Flugmenn nánast biðja um lög á sig

„Við bú­umst allt eins við því að sett verði lög á verk­fallið,“ er haft eftir formanni samninganefndar flugmanna í annarri frétt á mbl.is og er það efnislega samhljóða ummælum sem RÚV hafði eftir formanninum í hádegisfréttum.

Þetta hljómar eins og flugmenn séu að biðja um að ríkisvaldið hlutist til og bindi enda á vinnudeilur þeirra við Icelandair.

Ekki er tilefni til að setja lög á flugmenn Icelandair enda fjöldinn allur af flugfélögum sem flýgur til og frá landinu.

Flugmenn Icelandair eiga vel fyrir salti í grautinn, líklega með um 1,5 m.kr. í heildarmánaðarlaun. Þeir vildu hvorki upplýsa almenning um launin sem þeir hafa né hvaða kaupkröfur þeir gerðu og mættu mótbyr í samfélaginu.

En það er ekki reisn yfir flugmönnum að nánast biðja um að fá á sig lög.


mbl.is Lög verða sett á flugmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brilljant blogg úr Reykjanesbæ

Blogg er vettvangur hins almenna borgara að setja yfirvaldinu stólinn fyrir dyrnar. Styrmir Barkarson heldur úti bloggi sem andæfir sérkennilegu stjórnarfari Sjálfstæðisflokksins og Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ.

Hann afhjúpar m.a. undirlægjuhátt starfsmanna bæjarins gagnvart Árna bæjarstjóra. Starfsmenn bæjarins skrifa texta um bæjarstjórann í norður-kóreskum stíl með slíku oflofi að aulahrollurinn situr lengi eftir. Niðurlag Styrmis:

Þau sem stjórna Reykjanesbæ hafa setið svo lengi við völd að þau hafa varla lengur rænu á því að hylja spillinguna. Það er treyst á þýlyndi og þöggun og að íbúar bæjarins kyngi athugasemdalaust þeim áróðri sem Sjálfstæðisfólk í valdastöðum í ráðhúsinu lætur frá sér. Það er treyst á að þegar samfélagsmiðill bæjarins er misnotaður í pólitískum tilgangi sé nóg að láta það bara hverfa til að ekki verði minnst á það meira.


Aldursforsetinn og virðing alþingis

Enginn af sitjandi þingmönnum býr að lengri þingreynslu en Steingrímur J. Sigfússon. Fordæmið sem Steingrímur J. setur með framkomu sinni og orðavali er ekki til að auka vegsemd þingheims.

Vinstriflokkarnir eru enn að jafna sig eftir úrslit síðustu þingkosninga. Líklegar niðurstöður sveitarstjórnarkosninga gera lítið til að kæta geð vinstrimanna.

Orð Steingríms J. verður að meta í þessu ljósi. En það er klént að maður með hans reynslu skuli ekki búa yfir meiri sjálfsstjórn. 


mbl.is Sagði Vigdísi að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjórinn, flugmenn og meðalhófið

Hrunið varð vegna græðgi, heimtufrekju og dómgreindarleysis þeirra sem fóru með mannaforráð í viðskipalífinu. Réttur lærdómur af hruninu er að taumleysi hefnir sín, ekki síst á þeim sem leyfa sér það.

Launaumræðan er frumskógur þar sem einföld og mælanleg atriði, t.d. heildarlaun, eru gerð óljós og myrk. Í yfirlýsingu forstjóra Icelandair, sem annars er nokkuð sannfærandi, er t.d. vísað til gagna Hagstofu Íslands um laun flugmanna. Hvers vegna eru tölur úr launabókhaldi Icelandair ekki lagðar á borðið um meðalmánaðarlauna flugmanna? Varla eru þær tölur trúnaðarmál.

Flugmenn neita að upplýsa um launakröfur sínar og ekki heldur hafa þeir lagt fram upplýsingar um meðalheildarlaun félagsmanna.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna á síðasta ári voru 526 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Eftir því sem best er vitað voru flugmenn Icelandair með um 1500 þús. kr. í meðalheildarlaun á síðasta ári. Heildarmeðallaun forstjórans voru líklega um 4 m.kr. á mánuði.

Það standa engin til þess að flugmenn og forstjóri Icelandair beri úr býtum þreföld til áttföld meðallaun landsmanna. Allir eru þeir í vinnu hjá fyrirtæki sem almennir launþegar eiga í gegnum lífeyrisjóðina.

Ef ríkisstjórnin setur lög um vinnudeilu flugmanna og Icelandair er nærtækt að hugsa sér flugmenn  fái 700 til 800 þús. kr. í heildarmánaðarlaun og forstjórinn um milljón kr. - það væri meðalhóf. 

Áður en ríkisstjórnin setur slík lög væri snjallt að kalla flugmenn og forstjóra niður í stjórnarráð og kynna þeim efnisatriði fyrirhugaðrar lagasetningar. Þá yrði samið á augabragði.


mbl.is 92 af 100 launahæstu flugmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband