grænland verður áhrifasvæði Bandaríkjanna með sambærilegum formerkjum og Ísland með varnarsamningnum 1951.
Tilfallandi gerði fyrir fimm árum stuttlega grein fyrir fyrir bandarískri þróun í varnar- og öryggismálum undir fyrirsögninni Ísland er nærsvæði Bandaríkjanna. Atburðir síðan staðfesta þá þróun.
Grænlendingar mun fyrirsjáanlega taka til sín aukið, eða fullt, fullveldi frá Danmörku og gera varnarsamning við Bandaríkin. Grænlendingar vita sínu viti í utanríkismálum; þeir fyrsta þjóðin sem gekk úr Evrópusambandinu, gerðu það á síðustu öld, og lengi sú eina - allt fram að Brexit 2016.
Í bloggi í síðasta mánuði er ræddur Grænlandsáhugi Bandaríkjanna upp á síðkastið:
Bandaríkin, burtséð frá Trump, líta ekki lengur á meginland Evrópu sem sitt kjarnasvæði, líkt og þau gerðu eftir seinna stríð. Öryggishagsmunir Bandaríkjanna í austurátt liggja á Norður-Atlantshafi. Á dögum kalda stríðsins var talað um GIUK-hliðið, kennt við Grænland, Ísland og Bretlandseyjar. GIUk verður borgarhlið Bandaríkjanna gagnvart ESB-Evrópu. Dálkahöfundur Telegraph í Bretlandi spyr í hálfkæringi hvort ekki sé einfaldast að eyríkið verði 51sta fylki Bandaríkjanna. Bretar sjá tilvistarvanda nágranna sinna á meginlandinu.
Ógæfa Íslands er eini flokkurinn hér á landi með ESB-aðild á dagskrá er Viðreisn. Einmitt sá flokkur fer með utanríkisráðuneytið. Formaður flokksins og utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín, heimsótti Kænugarð um helgin eins og smurður Brussel-agent. Bandaríkin ætla að þvo hendur sínar af Úkraínustríðinu. Í Washington frá og með embættistöku Trump er litið á stríðið sem evrópskt vandamál.
Um sinn munu Bandaríkin starfrækja Nató en ekki til landvinninga í austri. ESB-Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum sem óvíst er að álfan ráði við. Bandaríkin eru ekki þannig í sveit sett að sitja uppi með öflugan óvin í túnfætinum; ESB-Evrópa gerir það svo sannarlega.
Einkaflipp Þorgerðar Katrínar í Kænugarði um helgina er smámál hjá þeirri stefnu Viðreisnar að Ísland verði ESB-ríki. Bandaríkin, með Trump eða án, líta það ekki vinsamlegum augum að greiða Evrópusambandinu leið til áhrifa á Norður-Atlantshafi. Það er algjörlega andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd að gefa ESB færi á Íslandi. Versta sem smáþjóð gerir sjálfri sér er að verða bitbein stórveldahagsmuna.
Evrópusambandið á fyrir höndum langa og stranga aðlögun að máttugu Rússlandi. Ísland innan ESB gæti orðið skiptimynt í þeim hráskinnaleik. Líkt og næstum gerðist laust eftir miðja 19. öld er Danir glímdu við Prússa og ígrunduðu að gefa Ísland í skiptum fyrir land þeim kærara.
Óvitarnir í Viðreisn valda okkur skaða með utanríkispólitík sem ekki er í neinu samræmi við þróun alþjóðastjórnmála og allra síst við gerbreytta stöðu á Norður-Atlantshafi.
Skoða verði ummæli Trumps af alvöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. janúar 2025
Þorgerður Katrín gekk í gildru Selenskí, ekki ráðgjafi Trump
Fyrir þrem dögum hóf Úkraínuher endurnýjaða sókn í Kúrsk-héraði Rússlands. Selenskí forseti vildi sýna árangur á vígvellinum vegna fyrirhugaðrar heimsóknar sérstaks ráðgjafa Trump væntanlegs Bandaríkjaforseta í málefnum Úkraínu, Keith Kellogg, fyrrverandi hershöfðingi.
Selenskí fékk, eins og vanlega, fyrirsagnir alþjóðapressunnar. Nýja Kúrsk-aðgerðin, sú fyrri var í ágúst, skyldi gerbreyta vígstöðunni Úkraínu í vil. Veruleikinn er annar. Úkraínuher beið afhroð í Kúrsk, líkt og víðar á víglínunni.
Kellogg ráðgjafi Trump frestaði heimsókninni, sem átti að vera nú í byrjun janúar, fram yfir embættistöku eftir tvær vikur. Frestun gefur til kynna að ráðgjafinn ætli ekki að láta misnota sig í ímyndarstríði Selenskí þar sem Úkraínu gengur allt í haginn og skammt sé að bíða ósigurs Rússa.
Þorgerður Katrín arkaði aftur glaðbeitt í gildru Selenskí, sem þó var ekki fyrir hana spennt. Sitjandi utanríkisráðherra fetaði í fótspor forvera síns. Þórdís Kolbrún hafði sér til afsökunar að allir vestrænir stjórnmálamenn sem vettlingi gátu valdið heimsóttu Selenskí í Kænugarð fyrstu misseri stríðsins til að mynda sig að verja lýðræði og vestræn gildi. Nú eru bráðum þrjú ár síðan innrás Rússa hófst. Ítarleg greining hefur farið fram. Niðurstaðan er að tveir skólar kenna hvor sína útgáfuna af atburðarásinni.
Í fyrsta lagi vestræna elítan sem kynnir Pútín sem 21stu aldar útgáfu af Hitler er sæti færis til heimsyfirráða. Þessi skóli miðar upphafið við febrúar 2022.
Í öðru lagi raunsæismenn, John Mearsheimer þar fremstur, sem líta aftur til loka kalda stríðsins, um 1990, og skilgreina rás atburða út frá viðurkenndum sjónarmiðum í alþjóðapólitík. Nýtt framlag er frá prófessor Jonathan Haslalm, Hroki (Hubris). Í fyrirlestri kynnir Haslam kjarnann í bókinni. Vestrænn hroki er aðalástæða Úkraínustríðsins.
Vestræna elítan stundar pólitík og þvingar fram sína útgáfu í meginstraumsmiðlum. Raunsæismenn iðka ekki pólitík og fara mun nær ástæðum og eðli Úkraínustríðsins.
Þorgerður Katrín hefði betur sinnt íslenskum hagsmunum en ekki vestrænu elítunnar og hvergi farið til Úkraínu.
Þorgerður Katrín í heimsókn í Úkraínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)