Hraðleið Samfylkingar leiðir til stjórnarslita

Við erum í miðjum kreppustjórnmálum þar sem reynt er að halda sjó á meðan verstu brotin ganga yfir. Þegar lygnir í haust eða vetur mun sjást til lands og eftirspurn eykst eftir langtímasjónarmiðum í pólitík. Þótt áherslumunur sé á stjórnmálaflokkunum í kreppupólitíkinni er erfitt að finna ímynda sér að annað stjórnarmynstur myndi gefa gagnólíkar lausnir á aðsteðjandi vanda. Samningurinn við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn bindur hendur stjórnvalda. Þó má ekki gera lítið úr veigamiklum atriðum eins og fyrningarleiðinn í kvótaumræðunni en þar eru ríkisstjórnarflokkarnir með eina stefnu en stjórnarandstaðan allt aðra.

Langtímamálið sem mun skilgreina íslensk stjórnmál um fyrirsjáanlega framtíð er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Skammtímaáhrif málsins gætu einnig orðið töluverð og jafnvel ráðið úrslitum um hvort núverandi ríkisstjórn lifi árið af.

Staðan í dag er sú að tvær leiðir eru líklegastar. Í fyrsta lagi hraðleið Samfylkingar sem gerir ráð fyrir aðildarumsókn í sumar og viðræðum næstu 2-4 árin. Í öðru lagi hægfara leið Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem miðar að skilgreiningu samningsmarkmiða og undirbúningi að vandaðri ákvörðun um það hvort við eigum að sækja um aðild.

Ef farin verður hraðleið Samfylkingar mun margvísleg andstaða við ríkisstjórnina sameinast í þennan brennipunkt: Þjóðin krefst þess að fá að segja álit sitt á því hvort sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Lýðræðislegu rökin fyrir því að þjóðin fái að segja álit sitt eru sterk. Innan við 30 prósent þjóðarinnar greiddi þeim flokki atkvæði sem einn flokka vill skilyrðislausa aðild.

Ríkisstjórnin mun ekki standast þrýstinginn nema í hæsta lagi í nokkra mánuði. Meginskýringin er að annar ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænir, fékk fylgi til að halda Íslandi utan Evrópusambandsins. Ef flokkurinn svíkur kjósendur sína þrýtur hratt pólitískt örendi og veiklulegur flokkur er ekki til stórræðanna í ríkisstjórn.

Næstu þingkosningarnar munu snúast um afstöðuna til aðildar að Evrópusambandinu, hvort sem hraðleið Samfylkingarinnar verður farin eða hægfara leið stjórnarandstöðunnar. Hraðleiðin nánast tryggir að við fáum kosninga fyrr heldur en seinna. Það liggur við að maður voni að tillaga Össurar nái fram að ganga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glittir hér í smá efa -- eða er þetta bara leikur að orðum. Í fyrsta lagi eru sex skilyrði sett í þingsályktunartillagu ríkisstjórnarinnar fyrir aðildarumsókn, en PV er sama um það því að hann að hann er í stríði, og í stríði hefur andstæðingurinn alltaf rangt fyrir sér, hvað sem hann segir. Í öðru lagi er hálf ömurlegt að hlusta á stríðsmenn eins og PV tala fjálglega um vandaða "ákvörðun um það hvort við eigum að sækja um aðild", eins og að hann kunni að breyta um skoðun. En það er nákvæmlega sama hversu vel við vöndum undirbúninginn, hann og hans líkar hafa komist að niðurstöðu sem ekki verður haggað. Þeir vilja einfaldlega ekki sækja um og beita öllum brögðum til að koma í veg fyrir að það verði gert -- klæða sig jafnvel í þá sauðagæru að með vandaðri undirbúningi myndu þeir kannski breyta um skoðun. Þvílík hræsni!

GH (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 21:23

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það er hættulegur leikur að dansa dans við samninganefnd ESB. Þá verður nefnilega öll áróðursmaskínan sett í gang til að landa eyjunni inn í sambandið. Ég hvet fólk til að horfa á myndina Syriana sú mynd fjallar um olíuviðskipti....ef nægir peningar eru í spilunum, munu stórfyrirtæki leita allra leiða til að tryggja sér ágóða. Olían er það sem ESB er að sækja í...og ekki bara á Íslandsmiðum, heldur alla leið til heimsskautsins. ESB hefur þegar reynt að komast í heimskautaráðið án árangur (sjá hér).

Haraldur Baldursson, 31.5.2009 kl. 22:25

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

GH, hvar nákvæmlega segir Páll eitthvað sem túlka má sem svo að hann kunni að breyta um skoðun? Það er einfaldlega þegar vitað í langflestum tilfellum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér fyrir okkur Íslendinga og miklu meira en nóg til þess að mynda sér skoðun á málinu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 1.6.2009 kl. 00:36

4 Smámynd: Páll Blöndal

PV, HB og HJG,
Er þetta ekki óþarfa svartsýni í ykkur?
... eða átti ég kannski að segja bjartsýni?

Páll Blöndal, 1.6.2009 kl. 08:50

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Mér finnst þú vera að lesa undarlega hluti út úr stöðunni. Það er ekki 30% stuðningur við aðildarviðræður á Alþingi. Það er Samfylking og Borgarahreyfingin, sem gerir strax tæp 40%.

Síðan er með tillögu framsóknar- og sjálfstæðismanna gert ráð fyrir aðildarviðræðum og búið verði að skilgreina samningsmarkmið fyrir 1. sept. Gera má ráð fyrir að um 60% þingmanna úr þessum flokkum styðji þessa leið.

Einnig mun stór hluti VG styðja eða sitja hjá varðandi tillögu ríkisstjórnarinnar. Telja má öruggt að tillögurnar tvær verði sameinaðar og þá næst nokkuð breiður stuðningur við málið.

Lýðræðisást ESB andstæðinga hefur hingað til falist í því að gera allt til að hindra aðildarviðræður og að þjóðin geti kosið um samning. Krafan núna um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður er kjánaleg sýndarmennska.

Það er ekkert að óttast að fara í viðræður og þær á að hefja sem allra fyrst. Íslandi allt!!!

Gunnlaugur B Ólafsson, 1.6.2009 kl. 09:30

6 identicon

Það hlýtur að vera von þjóðarinnar að þessi óstjórn springi og boðað verði til kostninga að nýju fyrir árslok.

nonni (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 13:09

7 Smámynd: Páll Blöndal

já, nonni minn
Væri fínt að fá svona eins og tvennar kosningar á ári.
Það er akkúrat sem við þurfum við þessar aðstæður.

Páll Blöndal, 1.6.2009 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband