Hugleysi góða fólksins klætt í búning ótta

Góða fólkið magnar upp ótta í samfélaginu til að fela hugleysi sitt. Samsæriskenningar góða fólksins um alræði fjársterkra aðila á bakvið tjöldin er heimskulegur tilbúningur fólks með vitundina læsta í heimi tölvuleikja.

Birgitta Jónsdóttir og píratamenningin, sem hún stendur fyrir, elur á ótta almennings við ósýnilegt alræði sem situr að kjötkötlunum og mylur andstæðinga sína mélinu smærra. Sannleikurinn er sá að við búum í samfélagi fjölræðis þar sem völd eru ekki fasti heldur fljótandi. Margar breytur hafa áhrif á flæði valda hverju sinni, s.s. fjármagn, stofnanir, fjölmiðlar, stjórnvöld, þjóðfélagsumræða, fyrirtæki, hefðir, tíska, skoðanakannanir (sbr. að það er hlustað á Pírata í dag) og aðrir þættir sem til samans mynda fjölræðið sem við búum við.

Móðursýki Birgittu verður ekki hótinu betri þegar hún vísar í blogg þar sem segir:

Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.

Þarna er sagt fullum fetum að einn þriggja bankastjóra á Íslandi hafi gerst sendisveinn Norðuráls og hótað bloggara. Jæja, krakkar, hver var það: Steinþór í Landsbanka, Höskuldur í Arionbaka eða Birna í Íslandsbanka sem hringdi í orkubloggarann og bar áfram hótun álframleiðanda um að eyðileggja hann?

Eru engin takmörk fyrir fávísi Birgittu og félaga? 


mbl.is „Víðtækur ótti við ríkjandi öfl“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýnarstaðfesta í Bretlandi

Meirihluti Breta vill úr Evrópusambandinu, segir könnun ORB. Önnur könnun, sem Telegraph birtir, sýnir andstæðinga ESB-aðildar í Bretlandi eindregnari í afstöðu sinni en þeir sem hlynntir eru áframhaldandi aðild að bandalaginu.

Þessi niðurstaða rímar við kannanir sem Heimssýn lét á sínum tíma gera vegna umræðunnar hérlendis.

Heimssýnarkannanir sýndu ítrekað að andstæðingar aðildar voru sannfærðari í afstöðu sinni en hinir sem hlynntir eru aðild. Hálfvelgja ESB-sinna, bæði hér og í Bretlandi, undirstrikar hve Evrópusambandið er lítt áhugavert, jafnvel meðal þeirra sem telja sig aðildarsinna. 


mbl.is Fleiri vilja úr Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spítali er ekki flokksmál, heldur ríkisstjórnar

Hvorki Framsóknarflokkurinn né nokkur annar einn stjórnmálaflokkur mun ráða uppbyggingu sjúkrahúss. Ríkisstjórn með meirihluta alþingis á bakvið sig ræður ferðinni.

Framsóknarflokkurinn ásamt grasrótarhópum benda á að Hringbrautin sé ekki æskilegur staður fyrir frekari uppbyggingu Landspítala. Rökin eru sterk en þau hrína ekki á fagvaldinu sem vill sinn spítala á torfunni sinni. Stjórnarandstaðan á alþingi er mótfallin nýrri staðsetningu.

Eftir útspil bæjarstjóra Garðabæjar í síðustu viku mátti ætla að Sjálfstæðisflokkurinn færðist nær Framsóknarflokknum í málinu. En orð heilbrigðisráðherra gefa til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn sé harður á uppbyggingu við Hringbraut.

Úr því sem komið er verður engin þjóðfélagshreyfing um staðarval spítala. Þjóðaratkvæðagreiðsla um staðarval er algerlega út í bláinn.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna ættu sem fyrst að hittast og komast að niðurstöðu. Það stendur upp á framsóknarmenn að sýna þroskað pólitískt raunsæi í spítalamálinu.

  


mbl.is Samþykktu ekki nýjan spítala við Hringbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löggæsla hjónabanda

Í stað þess að ríkið fari inn í parsambönd og skilgreini hvað má og hvað ekki væri nær að aðgreina skýrar í lögum hjónaband og parsamband. Hjónabandið sem stofnun ætti að njóta aukinnar lagaverndar á meðan parsamband ætti að standa utan laga.

Afskipti ríkisvaldsins af einkalífi fólks er komið út í öfgar. Frjálsir einstaklingar eiga að vera háðir tískustraumum samfélagsstjórnmála um hvernig þeir haga sínum málum.

Frelsi fylgir ábyrgð. Þegar ábyrgð á hjónabandi og parsambandi flyst frá einstaklingum til ríkisvaldsins þrengist um einstaklingsfrelsið. Við færumst skrefi nær vöggustofusamfélaginu þar sem stóri bróðir skammtar okkur tilvist úr krepptum hnefa.


mbl.is Meiri vernd gegn ofbeldi í sambandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband