Evrópubúar: minna ESB í stað Stór-Evrópu

Meirihluti íbúa Evrópusambandsins ber ekki traust til Evrópusambandsins. Skipbrot sameiginlegs gjaldmiðils er ein ástæða og önnur er yfirþyrmandi íhlutunarstefna sambandsins í stór mál og smá sem mætti fremur leysa staðbundið.

Lýðræðishalli er á  Evrópusambandinu þar sem embættismenn stjórna án aðhalds frá kjósendum. Tilraunir til að auka vægi almennings, t.d. með auknum áhrifum Evrópuþingsins, mistakast í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi lækkar stöðugt kosningaþátttaka til Evrópuþingsins og í öðru lagi vex flokkum andvígum ESB stöðugt ásmegin en hefðbundnu flokkarnir, sem bera ábyrgð á stöðu mála, veikjast.

Brussel-elítan er sannfærð um að til að bjarga ESB verði að stórauka miðstýringuna, búa til Stór-Evrópu. Almenningur er á öndverðum meiði og krefst afbyggingar ESB-veldisins. Það veit ekki á gott að ráðandi öfl og almenningur horfi hvort í sína áttina þegar framtíð Evrópusambandsins er í húfi.


mbl.is Meirihlutinn ber ekki traust til ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðir mala forstjórum gull á kostnað launþega

Launþegar eru neyddir að borga í lífeyrissjóði sem hygla forstjórum á kostnað almennra starfsmanna. Skýrasta dæmið um misnotkun lífeyrissjóðanna er Icelandair þar sem æðstu stjórnendur fá hækkun sem nemur allt að hundruðum prósenta á meðan launþegum er boðin ,,SA-hækkun" upp á fáein prósent.

Lífeyrissjóðirnir eiga Icelandair nánast að fullu og það eru þeir sem bera ábyrgð á skefjalausri mismunun þar sem æðstu stjórnendum er hampað en launabremsa setta á almenna starfsmenn.

Spillinguna sem lífeyrissjóðirnir stunda verður að uppræta.

 


mbl.is Gífurleg launahækkun stjórnenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-flokkurinn og lömuð stjórnmál

Stjórnmál á Íslandi eru lömuð. Skýrasta opinberun lömunarinnar er að ekki-flokkurinn Björt framtíð mælist næst stærstur íslenskra stjórnmálaflokka í könnun. Björt framtíð er skipuð þingmönnum sem vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og með formann sem skiptir um skoðun eftir hentugleikum.

Björt framtíð er ekki-flokkur með enga sögu, enga stefnu og enga framtíð. Og einmitt þess vegna segist fólk í skoðanakönnun styðja ekki-flokkinn.

 Björt framtíð fær ekki fylgi vegna eigin verðleika heldur andverðleika hinna flokkanna. 

 


mbl.is 34,5% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin tapar - Dagur formaður í stað Árna Páls

Á landsvísu tapar Samfylkingin stórt en gerir gott mót í Reykjavík með Dag B. Eggertsson í forystu. Gangi fram sem horfir verður kallað á Dag til forystu á landsvísu strax í haust.

Árni Páll Árnason reynir að markaðssetja Samfylkinguna sem hægrisinnaðan ESB-flokk en það er dæmt til að misheppnast. Hægrimenn með ESB-sannfæringu eru einfaldlega ekki nógu margir til að bæta upp fylgistapið meðal vinstrimanna.

Reykvíkingar sem kjósa Dag í lok maí eru í reynd að skipta um formann í Samfylkingunni. 


Icelandair ekki of stórt til að fara í gjaldþrot

Ísland er ekki Vestmannaeyjar og Icelandair er ekki Herjólfur. Ef Icelandair er í raun ónýtt fyrirtæki, með óhæfa stjórnendur og óbilgjarna flugmenn, þá eigum við að leyfa fyrirtækinu að fara í gjaldþrot.

Ísland verður ekki án lífsnauðsynlegra samgangna ef Icelandair hættir flugi, líkt og Eyjamenn myndu einangrast án Herjólfs. Yfir tíu áætlunarflugfélög fljúga til Íslands. 

Lífeyrissjóðirnir eiga Icelandair að stærstum hluta. Þeir bera ábyrgð á yfirgengilega heimskulegri launastefnu sem hyglar milljónafólkinu á toppnum en skilur launþega eftir. Meinsemd Icelandair er að æðstu stjórnendur eru oflaunaðir í hlutfalli við aðra starfsmenn.

Ef ríkisvaldið ætlaði að grípa inn í launadeilur Icelandair við flugmenn þá yrði jafnframt að setja lög á laun forstjóra og yfirmanna félagsins. Og þar með væri Icelandair orðið ríkisflugfélag enda bæri ríkisvaldið ábyrgð á rekstrinum.

Eigendur, stjórnendur og starfsmenn Icelandair bera sameiginlega ábyrgð á fyrirtækinu. Þessir aðilar munu tapa mestu ef fyrirtækið fer í þrot. 

Skýr skilaboð ríkisstjórnarinnar um að lagasetning komi ekki til greina til að leysa launadeilu flugmanna er skynsamlegasta og ábyrgasta afstaðan.

 

 

 


mbl.is Ógnar 500 flugferðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband