Samfylkingin: byltingarflokkur nóttina eftir hrun

Samfylkingin fagnaði framgangi auðmanna í útrás, studdi Jón Ásgeir í slag við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar um fjölmiðlalög og bauð Björgólf Guðmundsson á landsfund 2003.

Samfylking var ríkisstjórnarflokkur með Sjálfstæðisflokknum árið 2007 - 2009 og bar fulla pólitíska ábyrgð á hruninu.

Eftir hrun ákvað Samfylkingin að verða byltingarflokkur Íslands, sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkin, keyrði á ESB-aðild af hörku og heimtaði afnám 1944-lýðveldisins með nýrri stjórnarskrá.

Samfylkingin er enn byltingarflokkur, vill ESB-aðild og krefst uppstokkunar stjórnarskrárinnar.

Þjóðin prófaði Samfylkinguna sem byltingarflokk kjörtímabilið 2009 til 2013. Flokkurinn fékk 30 prósent fylgi í upphafi kjörtímabilsins en var sparkað með látum út úr sjórnarráðinu fjórum árum síðar með 12,9 prósent fylgi. Þetta er mesta fylgishrun stjórnarflokks í gervallri sögu Vestur-Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Í dag mælist byltingarflokkurinn með 8 prósent fylgi.

Samfylkingin er byltingarflokkurinn sem dagaði uppi í sólskini ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

 


mbl.is Breytingaafl ekki mótmælaafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlækkun á bílum í vor

Nýir bílar, sem fluttir voru inn í haust og vetur, eru yfirverðlagðir. Fyrir því eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi gerðu innflytjendur ráð fyrir verðbólgu í kjölfar kjarasamninga en hún lætur á sér standa. Í öðru lagi er verðhjöðnun í Evrópu og Asíu, sem veit á lækkun innflutningsverðs. Í þriðja lagi styrkist krónan gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Nýir bílar eru líklega yfirverðlagðir um 8 til 12 prósent. Umboðin reyna í lengstu lög að halda uppi verðinu á nýjum bílum. Keðjuverkun fer af stað þegar nýir bílar lækka í verði, verðfall verður á notuðum bílum.

Stór hluti bílaflotans er í eigu bílaleigufyrirtækja. Þau eru þegar farin að lækka verðið á sínum bílum. Til dæmis lækkaði bílleiga verðið á Mitsubishi Pajero árg. 2013 leðurútgáfu úr 6,5 m.kr. í 5,9 m.kr. núna fyrir helgi.

Ef umboðin lækka ekki verðið á nýjum bílum mun fleiri sjá tækifæri að flytja beint inn bíla. Umboðin reyna ýmis sölutrix, t.d. auglýsir eitt þeirra frítt bensín í eitt ár, en það er ígildi 200 til 300 þús. kr. verðlækkunar.

Meira þarf til. Nýir bílar ættu að lækka milli 5 og tíu prósent í verði á næstu mánuðum.


Sigurpólitík vorið 2017: bankar og sjúkrahús

Sigurvegarar næstu þingkosninga verðar þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða milliveg tveggja öfga í fjármálakerfi þjóðarinnar. Öfgarnar eru ríkiseign á stærsta hluta fjármálastofnana ríkisins annars vegar og hins vegar að einkaaðilar fái bankana í hendurnar með tilheyrandi græðgisvæddum öfgum.

Umræða síðustu vikna um arðgreiðslur tryggingafélaga sýna að almenningur er næmur á fréttir af óhófi ættuðu úr 2007-hugarfarinu.

Líkt og ríkisstjórn vinstriflokkanna 2009-2013 komst að raun um er ekki nóg að efnahagslífið rétti úr kútnum og velmegun blasi við til að stjórnarflokkar fái meðbyr í kosningum. Þótt hér sé bullandi góðæri sjást þess ekki merki í fylgi við stjórnarflokkanna.

Stjórnmálaflokkar verða að bjóða trúverðuga stefnu í meginmálum til að fá stuðning. Auk fjármálastofnana er heilbrigðiskerfið, einkum sjúkrahúshluti þess, í brennidepli umræðunnar.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gerðu vel í því að sammælast um stefnu í þessum tveim málaflokkum. Veigamesta einstaka ákvörðunin, sem þarf að liggja fyrir á næstu vikum ef ekki dögum, er hvar nýtt hátæknisjúkrahús á að rísa. Án fullrar samstöðu stjórnarflokkanna um staðsetningu sjúkrahússins er málið runnið þeim úr greipum. Garðabæjar-útspilið í liðinni viku gæti skipt sköpum. Ef það er lífvænleg hugmynd þarf að myndast um hana samstaða á æðstu stöðum ekki seinna en strax. Ef ekki þá er að setja aukinn kraft í uppbygginguna á Landsspítalasvæðinu.

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga alla möguleika að ná vopnum sínum fyrir kosningarnar að ári. Vinstriflokkarnir eru í upplausn og Píratar hanga uppi í skoðanakönnunum án þess að styðjast við neinar málefnalegar undirstöður.

En ríkisstjórnarflokkarnir geta líka klúðrað sínum málum, t.d. með því að ganga ekki í takt í málefnum sem sannanlega eru þjóðinni ofarlega í huga.


mbl.is Heimila yfirtöku á Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband