Stjórnfestuforseti yfir sextugt óskast

Ráðsettan og reyndan einstakling þarf í embætti forseta Íslands. Nýr forseti þarf að búa yfir nægum þroska til að skilja að fyrsta skylda hans er við stjórnskipun lýðveldisins.

Unglingar undir sextugu eru margir haldnir þeirri ímyndun að heiminum megi breyta með stjórnvaldsákvörðunum. Reynslan kennir að sárafáar stjórnvaldsákvarðanir breyta framvindu sögunnar í meginatriðum. Pólitískar ákvarðanir eru iðulega aðlögun að veruleika sem verður til þrátt fyrir stjórnmál fremur en vegna þeirra.

Stjórnfestuforseti tæki við Bessastöðum með því hugarfari að stjórnskipun lýðveldisins er hornsteinn þjóðarheimilisins. Allir komnir til vits og ára kunna þau sannindi að án heimilisfriðar er engin hamingja.


Guð í pólitík er ávísun á blóðbað

Guð Múhameðs spámanns leikur lausum hala í miðausturlöndum. Fyrir 500 árum tröllreið kristna guðsútgáfan Evrópu með tilheyrandi blóðsúthellingum, sem náðu hámarki í 30 ára stríðinu milli kaþólikka og mótmælenda.

Í miðausturlöndum skiptast múslímar í tvær meginfylkingar, súnna og sjíta. Forysturíki súnna er Sádí-Arabía en Íran er helsta veldi sjíta.

Sádí-Arabía glímir við innanlandsvanda. Nýr konungur er valtur í sessi og þverrandi olíuauður veldur efnahagsólguÞýskur sérfræðingur segir aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimr nauðsynlega fyrir innanlandsfriðinn. Yfirvöld í Riyad verði að sýna sömu hörkuna gagnvart sjítum og sýnd er gagnvart hryðjuverkamönnum Ríkis íslam - en þeir eru súnnar.

Íranar og alþjóðasamfélagið yfirleitt er ekki skilningsríkt á nauðsyn aftökunnar á al-Nimir fyrir innanlandsfrið í Sádí-Arabíu. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Sáda er almennt viðurkennt að helsta uppspretta öfgamanna Ríkis íslam er wahabismi, sem er ríkistrú Sáda. Öfgamenn Ríkis íslam herja á sjíta innan landamæra Sádi-Arabíu. Þótt stjórnvöld þar handsami og taki af lífi öfgamenn eru þau grunuð um linkind gagnvart trúbræðrum sínum.

Guð mun ekki hefna al-Nimr, líkt og leiðtogi Írans hótar. Einhverjir, sem telja sig verkfæri guðs munu eflaust hefna sjítaklerksins. Þá mun aðrir koma og hefna hefndarinnar. Auðvitað í guðs nafni. Blóðbaðinu linnir ekki fyrr en múslímar verða ásáttir um nýja guðsmynd þar sem guð leikur ekki lausum hala í veraldlegum deilumálum. 

 


mbl.is Hótar „guðlegri hefnd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband