Ólína og hrun vinstriflokkanna

Ólína Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingar yrkir um hrun vinstriflokkanna og klykkir út með að við blasi ,,stjórnmálaupplausn."

Greining Ólínu er röng. Vinstriflokkarnir bjuggu til stjórnmálaupplausn í tíð stjórnar Jóhönnu Sig., m.a. með umboðslausri ESB-umsókn og tilræði við stjórnarskrána.

Kjósendur refsuðu Vinstri grænum og Samfylkingu í kosningunum 2013. En vinstrimenn neituðu að læra af sögunni og héldu áfram upplausnarstefnu sinni, með málþófi á alþingi og öskri og tunnuslætti á Austurvelli.

Fyrirsjáanlegt tap vinstriflokkanna í haust er til marks um að þjóðin kjósi stöðugleika en hafni upplausn.


Stemmarinn er með ríkisstjórninni - tveir kostir

12 formenn í fyrstu stjórnvarpsumræðum vegna haustkosninganna römmuðu inn fyrir kjósendum valkostina. Stöðugleiki og traust lífskjör annars vegar og hins vegar efnahagsleg óreiða og pólitísk upphlaup.

Sigurvegari í sjónvarpsumræðum, að margra áliti, var formaður yngsta stjórnmálaaflsins, Flokks mannsins. Ef stjórnarandstaðan gerir ekki betur en að nýgræðingur trompi málflutninginn þeirra er ekki góðs að vænta úr þeirri átt.

Kjósendur vita hvar þeir hafa Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, sem standa fyrir traust ríkisfjármál, stighækkandi velferð og meðfylgjandi stöðugleika.

Stjórnarandstaðan snýst mest um upphlaup á Austurvelli, eins og kjósendur vita.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga að ganga samstíga inn í þessa kosningabaráttu - þar liggur sigurvonin.


mbl.is „Heilmikil hreyfing á fylginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapandi eyðilegging kapítalismans og evran

Seðlabanki Evrópu heldur fjármálakerfi evru-ríkja á floti með núllvöxtum. Deutsche Bank og fleiri bankar eru gjaldþrota og þrífast aðeins í skjóli seðlabankans. Starfandi bankar, sem eru gjaldþrota, hamla vexti efnahagskerfisins vegna þess að þeir lána ekki fé til framkvæmda.

Hans-Werner Sinn er áhrifamikill þýskur hagfræðingur. Hann segir tíma til kominn að leyfa skapandi eyðileggingarmætti kapítalismans að hreinsa til í dánarbúi evru-ríkjanna. Ókeypis peningar eru aðeins ávísun á froðuhagkerfi þar sem ekki er innistæða fyrir hækkunum undanfarinna ára á verðbréfum og fasteignum.

Skapandi eyðilegging felur í sér stórfellt gjaldþrot í fjármálakerfinu og rekstri sem ekki skilar eðlilegum arði. Jafnframt að þau ríki sem ekki þola evru-samstarfið taki upp eigin gjaldmiðla og öðlist þannig samkeppnishæfi.

Evran er gervigjaldmiðill í þeim skilningi að hún mælir ekki raunstöðu hagkerfis þeirra ríkja sem notast við gjaldmiðilinn. Eina leiðin til að halda evru-samstarfinu gangandi í núverandi mynd er að færa efnahagskerfið undir áætlunarbúskap. Sovétríkin sálugu eru minnisvarði um slíka tilraun.


mbl.is Hlutabréfin ekki lægri í tugi ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband