Ósjálfstæðisbarátta aðildarsinna

Uppgjafarrökin fyrir aðild að Evrópusambandinu eru til í nokkrum útgáfum. Grímur Atlason reiðir fram sína útlistun í bloggi.  Grímur gagnrýnir meint fámennisvald í útgerð og landbúnaði í einn stað en í hinu orðinu virðist hann biðja um aukna miðstýringu t.d. með fækkun sýslumanna og sveitarstjórna. En látum samkvæmnina liggja á milli hluta.

Grunnstef uppgjafarrakanna er að við höfum klúðrað okkar málum svo hressilega að nauðsynlegt sé að segja landið til sveitar hjá Brusselvaldinu. Grímur notar fámennisvald en klíkuskapur er vinsælt heiti á meintri meinsemd.

Aðildarsinnar, sem beita uppgjafarrökum fyrir vagn sinn, eru þeirrar skoðunar að íslensk þjóð kunni ekki fótum sínum forráð í bráð og lengd og að hefja verði innflutning á útlendum myndugleika til að koma skikki á landsmálin. 

Sjálfstæðisbarátta allra þjóða á öllum tíma snýst um að flytja heim forræði eigin mála. Fái aðildarsinnar hljómgrunn yrði til séríslenskt fyrirbæri í alþjóðastjórnmálum: Ósjálfstæðisbarátta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

JÓN SIGURÐSSON forseti ritaði eftirfarandi í ritgerð sinni, Um stjórnarmál Íslands, í Nýjum félagsritum, XXII. árg. (1862), bls. 5:

"Sumir af vorum helztu mönnum eru líka svo hræddir við sjálfsforræði landsins, að þeir eru eins og skepnan, sem varð hrædd við sína eigin mynd. En nú er það lífsmál fyrir vort land, að það hafi alla stjórnarathöfn sem næsta sér og hagkvæmasta, og þá stjórn, sem getur svo að kalla séð með eigin augum það sem hún á að ráða yfir, en ekki í speigli og ráðgátu, eða með annara augum, í 300 mílna fjarska. Þetta er krafa, sem oss virðist ekki maður geti sleppt, nema með því að óska sér að leggjast í dauðasvefn að nýju ..."

Menn hugleiði nú, hvort þessi orð Jóns eigi ekki óneitanlega við um þá menn (Íslendinga!!!), sem nú vilja – að löngu fengnu sjálfstæði! – senda yfirstjórn okkar mála til annarra landa í mörg hundruð mílna fjarska.

Og lesum

"Þegar konúngs veldið var takmarkað í Danmörku (1843), var byrjað á hinni sömu aðferð og áður, þegar fylkjaþíngin voru sett. Íslandi var ætlað að vera sem eitt fylki í Danmörku, vera undirlagt sömu grundvallarlögum og Danmörk, hafa nokkur atkvæði á þíngum Dana, en að öðru leyti halda alþíngi sem einskonar amtsráði." (JÓN SIGURÐSSON, sama ritgerð, s. 2–3.)

Nú er þetta aftur hugleiðingarefni og spurningar: Getur verið, að þetta sé það hlutskipti, sem sumir ætla landinu nú: Að setja það undir sömu grundvallarlög og annað ríki eða löggjafarvald, sem yfir okkur verði sett, í mörghundruð mílna fjarlægð – reyndar löggjafarþing, þar sem við fáum náðarsamlegast að hafa nokkur atkvæði, en erum samt algerlega undir sett og fáum nánast engu ráðið?

Getur verið, að jafnvel sumir þingmanna okkar ætli landinu þetta? Er hugsanlegt, að þeir séu svo hræddir við sjálfsforræði landsins?

Og þegar litið er lengra til málsatvika og alls þess, sem breytzt hefur frá árinu 1843 (er þarna var lengst til baka horft um forsöguna), þá má spyrja: Eru þær hugsanlegu hliðstæður, sem nú má greina í pólitískri stefnu vissra þingmanna (jafnvel heils flokks), þ.e. þeirri stefnu að koma æðsta löggjafarvaldi okkar úr landi og gefa okkur þar einungis nokkur atkvæði til umráða og áhrifa á setningu laga, reglugerða og tilskipana, sem okkur verði ætlað að hlýða, – eru þær hugsanlegu hliðstæður við fortíðarpólitík (endurtek ég) með þeim hætti, að kalla megi, að slík stefna jafngildi landráðum við ríki okkar og áunnin réttindi?

Ef þessi stefna miðast þó einnig við að láta sem minnst á því bera, að hér sé í reynd um afsal sjálfsforræðis okkar að tefla, í stað þess að viðurkenna það kinnroðalaust, er þetta þá einnig tilefni til að vísa hér til lagareglna okkar um landráð, sem víkja í 86. grein berum orðum að svikum sem einu því atriði, sem hliðsjón er höfð af, þegar reynt er að greina, hvort framin hafi verið landráð?

Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 01:55

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við þekkjum málskraf landamæraútþurrkunar- og afstæðishyggjumanna, bæði meðal afvegaleiddra sagnfræðinga og "Evrópufræðinga"*: þeir stóla á, að það yrði jákvæður ávinningur að "deila fullveldi okkar með öðrum"! Allt önnur var afstaða Jóns Sigurðssonar í hliðstæðu máli. Vegna stefnu Dana með hinum illa þokkuðu stöðulögum ritaði hann eftirfarandi í I. árgang Andvara, tímarits Þjóðvinafélagsins, árið 1874 (leturbr. mínar – og hornklofainnskot):

"Um hitt, sem einungis snertir Danmörku, höfum vér aldrei óskað að hafa neitt atkvæði; það eru Danir sjálfir, sem hafa verið að ota að oss þessum málum og bersýnilega til þess að ávinna með því fullkomið yfirvald yfir oss í vorum eiginmálum, því að þá er það eftir þeirra áliti jafnrétti, að þegar vér erum til dæmis 25 sinnum færri en þeir, þá skulum vér hafa einungis eitt atkvæði móti 25 í hverju máli sem er. Þeir eru íhaldnir [= skaðlausir], þó að þeir gefi oss eitt atkvæði af 25, þótt það sé í þeirra eiginmálum, en vér getum ekki staðizt við að hafa ekki meira en 25. part atkvæða í vorum eiginmálum. Oss finnst því auðsætt, að í þessari grein sé mikill óréttur falinn, er vér ættum sem fyrst að fá rétting á."**

Og ég bæti við og spyr: Sjá menn ekki hliðstæðuna? Evrópubandalags-innlimunarsinnar láta eins og það yrði til góðs fyrir okkur að fá atkvæði um "málefni Evrópu" og að sá mikilvægi ávinningur réttlæti það að gefa þingfulltrúum hinna 27 þjóðanna "hlutdeild í" (reyndar yfirgnæfandi vald yfir) okkar löggjafarmálum, okkar eiginmálum.

En hliðstæðan er reyndar ekki fullkomin, því að í stað þess að eiga 25. hvern þingmann á þingi Dana myndum við eiga í mesta lagi um 125. hvern þingmann á ESB-þinginu í Strassborg! En getum við, eins og Jón forseti orðar það, "staðizt" með því að hafa einungis 1/125 atkvæða í okkar eiginmálum? Vitaskuld ekki!

Margfalt minni yrði þó hlutur okkar í hinu miklu voldugra ráðherraráði í Brussel: ekki nema 0,06% atkvæðavægis allra ríkjanna 28, en FJÖGUR stærstu ríkin fengju þar 53,64% atkvæða! (frá árinu 2014, samkvæmt hinum margrómaða Lissabon-sáttmála!).

Meðvitaðir innlimunarsinnar eru svo sannarlega ekki að vinna fyrir sjálfsforræði þjóðar sinnar – allt annað vakir fyrir þeim! En allmargir nytsamir sakleysingjar, velmeinandi menn, hafa fylgt þeim að málum. Við þurfum að vekja þá upp af værum svefni!

* "Evrópufræðinga" sem þekkja þó sumir hverjir vart nema hrafl í sögu Evrópu!

** Andvari I, bls. 116 (?)–117, hér skv. Páli Eggert Ólasyni: Jón Sigurðsson, V. bindi: Síðasti áfangi, Rv. 1933, s. 222–3.

Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 02:16

3 identicon

Helst vildi ég að Ísland þyrfti ekki að fara í EU,  en ég skil mætavel þá landsmenn sem gæla við hugmyndina að fara í EU. Það eru nefnilega sporin sem hræða. Hrunið, nú nýjustu spor Íslenskra braskara, er þar allt sem segja þarf, hegðunarmynstur fjórflokksins, og mútuþægni, sýnir svo ekki verður undan komist, að þar var ekkert í gangi sem kalla megi stjórn, þvert á móti kemur í ljós nú, að þjóðkjörið pólitikusarfólk, hafði þar hvorki stjórn á sjálfu sér, né neinu öðru, enda eru afleiðingarnar af gjörðum þeirra augljósar hverjum sem sjá vilja. Varðandi Jón Sigurðsson og margt ágætt sem hann sagði á sínum tíma, verður að skoða útfrá því, hverskonar fólk var uppi á þeim tímum. Draumar Jóns Sigurðssonar höfðu aldrei að geyma þann óþjóðholla hóp stórþjófa, sem ekki virðist vera hægt að losna við á Íslandi í dag. Af hverju ekki þá að athuga hvort EU kunni ráðin sem duga. Ekki viljum við láta þetta dót drepa okkur endanlega.

Robert (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 07:16

4 identicon

Fyrst að Jón vinur minn vitnaði í nafna sinn, þá ætla ég að fá skálda leifi hjá Snorra Sturlusyni og breytti texta ræðu hans, tók út Noreg og Noregskonungur og lét inn í staðinn Brussel og ESB.

"Því er ég fáræðinn um þetta mál, að engi hefir mig að kvatt. En ef ég skal segja mína ætlan, þá hygg ég að sá muni til vera hérlandsmönnum, að ganga eigi undir skattgjafir við Brussel og allar álögur hér, þvílíkar sem Brussel hefir við. Og munum vér eigi, það ófrelsi gera einum oss til handa, heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt Evrópusambandið kunni að stjórna, sem ég trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til, þá er stjórnarskipti verða, að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera, að ljá Brussel einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér, né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla ég vel fallið, að menn sendi til Brussel vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið, ef vinátta kemur í mót. En um náttúruauðlindir okkar og fiskimið er það að ræða, þá má þar fæða hér her manns. Og ef hér er útlendur her og fari þeir með langskipum þá ætla ég mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum."

Guðmundur F Jónsson (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 09:10

5 identicon

Uppgjafarrök? Hvar kemur það fram í skrifum mínum að ég vilji fara í ESB vegna uppgjafar? Ég er einfaldlega að benda á það hvernig of fáir ráða of mörgu. Hvernig smákóngar út um allt land stýra umræðu og aðgerðum. Ég bendi á það með dæmum. En það er ekki þess vegna sem ég vil að Ísland gangi í ESB. Það er hins vegar vegna þessara smákónga og þúfnahugsnunar sem jafn illa er komið fyrir okkur og raun ber vitni. Tiltekt í stjórnsýslunni er nauðsynleg og í öllu samfélaginu. Ég vona að okkur beri gæfa til þess að skipta um kúrs og ég vona líka að við göngum í ESB - en það er ekki vegna uppgjafar heldur vegna þess að ég vil tilheyra samfélagi þjóða. Lestu pistilinn aftur - þá skilurðu hann kannski.

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 13:39

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvernig "tilheyra" menn "samfélagi þjóða"? – Er þetta ekki innantómur frasi hjá Grími karlinum? Jafnvel heldur mikið sætabragð af þessu? Erum við ekki öll partur af mannkyni? Hefur íslenzk menning ekki lengi verið þáttur í evrópskri menningu og þó með sínum séreinkennum? Þarf það eitthvað að breytast í þá átt að gera samevrópska valdamenn í Brussel að yfirdrottnurum Íslendinga? Sér ekki jafnvel Grímur Atlason, hve mikil einföldun og einfeldni þessi nálgun hans er?

Jón Valur Jensson, 2.8.2010 kl. 18:34

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Við tilheyrum samfélagi þjóða rétt eins og önnur ríki sem standa utan Evrópusambandsins. Grímur vill hins vegar greinilega múlbinda okkur við ESB-þúfuna sem er aðeins lítill hluti heimsins.

Hjörtur J. Guðmundsson, 2.8.2010 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband