Tölvupóstarnir í byrlunar- og símastuldsmálinu

Tölvupóstar gengu á milli blaðamanna RÚV og Heimildarinnar (áður Stundin og Kjarninn) annars vegar og hins vegar þáverandi eiginkonu Pál skipstjóra Steingrímssonar. Að frumkvæði blaðamanna var tölvupóstunum eytt eftir að lögreglurannsókn hófst á byrlun- og símastuldi um mitt ár 2021.

Símagögn, s.s. sms-skeyti, sýna að tölvupóstssamskiptin fóru fram. Tölvupóstarnir varpa ljósi á skipulag byrlunar og símþjófnaðar. Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021. Á meðan hann var á gjörgæslu var síma hans stolið. Staðsetningarbúnaður símans sýnir að tækið var flutt á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Þar var símtæki skipstjórans afritað á annan síma af sömu gerð, Samsung. 

Þóra Arnarósdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti í apríl 2021 Samsung-símann og fékk á hann skráð númerið 680 2140. Sími Páls var með keimlíkt númer, 680-214X. Númerið sem Þóra fékk var leyninúmer, hvergi skráð enda aðeins ætlað til að geyma þýfi, gögnin úr síma skipstjórans. Úr símanum voru send gögn á milli blaðamanna. Skjáskot úr símanum voru notuð til að myndskreyta fréttir í Stundinni og Kjarnanum sem birtust samtímis 21. maí 2021. Engin frétt birtist á RÚV, sem var aðgerðamiðstöðin. Allt samkvæmt skipulagi. Þá eru líkur á að trúnaðarvinir blaðamanna, m.a. þingmenn, hafi fengið send gögn úr Samsung-símanum sem Þóra keypti fyrir byrlun og stuld.

Verði ákært fyrir það friðhelgisbrot að dreifa einkagögnum verða vinir blaðamannanna nafngreindir. Það gæti veitt innsýn í óformlegt bandalag blaðamanna og þingmanna sem þjónar þeim tilgangi að ,,taka niður" menn og fyrirtæki, níða skóinn af einstaklingum og lögaðilum sem eru skotmörkin. Í þessu tilviki Páll skipstjóri og Samherji.

Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra hafði póstfang hjá gmail sem tölvurisinn Google rekur. Lögreglan leitaði síðast liðið vor eftir upplýsingum um tölvupóstsamskipti blaðamanna og konunnar, sem stríðir við alvarlega andlega vanheilsu. ,,Við erum að reyna að fá gögn frá samskiptamiðlum sem tekur alveg ógurlega langan tíma," sagði Eyþór Þorbergsson saksóknari um mitt síðasta ár. Af hálfu Google gilda stífar formreglur um hvort og undir hvaða kringumstæðum afrit eru afhent.

Ef og þegar Google afhendir umbeðin gögn má búast við nýjum yfirheyrslum yfir sakborningum. Fyrst og fremst þeim sem voru í samskiptum við veiku konuna sem byrlaði eiginmanni sinum, stal síma hans og afhenti blaðamönnum.

Fjórir blaðamenn voru boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022. Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson, Aðalsteinn Kjartansson allir á Heimildinni, áður  Stundinni og Kjarnanum, og Þóra Arnórsdóttir hjá RÚV. Fjórmenningarnir mættu ekki í boðaða yfirheyrslu, töldu sig sem blaðamenn undanþegna landslögum. Um síðir létu þeir segjast og gáfu lögreglu skýrslu í ágúst og september 2022. Síðar fékk Ingi Freyr Vilhjálmsson á Heimildinni stöðu sakbornings.

Vitað er að Helgi Seljan, áður á RÚV en nú á Heimildinni, var í samskiptum við veiku konuna. Ekki liggur fyrir hvort þau samskipti hófust fyrir byrlun og stuld. Helgi var látinn fara af RÚV í byrjun árs 2022. Réttarstaða Helga er ókunn.

Heimildin er útgáfa með 50 milljón króna styrk úr ríkissjóði til að upplýsa þau mál er erindi eiga við almenning. Einu viðbrögð Heimildarinnar hingað til eru að lýsa yfir sakleysi blaðamannanna.

Almenningur á kröfu að vita hvernig það atvikaðist að stolinn sími fór inn á Efstaleiti, til ríkisfjölmiðilsins, en fréttir úr símanum birtust í Stundinni og Kjarnanum, nú Heimildinni. Engar frumfréttir úr síma skipstjórans birtust á RÚV. Fimm fræknir blaðamenn á Heimildinni þegja allir sem einn.

Blaðamenn saklausir af byrlun og stuldi gætu sem hægast upplýst frumleg vinnubrögð þar sem RÚV er fréttaheildsali fyrir aðra fjölmiðla. Er svartur fréttamarkaður á Íslandi? Er íslensk blaðamennska í höndum aðgerðasinna en ekki fréttamanna? Sú ályktun er nærtæk. Allir fimm sakborningarnir í byrlunar- og símastuldsmálinu eru verðlaunablaðamenn. 

 

 

  


Bloggfærslur 30. janúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband