Össur: ESB aðeins til heimabrúks í Samfylkingunni

Össur Skarphéðinsson veit að ESB-umsóknin er aðeins til heimabrúks í Samfylkingunni. Össur sagði Kínverjum um mitt ár 2012 að ESB-umsókn Íslands væri dauð þótt dauðapólitík væri eftirsótt í Samfylkingunni (eins og kom á daginn við síðustu þingkosnar).

Evrópusambandið gerir fríverslunarsamninga fyrir hönd aðildarríkja sinna. Þjóð, sem væri á leiðinni inn í ESB, myndi ekki gera fríverslunarsamning við annað ríki - til þess eins að segja samningnum upp.

Forysta Samfylkingarinnar á alþingi leikur ljótan leik gagnvart sveitarstjórnarmönnum flokksins sem krefjast þess hver um annan þveran, eftir hvatningu frá Össuri og félögum, að alþingi hætti við að afturkalla ESB-umsóknina. Á sama tíma leggur Össur fram þingsályktunartillögu um gerð fríverslunarsamnings við Japan, - vitandi að það er algerlega ósamrýmanlegt ESB-aðild.

En kannski er það svo að ESB-sinnar eru í raun ekkert áfjáðir í aðild. Samfylkingin og kverúlantadeildin í Já-Ísland séu í raun að veifa röngu tré fremur en alls öngvu - enda nennir þetta lið sjaldnast að ræða efnisatriði málsins.


mbl.is Vilja fríverslun við Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbúnaður, verslun og áróður

Verslunin, með Haga í broddi fylkingar, kaupir sér pláss í fjölmiðlum, aðalega 365-miðlum, fyrir tvíþættan áróður. Að íslenskur landbúnaður búi við meiri tollvernd en almennt tíðkast annars vegar og hins vegar að íslenskar kjötafurðir séu ekki þess verðugar að njóta verndar enda ekki hótinu betri en útlend.

Þessi tvíþætti áróður fær tvö kjaftshögg í dag. Í Bændablaðinu er greint frá skýrslu Inform þar sem kemur fram að íslenskur landbúnaður nýtur ekki meiri tollverndar en gengur og gerist. Ísland er ekki með tolla á fjölmargar landbúnaðarafurðir, og sker sig úr að því leyti, en tollar kjöt og mjólkurafurðir á líkan hátt og nágrannaþjóðir.

Í Fréttablaðinu er grein eftir Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni. Yfirskriftin er: Hreinleikinn er staðreynd - ekki goðsögn. Sigurborg staðfestir að íslenskt kjúklingakjöt sé hreinna og hollara en sama kjöt í Evrópusambandsríkjum. Lykilefnisgrein er eftirfarandi

Hjá ESB gilda viðamiklar reglur um salmonellu, í Skandinavíu gilda enn strangari reglur og hér á landi eru reglurnar strangastar hvað varðar kjúklinga. Ísland fylgir sömu sýnatökuáætlunum og ESB-reglur segja til um, en mismunurinn liggur í viðbrögðum við niðurstöðum rannsóknanna. Yfir tvö þúsund tegundir eru þekktar af salmonellu, sumar hættulegri en aðrar. ESB-reglurnar fyrirskipa viðbrögð við a ðeins tveimur tegundum í kjúklingum (S. typimurium og S. enteritidis), en þær eru taldar valda um 70% salmonellusýkinga í fólki. Finnist þessar tegundir í ESB-sláturhúsi eða afurðastöð þá ber að leita skýringa, þrífa og sótthreinsa, en finnist þær í kjúklingum á markaði ber að innkalla (nýlega tekið gildi). Hér á landi er hins vegar brugðist við öllum tegundum salmonellu (ekki bara tveimur) og brugðist hart við á öllum stigum framleiðslunnar.

Hér höfum við það svart á hvítu að íslenski kjúklingurinn er heilnæmari en ESB-kjúklingurinn. Hagar og fleiri stórfyrirtæki á svið verslunar, sem berjast fyrir því að fella niður tollvernd fyrir kjúklinabú, eru í reynd að krefjast innflutnings á kjöti sem er óheilnæmara en það íslenska og veldur kostnaði, t.d. í heilbrigðiskerfinu, sem aðrir þurfa að bera. Innflutningur á útlendum kjúklingi er hvorki í þágu neytenda né þjóðhagslega hagkvæmur.

Verslunin er á villigötum í áróðri sínum gegn íslenskum landbúnaði.

 


Hagfræðitilraun að ljúka - útkoma óviss

Kaup Seðlabanka Bandaríkjanna á skuldabréfum er peningaprentun til að auka fjármagnsflæði í hagkerfinu. Kaupin voru ákveðin í kjölfar bankakreppunnar 2008 til að vinna gegn samdrætti í útlánum banka.

Í meginatriðum tókst tilraunin, séð frá bandarískum sjónarhóli. Bandaríkin standa efnahagslega sterkt í samanburði við aðrar þjóðir. Tvær helstu hagstærðir sem metnar eru í samhengi við tilraunina, atvinnuleysi og verðbólga, eru frambærilegar, einkum í samanburði við Evrópu. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er 6,7% en 12,1% í ESB og verðbólga er 1,1% vestan hafs en 0,7 á meginlandi Evrópu - og stefnir þar í verðhjöðnun.

Ódýru dollararnir, sem prentaðir eru í Bandaríkjunum, fóru víða um heim í leit að ávöxtun. Þegar skipulega er dregið úr peningaprentuninni veldur það útflæði fjármagns frá nýmarkaðslöndum eins og Tyrklandi, Indónesíu og Rússlandi (sem reyndar margfaldast vegna deilunnar um Krímskaga). Útflæði fjármagns veldur efnahagssamdrætti og pólitískri ókyrrð, sem ekki ekki sér fyrir endann á.

Bandarísk umfjöllun um áherslubreytingar seðlabankans þar í landi taka eðlilega mið af bandarískum aðstæðum. Viðskipti og efnahagsmál eru á hinn bóginn alþjóðleg. Ef minna framboð af ódýrum bandaríkjadollurum veldur efnahagskreppu og pólitískri upplausn annars staðar í heiminum er ekki víst að hagfræðitilraunin, sem hófst 2008, verði talin vel heppnuð þegar kurlin koma öll til grafar.


mbl.is Seðlabankinn dregur enn úr stuðningi sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband