Hamingjuskipti Miðflokks og Vinstri grænna, þögul umpólun

Á einu ári stekkur Miðflokkurinn úr 3,4 prósent fylgi í þjóðarpúlsi Gallup í 9,4 prósent. Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn, á eftir Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki.

Um mitt ár skrifaði tilfallandi:

Fylgið í ár fer ekki upp og niður heldur er tröppugangurinn jafn upp á við. [...] Vöxtur Miðflokksins, ekki mikill en samt vel mælanlegur og stöðugur, gæti orðið að stærri frétt þegar líður á árið.

Hvað skýrir framgang Miðflokksins? Ekki er það að fjölmiðlar hampi flokknum. Þvert á móti leggja þeir sig í líma við að segja sem minnst af fylgisaukningunni. Ekki heldur er flokknum strokið meðhárs á samfélagsmiðlum.

Miðflokkurinn fær stuðning þögla hópsins í samfélaginu sem lætur ekki upphlaupsmálin glepja sig. Þeir þöglu sjá í formanni Miðflokksins, Sigmundi Davíð, málsvara er lætur ekki hávaðafólkið segja sér fyrir verkum. Eitt lítið nýlegt dæmi er að Sigmundur Davíð tók upp hanskann fyrir löngu látinn mann sem góða fólkið vill steypa af stalli.

Samfylkingin fer með himinskautum í skoðanakönnunum síðustu misserin. Mælist stærstur flokka, er nú með rúm 28 prósenta fylgi. Togkraftur kratanna lætur Sjálfstæðisflokkinn ekki ósnortinn sem gerist sósíaldemókrataískur. Þegar við bætist að forystuskipti eru yfirvofandi í móðurflokknum er líklegt að hægrimenn, einkum þeir íhaldssömu, leiti á mið Miðflokksins. 

Miðflokkurinn er sumpart það á hægri ás stjórnmálanna sem Vinstri grænir eru á vinstri ásum. Flokkarnir tveir, hvor á sínum vængnum, reyna fyrir sér með ítrustu samþykktu málefni hægrimanna annars vegar og hins vegar vinstrimanna. Hvorugur flokkurinn er öfgaflokkur, þótt oft sé það uppnefni á vörum andstæðinganna. Ekki heldur eru þeir harðlínuflokkar. En það má kenna ítrustu málefni, þau er þykja stofuhæf, við flokkana tvo. 

Svo dæmi sé tekið. Vinstri grænir taka undir kynja-költið, að kynin séu fleiri en tvö og hægt sé að fæðast í röngum líkama. Miðflokkurinn er öndverður og talar fyrir sjónarmiðum heilbrigðar skynsemi. Til samanburðar reyna bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur að leiða kynja-költið hjá sér, vilja ekki stuða umburðalyndið gagnvart and-raunsæi. Hvorugur stóru flokkanna þorir að styggja kjósendahópa og bjóða upp á moðsuðu og afslátt frá meginreglum. Miðflokkur og Vinstri grænir eru skeleggari. Sama gildir um annað hitamál, kennt við loftslag. Köld skynsemi Miðflokksins gegn trúarkreddum Vinstri grænna. Hálfvelgjan markar afstöðu stóru flokkanna.

Ólík vegferð Vinstri grænna og Miðflokksins á lendum skoðanakannana árið 2023 er vísbending um það sem koma skal kosningaveturinn 2024-2025. Miðflokkurinn hefur meira en tvöfaldað fylgið sitt, sem fyrr segir. Vinstri grænir eru við fimm prósentin, aldrei mælst minni.

Íslensk stjórnmálaviðmið þokast til hægri, hægt en örugglega. Tilfallandi íhaldsmenn kvarta ekki undan þeirri þróun.


mbl.is Samfylkingin hlyti flest atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Sigmundur lét heldur ekki þrýstihóp segja sér fyrir verkum líkt og ríkisstofnun gerði, Hefur umburðarlyndið snúist upp í andhverfu sína? - Krossgötur (krossgotur.is)

Helga Dögg Sverrisdóttir, 3.12.2023 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband